Messuþjónn! - ,,Essasú?"

Messuþjónn! - ,,Essasú?"

Þetta er kannski ekki ólíkt því hvernig fjölskyldur virka. Alla daga erum við út og suður, börnin í skóla og tómstundum, foreldrarnir í vinnu og útréttingum, en svo hittumst við undir lok dags og sameinumst yfir máltíðinni eða reynum það að minnsta kosti.

Grafarvogskirkja 6. janúar 2008 - Guðssonurinn. Vers vikunnar: Því að öll þau sem leiðast af anda Guðs, þau eru Guðs börn. Róm.8.14

Biðjum!

Guð ljóssins, við þökkum þér fyrir komu Jesú Krists í heiminn, hann sem er ljós heimsins takmark þess sem leitar, og vegvísir hins villta. Við þökkum þér að við megum koma til hans með börnin okkar og okkur sjálf, og þiggja blessun hans í heilagri skírn, hlýða á hann og fylgja honum. Gef okkur kjark til að rétta fram krafta okkar í þjónustunni við Drottinn. Nú í dag og að eilífu, Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guðspjallið sem við heyrðum lesið hér áðan, fjallar um það hve mikilvægt það er okkur trúuðum Guðs börnum, að hittast reglulega og eiga samfélag um hið heilaga. María og Jósep lögðu langa leið á sig með Jesú, sveininn unga, til þess að komast í helgidóminn í Jerúsalem á páskahátíðinni. En ekki aðeins fjallar textinn um samfélag okkar, hvert við annað, heldur undirstrikar Jesús það í orðum sínum hve mikilvægt það er fyrir okkur að eiga samfélag við Guð. Jesú var nú týndur foreldrum sínum og við getum rétt ímyndað okkur, í öllu þessu mannhafi sem þarna var, hvort foreldrar hans hafi ekki verið að farast úr áhyggjum. Enda fór það svo þegar þau loksins fundu hann, að mamma hans sagði við hann, áhyggjufullri röddu: ,,Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.” Og Jesús svaraði þeim með spurningunni: ,,Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?”

Þannig hvetur Jesús okkur að líta á kirkjuna sem okkar annað heimili, því þar er hús Föðurins. Jesú fór ekki aðeins til að hlusta á prestana tala, hann kenndi þeim einnig og var þannig virkur þátttakandi í því sem þarna fór fram. Þannig er Jesú okkur hvatning að leggja okkar af mörkum við guðsþjónustur safnaðarins og einmitt það ætlum við að gera hér í Grafarvogskirkju. Margir gera eitthvað, en ekki: fáir gera allt!

Þessi orð eru yfirskrift safnaðaruppbyggingar sem sænskur prestur að nafni Fredrik Modéus, hefur mótað kringum messuna. En þessi aðferð sem Modéus hefur mótað er í reynd svolítið í takt við það sem við höfum verið að gera hér í Grafarvogssöfnuði allt frá upphafi. Sóknarnefndarmenn hafa hér í gegnum tíðina tekið virkan þátt í guðsþjónustuhaldi. Reyndar eru hugmyndir Modéus djarfari og ganga lengra í þátttöku almennings í messuhaldinu, mun lengra en við höfum gert hér.

Sumsé, við í þessum stærsta söfnuði landsins ætlum nú að heimfæra hugmyndir Modéus yfir á okkar aðstæður, laga þær að okkar þörfum og framkvæma. Og í dag er fyrsti dagurinn, svolítið söguleg stund, þar sem messan er undirbúin með allt öðrum hætti en áður, allt eitthvað svo nýtt, en að sjálfsögðu ævagamalt um leið. Og þið urðuð vitni að því hér við upphaf messunnar, þegar við gengum inn kirkjuna, messuþjónar, skírnarþegi og fjölskylda hans, prestar og söngfólk, að þetta var allt með öðrum hætti en áður hefur verið. Svo sjáið þið einnig og upplifið hvernig flæðið í messunni er annað en vanalega, hér er ekki bara einn prestur, organisti og kór, heldur hópur af fólki, ungir sem aldnir að þjóna í sameiningu svo að messan öðlast ákveðna dínamík sem allt of oft skortir inn í guðsþjónustuhald kirkjunnar. Sumsé – við lífgum svolítið upp á þátttöku sóknarbarna í guðsþjónustunni og fylgjum þar mottói sænska prestsins þegar hann segir: Margir gera eitthvað, en ekki: Fáir gera allt! Og nú stendur þér til boða, kæra þú eða kæri þú, að bjóða fram krafta þína sem messuþjónn í kirkjunni þinni. Engin skuldbinding, aðeins gleði.

Safnaðaruppbygging er ákaflega lýsandi og fallegt orð, sem felur það í sér að söfnuðurinn skuli uppbyggður. En uppbyggingin getur verið á svo marga vegu. Árið 1993-4 tók ég til að mynda þátt í safnaðaruppbyggingu í tveimur kirkjum við Eyjafjörð. Það voru söfnuðirnir í Dalvík og Ólafsfirði sem þá tóku sig saman og var markmið þeirrar vinnu, að bæta við, styrkja og auka fjölbreytni á öllum sviðum safnaðarstarfsins. Við ræddum um kórastarf, æskulýðsstarf, öldrunarstarf og fullorðinsfræðslu. Allt miðaðist við að fylla safnaðarheimilin af lífi, og það tókst! Þessi safnaðaruppbygging fór um landið allt og flestir söfnuðir nýttu tækifærið og í framhaldinu var grettistaki lyft í þjónustu kirkjunnar við söfnuði landsins. Síðan þá hefur kirkjulegt starf verið í jöfnum og þéttum vexti um allt land og þá ekki síst hér á suðvestur horninu. Í dag er svo komið að detti mér í hug að brydda upp á nýungum í starfinu hér í Grafarvogskirkju, þá getur reynst þrautinni þyngra að finna laust rými í kirkjuhúsinu fyrir starfið. Sérhver dagur vikunnar er einfaldlega þétt setinn og hver kimi hússins vel nýttur. Og það eru góðar fréttir!

En hvaða fólk er þetta sem hingað ratar inn? Jú, það er einfaldlega þverskurður samfélagsins. Við höfum nýfæddu börnin sem koma með foreldrum sínum, stundir sem við köllum foreldramorgna. Við fáum til okkar foreldra litlu barnanna í krakkakórnum og foreldra sem tengjast barna- og unglingakórnum. Foreldrar fermingarbarna koma í tengslum við fermingarfræðsluna og gífurlegur fjöldi fólks kemur svo til kirkju í tengslum við fermingarnar sjálfar. Svo má nefna stóran hóp eldri borgara, átta félög fyrir tíu til tólf ára krakka, unglingastarfið, bæði æskulýðsfélag og opið hús fyrir unglinga, fermingarfræðslan, fullorðinsfræðslan, sorgarhópar, sjálfshjálparhópar á borð við AA, Al-anon, félag fólks sem hefur misst útlim, konur sem hittast yfir handavinnu, safnaðarfélagið, góðgerðasamtök sem hér hittast reglulega og funda, bænahópur, stóri kórinn okkar, barnaguðsþjónusturnar, jarðarfarir, skírnir, hjónavígslur, fermingarathafnir, tónleikar, listsýningar og aðrir menningaviðburðir, stór hópur fólks sækir sálgæslu til prestanna og svona get ég haldið áfram, ég veit að ég hef hvergi nærri tæmt listann og sá fjöldi sem sækir Grafarvogskirkju heim í hverri viku er gífurlegur.

En eitt nefndi ég ekki og það er sjálf messan, þetta hefðbundna og ævagamla samfélag okkar trúsystkina í helgidóminum. Þegar við á Drottins degi, komum saman til að hlusta á Guðs orð, upp lesið og út lagt. En einnig til að biðja saman og lofa Guð í tónlist og söng, og síðast en ekki síst, til að sameinast sem einn maður við borð Drottins í máltíðinni helgu. Og við vitum öll af henni þarna í kirkjunni okkar, á þessum tíma og þessum degi, en við erum ekki endilega mörg sem tökum frá tíma fyrir messuna. Hver ástæðan er veit ég ekki, en einmitt þetta var það sem Modéus komst að þegar hann skoðaði starfið í söfnuði sínum. Alla vikuna dreif fólk að í kirkjuna til hans, en fæst þeirra áttu erindi inn í messuna og því vildi Moéus breyta.

Hugmyndin var afar einföld og skýr... safnaðaruppbygging sem skyldi snúast kringum messuna og miða að því að leiða fólk gegnum safnaðarheimilið og inn í kirkjuna. Að allt safnaðarstarf skyldi framvegis benda í áttina að messunni, sem einmitt er kjarni alls kirkjulegs starfs.

Þetta er kannski ekki ólíkt því hvernig fjölskyldur virka. Alla daga erum við út og suður, börnin í skóla og tómstundum, foreldrarnir í vinnu og útréttingum, en svo hittumst við undir lok dags og sameinumst yfir máltíðinni eða reynum það að minnsta kosti. E.t.v. er það ekki hægt vegna þess að einhver er ekki enn kominn heim. Og við söknum þess aðila sem vantar við borðið, en hugsum með þeim mun meiri tilhlökkun til helgarinnar, því einmitt þá tökum við frá tíma til að matast saman. Og við skynjum öll hversu mikilvæg sú stund er, nærandi og uppbyggjandi samfélag fólks sem elskar hvert annað.

Af nákvæmlega þessari sömu ástæðu komum við saman í húsi Guðs, bræður og systur í Kristi. E.t.v. er hægt að tala um okkur sem eina fjölskyldu, þótt okkur sé ekki tamt að tala um ókunnuga sem fjölskyldu okkar. En það erum við svo sannarlega samkvæmt skilningi Jesú. Hann lagði ríka áherslu á það við vini sína þegar hann spurði: ,,hver er bróðir þinn eða móðir?” Þá lagði hann á það áherslu að við litum til föður okkar á himnum, og gerðum okkur grein fyrir samhengi hlutanna. Við getum ekki án hvers annars verið, og viljum það heldur ekki, því við erum sköpuð til samfélags. Komið saman í mínu nafni, neytið brauðs og víns og gerið það í mína minningu. Þannig verður altarisgangan að miðju messunnar, því ef við hlíðum ekki kalli Jesú, þá gleymist hann og hefur þá liði og dáið til einskis. Guðspjall dagsins fer inn á skyldur okkar við trúsystkin okkar. Þar segir að ef trúbróðir eða –systir gerir eitthvað á okkar hlut, þá eigum við ekki að snúa baki við þeirri manneskju, heldur bera hag hennar áfram fyrir brjósti. Við eigum að fara til hennar og leita sátta áður en málið verður gert opinbert fyrir nokkrum öðrum. Það skuli vera hagur okkar að mannorð trúsystkina verði ekki skert. Við eigum að leysa málin með friði, að koma á sáttum. En ef þessi manneskja vill ekki sættast við þig, þá skaltu reyna það aftur með vitni með þér, ef það gengur ekki, þá berðu málið upp í söfnuðinum, eða á meðal annarra trúsystkina þinna. Láti hin brotlega manneskja ekki segjast þrátt fyrir allt, þá skaltu hunsa hana og láta sem hún sé ekki til fyrir þér. En treystu því að það sem maður bindur á jörðu, verður einnig bundið á himni, alveg eins og að það sem var leyst á jörðu verður einnig leyst á himni. Þú hafðir reynt allt sem í þínu valdi stóð til að leysa málin og hefur því hreina samvisku. Þú reyndir að tala um fyrir sálu sem var týnd, en hún kaus að þiggja ekki leiðsögn þína og því ertu laus allra mála.

Þannig höfum við þetta líka í fjölskyldum okkar. Við gefumst ekki upp á þeim sem ætla að mála sig út í horn með óæskilegri hegðun. Við tökumst á við vandann og reynum að leysa hann og um leið berum við hag hins brotlega fyrir brjósti. Þannig er þetta bara og stjórnast af því að við elskum hvert annað. En þannig á það líka að vera í söfnuðunum.

Og í dag tókum við á móti nýjum safnaðarmeðlim. Því ekki aðeins hefur hann Tómas Óliver tekið á móti heilögum anda í skírninni, heldur höfum við einnig tekið við honum í þessa stóru fjölskyldu sem við tilheyrum, Grafarvogssöfnuð. Nú hafa foreldrar hans uppfyllt skyldur sínar við Jesú með því að bera hann að skírnarlauginni. Og við sem vorum vitni að því, sátum sko alls ekki aðgerðarlaus á meðan, heldur sameinaðist öll kirkjan í fyrirbæn fyrir litla drengnum. Og bænin var þessi: ,,Drottinn Guð viltu gefa honum heilagan anda, og lifandi von í öllu hans lífi.” Megi honum Tómasi Óliver, lánast að ganga fram veginn í þeirri breiðu fylkingu fólks, með trú, von og kærleika í veganesti. Og hver veit nema hann eigi einn daginn eftir að verða messuþjónn við kirkjuna sína, líkt og fermingarbörnin sem hér gegna stóru hlutverki í dag.

Á eftir sameinumst við í máltíð Drottins, og þar með höfum við uppfyllt það tvennt sem Jesú mælti fyrir að við skyldum gera. Að skíra barn og að koma saman til að taka á móti brauðinu og víninu, en Jesús lofaði okkur því að hann myndi vera okkur raunverulega nálægur í máltíðinni. Og jafnvel þótt okkur lánist ekki að skilja það þá getum við treyst því að það sé satt. Og einmitt þess vegna getum við gengið hér út á eftir, öflug fylking fólks karlmennleg og sterk eins og Páll orðaði það, með kærleikann að leiðarljósi og í trausti til þess sem 8. Davíðssálmur boðar okkur, að Guð faðirinn, skapari alls lífs, dvelji í sköpun sinni og vaki yfir og allt um kring.

Mig langar til að minnast á það hér í lokin að það er hægt að gerast messuþjónn hér við kirkjuna og þannig aðstoða okkur við að lífga svolítið upp á þessa annars yndislegu athöfn. En þau sem áhuga hafa geta sett sig í samband við presta kirkjunnar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.