Athvarf

Athvarf

Á tíma vaxandi einstaklingshyggju hljómar boðskapurinn: Þú ert ekki einn eða ein, þú ert í stóru samhengi, hlekkur í risakeðju kynslóðanna. Ofurfang alls er Guð, sem fangar alla, týndan tíma og brot fortíðar. Guð leiðréttir allt, þessi sem er athvarf frá kyni til kyns. Hugleiðing gamlárskvölds er hér á eftir og er tilbrigði við stef 90. sálmsins í Saltaranum.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
31. desember 2004
Flokkar

Þrungið andrúm

Hvað er mikilvægasta augnablikið á tónleikum? Hvað hrífur þig mest og snertir þig dýpst? Auðvitað skiptir máli hvaða tónleikar þetta eru. Á óperusýningum t.d. getur ein aría eða jafnvel aðeins einn hljómur snortið svo djúpt að allt annað falli í skugga. Einleikstónleikar hafa sérstöðu, því þá eru tónleikarnir skipulagðir með ákveðnu móti og einleikarinn getur stýrt hvenær risið verður mest og hvernig flæði þeirra verður.

Ég man eftir tónleikum píanósnillingsins Wilhelm Kempf í Austurbæjarbíói. Það voru fyrstu píanótónleikarnir, sem ég sótti, og varð eins og allir viðstaddir fyrir djúptækum áhrifum. Í lok tónleikanna voru allir sem lamaðir af mætti tónlistar og snilli. Eftir að kempan hafði reist alla hina stórkostlegu hljómakastala varð djúp andartaksþögn eftir lokatón, sem varð eins og gjá sem við sukkum í. Síðan sprakk allt í lófataki og háreysti. Þá uppgötvaði ég, að í þögninni varð mitt þrungnasta andrúm á þessum tónleikum. Tónlist getur ekki lifað án þagnar, þar verður hún alger í fyllingu sinni og snertir sálina. Þá er komin niðurstaða, allt fellur í skorður í upplifun þess sem nýtur, öllu er til skila haldið og úrvinnslan hafin.

Við skynjum oft að eftirköst eru hluti ferlis. Eftir mikla atburði og dramatískar aðstæður verður kyrra áleitin og hægt að upplifa hana sterkt. Eftir óverður er lognið stórkostlegt. “Höfg er þögn akursins eftir storminn.” Eftir óveður verður stjörnubjört hvelfing næturinnar stórkostlegt. Sálin getur farið á flug og orðið að stjörnu á festingunni. Eftir flóðið verður fjara þagnar og íhugunar.

Skil tímans

Árin koma og fara. Enn eitt árið, nýtt ártal. Framtíðin hrapar inn í fortíðina í þessu núi áraskilanna. Sum ár eru stór, skeið djúpra sorga eða mikillar gleði. Önnur eru eins og hlé, tímar milli stríða. Þú átt í æviskránni þinni ártal sem er þitt fæðingarár. Svo verður að lokum eitthvert ár sett sem þitt lokaár, klappað á steininn þegar allt lífið búið.

“Tíminn líður trúðu mér, taktu maður vara á þér” segir í húsganginum. Hver maður á sinn tíma. Sögurnar eru mismunandi. Saga mín er önnur en þín. Hvaða minningar sækja að þér á þessum tímaskilum? Kannski eru það gleðimál og gáskastundir. Ef þú hefur þú orðið fyrir áfalli og missi geta sterkar tilfinningar sótt að þér. Kannski bærist í þér ótti vegna framtíðar? Hvernig farnast heimsbyggðinni í öllum stríðum og hamförum veraldar? Í dag ætla ég ekki að ræða um flóðið í Asíu, guðfræðitúlkun og merkingu þess. Það verður hins vegar til umræðu á sunnudaginn kemur, 2. janúar.

Forsendur og möguleikar

Árið er að líða, hverfur inn í fortíðina og verður aldrei endurtekið neitt af því sem liðið er. Svo setur að okkur angurværð gagnvart þeirri staðreynd. Engu verður breytt, ekkert aftur tekið og ekkert betrumbætt sem liðið er, aðeins í núi og framtíð má gera betur.

Framundan er ólifaður tími. Tími spurnar og opnunar. Ekki vitum við hvað þessi tími verður. Kannski verður öllu snúið á hvolf, allt verður breytt í árslok. Kannski nærðu öllum þínum markmiðum og allar vonir rætast. Má vera að þú megnir að framkvæma það sem þú þráir.

Tíminn er samsettur lífi einstaklings. Annars vegar er það sem eru fastir liðir í lífi fólks, ætt, erfðir, þjóð, umhverfi og aðstæður. Þessar gefnu stærðir sem að vísu eru undir vængjum tímans og breytinganna. En svo eru möguleikar einstaklingins, þor hans eða hennar, vilji til breytinga, nýjar aðstæður sem kalla á nýjar ákvarðanir. Þetta er tvennan, annars vegar skilyrðingar og hins vegar möguleikar. Annars vegar eru forsendur og hins vegar eru markmið. Aldrei annað hvort, heldur alltaf hvort tveggja. Sumir eru þó svo stokkfreðnir og hræddir að þora ekki annað en að halda fast í allt hið gefna, þora ekki og jafnvel þola ekki breytingarnar. En hins vegar eru svo þau, sem vilja bara breytingar og megna ekki að horfast í augu við staðreyndirnar. Affarasælast er að halda í jafnvægi beggja vídda. Þá farnast mönnum best í sviptingum tíma og lífs.

Líttu aftur. Var þetta ár undirlagt átökum. Varstu fyrir óláni, sem fátt eða ekkert getur bætt? Við slíkar aðstæður reynir á, þú ert teygður eða toguð. Þá kemur í ljós hver akkerisfestin þín er, hvort hún slitnar upp auðveldlega eða heldur í stórsjó.

Svo eru átakaminni sögur, sem gefa andrúm og aðstæður til að fara yfir og endurskoða. Hvaða þættir eru til framdráttar og ábata? Hvað hefur áunnist? Hver eru viðmið þín í lífinu? Áttu viturt hjarta eða fleytir þú kerlingar á gárum samfélagsins? Hvað ætlar þú að gera við nýtt ár? Mun það færa þér frið og gleði?

Samfélagið og heildin

“...þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns” segir í lexíu dagsins. Það er stórt samhengi og uppteiknað með fjöllum, heimi, þúsundum ára og afturhvarfi mannabarna í duftdyngju árþúsunda.

Á okkar tímum þegar einstaklingshyggja vex, hið stóra samhengi menningar, þjóða og ættboga rofnar, og fátt meira eftir en hinn eini í einstaklingsstríði hljómar þessi texti hins stóra samhengis. Þú ert ekki einn eða ein heldur hluti heildar. Þú ert ekki einn þinnar gerðar heldur hlekkur í stórri keðju ætta og kynslóða. Líf þitt er ekki aðeins þitt eigið heldur í tengslum og samhengi. Gegn sjálfhverfingu og sjálfsupphafningu einstaklingsins talar hið víða sjónarhorn og stóra samhengi.

Aðhaldið, stuðningur menningarinnar og félagsmótun kynslóðanna er ekki lengur athvarf og stuðningur uppvaxandi kynslóða. Ísland er ekki lengur eyland í menningarlegu tilliti, ekki lengur afkimi meðal þjóðanna. Við erum nú beintengd og nettengd inn í deiglu veraldar.

Tímamót einstaklings og þjóðar

Þjóðin var á tímamótum og leit til baka við þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Sr. Matthías leitaði í hinn dýra sjóð Davíðssálma. Í 90. sálmi fann hann bæn guðsmannsins Móse, sem tók hug hans. Af þeim efnivið varð til hinn rismikli lofsöngur, sem var sunginn var í Dómkirkjunni árið 1874 við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar og varð síðar þjóðsöngur Íslendinga.

Matthías vissi vel að samhengi allrar sögu þjóðar, hópa og einstaklinga var aðeins eitt, frumuppsprettan sjálf og takmark allrar sögu. “Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til ... ert þú, ó Guð.” Þetta eru ekki glamuryrði á hátíðarstund, heldur niðurstaða. Hvert er haldreipið í myrkri og flókinni sögu, hvar hjálpin í hallæri, hvar sorgarléttir við dánarbeð og hvar skjól í lífsbyljunum?

Hvar annars staðar en hjá gjafara allra gæða, sem réttir fram hendi áður en kreppir að? “Frá eilífð til eilífðar ertu þú, ó Guð.” Guð hefur gefið þér fortíð, samhengi, áa og eddur, sögu til að lifa við og af, uppbyggingu kynslóða, heimaslóðir, uppvaxtaraðstæður og síðan þennan óslökkvandi lífsþorsta, sem hefur brotið sér leið í gegnum alls konar ófærur og torleiði.

Það er Guð, sem gefur þér ástina til maka og barna, umhyggju, jarðargróða og viðurværi. Tíminn er að baki, allt er stirðnað í fortíð, þinn eigin tími, saga samfélags. En við blasir framtíð. Hver er hún? Er hún myrk eða björt, vonarsnauð eða vonglöð.

Einstaklingur, samhengi og trú

Presturinn er líka einstaklingur í samhengi. Mitt opinbera lán á þessu ári var að vera valinn til starfa í Neskirkju. Það var gæfuspor í mínu lífi. Þökk sé ykkur öllum elsku, umburðarlyndi, þol og hvatningu. Alla daga hef ég fundið til þeirrar blessunar að hafa mikilvæg verk að vinna í þessu kirkjulega samhengi. Það eru stórkostleg forréttindi að fá að vera prestur í Neskirkju.

Eins og presturinn starfar í ákveðnu samhengi nær og fjær ert þú einnig í samhengi. Þú ert í tengslum, átt þér forsendur og möguleika. Það er mikilvægt þegar þú tekur stefnu á nýtt ár að þú sért raunsær og réttsýn hvað það varðar.

En hið stærsta samhengi og hið dýpsta einnig er samhengi trúarinnar. Hvað ætlar þú að gera með þinn innri auð eða innri fátækt? Hvað ætlar þú að gera með þrá hjartans á nýju ári? Hvað ætlar þú að segja við vonir þínar, eilífðarbrunann í þér? Ágústínus kirkjufaðir minnti á, að hjarta mannsins væri órótt uns það hvíldi í friði Guðs. Þú getur hlaupið í lífinu, þú getur unnið allan heiminn, en þó verið manna fátækastur og örmust ef þú ekki tekur mark á dýptunum. Það er Guð sem kallar, Guð sem vill ganga með þér veginn, Guð sem vill vera þinn í öllu.

Guð gefur allt, gefur þér gáfur, eignir, forsendur og samhengi. Guð getur líka gefið þér sálarfrið. En aðeins þú einn og þú ein getur opnað þitt lífssamhengi fyrir þessum förunaut, sem ekki treður sér fram.

Missir og reynsla

Við þessi áramót erum við minnt með róttækum hætti á missi og hið varnarlitla líf í þessari veröld. Á jólum og við áramót stingur svo missir einstaklinga sárt. Á árinu lést móðir mín. Á gamlársdegi fyrir ári síðan, þ.e. fyrir réttu ári, stóðu ástvinir saman við dánarbeð tengdamóður minnar. Það voru því átakanleg skörð við jóaborðið þetta árið. Þegar tilfinningarnar eru miklar er nauðsynlegt að ná úrvinnslutíma. Þá erum við komin í hring. Þögnin eftir storminn, þögnin eftir tónleika, fjaran eftir flóðið. Tími úrvinnslunnar, tími dýptarinnar, þagnarstund.

Þegar unnið er með missi og áföll er gott að ganga út í bjarta nótt, horfa á stjörnurnar á festingunni og ímynda sér þau sem látin eru sem augu á himnum. Farðu út þegar hamagangur gamlárskvölds, drama sprenginganna, hasar ungviðisins er búinn og horfðu upp í himininn. Talaðu og tjáðu. Eigðu þína kyrrðarstsund til góðs. Hún getur orðið í nótt, á morgun, aðra nótt eða þegar þú hefur möguleika til.

Þú ert ekki einn eða ein, þú ert í stóru samhengi, hlekkur í risakeðju kynslóðanna. Og samhengi alls, ofurfang er Guð, sem heldur þeim öllum, týndum tíma, brotum fortíðar og leiðréttir allt, færir allt til betri vegar. Guð sem athvarf frá kyni til kyns.

Guð geymir þig, þau öll og gerir öllum gott. Í hans hendi máttu hvíla, í hans hendi er gott að byrja nýtt ár, með nýja möguleika. Hvað er mikilvægasta augnablikið á lífskonsert þínum? Jú að þú þagnir, vinnir úr reynslunni áður en þú byrjar að klappa og fagna. Allt á sinn tíma.

Textar - gamlárskvölds 2004:

Lexía - Sálm. 90.1-4, 12

Pistill - Róm. 8.31-34

Guðspjall – Lúkas 13.6-9