Samkennd og samhygð!

Samkennd og samhygð!

Í samkenndinni og samhygðinni er fólgin sú von að harmi fylgi huggun, að erfiðleikum fylgi lausn, að sundrung fylgi samstaða, að heilsubresti fylgi lækning, að andláti fylgi upprisa, að dauða fylgi líf, eilíft líf.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Samkennd og samhygð Í prédikun dagsins ætla ég að tala um samkennd og samhygð. Samkenndin, þegar við finnum til með öðru fólki. Þegar við gerum tilraun til að setja okkur í spor annarra og reyna að upplifa það sem náungi okkar, vinur, eiginmaður/eiginkona, börn, foreldrar eða aðrir eru að upplifa, það sem þau eru að ganga í gegnum í lífinu.

Samkenndin sem kviknar og vakir þegar við finnum að við erum ekki ein á báti heldur eigum við vini, fjölskyldu, söfnuð, í kringum okkur sem hugsar til okkar, finnst vænt um okkur og lætur sig varða um okkar líðan og líf.

Samhygð, þegar við hugum að öðrum, þegar við jafnvel gerum eitthvað í málunum, þegar við leggjum okkur fram um að náungi okkar lifi glaðar stundir og hamingjusama ævi. Að náungi okkar fái uppreisn æru, að náungi okkar fái bót meina sinna. Samtakamáttur þjóðarinnar var mikill um helgina, þegar verið var að safna fyrir Grensásdeildinni.

Þar sem samkennd og samhygð er reynsla margra má segja að félagsauður sé ríkur. Það eru verðmæti fólgin í því að við látum okkur varða um annað fólk, að hver og einn sé mikilvægur og dýrmætur.

Í samkenndinni og samhygðinni er fólgin sú von að harmi fylgi huggun, að erfiðleikum fylgi lausn, að sundrung fylgi samstaða, að heilsubresti fylgi lækning, að andláti fylgi upprisa, að dauða fylgi líf, eilíft líf. Ég vona Lexía og pistill dagsins í dag eru textar uppfullir af von og bæn. Von fyrir framtíðinni. Von á Drottinn sem muni leysa og gera heilt.

Sú staðreynd er ljóslifandi í huga postulans sem ritar pistilinn að lífið sé í honum, lífið eilífa sem er gjöf frá Guði, og því þurfi hann ekki að óttast dauðann.

Orð postulans er töluð í kjölfar krossdauða og upprisu Jesú Krists og því veit hann að dauðinn á ekki síðasta orðið hér í heimi heldur skaparinn og frelsarinn sem gefur lífið, og gerir alla hluti nýja.

Postulinn finnur köllun til þjónustu við söfnuðinn og náunga sinn, köllun til samfélags og gleði. Hann vill að allir finni hvílík upphefð það er að fylgja Kristi.

Leynihólfið í hjartanu

,,Út djúpinu ákalla ég þig”, segir sálmaskáldið við Drottinn í Davíðssálmi 130.

Hvaða djúp er það?

Bæn sálmaskáldsins er einlæg og heit, sönn. Bænin á sér rætur í djúpi sálarinnar, úr hinum leyndu hirslum hjartans.

Öll eigum við slíkt rými í okkar sál, þar sem við varðveitum hið heilaga, þar sem sálin andar bæn til Drottins. Jafnvel þótt við kunnum ekki að orða þær bænir, þá eigum við öll slíkan stað, þótt við kannski höfum ekki gefið honum nægilegan gaum.

Úr því djúpi ákallar sálmaskáldið Guð. Bænin úr djúpinu er fengin úr þeim hirslum sem við eigum fyrir okkur sjálf, sem við sýnum kannski engum manni, þar sem við geymum allt sem við erum, vorum og verðum, hugsanir, tilfinningar og trúna sem við byggjum tilveru okkar á.

Úr djúpinu ákalla ég þig Drottinn. Og Drottinn svarar. Að leggja sitt að mörkum Drottinn Jesús Kristur svaraði líka Mörtu er hún bað hann úr djúpi harms og sorgar eftir bróðurmissinn.

Margir voru saman komnir til að hugga þær systur þennan dag í þeirra sorg.

Þetta þekkjum við úr okkar samfélagi. Þegar einhver deyr, þegar einhver úr okkar röðum kveður þennan heim, þegar lífssól hnígur í hafið.

Þá söfnumst við saman. Þá komum við, sýnum stuðning í verki, huggunarorð og viðmót geta verið eins og plástur á sár. Huggunarorð og verk. Þegar nágrannar, vinir og fjölskylda koma með mat, sinna grunnþörfunum, mat og skjóli og samfélagi, hella upp á kaffi, smyrja brauð. Tala saman, rifja upp góðar stundir.

Samhygð í verki! Aðstæðurnar geta verið svo misjafnar, eins og við þekkjum. Sumir kveðja þegar húmað hefur að kvöldi á lífsgöngunni og ævidagarnir orðnir margir, kveðja eftir langa og farsæla ævi, reiðubúnir til hinstu hvíldar. Aðrir langt fyrir aldur fram, í blóma lífsins, þegar langur vegur virtist framundan, sem er svo erfitt að skilja, henda reiður á. Sorgin getur átt sér marga liti og litbrigði og fundið sér ýmsan farveg. En við komum saman, það er hluti af okkar menningu og hefð, viðhorfum og trú. Við skiptum hvert annað máli, viljum hugga, styrkja, styðja, gera það sem í okkar valdi stendur til að stuðla að friði og sátt, huggun og heilsu.

Margir voru hjá Mörtu og Maríu

Að koma saman til að hugga, styðja og styrkja var líka hluti af menningu og hefðum samfélagsins sem guðspjallið segir frá.

Margir voru komnir til þeirra systra til að hugga þær eftir bróðurmissinn. Lasarus bróðir þeirra var látinn. Það er okkar staða hér í heimi að við erum öll á sama báti gagnvart dauðanum.

,,Eitt sinn verða allir menn að deyja”, segir í dægurlagatextanum.

Hvaða svar eigum við gagnvart þeirri staðreynd?

Hvað vonum við? Hverju trúum við? Hvað bærist með okkur í leynihólfum hjartans, í djúpinu?

Trúin á Krist segir okkur að lífssól mannanna rísi við annan sjóndeildarhring þegar hún hnígur í hafið hér.

Þegar ljóssins bjarmi góðvildar, auðmýktar og kærleika slær á land hins liðna dags mun lífssólin rísa upp yfir annan sjóndeildarhring þar sem eilífur morgun ríkir. Marta trúir Marta trúði því. Hún kom á móti Jesú þegar hún frétti að hann væri væntanlegur. Hún gat ekki beðið heldur rauk á móti honum.

Þar sem sorgin ríkir og tár eru á hvarmi þar grætur Drottinn með mönnunum.

Eins er það í þessari frásögn, í framhaldi af því sem lesið var hér áðan, en þar segir að þegar Jesús sá sorg þeirra og allan þann hóp sem hjá þeim var, ,,komst hann við í anda” eins og segir í textanum. Hann fann til með þeim. Samkenndin og samhygðin.

Marta biður í sorg sinni úr leyndum hirslum hjartans og segir: ,,Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.” Jesús svarar henni, svarar þeirri trú sem hún játar, uppfyllir þá trú og bæn. Vegna trúar á Krist fær hún að sjá kraftaverkið gerast. Hún fær að upplifa fagnaðarerindið á sínu eigin holdi og blóði. Kraftaverk Jesús svarar henni og segir: ,,Bróðir þinn mun rísa upp.” Hún játar þá trú að hann muni rísa upp á efsta degi. En Jesús svarar og segir. ,,Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja.”

Þessi orð heyrum við ávallt þegar rekum er kastað í kristinni kirkju eða kirkjugarði.

Við minnumst þessara orða, þessa fyrirheitis Drottins um eilíft líf.

Jesús sagði síðan Lasarusi að koma út úr gröfinni.

Hinn látni, bróðir þeirra Maríu og Mörtu, Lasarus, sem hafði verið látinn í á fjórða dag og settur í grafarhelli kom þá gangandi út úr gröfinni með líkblæju fyrir andliti. Og Jesús sagði þeim að leyfa honum að fara. Á einhvern óskiljanlegan máta sigrar lífið að lokum.

Kraftaverkin eiga sér stað enn í dag. Kraftaverk, það er að segja eitthvað sem ekki verður skýrt á náttúrulegan máta, eitthvað yfir náttúrulegt, einhver annar máttur en kraftur náttúrunnar eða hinn mannlegi máttur er þar að baki sem gerir alla hluti nýja. Guð faðir sem gefur lífið, Guð sonur sem frelsar frá gröfinni, Guð heilagur andi sem helgar og glæðir allt hið góða sem sáð hefur verið í hjörtu okkar. Sá Guð er að baki kraftaverkunum. Sá Guð er að baki sjóndeildarhringnum okkar hér, og einnig þeim sjóndeildarhring sem lífssól okkar rís upp yfir á ný er ævinni lýkur. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.