Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðilega hátíð. Verið velkomin í hóp okkar sem erum saman komin hér í kvöld í Langholtskirkju í Reykjavík. Mörg ykkar hafa farið í kirkjuna ykkar í kvöld á þessu heilaga kvöldi við upphaf jólanna árið 2014. Eftirvæntingin hefur legið í loftinu, undirbúningurinn er að baki, stundin er runnin upp. Við komum saman til að fagna og til að heyra og til að finna. Til að fagna komu frelsarans eins og við sungum áðan, til að heyra guðspjall Lúkasar um fæðingu barnsins sem lagt var í jötu og til að finna helgina sem yfir þessu kvöldi hvílir.
Það er merkilegt hvað jólaskreyingar eru vinsælar um víða veröld, jafnvel í löndum sem kenna sig ekki við kristni. Jólaskreytingarnar eru tákn sem minna okkur á drenginn hennar Maríu og boðskapinn sem hann flutti á sinni stuttu ævi. Jólatréð er eitt þessara tákna. Á hverri grein þess er krossform sem er tákn kærleikans.
Græni litur jólatrésins er litur vonarinnar og þar sem jólatréð lifir af vetrarkuldann og er það tákn lífsins. Tréð er höggvið og “fórnar þannig lífi sínu” fyrir okkur mannfólkið. Við skreytum tréð með ljósum sem minna okkur á Jesú sem er ljós heimsins. Margir setja stjörnu á toppinn sem er tákn stjörnunnar sem vísaði vitringunum veg til Betlehem og jólakúlurnar minna á ávexti trúarinnnar eins og eplin og litlu pokarnir með góðgætinu í sem sumir hengja enn á tréð. Undir jólatrénu eru svo pakkarnir, jólagjafirnar sem tákna gleði og minna okkur á gjafir vitringanna. Svo er rauði liturinn gjarnan áberandi á jólunum, en hann er tákn kærleikans.
Á þessu kvöldi erum við hvað næst því að finna hið himneska í hinu jarðneska, finna hið helga snerta hjarta okkar og tilfinningar. Og þá er gott að mega vera með sínum nánustu, njóta samvista og halda hátíð. Hverfa frá hversdeginum um stund og gleyma amstri daganna. Og þetta allt á sér upphaf í því að mærin María fæddi son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.
Sú einfalda mynd sem Lúkas guðspjallamaður dregur upp af fæðingu frelsarans er helg mynd. Þar er ekki verið að eyða orðum í útskýringar eða aukaatriði. Þar er ekki verið að bæta inn hljóði eða lykt eða öðru því sem mannleg vera skynjar. Þar er aðeins dregin upp einföld mynd af pari á ferð og fæðingu barns og því sem á undan fór og á eftir fór. Samt hefur sagan áhrif á tilfinningar okkar, vekur hughrif. Sagan af fæðingu frelsarans sem fæddist og var í jötu lagður lágt, en ríkir þó á himnum hátt. Þessar andstæður sem Lúkasar dregur upp þær þekkjum við. Ljós og myrkur, gripahús og fæðing barns, ótti og gleðiboðskapur, jarðneskt og himneskt. Andstæður þekkjum við vel, þær fylgja mannlegri tilveru. Það er sterk myndin um andstæðurnar sem Guðfinnur heitinn Jakobsson sagði mér þegar hann rifjaði upp ferðalag sitt heim í jólafrí í Reykjarfjörð á Ströndum, en hann bjó í Bolungarvík síðustu áratugi lífs síns. Margir þekkja leiðina yfir Skorarheiði frá Hrafnfirði yfir í Furufjörð, en sú leið er tiltölulega greið á björtu sumri þó í óbyggðum sé núna. En þá var búið í Furufirði. Skyggni var lítið sem ekkert, myrkrið lagðist fljótt yfir og ekki auðvelt að finna leiðina niður að bæjunum sem stóðu við sjóinn. Allt í einu sást ljós. Lítill logi frá kerti sem stóð í glugga varð svo bjartur í myrkrinu. Þetta litlja ljós lýsti upp umhverfið og vísaði veginn heim í hlýjan bæinn þar sem vinir biðu í varpa og fögnuðu gestunum, sem voru á leið heim í jólafrí.
Fjölskydan skiptir okkur miklu máli á þessu kvöldi. Við viljum helst geta verið með okkar nánustu, þeim sem okkur þykir vænst um. Það hryggir okkur því að hugsa til þeirra sem ekki eiga þess kost, sérstaklega þeirra sem eiga hvergi höfði sínu að halla. Boðskapurinn er þeim þó fluttur eins og öllum jarðarinnar börnum en við ráðum því sjálf hvort við tökum við honum eða ekki.
Þetta heilaga kvöld vekur upp minningar hjá okkur sem fullorðin erum og skapar minningar hjá þeim yngri. Minningar skipta miklu máli í lífi okkar og verða ekki frá okkur teknar. Þess vegna er nauðsynlegt að leitast við að skapa góðar minningar sem ylja og næra síðar. Minningar sem skynfærin nema og geyma og hafa áhrif á líf okkar.
Aðfangadagskvöld er kvöld minninga, bæði þeirra sem eru og þeirra sem verða. Minningar geta verið ljúfsárar. Til dæmis eru minningar tengdar þeim sem við höfum misst ljúfsárar á kvöldi sem þessu, því söknuðurinn býr í brjóstum okkar.
Fyrr á tíð var mikil áhersla lögð á það að hafa nógan mat í kotinu á jólum. Það var á mörgum heimilum andstæða hversdagsins þegar hafa varð fyrir því að metta svanga munna. Það var líka lögð áhersla á það að hafa ljós í bænum því myrkrið var svartara áður en rafmagn kom. Þá varð bjart í hverjum ranni. Þannig hafa jólasiðir orðið til í gegnum tíðina, sem flestir voru sennilega andstæður hversdagsins. Nú hafa nýjar áherslur verið lagðar í takt til tímann. Á okkur tímum er tímaskortur og sambandsleysi áberandi og því eru andstæður þess dregnar fram með tónleikum, jólatrésskemmtunum og jólahlaðborðum vikurnar fyrir jól, á aðventunni og toppnum náð daginn fyrir jól, á Þorláksmessu. Þannig mótar hver kynslóð sína siði, sem eru eins og áður andstæður þess hversdags sem lifað er.
En hver er svo boðskapur þessa kvölds? Boðskapurinn helgast af sögunni um fæðingu frelsarans. Fæðing barns markar tímamót í lífi fjölskyldunnar. Markar upphaf nýrra tíma. Hefur áhrif á líf okkar, hugsun og breytni. Fæðing barnsins í Betlehem boðaði upphaf nýrra tíma, ekki aðeins í lífi Jósefs og Maríu heldur fyrir mannkyn allt. „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: 11Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. 12Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“
Þetta er boðskapur jólanna: Yður er í dag frelsari fæddur. Það er talað til okkar hvers og eins og við hugsun um þessi orð og hugleiðum þau í kvöld. Hvað þýða þau? Hvað segja þau mér og þér?
Yður er í dag frelsari fæddur Þetta er sá boðskapur sem okkur er ætlaður. Allt annað í guðspjallinu er umgjörð um þennan boðskap. Er eins og jólapappír utan um innihaldið, Yður er í dag frelsari fæddur. Þetta er gjöf til okkar. Við ráðum því sjálf hvort við þiggjum þessa gjöf og hvort við notum hana í lífi okkar. Okkar er valið.
Og svo má líka spyrja hvert er erindi jólabarnsins inn í þennan heim sem virðist vera fullur af myrkri í öllum þess myndum. Jólaguðspjallið, sem segir frá fæðingu barns er til okkar komið vegna þess að í því er sagt frá guðlegri nærveru. Annars hefði fæðingin fallið í gleymskunnar dá eins og flest annað sem gerist á þessari jörð. Og það er erindi jólabarnsins inn í okkar heim að minna okkur á að í heimi okkar er guðleg nærvera. Guð hefur vitjað okkar á sinn hógværa hátt. Og við sem viljum vera í liði með honum eigum að feta í fótsporin hans, sem frá er greint í guðspjöllunum. Hann gekk um og læknaði sjúka, stóð með lítilmagnanum, prédikaði um guðríkið, lét ekki annarra manna völd hræða sig eða hefta sig í því að láta kærleikann ráða för, að uppfylla lögmálið eins og hann orðaði það. Það er að berjast trúarinnar góðu baráttu. Og það getum við ekki í eigin mætti. Við erum oft ófullkomin og vanmáttug, en með hjálp Guðs og auðmýkt gagnvart Orði hans göngum við veg kærleikans og fyrirgefningarinnar, þeirra leiða sem aðeins Guð getur gefið okkur. Það byrjar allt í hinu smáa, byrjar allt í okkar huga og þannig fær það borist út í heiminn sem Guð elskar og vitjar. Það er boðskapur jólanna. Leyfum honum að verða að veruleika í lífi okkar öllu, í Jesú nafni, gleðilega hátíð.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.