Raddir til lífs

Raddir til lífs

Við erum ekki elskuð af því við erum góð, heldur verðum við góð af því Guð elskar okkur. Veröldin er Guðsraddakór. Guð kallar hið innra, í líkama okkar, heima og í vinnunni. Ef við bregðumst við eins og Sakkeus skerpist heyrn á raddir lífs.

Heyra eða heyra ekki Hversu viljug erum við að opna hugann gagnvart nýjungum? Erum við kannski föst? Við styðjumst flest við venjur og forsendur, sem geta auðvitað verið hleypidómar. Við höfum varnir og verðum vanafastari með árunum. Fæst okkar eiga auðvelt með að viðurkenna veikleikana. Við erum stundum í bullandi afneitun gagnvart staðreyndum í lífi okkar, sem margir sjá, já, jafnvel flestir aðrir en við sjálf.

Köllun -vocatio Í hugsun miðalda var oft talað um, að menn væru kallaðir til ákveðinna starfa. Í ritum Marteins Lúthers t.d. kemur skýrt fram, að menn séu kallaðir til stöðu og starfa í lífinu. Einum er ætlað að verða smiður, öðrum að vera húsmóðir, bændur hafa sína köllun, háskólakennarar sína og einhverjir, þó fáir séu, verða að stjórna hinum veraldlegu ríkjum og furstadæmum. Þetta var köllun manna, sem á latínunni heitir vocatio. Á enskunni er í anda þessa talað um vocation, sem starf fólks, á þýskunni Beruf. Starf er köllun og það er hrífandi að meta vinnu sem trúarlegt athæfi og gott að geta sagt: “Ég hef köllun til að vera kennari” eða “ég hef köllun til að gera tölvuleik!”

Köllunarhugsunin var sú, að menn ættu að hlusta eftir til hvaða hlutverks Guð kallaði þá og þær. Mikilvægt væri, að gangast við köllun sinni til hinna veraldlegu starfa. Þjóðfélagið þarfnaðist þess. Einstaklingurinn væri hamingjusamari og nýttist betur ef hann eða hún væri sátt við starfa sinn og sæi í henni andlega merkingu, trúarlegan tilgang með puði í þágu mannfélagsins, þ.e. náungans og þar með Guðs. Við ættum auðvitað ekki að vera einföld eða bláeyg varðandi þessa köllunarhugsun. Guð kallar okkur ekki inn í þröng störf og að við séum skyldug til að vera þar ávallt. Guð starfar opið, kallar til góðs en ekki þröngt og til heftingar. Guð leysir en frystir ekki. Köllunarhugsunin var aðlöguð kyrrstæðu þjóðfélagi og því var hugsað um störf sem ævistörf. Við þurfum auðvitað að endurskoða ýmislegt í köllunartrúfræðinni vegna fjölþætts og breytilegs samfélags. Kyrrstaðan er horfin, - kannski kyrran líka - störfin eru margbreytileg, en engu að síður erum við kölluð til starfa. Grunnafstaða köllunarguðfræðinnar er góð. Það, sem þjónar fólki til góðs, var og er köllun Guðs. Allir hafa slíka köllun. Allir eru kallaðir til vera góðir, heilbriðgir og kærleikssmitandi gleðiboltar í veröldinni, bæði heima og í vinnunni. Guð talar alls staðar, í sál okkar, í ferlum líkamans, í vinnunni, í vinahópnum, í náttúrunni, í þjóðfélaginu, í pólitík – já alls staðar þar sem menn vilja opna gagnvart réttlæti, náungaelsku, fegurð, dýrmæti og hamingju. Heyrir þú þessar raddir?

Köllunartextar Í upphafi árs eru textar dagsins merkilegt íhugunarefni og varða köllun okkar í veraldarefnum og að tengja lífið við Guð. Í 1. Samúelsbók er sögð eftirminnileg saga af því er Guð kom til musterissveinsins Samúels. Guð kallaði, unglingurinn rauk upp og hélt að meistarinn Elí þarfnaðist einhvers. Það var ekki fyrr en eftir ítrekuð köll, að öldungurinn og unglingurinn skildu, að kallið væri himneskt. Guð kallaði nokkrum sinnum áður en þeir byrjuðu að grufla og áttuðu sig loks á, að ávörpin væru ekki mannahljóð. Þá fyrst gat Samúel opnað vitund sína, svarað kalli og heyrt.   Svipað tilkall er í sögu guðspjallsins um Sakkeus. Hann var yfirtollari og skattstjóri (publicanus) í hinni ríku verslunarborg Jeríkó, sem er niður í Jórdandalnum, á svonefndum Vesturbakka. Klókur skattstjóri hafði tök á að græða verulegar fjárhæðir. Sakkeus var séður. Hann var ekki Rómverji, heldur Gyðingur, sem hafði gengið í þjónustu hins erlenda setuliðs, nýtti sér aðstöðu sína, og kúgaði og kreisti eins og fært var. Því var hann hataður.

Það kemur beinlínis fram í textanum, að allir voru á móti honum. Við heyrum, að fólkið hindraði að hann geti séð Jesú. Mannfjöldin hefur gert sér leik að skaprauna litla manninum, láta hann finna fyrir líkamlegri smæð sinni með því að hleypa honum ekki fremst. Hann var látinn gjalda fyrir fjárplóginn með því að sæta einelti. Sakkeus var ríkur en píndur, máttugur í veraldlegum efnum en fyrirlitinn í mannfélagi landa sinna.  

Jesús kallar hið innra Sakkeus var sekur um skattoftöku og þar með ósiðsemi. Hann heyrði ekki kallið hið innra um að láta af fjárplógslífi sínu. Hann skeytti ekki um samviskukvalirnar. Hann var forhertur, heyrði ekki neyðaróp hinna féflettu. En svo gerðist hið ótrúlega, að spámaðurinn mikli, Jesús, lét sem hann sæi ekki alla aðdáendur sína, sæi ekki alla þessa réttlátu Gyðinga sem fögnuðu komu hans. Hann sá aðeins hinn versta, svíðinginn Sakkeus. Jesús kallaði til hans, vildi tala við hann og bað um, að hann fengi að snæða í húsi hans. Það var verst, því að snæða saman tjáir vináttu. Jesú var sama um almenningsálitið og vildi bara hitta manninn að baki tollaraklæðunum. Mönnum hefur eflaust orðið talsvert umhugsunarefni, að Jesús fór aðrar leiðir en sæmilegt var talið. Jesús kallaði þá sem áttu, að vera ómennskir, og siðlega “heyrnarlausir.”

Enginn hafði kallað Sakkeus til mennsku og lífs sem Jesús. Hann mat svo vel þetta kall, að hann breytti lifnaðarháttum sínum algerlega. Sakkeus reyndi að bæta öllum, sem hann hafði svikið eða haft af. Þetta er að heyra – heyra svo vel að lífið breytist.[i  

Hverjir heyra og hvernig? Hvernig varða nú þessir textar okkur? Heyrum við? Heyrir þú raddir lífsins, þegar Guð kallar á þig? Síðasta árið hef ég heyrt of margar sögur um, að fólk heyrir seint og svo illa, að stundum er komið í óefni.

Gott fólk, sem vill vel, heyrir oft ekki þegar aðstandendur kalla á hjálp. Þá tala ég ekki um þá heyrn, sem við getum fengið bætta með tækjum og nútímatækni, heldur hina innri heyrn, skynjun og skilning, sem engin tækni fær lagað, aðeins opin vitund. Oft heyra foreldrar ekki í barni sínu, taka ekki eftir vandræðunum sem eru byrjuð, bregðast ekki við kallinu, og uppgötva svo seint og síðarmeir, að góða barnið þeirra er orðið eins og vitstola umskiptingur, fallið í sukk, nánast fyrir augum foreldra og fjölskyldu. Allt þetta lyktnæma fólk finnur enga lykt af barninu, þegar það kemur seint heim, hortugt og viðskotaillt. Svo eru allir makarnir, sem ekki taka eftir vanlíðan, ekki taka eftir kvörtun og menn vakna upp við vondan draum veikinda eða skilnaðar. Þetta er líka það, að heyra ekki lífsraddir.

Sjálfshlustun og tiltal Við hlustum jafnvel ekki á sjálf okkur. Ég á von á, að við öll getum rifjað upp einhver tilvik, þegar við vildum ekki heyra kall líkamans og mein eða veikindi bjuggu um sig eftirlitslaust. Við vildum ekki heyra. Þetta heyrnar- eða skilningsleysi getur varað árum saman og jafnvel heila ævi.   Heyrum við? Við forðumst ill tíðindi. Við heyrum kannski hversdagsgnýinn með eyrunum en heyrum ekki lífsköllin. Við höfum kannski áhuga á líkama okkar, ögum hann jafnvel, en forðumst að horfast í augu við einkenni veikinda, þetta tiltal líkamans. Við viljum hamingju en getum ekki heyrt þegar við þurfum að stoppa til að vinna með það sem ógnar samböndum, lífi og gleði fólksins okkar. Þegar við hættum að hlusta eftir röddum lífsins kemur dauðinn hægt en örugglega.  

Kölluð til lífs Til Samúels var kallað og loksins áttaði meistari hans sig og kenndi sínum nema að opna fyrir Guði, leyfa Guði að tala. Sakkeus var hataður, en loks kom einn, sem virti manngildi hans og kallaði á manninn. Sakkeus brást við, fann lífið að nýju, var tilbúinn að gera upp fortíðina, greiða öllum það, sem hann hafði svínað út og byrja nýtt líf.

Við þurfum að vakna og segja: “Tala þú, Guð.” Eða eins og Sakkeus, hoppa niður úr trénu sem við höfum klifrað upp í – öll eigum við okkar tré eða spýtu sem við sitjum á. Við eigum að fara með kallaranum, leyfa honum að setjast niður á heimili okkar, setjast þar að og vera. Þá verður breyting. Við erum kölluð til að vera ábyrg í vinnu okkar og verkum. Við erum kölluð til að sinna hamingju og heilsu. Veröldin er Guðsraddadór. Við erum kölluð til að heyra raddir lífsins í mannfélagi okkar, á heimilum okkar, í líkama okkar og í sál okkar. Við erum kölluð til lífs.  

Þjónn þinn heyrir Svarið var, er og verður: “Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.” Þá kemur Guð í eigin persónu, fer höndum um líkama, læknar og bætir heimilisbrag. Í Afríku er stundum sagt, að sá sem borði einn sé sekur maður. Það er djúp speki í þeirri athugun. Jesús kemur á heimili hins kristna manns. Þar sem Jesús kemur hverfur sekt og einsemd. Þannig er líka borðhald kirkjunnar. Við hið heilaga borð erum við viðurkennd - ekki fyrir útlit eða árangur í tröppuhlaupi samkeppninnar, heldur sér Guð okkur sem manneskjur, kallar til okkar innri manns. Við erum ekki elskuð af því erum góð, heldur verðum við góð af því Guð elskar okkur. Sakkeus býr í okkur öllum, en við megum bregðast við röddum lífsins. Við megum rétta fram tómar hendur og fara frá borði Guðs með nýtt líf og góða heyrn. Amen.  

Flutt í Neskirkju 2. sunnudag eftir þrettánda, 14. janúar 2007.  

Lexía 1S 3.1-10 Sveinninn Samúel gegndi þjónustu Drottins hjá Elí. Orð frá Drottni var sjaldgæft á þeim dögum, vitranir voru þá fátíðar. Þá bar svo til einn dag, að Elí svaf á sínum vanalega stað. En augu hans voru tekin að daprast, svo að hann var hættur að sjá,og enn var ekki slokknað á Guðs lampa, en Samúel svaf í musteri Drottins, þar sem Guðs örk var. Þá kallaði Drottinn á Samúel. Hann svaraði: Hér er ég. Og hann hljóp til Elí og sagði: Hér er ég, því að þú kallaðir á mig. En Elí sagði: Ég hefi ekki kallað. Far þú aftur að sofa. Fór hann þá og lagðist til svefns. En Drottinn kallaði enn að nýju: Samúel! Og Samúel reis upp og fór til Elí og sagði: Hér er ég, því að þú kallaðir á mig. En hann sagði: Ég hefi ekki kallað, sonur minn. Leggst þú aftur til svefns. En Samúel þekkti ekki enn Drottin, og honum hafði ekki enn birst orð frá Drottni. Þá kallaði Drottinn enn á Samúel, í þriðja skiptið. Og hann reis upp og fór til Elí og sagði: Hér er ég, því að þú kallaðir á mig. Þá skildi Elí, að það var Drottinn, sem var að kalla á sveininn. Fyrir því sagði Elí við Samúel: Far þú og leggstu til svefns, og verði nú á þig kallað, þá svara þú: Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir. Fór Samúel þá og lagðist til svefns á sínum stað. Þá kom Drottinn og gekk fram og kallaði sem hin fyrri skiptin: Samúel! Samúel! Og Samúel svaraði: Tala þú, því að þjónn þinn heyrir.
Pistill: Rm 1.16-17 Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir, Gyðingum fyrst, en einnig Grikkjum.Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er: Hinn réttláti mun lifa fyrir trú.

Guðspjall: Lk 19.1-10 Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður, er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá, hver Jesús væri, en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum, því hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að, leit hann upp og sagði við hann: Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu. Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta, létu allir illa við og sögðu: Hann fer til að gista hjá bersyndugum manni. En Sakkeus sté fram og sagði við Drottin: Herra, helming eigna minna gef ég fátækum, og hafi ég haft nokkuð af nokkrum, gef ég honum ferfalt aftur. Jesús sagði þá við hann: Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu, enda er þessi maður líka Abrahams sonur. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.


[i] Sagt er að Pétur postuli hafi vígt Sakkeus til biskupsþjónustu í Cesareu. Salómon frá Bosra segir að Sakkeus hafi verið myrtur í Hauran. Í frumkirkjunni var Sakkeus ekki talinn til hóps aðallærisveina Jesú, en skv. hefð Austurkirkjunnar hefur hann verið nefndur sem einn hinna fyrstu kristnu manna. Í Frakklandi var heilög Veróníka talin kona Sakkeusar. Hún á að hafa farið með honum til Rómar og síðan til Gallíu. Þar hafi hann gerst einsetumaður og tekið sér nafnið Amadour, sem svæðið hafi síðan þegið nafn af Rocamadour. Sagan er sem sé nafnskýringarsaga, etíólógía. Dýrlingsdagur Sakkeusar er 23. ágúst í dýrlingaskrá kaþólsku kirkjunnar, en 20. apríl skv. koptísku kirkjunni og Austurkirkjunni.