Já, við þorum, getum og viljum – líka í kirkjunni

Já, við þorum, getum og viljum – líka í kirkjunni

Á mánudaginn, 25. október, var kvennafrídagurinn 2010. Á vinnustað mínum var tilkynnt að allar konur ættu frí eftir hádegi. Við glöddumst yfir því og skunduðum hressar í bragði upp Frakkastíg í átt að Hallgrímskirkju. Við ætluðum að byrja fríið með því að fara í kvennamessu.
fullname - andlitsmynd Ragnheiður Sverrisdóttir
27. október 2010

Á mánudaginn, 25. október, var kvennafrídagurinn 2010. Á vinnustað mínum var tilkynnt að allar konur ættu frí eftir hádegi. Við glöddumst yfir því og skunduðum hressar í bragði upp Frakkastíg í átt að Hallgrímskirkju. Við ætluðum að byrja fríið með því að fara í kvennamessu. Nokkur efi læddist að mér á leiðinni. Það myndu varla margar konur mæta í messu. Öll umræða hefur verið svo neikvæð út í allt sem kirkjan stendur fyrir. En viti menn (konur!) kirkjan var þétt setin af konum og nokkrum körlum sem völdu að byrja baráttudaginn 25 mínútum áður en fríið byrjaði formlega. Efinn hvarf og ég fylltist gleði.

Þema messunnar eða öllu heldur helgistundarinnar var sama og þema alls dagsins: Barátta gegn kynbundnu ofbeldi. Sr. Guðrún Karlsdóttir bauð kirkjugesti velkomna og leiddi messuna. Léttsveit Reykjavíkur sá tónlistina en þær Jóhanna V. Þórhallsdóttir og Aðalheiður Þorsteinsdóttir eru stjórnendur hennar. Þá voru sungnir söngvar við texta tveggja kvenna Líður að dögun eftir sr. Sigríði Guðmarsdóttur og Milda höndin eftir Eygló Eyjólfsdóttur.

Lesið var úr skýrslunni Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum sem kom út 2003. Skýrslan hefur að geyma framkvæmdaáætlun sem Lúterska heimssambandið stóð að. Þegar sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir var að lesa hugsaði ég að það væru kannski mörg sem ekki vissu að kirkjan hefði barist á þessum vettvang í fjölda ára. Vonandi vekur það athygli núna.

Öll þekkjum við 23. Davíðssálm: Drottinn er minn hirðir. Sr.Auður Eir Vilhjálmsdóttir hefur túlkað hann eins og hún skilur hann í sínum aðstæðum. Upphafið er:  Guð er vinkona mín sem hefur/ aldrei brugðist mér. Enn fremur segir: Hún gengur með mér...; Hún uppörvar mig...; ...Þótt mér finnist allt vonlaust/segir hún að það sé alls ekki vonlaust.

Sr. Sigríður Guðmarsdóttir lagði út af textanum í Markúsarguðspjalli 5. kafla vers 21-28 sem fjallar um konu sem hafði haft blóðlát í 12 ára. Hún tengdi textann við Fjallkonuna á afar nýstárlegan hátt.

Í fyrirbænunum sem sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir leiddi var sérstaklega beðið fyrir konum sem hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi. Þessi mikilvægi þáttur alls helgihalds fékk mikið vægi og það var gott að fá að biðja saman fyrir þjáðum systrum og bræðrum.

Áður en við gengum út lýsti sr. Guðrún blessun sem sr. Auður hefur orðað svona:

Guð sem skapaði þig til að vera frjáls, blessi þig.

Jesús sem frelsaði þig til að skapa með Guði, blessi þig.

Heilagur andi sem vekur þig með kossi á hverjum morgni, svo að þú sért frjáls og getir skapað með Guði og er hjá þér allan daginn og alla nóttina, blessi þig.

Meðan við gengum út sungum við hvatningarsönginn Áfram stelpur en þann texta sömdu Dagný Kristjánsdóttir og Kristján J. Jónsson.  Aldrei hefði ég getað ímyndað mér að þessi söngur ætti eftir að hljóma í kirkju en á þessum stað og á þessari stundu batt hann kristna trú og kvennabaráttu saman sterkum böndum.

Það var Félag prestsvígðra kvenna sem stóð að messunni. Hún var ekki hefðbundin enda hefði það ekki passað við þessar aðstæður. Ég er svo stolt yfir systrum mínum sem þorðu, gátu og vildu hafa guðsþjónustu á þessum baráttudegi og taka á þann hátt þátt í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi með öllum þeim sem gengu niður Skólavörðustíginn með vindinn í fangið.