Það hefur ekki farið framhjá neinum að þjóðfundur var haldinn nú í byrjun þessa mánaðar. Og mönnum hefur verið tíðrætt um það að þjóðfundarmenn töldu heiðarleikann æðsta gildið sem ráðamenn þyrftu að fylgja. Þetta er um margt merkilegt en kemur ef til vill ekki á óvart í ljósi genginn atburða. Kannske er það enn merkilegra að þjóðkirkjan skyldi einmitt fá sömu skilboð fyrir áratug þegar hún spurði þjóðina svipaðra spurninga í skoðanakönnun. Var hún liður í kristnitökuafmælinu og þá sagði þjóðin við þjókirkjuna það sama og hún sagði nú við þjóðarleiðtogana alla – verið heiðarleg!
Það sem ekki var rætt Gott og vel. Við höfum hérna í kirkjunni því sama verkefnið á okkar höndum. Við höfum þó haft áratuga forskot á ykkur sem stýrið sveitarfélaginu til þess að tileinka okkur heiðarleikann. Ég fullyrði ekkert um það hvort slíkt endurspeglist í verkum okkar enda væri ég varla besti dómarinn í þeim efnum. Fullyrðingin „ég er heiðarlegur“ stendur algerlega og fellur með heiðarleika þess sem hana mælir, ekki satt?
Sumir hafa þó velt því fyrir sér hvaða gildi það voru sem þessi merkilegi þjóðfundur fjallaði ekki um þegar hann horfði til komandi tíma. Já, margt leynist í myrkrinu getum við sagt og það sem ekki er sýnt eða sagt getur ekki síður veitt vísbendingar en hitt sem tjáð. Það hefur jú komið í ljós þegar menn rýna í allan þann mikla sjóð orða, heilræða og hugtaka sem af fundinum hefur komið að eitt sígilt umfjöllunarefni mannshugans er þar vart að finna. Þetta orð er hófsemin. Þjóðfundurinn virðist hafa gleymt því, þarna mitt í þessari glæsilegu umgjörð, að hófsemin hefur mikið að segja bæði fyrir einstaklinga og samfélög.
Hún var þó annarri þjóð og jafnfjölmennri hugstæð hér í fornöld. Hinir fornu Grikkir mátu hófsemina jú æðsta allra dygða enda væri hvert ágæti í okkar fasi meðalhóf tveggja öfga. Hugrakkur einstaklingur er hvorki huglaus né fífldjarfur og iðin manneskja er hvorki húðlöt né ofvirk – þótt það hugtak hafi ef til vill haft aðra merkingu þá en nú. Nei, afburðafólk og afburðaþjóðfélög sigla miðja leið á milli þess sem er of eða van og til þess að geta fetað þá jafnvægislist þurfum við einmitt hófsemi.
Að þessu leyti held ég að við Íslendingar séum frábrugðnir Forn-Grikkjum, þótt margt eigum við auðvitað líka sameiginlegt.
Hófsemin í kristinni trú Þessi hugmynd um hófsemina sem höfuðdygð er að sjálfsögðu mjög rík innan kristinnar menningar þar sem óspart er hvatt til þess að menn gæti hófs. Í Biblíunni er boðað að fall okkar mannanna felist í því að okkur er starsýnt á það sem ekki má en þykir lítið til þess koma sem leyfilegt er og gagnlegt. Sagan af Adam og Evu er náttúrulega dæmi um þetta, þótt sú frásögn hafi verið sögð öldum áður en Aristóteles og félagar lofsungu hófsemina í ritum sínum. Og ástæðu þess að við kennum okkur við Lúther karlinn má m.a. rekja til heilagrar vandlætingar hans á bruðlinu í páfa og annarra ráðamanna rómversk kaþólsku kirkjunnar. Síðan þá hefur menning sú sem kennd er við mótmælendasið, í Norður Þýskalandi, Niðurlöndum og Norðurlöndum auk víða vestanhafs einkennst af því að menn fara sparlega með það sem þeim er útdeilt.
Nema auðvitað á Íslandi. Hér stærðu menn sig af því til skamms tíma að vera eldsnöggir að ganga frá samningum, meðan Danirnir, Hollendingarnir og hinir lágu yfir reiknivélunum var Íslendingurinn búinn að draga upp veskið og ganga frá því sem þurfti. Hófsemin var ekki hátt skrifuð þá – og jafnvel þótt menn setjist niður til þess að meta málin upp á nýtt, virðist hún gleymast, þessi forna dygð.
Jólafasta í Reykjanesbæ Nú er aðventan á næsta leyti og er mikill fögnuður að hefja hina eiginlegu aðventudagskrá í Keflavíkurkirkju með því að bjóða ykkur hingað til okkar. Sveitarfélagið tók strax við sér þegar við auglýstum eftir hópum sem myndu mæta á þessa svokölluðu „jólaföstu“ og var greinilegt að hugmyndin féll þegar í kramið. Aðventan og jólin eru helguð hófseminni, í sinni upprunalegu mynd. Við gleymum okkur vitaskuld í gleðinni og leiðumst út á ýmsar aðrar brautir – sem er greinlega mjög þjóðlegt samkvæmt því sem fyrr er sagt! En á sama tíma fáum við boðskapinn frá kirkjunni um tignina og verðmætin í því sem lætur ekki mikið yfir sér. Sífellt erum við minnt á fegurðina í hinu fábrotna sem er þó þegar á allt er litið stórbrotið.
Hógvær, ríðandi á asna Hér hlýddum við á guðspjallið um það þegar Jesús kom inn í borgina helgu „hógvær er hann ríðandi á asna“. Já, átti fólkið ekki von á sigursælum foringja sem kæmi á hvítum fáki? Nei, þannig birtist hann okkur ekki. Hesturinn var tákn hernaðar í hinu forna Ísrael. Asninn vakti hins vegar upp kenndir hógværðar og látleysis.
Þetta var annars konar leiðtogi en allir hinir og leiðtogi sem við ættum öll að taka okkur til fyrirmyndar því við sem hér erum saman komin erum öll leiðtogar, hvert á sínu sviði. Forysta Krists byggðist á þjónustu þar sem hann kallaði fram það besta í þeim sem honum fylgdu. Hann bæði brýndi þá og huggaði, gaf þeim dýrmætt vegarnesti bæði í orðum en ekki síður í verki. Forysta þessi var ósvikin og heil enda voru ávextir hennar ríkulegir.
Ef við erum alveg heiðarleg Og ný spyrjum við okkur að því, Íslendingar, hvað eigi að vera þeim að leiðarljósi sem stýra samfélaginu okkar. Heiðarleiki, svaraði þjóðin og enginn dregur það í efa. Í því felst í senn að segja sannleikann og breyta eftir því sem sagt er.
En á aðventunni – jólaföstunni – skulum við hugleiða þann eiginleika sem hófsemi kallast. Líklegra er að í honum leynist lykillinn að sannri velferð og raunverulegum árangri fyrir þjóðina okkar. Og líklega á engin dygð eins langt í land hér á fróni eins og háfsemin. Það er, ef við segjum alveg eins og er. Ef við erum alveg heiðarleg.
Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“ Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um: Segið dótturinni Síon: Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip. Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“ Matt 21.1-9
Flutt fyrir starfsmenn Reykjanesbæjar á jólaföstu í Keflavíkurkirkju