Fagnaðarfundir

Fagnaðarfundir

Því að það er jú þannig að við viljum öll vera í sigurliðinu. Við njótum þess að baða okkur í sigurljómanum sem fylgir slíkum hetjum sem handboltastrákarnir okkar eru, og sjálfstraustið og egóið hjá íslensku þjóðinni hefur sjaldan verið betra en núna, þrátt fyrir krepputal og krónuveiki.
fullname - andlitsmynd Arna Ýrr Sigurðardóttir
28. ágúst 2008

Það var svo sannarlega glatt á hjalla í gær þegar við fögnuðum silfurdrengjunum í handboltalandsliðinu og ég óska þeim og öllum aðstandendum til hamingju með frækilegan og sögulegan árangur. Og um leið óska ég okkur öllum hinum til hamingju! Því að það er jú þannig að við tökum öll þátt í þessum sigri. Síðustu daga, sérstaklega eftir undanúrslitaleikinn á föstudaginn, hafa sem flestir keppst við að reyna á einhvern hátt að tengja sig landsliðinu í handbolta. Hin ýmsu fyrirtæki liggja ekki á því að þau séu styrktaraðilar liðsins, og menn hafa látið háar fjárhæðir af hendi rakna til að styrkja við handboltann, svo að það velkist nú enginn í vafa um að þeir styrki þetta frábæra lið. Og við hin hringjum inn og gefum pening, og njótum þess að baða okkur í sigurljóma liðsins – með smá bakslagi þó á sunnudaginn var.

Því að það er jú þannig að við viljum öll vera í sigurliðinu. Við njótum þess að baða okkur í sigurljómanum sem fylgir slíkum hetjum sem handboltastrákarnir okkar eru, og sjálfstraustið og egóið hjá íslensku þjóðinni hefur sjaldan verið betra en núna, þrátt fyrir krepputal og krónuveiki. Þess vegna finnst mér svo skrýtið að við skulum ekki vera áfjáðari í að tengja okkur stærsta sigurvegaranum af öllum. Að við skulum ekki keppast við að baða okkur í sigurljómanum sem stafar af þeim sem vann fullnaðarsigur. Því að Jesús Kristur er sá sem sigraði dauðann og ávann okkur eilíft líf. Í honum getum við baðað okkur í eilífum sigurljóma.

Hversu oft kjósum við ekki að ganga frekar í skugganum? Skugganum af okkar eigin veikleikum, öllu því sem angrar okkur og stendur okkur fyrir þrifum í daglegu lífi. Guðni, rope yoga þerapisti sagði í viðtali í Morgunblaðinu um helgina að venjuleg manneskja hafnaði sjálfri sér um 800 sinnum á dag. Við látum svo oft stjórnast af sjálfshatri. Við sveiflumst á milli sjálfsásakana og sjálfsvorkunnar, leyfum utanaðkomandi öflum sem hafa neikvæð áhrif á okkur að taka völdin í lífi okkar, og firrum okkur ábyrgð á okkar eigin lífi.

Því að ábyrgðin er í okkar höndum. Við höfum meira val um það hvernig við lifum lífinu heldur en okkur órar fyrir. Við höfum val um hvernig við hugsum. Hvort við dæmum okkur sjálf hart fyrir allt sem við gerum, eða hvort við hrósum okkur fyrir það sem við getum gert vel. Handboltalandsliðið hefur nú aldeilis sýnt það og sannað hvað jákvætt hugarfar skiptir miklu máli. Og það er ekki eitthvað sem kemur af sjálfu sér, það er eitthvað sem maður þjálfar sig í.

Og þegar maður gengur í ljósinu, baðar sig í sigurljóma Krists, þá er auðveldara að hugsa jákvætt. Því að Kristur dæmir ekki. Hann hafnar okkur ekki eða ásakar. Hann einblínir ekki á veikleika okkar, heldur hvetur okkur til að þroska styrkleika okkar.

Og við getum átt fagnaðarfundi með hvert öðru alla daga, allt árið um kring. Fagnaðarfundi, sigurhátíð, þegar við hittumst í kirkjunni okkar, hvort heldur sem er í helgihaldi eða hópastarfi, hvar sem er á landinu. Alls staðar er kirkjan til staðar, tilbúin sem vettvangur fyrir þau sem vilja fylgja Kristi og ganga í sigurljóma hans.