Passíusálmar á aðventu

Passíusálmar á aðventu

Sunnudaginn 8. desember var mér boðið á hátíðlega stund í Fríkirkjunni Kefasi sem stendur á einu fegursta kirkjustæði á höfuðborgarsvæðinu með útsýn yfir Elliðavatn. Tilefnið var útgáfa Passíusálmanna á geisladiskum. Sverrir G. Ármannsson hafði frumkvæði að og kostaði þessa útgáfu ásamt kirkjufólkinu í Kefasi en tónlistarmaðurinn Páll E. Pálsson annast lesturinn.

Við vorum þarna þrjár sem tengjumst kirkjustarfinu hér í Hallgrímskirkju; dr. Margrét Eggertsdóttir og Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur auk mín, ásamt fleira fólki, til dæmis forsetanum og biskupnum okkar. Þær Margrét og Steinunn eru auðvitað sérfræðingar í sr. Hallgrími Péturssyni en mér hafði verið falið að rita umsögn um útgáfuna vegna tengsla við Hallgrímskirkju og starfa minna að samkirkjumálum á Íslandi. Þorvaldur Halldórsson, tónlistarmaður, frú Agnes og séra Karl Sigurbjörnsson gefa einnig umsögn sína í bæklingi sem fylgir diskunum.

Útgáfan er vegleg; falleg grafísk hönnun prýðir hulstrið sem hefur að geyma diskana fjóra með Passíusálmunum fimmtíu og sálminum ,Um dauðans óvissa tima´ ,,sem svo rótgróinn er í íslenskri þjóðarsál”, segir í formála útgefanda. Á hulstrinu er að finna teiknaða mynd af Hallgrimskirkju í Saurbæ og í bæklingi eru ljósmyndir af Fríkirkjunni Kefasi og Hallgrimskirkjunni hér á Skólavörðuhæðinni. Þetta er stórmerkilegt framtak svo lítils safnaðar sem Kefas er en alls 127 manns eru skráð þar samkvæmt yfirliti Hagstofu Ísland frá yfirstandandi ári (2013).

Frumkvæði fámenns safnaðar Mér þykir sérlega vænt um að Passíusálmarnir skuli nú vera aðgengilegir allan ársins hring, hvar sem er og hvenær sem er, í bílnum, við uppvaskið, í ræktinni, úti að hlaupa eða á fráteknum næðisstundum, fyrir fólk sem á bágt með lestur, fyrir fólk sem á of annríkt til að lesa sjálft eða bara hvern sem er, hvar sem er. Þessi útgáfa gerir Passíusálmana svo miklu mun aðgengilegri en áður.

Mér þykir líka vænt um að frumkvæðið að slíkri útgáfu skuli koma frá öðrum en okkur þjóðkirkjufólkinu. Það sýnir hvað Hallgrímur Pétursson skipar stóran sess í andlegum arfi þjóðarinnar, hvaða trúfélagi sem við tilheyrum. Við lútheranar eigum auðvitað engan einkarétt á Passíusálmunum. Þeir eru okkar sameiginlegi arfur, frá því fyrir tíma annarra trúfélaga, og sannarlega ausa aðrar kristnar kirkjur einnig út þeim brunni. Auðvitað bera Passíusálmarnir sterkan keim sinnar aldar í orðfærinu sem kennt er við barokk með sínum hugmyndaríku stílbrögðum og skörpu andstæðum og áherslu lútherska rétttrúnaðarins á friðþægingardauða Jesú Krists, sem kvalinn var á krossi vegna synda okkar mannanna. En ljóst er af þessari nýjustu útgáfu - sem kalla mætti samkirkjulega - að bæði stíllinn og innihaldið eiga fullt erindi við okkur 21. aldar fólkið.

Bólusettur gegn Passíusálmunum Séra Hallgrími og kveðskap hans var sannarlega gert hátt undir höfði við athöfnina í Kefas. Barnakór sem samanstóð af flestum börnunum í kirkjunni - þar eru 33 börn skráð - söng Heilræðavísurnar með lagi Gunnars Þórðarsonar og tónlistarhópur safnaðarins flutti Kvöldvers eftir Hallgrím við lagið hans Tryggva M. Baldvinssonar. Í kaffinu á eftir var boðið upp á blokkflautusveit sjö kvenna úr söfnuðinum sem lék jólalög.

Undir þeim leik átti ég tal við mann sem sagðist eiginlega hafa verið bólusettur gegn Passíusálmunum af presti sem ávallt vitnaði í versin frægu sem stíluð eru á Guðs kennimann: ,,Jesús vill, að þín kenning klár/kröftug sé, hrein og opinskár, lík hvellum lúðurs hljómi...” (10:11-12) - áður en hann hélt sínar þrumuræður um pólítík og ýmsan ósóma samtímans. Þótti viðmælanda mínum þetta nokkuð léleg afsökun fyrir flokkspólítískum áróðri viðkomandi prests og gat ekki litið Passíusálmana réttu auga eftir þetta. Vonandi verður nú breyting á þegar blessaður minn fer að hlýða á lesturinn og meðtaka snilli fagnaðarerindisins sem alls staðar skín í gegn.

Að Guðs dýrð fái að flæða Víst beinir Hallgrímur orðum sínum til okkar prestanna og minnir okkur á ábyrgð okkar: ,,þar mun um síðir grennslast að/hvernig og hvað þú kenndir”. Vegna gáleysis okkar gætu lærisveinar villst burt og er það þyngra en tárum taki fyrir eina litla prestssál að þenkja um það. Ekki held ég samt að Hallgrímur hafi átt við að kenning úr prédikunarstóli ætti að vera klár, hrein og opinská í merkingunni ádeila eða heimsósómatal. Tel ég víst að Hallgrími hafi verið efst í huga að Guðs orð sé prédikað hreint og ómengað, svo sem við prestar heitum á vígsludegi. Að Guðs dýrð verði ekki hindruð heldur flæði áfram til þess sem talar og hinna sem hlusta hlýtur að vera markmið prédikunar á aðventu sem endranær.

Ritningarlestrar dagsins í dag styðja svo sannarlega við þessa ályktun. Þannig biður Guð Jesaja spámann (Jes 40.1-8) að hugga lýð sinn, hughreysta Jerúsalem og boða henni að áþján hennar sé á enda, að sekt hennar sé goldin. Gefið er fyrirheit um að dýrð Drottins birtist og allir muni sjá það samtímis ,,því að Drottinn hefur boðað það”. Vissulega er rétt sem segir hjá Jesaja. Við erum sem gras og fölnum sem blóm eins og Hallgrimur yrkir um í sálminum ,Um dauðans óvissa tíma´. En ,,orð Guðs vors varir að eilífu” og um þá trú vitnar vers Hallgríms, sem hefur að geyma friðþægingarboðskapinn í hnotskurn:

Ég veit minn ljúfur lifir lausnarinn himnum á. Hann ræður öllu yfir. Einn heitir Jesus sá, sigrarinn dauðans sanni sjálfur á krossi dó, og mér svo aumum manni eilíft líf víst til bjó.

Leyndardómur fæðingarinnar Í fyrra Korintubréfi (1Kor 4.1-5) talar Páll um ,okkur´ sem ,,þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs”. Trúmennsku er krafist í því hlutverki. Þjónn og ráðsmaður, þerna og ráðskona minna okkur kannski helst á Downtown Abbey og ekki svo fráleitt að læra af fólkinu á neðstu hæðinni í því húsi sem hefur lífsviðurværi sitt af því að sína trúmennsku og fær fyrir það sín laun.

Nú er ég ekki að mæla með stéttaskiptingu og manngreinaráliti sem er okkur hér á Íslandi næsta framandi, alla vega á þeirri öld sem við lifum núna. En trúmennskan er köllun okkar allra, trúmennska við þau sem við sinnum í störfum okkar eða heima, trúmennska við kærleikann, trúfesti við Guð sem sjálfur hefur sýnt okkur mestu trúfesti sem hugsast getur, að afsala sér dýrð sinni og fæðast inn í þennan heim til að deila hlutskipti okkar. Í fæðingu Jesú er friðþægingin fólgin - hann fæddist til að skapa frið og sátt á milli manns og Guðs, hann gaf líf sitt þegar móðir hans varð þunguð, gaf líf sitt til að færa heiminum ljós inn i myrkrið, vináttu inn i firringuna, kærleika inn í skortinn mesta.

Að greiða frelsaranum veg Og svo heyrum við í guðspjalli dagsins (Matt 11.2-11) um Jóhannes skírara, hann sem kom til að greiða frelsaranum veg, til að benda á Jesú sem opnar augu og eyru, endurreisir þau sem hrasa, hreinsar þau sem finna sig saurguð og fyrst af öllu: Gefur fordæmið og kraftinn til að fátækum sé flutt fagnaðarerindi. Að við erum öll fátæk, andlega talað, fer ekki á milli mála við lestur Passíusálmanna. Að við auðgumst af fátækt hans (2Kor 8.9) fer heldur ekki á milli mála. Og nú horfum við fram til hátíðarinnar sem haldin er til að minna okkur á það undur holdtekningarinnar að dýrð Guðs ljómar í ásjónu lítils barns sem er útrétt hönd föður kærleikans til okkar (Fil 2.6-11):

Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.

Flutt í Hallgrímskirkju á 3. sunnudegi í aðventu, 15. desember 2013