Múrar beggja vegna

Múrar beggja vegna

Margir innflytjendur þurfa að þola að tala íslensku með hreim. Ef við megum búast við að mæta gríni á okkar kostnað út af framburði og hreim, hvernig líður okkur þá með það?
fullname - andlitsmynd Toshiki Toma
22. nóvember 2012

Um daginn tók ég þátt í málþingi um móðurmál á Íslandi. Í umræðutíma tjáðu sig sex unglingar sem eiga annað móðurmál en íslensku. Þeir töluðu um reynslu sína af því læra móðurmál sitt á Íslandi og um erfiðleika í íslenskunámi. Meðal annars sögðu þeir: ,,Ég vil ekki nota móðurmál mitt (sem er ekki íslenska) á opinberum vettvangi. Þegar fólk í kringum mig tekur eftir því, starir það alltaf á mig, á neikvæðan hátt“.

Þar heyrðist einnig þessi rödd: ,,Kennarinn minn í grunnskóla sagði mér að nota ekki móðurmál mitt, heldur alltaf að nota íslensku, ef ég vildi ná framförum í íslensku“. Reynslusaga unglinganna bendir á það andrúmsloft sem er til staðar í samfélaginu, sem reynir að stöðva það að innflytjendur noti móðumál sitt hérlendis.

Talsvert hefur verið rætt um auglýsingu Stöðvar 2 þar sem ,,Tong Monitor“ sem er gerviasíubúi talar ensku með hreim. Þetta er dæmigerð staðalímynd af asíubúa en mér finnst þetta geta haft slæm áhrif á stöðu innflytjenda, ekki aðeins asískra innflytjenda heldur allra innflytjenda. Það er vegna þess að grín gert að ,,framburði á ensku með hreim“ verður fljótt að gríni að ,,framburði á íslensku með hreim“. Ef fólki finnst gaman að heyra ensku með hreim, þá mun því finnast gaman að heyra íslensku með hreim líka. Þetta er svo auðséð.

Raunar finnst mér framburður á íslensku vera erfiðari en á ensku. Á íslensku kemur að mínu mati hreimur jafnvel skýrar fram en þegar enska er töluð og það er ekki auðvellt að bæta. Margir innflytjendur þurfa að þola að tala íslensku með hreim. Ef við megum búast við að mæta gríni á okkar kostnað út af framburði og hreim, hvernig líður okkur þá með það?

Annarsvegar búum við við andrúmsloft sem hindrar innflytjendur í að tala eigið móðurmál og hinsvegar býr ákveðinn kraftur fjölmiðlanna til aðstæður þar sem innflytjendur hika við að tala íslensku, ekki síður en ensku. Ef það er veruleikinn sem innflytjendur búa við, standa þeir fastir með múra beggja vegna. Er slík staða eftirsóknarverð?

Ýmislegt í samfélaginu sem lítur út fyrir að vera sjálfstætt getur samt haft áhrif á aðra þætti í stóru samhengi. Auglýsing Stöðvar 2 er ekki undantekning á því. Hún gæti orðið hluti múrsins sem kemur í veg fyrir samþættingu innflytjenda, þó að slíkt sé ekki tilgangur hennar.

Við skulum skoða málið aðeins í stærra samhengi, sem er viðhorf Íslendinga til erlendra tungumála í samféginu og framandi íslensks máls. Umræða um ,,Tong“ gæti orðið tækifæri til þess að hugleiða það. Von mín er umræða verði leidd á skapandi og uppbyggjandi átt.