Á sólríkum sumardegi þann 19.ágúst síðast liðinn kom saman hópur karla og kvenna í Bænhúsinu við Fossvogskirkju. Hópurinn sem tyllti sér á bekki Bænhússins gerði það í þeim tilgangi að eiga saman kyrrðar og íhugunarstund til minningar um lífið sem átti að verða en aldrei varð nema í móðurkviði. Sum innan hópsins höfðu nýlega misst, jafnvel aðeins örfáar vikur liðnar. Í einhverjum tilvikum var ár liðið eða tvö. Önnur leituðu mörg ár aftur í tímann. Þar sem ég stóð frammi fyrir altarinu í Bænhúsinu og horfðist í augu við þennan söfnuð þá vissi ég líka að saga hvers og eins og reynsla var einstök, að aðdragandi missisins var með ólíkum hætti allt eftir því hver átti í hlut. Í einhverjum tilvikum hafði fósturlátið sjálfsagt átt sér stað fyrirvaralaust án nokkurra skýringa og án nokkurs aðdraganda. Einhver hafði sjálfsagt staðið frammi fyrir erfiðri og sársaukafullri ákvörðun, ákvörðun sem snerist um það hvort halda ætti meðgöngunni áfram eða binda endi á hana þar sem lífsvon fóstursins hafði verið lítil sem engin. Hverri einustu meðgöngu fylgja vonir og væntingar. Við fósturmissi verða þær vonir að engu. Eftir sitja foreldrar með sársaukafullar tilfinningar, tilfinningar eins og vonbrigði vegna þess sem ekki varð, vonleysi kannski og kvíða gagnvart framtíðinni, óendanlega þreytu og reiði jafnvel svo eitthvað sé nefnt. Þá er líka misjafnt hversu mikið foreldrar sem verða fyrir missi á meðgöngu fá að ræða reynslu sína. “Þetta var jú varla barn”, “Þú varst nú ekki komin svo langt á leið”, “Þetta er nú svo algengt”.
Þegar ég hugsa um fósturlát og þá sorg sem ég veit að fylgir þeirri reynslu að missa á meðgöngu þá verður mér stundum hugsað til aldraðrar kynsystur minnar sem dó fyrir allmörgum árum, komin vel á tíræðisaldur. Hún hafði eignast drenginn sinn, sitt fyrsta og eina barn komin nokkuð yfir fertugt, hann Jón sinn. Örfáum mánuðum áður en hún dó sat hún með yngri frænku sinni að spjalli. Eitthvað barst talið að honum Jóni, blessuðum drengnum sem var móður sinni alla tíð besti sonur. Sú yngri lét þau orð falla að það hefði nú verið mikil gæfa fyrir hana að hafa eignast barn orðin þetta gömul. Sú gamla hafði þá litið á frænkuna sína ungu, horft á hana um stund, engu svarað í fyrstu en sagt svo ofur lágt: “jú hann Jón minn er það besta sem hefur komið fyrir mig, en þau voru nú fjögur!” Gamla konan hafði sem sagt misst á meðgöngu þrisvar sinnum og ekkert þeirra barna var henni gleymt þótt næstum því hálf öld væri liðin. Svar gömlu konunnar minnir okkur á að sorgin vegna fósturláts hefur alltaf verið til staðar, þótt ekki hafi hún verið uppi á yfirborðinu, jafnvel ekki viðurkennd fyrr en á síðustu árum.
Við sjúkrahúsprestar og djákni Landspítalans, ásamt því góða og margreynda fólki sem starfar á kvennadeild LSH, höfum í ljósi þessa reynt að mæta þeim konum og þeirra mökum sem þar þurfa að dvelja vegna missis á meðgöngu. Við teljum mikilvægt að sorgin vegna fósturláts eigi sinn farveg eins og hver önnur sorg. Við teljum mikilvægt að bjóða foreldrum upp á samtal um þá reynslu sem þau eru að ganga í gegnum hverju sinni. Stór þáttur í því samtali er að varpa ljósi á þau sýnilegu tákn sem eru helguð missi á meðgöngu og gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að setja sorgina vegna fósturláts í farveg. “Hvað verður um fóstrið, barnið ?” er spurning sem í hverju einasta samtali kemur upp. Þá er dýrmætt að geta upplýst sömu foreldra um þá möguleika sem fyrir hendi eru. Vilja þau e.t.v. setja fóstrið í stokk og þá í gröf hjá nánum ættingjum eða vilja þau nýta sér duftreitinn fyrir fóstur í Fossvogskirkjugarði ? Hafa þau séð Minnisvarðann um líf sem staðsettur er á planinu gegnt Fossvogskirkju ? Öll þessi úrræði hafa þann sama tilgang að koma til móts við þá þörf sem við flest finnum hjá okkur við missi, að eiga áþreifanlegan stað til að vitja. Hvaða leið sem foreldrar kjósa þá er tilgangurinn alltaf sá sami, að undirstrika helgi lífsins, líka þess lífs sem aðeins fékk að lifa í móðurkviði og leggja á það áherslu að öll erum við börn Guðs, að öll erum við sköpun Guðs og jafn dýrmæt í hinum mikla grasgarði lífsins.
Hinni árlegu minningarathöfn um fósturlát lauk eins og ávallt á því að hópurinn gekk að Minnisvarðanum um líf. Þar var staldrað við í sólskininu undir bæn og íhugun. Þá var göngunni haldið áfram niður í kirkjugarðinn sjálfan og var förinni að lokum heitið að duftreitnum fyrir fóstur. Þar kvaddist hópurinn eftir að hafa dvalið stutta stund við þennan fallega reit sem er kirkjugarðinum og starsfólki hans til sóma. Er það von okkar sem að þessum málum stöndum að hvert og eitt okkar hafi í þetta skiptið sem önnur haldið heim á leið með góða minningu og frið í hjarta.