“Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp” Ds. 121
Það var sannarlega líflegt á Skólavöruholtinu í sumar. Hallgrímskirkja fór ekki varhluta af þeirri gleði sem fylgdi. Góðviðri var með eindæmum, fjöldi fólks streymdi inn og út um hinar nýju dyr Hallgrímskirkju og aðsókn að helgihaldi og tónlistarviðburðum á vegum kirkjunnar var sérstaklega góð. Það hefur sannarlega verið fagnaðarefni fyrir okkur starfsfólkið í Hallgrímskirkju.
Öllum er ljóst hve umrótið í þjóðfélaginu, bankahrun og bakslag atvinnulífs hefur valdið landsmönnum miklum áhyggjum og erfiðleikum. Það er sárt til þess að vita. Viðurkenning eigin mistaka og velvilji til þess að byggja upp traust, þrek og von í samstilltu átaki mun öllu skipta, þegar vinna á bug á þeim erfiðleikum.
Í umræðu liðinna vikna hefur þjóðkirkjan einnig átt undir högg að sækja, þar sem sársaukafullar umræður um kynferðisbrot þjóna kirkjunnar gegn einstaklingum hafa verið áberandi í þjóðfélaginu. Slík umræða er mjög eðlileg, þegar alvarlegar ásakanir reynast vera sannar. Sárast er þó horfast í augu við þjáningar þeirra, sem liðið hafa fyrir þessi brot. Þjóðkirkjan undir forystu biskups, Karls Sigurbjörnssonar, hefur brugðist við af festu og skilvirkni, og tekist á við þessi alvarlegu mál af einlægni með opinni umræðu og ýmsum stjórnsýslulegum aðgerðum. Miklar væntingar eru bundnar við þær aðgerðir til framtíðar og að þær muni einnig stuðla að því að slíkir atburðir gerist ekki aftur. Þetta er afar mikilvægt átak og það getur vonandi orðið öðrum stofnunum, félögum og einstaklingum í samfélaginu áminning og hvatning til að takast á við hliðstæð mál af skilningi, ákveðni og hreinskilni.
Hallgrímskirkja mun leggja á það mikla áherslu í vetur að efla helgihald, fræðslu og samfélag, eftir því sem við verður komið, enda þótt niðurskurður og þrengri fjárhagur en áður hái allri starfsemi og gæti því miður orðið meiri á næsta ári. Messað er þrisvar í viku, bænastundir eru hvern virkan dag í hádeginu, félagslíf og fræðslukvöld mun haldast sem endra nær, fermingarstarfið hefur verið endurskipulagt til að ná enn meiri samstöðu með foreldrum og tónlistarlíf og listviðburðir ýmsir munu setja metnaðarfullt yfirbragð á dagskrá kirkjunnar.
Það er von okkar að margir komi og leiti sér upplyftingar, ánægju- og hvíldarstunda í Hallgrímskirkju í vetur. Verið hjartanlega velkomin.