Um prófastsdæmi og samstarfssvæði

Um prófastsdæmi og samstarfssvæði

Breytingar á prófastsdæmum og upptaka samstarfssvæða kallar á umræðu.
fullname - andlitsmynd Jakob Ágúst Hjálmarsson
12. september 2011

Þankar um þjóðkirkjuna 2

Breytingar á prófastsdæmum og upptaka samstarfssvæða kallar á umræðu. Segja má að með sameiningu prófastsdæma hafi birst þörf fyrir að halda samstarfseiningum sem höfðu sannað sig áður og að stór prófastsdæmi á höfuðborgarsvæðinu hafi í raun ekki heldur verið heppileg til þess að ná utanum félagslega einingu sóknanna.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sóknir þurfi að vera í eðlilegum tengslum við nágrannasóknir og hafa samstarf um þá starfsemi sem ein sókn er of fámennt upptökusvæði fyrir. Einnig er eðlilegt að sóknir í einu sveitarfélaghafi með sér samstarf og komi fram sameiginlega gagnvart þjónustustofnunum sveitarfélagsins. Sama gildir um skýrt afmörkuð héröð. Því fagna ég þeirri áætlun Kirkjuþings að byggja upp samstarfssvæði. Breytingar á prófastsdæmum hafa byggst á viðleitni til að skapa faglegan styrkleika í þjónustunni á þeim vettvangi en á móti hefur verið gengið gegn eðlilegri landfræðilegri einingu. Því virðist skynsamlegast að snúa þessu við að hluta og styrkja félagsheildir samstarfssvæða og efla þau í gegnum þróun samstarfsverkefna. Hins vegar yrði því best náð sem sameining prófastsdæmanna átti að skila með því að færa þjónustu prófastskrifstofanna inn á biskupsstofu.

Prófastsembættin geta þá breyst úr því að verða of viðamikil umsýsluembætti til þess að vel sé unnt að sinna þeim meðfram preststörfum í það að vera til hvatningar um samstarf og fundarboðun og þurfa þá ekki að leiða af sér sérstakan launakostnað aðeins kostnað af starfi. Með fjölgun þeirra embætta í samræmi við samstarfssvæðin léttist og starfsbyrðin og prófasturinn verður talsmaður kirkjunnar á tilteknu svæði td sveitarfélagi, héraði eða borgarhluta. Embættið mætti ganga á milli presta (og djákna) á td fjögurra ára fresti til þess að jafna starfsbyrðarnar og gefa fleirum tækifæri á að láta til sín taka.

Með færslu annarra verkefna prófasta til biskupsstofu vinnst ennfremur betri þróun fagmennsku og í raun meiri þjónusta við söfnuðina af hálfu biskupsþjónustunnar sem og einnig framkvæmdastjórnarinnar að sínu leyti. Samskipti og vegalengdir eru ekki hindrun í dag og ákveðin fjarlægð á þau viðfangsefni sem prófastar hafa haft með höndum er holl. Úrvinnsla þeirra verður af þeim orsökum traustari auk þess sem uppbygging þjónustu biskupstofu og skrifstofu kirkjuráðs verður markvissari vegna beinni og einfaldari boðleiða. Sú starfsemi sem hefur verið á prófastskrifstofum suðvesturhornsins getur auðvitað allt eins farið fram á biskupsstofu og fæli í sér verulega fjárhagslega hagræðingu. Héraðssjóði mætti ennfremur leggja niður og deila kostnaði af starfsemi samstarfssvæða á milli sóknanna eftir samkomulagi.

Meginsjónarmið þessarar tillögugerðar er einföldun og hagkvæmni og byggist á fámenni og góðum samskiptamöguleikum. Hún gerir einnig ráð fyrir fyrirliggjandi félagstengslum í byggðum lands og nýtir styrkleika grenndarinnar og heildarinnar í senn.