Og?

Og?

Konan á myndinni horfir á okkur og í svip hennar skynjum við bæði þjáningu og stolt. Spurningin sem hún ber fram er ekki löng: ,,Og?”

Myndlistin sem komin er upp á veggi Kirkjutorgsins er harla ólík þeirri sem við tókum niður nú á dögunum. Í verkum Hrafnkels Sigurðssonar, var kuldinn ríkjandi og fjarlægðin. Það var næstum að maður fyndi fnykinn af ruslinu sem hann festi á mynd og sjálfur var hann, skrásetjarinn, svo þögull og hlutlaus. Hann tókst á þann hátt við þetta flókna samspil fegurðar og ljótleika, fullkomnunar og veikleika. Symmetrían í verkunum var ófullkomin ef betur var að gáð og handan við hrímhvíta háheiðina var ógrynni af rusli sem beið förgunar.

Spurningar

Hann lét áhorfandanum eftir að fella sína dóma, um samband sitt við varninginn sem er allt í kringum okkur, þessi skyndikynni sem enda á haugunum, slagorðin, skrautið, lógóin og litina sem fölna svo fljótt og verða að drasli. Rétt áður höfðu þau glatt okkur, eina andrá eða svo. Allt okkar hagkerfi stendur og fellur með því að við löðumst að, fáum leið, missum áhugann, finnum eitthvað annað og betra sem síðan endar á haugunum. Hrafnkell spurði. Það er miklu sterkara en að stilla upp svörum, dómum og fyrirlestrum.

Nú opnar sýning Kristínar Gunnlaugsdóttur, hér í safnaðarheimilinu. Verkin hennar eru, ef svo má segja, hinum megin á litaspjaldinu. Hér er það nálægðin, mýktin og hinir djúpu hlýju tónar sem mæta augum. Ofgnóttin í verkum Hrafnkels birtist okkur í krumpuðu plasti og pappa, sem hefur vikið úr hillum verslana fyrir nýjum varningi. Kristín leitar á hinn bóginn í táknheim listasögunnar, kallast á við barokkið og skapar þessa stórbrotnu umgjörð utan um módelin. Hárið er uppsett og þenur sig út á alla kanta, pensilförin renna niður eftir myndunum.

Í báðum tilvikum spyrja þau spurninga og sjónarhornið getur verið tilvistarlegt og já, vistfræðilegt. En vistkerfið er jú umgjörð allrar tilvistar okkar og framtíðarinnar.

Siðbót

Sýninguna kallar Kristín, Siðbót, og yfirfærir þau sömu stef á samtímann, og ráku menn til mótmæla fyrir hálfu árþúsundi.

Bakgrunnurinn í myndum Kristínar er svartur. Það á einnig við um Cranach eldri, og aðra listamenn siðbótarinnar, er þeir drógu upp mynd af Jesú á krossinum. Það var þegar píslarsagan náði hápunkti sínum. Sortinn táknaði þar ekki aðeins sorgina og dauðann heldur einnig og jafnvel enn frekar, óvissuna eða það þegar siðbótarmenn töluðu um að Guð hyldi ásjónu sína og við horfum inn í tómið. Hvað býr þarna í myrkrinu? svona spurðu þeir og létu öðrum eftir að svara.

Verkið sem blasir við þegar við göngum inn í salinn kallast á við þessar andstæður. Konan á myndinni hefur tekist á við krabbamein og hún horfir á okkur með þessum svip sem vísar til staðfestu og óbilandi lífsvilja, mitt í því mótlæti sem hún ber svo utan á sér. Myndin ber nafnið, ,,Og?” eða á ensku, ,,So?”, sem er sannarlega ágeng spurning.

Og Kristín opnar okkur leiðina inn í sjálfa kvikuna. Verkið stóra, veggteppið, Móðirin, er ögrandi á sinn hátt, en því má ekki gleyma að kirkjulist hefur í gegnum aldirnar unnið með svipuð hughrif. Ólafur Gíslason sýndi okkur á erindi um Barokkið, áhrifamikil verk ítalska barokkmálarans, Caravaggio, sem dró upp ámóta mynd af síðusárum Krists og olli víst hneykslan kardínála. Verk hans fengu þrátt fyrir það sinn sess og höfðu mikil áhrif.

Móðirin er líka táknmynd aðventunnar, þessa skeiðs sem er að sönnu meðgöngutíminn. Við bíðum fæðingarhátíðarinnar þegar Guð birtist okkur í varnarleysi smæðar og nektar og minnir okkur á furður lífsins. Hvernig barnið ber í sér vöxtinn og þróttinn, jafnvel þótt það sé háð öðrum í einu og öllu. Sjálf jólaguðspjallið er uppfullt af spurningum, þar sem barnið fæddist fjarri mannabústöðum í fjárhúsum og nóttin var þar allt um lykjandi.

Fátækir, bandingjar, blindir og þjáðir

Í guðspjalli þessa dags, fyrsta sunnudags í aðventu, lýsir Jesús köllun sinni og þar með hlutverki í þessum heimi. Hann vitnar til spádómsrits Jesaja og sýnir þar með hvert verkefni kirkju hans á að vera á öllum tímum:

Drottinn hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.

Starf mannsonarins beindist að þeim sem voru veikir og áttu sér enga málsvara í grimmum heimi. Og við skynjum það á lestri guðspjallanna að framkoma okkar við þá er um leið prófsteinninn á siðferði okkar. Allt um kring blasir það við okkur, óréttlætið sem okkar smæstu systur og bræður mega þola. Hvar erum við í raunum þeirra og mótlæti? Hvernig svörum við þeirri knýjandi spurningu hvað við gerðum fyrir okkar minnstu systkin? Er náðarárið, ef til vill biðtími eftir að við tökum okkur á? Tíminn á milli upprisu og endurkomu?

Konan á myndinni horfir á okkur og í svip hennar skynjum við bæði þjáningu og stolt. Spurningin sem hún ber fram er ekki löng: ,,Og?” En þetta er margræð spurning. Hún getur vísað til þess að við viljum líta undan og forðast að horfa á kaun hennar og fórnir. Hún getur líka verið eins og sjálf móðirin, móðir jörð, með ör sín og sár, sem lítur á okkur og spyr þessarar spurningar. En þá fær spurningin þessa Biblíulegu merkingu sem fellur svo vel að guðspjalli dagsins: ,,Og hvað ætlar þú að gera fyrir þá fátæku, fyrir bandingjana, hina blindu og þjáðu?”

Þessi spurning er um leið í kjarna þess tíma sem framundan er, aðventunnar. Þegar við búum okkur undir að taka á móti frelsaranum sem birtist okkur í veikleika ungbarnsins á helgum jólum vitum við að við eigum stefnumót við hann er við sinnum þeim systkinum okkar sem þurfa hvað mest á styrk okkar að halda.