Eitt af stóru áhyggjuefnum þessa samfélags okkar er tíð vanvirðing í garð náungans. Við höfum kunna biblíusögu um miskunnsama samverjann til þess að vekja okkur upp úr þeim væra svefni. Samfélagsmeinið einelti heyrir undir þennan vanvirðingaþátt og tíðkast vissulega í heimi fullorðinna og er því miður mjög svo kunnugt í heimi ungmenna, sem eru að takast á við sjálfsmynd og viðkvæmt mótunarskeið umfram marga hinna fullorðnu. Það er því auðvelt fyrir yngri aldurshóp að detta inn í þann farveg að upphefja sig á kostnað annarra, þannig birtist óörugg og vanþroskuð sjálfsmynd.
Hið eðlilega er að fjölmiðlar taki höndum saman og fjalli um slíkt mein á uppbyggilegan og upplýsandi hátt, fræði almenning um þá alvarlegu skaðsemi sem af einelti getur hlotist og það megum við vita að þau eru mýmörg dæmin um hryllilegar afleiðingar eineltisvandans. Þess vegna vekur það ugg í brjósti og er mikið áhyggjuefni þegar ákveðnir fjölmiðlar fjalla ekki um málið með framangreindum hætti, heldur verða beinlínis þátttakendur í eineltinu.
Þegar staðan er orðin þannig að þá má hugleiða áhrifin á ungar sálir, sem jafnvel eru að upplifa sáran raunveruleika eineltis. Það er óþolandi að unga fólkið okkar þurfi að alast upp og mótast í þvílíku fjölmiðlaumhverfi, umhverfi sem getur gefið það sterk skilaboð að fólk á auðvelt með að halda að svona eigi hlutirnir bara að vera.
Skýr afstaða og skýrar takmarkanir frá uppalendum er nauðsyn, því börn og ungmenni eru óumflýjanlega mikilvirkir fjölmiðlaneytendur inn á heimilum. Í því sambandi er bloggið m.a. mjög vinsælt, en um leið afar varasamur miðill, þannig að ungmenni geta hæglega innan heimilisveggja horfið inn í þvílíkan skuggaheim eftir að þau hafa lokað herberginu sínu á kvöldin.
Hvetjum til myndugleika uppalenda gagnvart hinum unga og oft áhrifagjarna einstaklingi, sem er að meðtaka og vinna úr margvíslegum áhrifum samfélagsins, straumum þess og stefnum með mjög svo virkum hætti. Ásamt Guðs góðri hjálp og náð ættum við þannig að sjá ljósið fyrir okkar hönd og annarra vandamanna í litskrúðugu fjölmiðlasamfélagi nútímans.