Hann ríkir nú á himnum hátt

Hann ríkir nú á himnum hátt

Kæru vinir, nú skulum við um stund gleyma öllu jólasveinatali og skrúfa fyrir auglýsingar um það hvað við þurfum að kaupa svo við getum haldið hátíðleg jól – já við skulum líka skrúfa niður í sykursætu jólapoppinu sem hefur glumið í eyrum okkar alla jólaföstuna. Við skulum hugleiða það sem gerðist á jólunum í raun og veru og það sem jól kristinna manna snúast um og það er fæðing Jesú.

Förum í huganum inn á vellina fyrir utan litlu borgina Betlehem þar sem nokkrir fjárhirðar eru að vakta kindur, féð sem sennilega var sett á fóður í fjárhúsinu þar sem Jósef leitaði skjóls þegar í ljós kom að hann fékk ekki inni með konu sína í gistihúsi - þótt hún væri alveg að því komin að ala barn. Þeir hafa kveikt eld til að ylja sér í kvöldkulinu og yfir öllu grúfir næturmyrkrið og stjörnumprýddur himinninn. Þeir reyna að halda að sér hita með því að vefja vaðmálsteppum utan um sig og auk þess eru þeir klæddir í vesti og úlpur úr gæruskinni. En við sjáum í bert hörund þeirra og að þetta eru menn sem þvo sér ekki daglega - og halda sér ekki til því hvaða tilefni hafa þeir til þess? Þeir umgangast ekki fólk í skartklæðum og bera sig ekki saman við það. Við lágt tal þeirra blandast kliður frá læk þar sem þeir brynna fénu og umræðuefnið er ekki merkilegt, nýjustu kjaftasögur um fólkið í bænum, um þá sem eru nýkomnir til að láta skrá sig hjá skattinum, um aðkomufólkið og árekstra þess við heimafólk sem er þreytt á átroðningnum en reynir að hafa eitthvað upp úr því að selja því þjónustu og heimagerða minjagripi. En aðkomufólkið lítur ekki við fjárhirðunum því þeir hafa ekkert merkilegt að selja, engin hús sem þeir geta leigt og þeir eru því í raun afskiptir utangarðsmenn bæði miðað við ferðafólkið og fína fólkið í bænum sem finnst vond lykt af þeim. Þeir færa sig nær eldinum og sitja þétt saman og stytta sér stundir með fremur ómerkilegum sögum af mönnum og málefnum.

Og þá gerist allt í einu undur sem þeir áttu síst von á og svo magnað er það að þeir verða dauðhræddir. Það sem við köllum fagnaðarboðskapinn – evangelíum - er þeim boðað af slíkum krafti að þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð. Á máli guðfræðinnar er það sem þarna gerist kallað opinberun. Svartur, kaldur himinn opnast allt í einu og fjárhirðarnir sjá inn í dýrð Guðs á himni, verða allt í einu þátttakendur í lofgjörð fjölda himneskra hersveita Guðs í handanheimi. Þessum mönnum er sýnt inn í það sem játningin kallar „annars heims ævinlegan fagnað“ eins og hún hefur verið þýtt á íslensku.

Lúkas guðspjallamaður lýsir þessu þannig: „Í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði í kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.“ Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ Þetta undur er sambærilegt við það sem átti sér stað við skírn Jesú í ánni Jórdan. Þá opnaðist himinninn og heilagur andi steig niður af himni í líki dúfu og rödd Guðs heyrðist sem sagði: Þessi er minn elskaði sonur sem ég hefi velþóknun á. Hlýðið á hann.

Þetta endurtekur sig einnig þegar Jesús fer upp á fjallið til að biðjast fyrir og tekur með sér lærisveinana Pétur, Jakob og Jóhannes. Þeir sjá inn í himininn sem opnast og Jesús ummyndast þannig að himneskt ljós lýsir af honum og við hlið hans eru Móse og Elía. Þessi sýn fær svo mikið á lærisveinana að þeir gleyma henni aldrei. Pétur lýsir þessum atburði í bréfi sínu því til sönnunar að Jesús hafi ekki bara verið merkilegur lærifaðir og meistari heldur sonur Guðs, Messías, sá sem spámennirnir höfðu boðað að mundi koma í heiminn til að frelsa hann. Og hann vill að þetta himneska ljós lýsi upp okkar innri mann – og þetta er það sem kallað er helgun. Dýrðarsöngur englanna er upphafið að einum af föstum lið messunnar í kirkjunum, en hann er samt notaður spari og er t.d. ekki fluttur á jólaföstunni og heldur ekki föstunni á undan páskum. Þetta er einn af hinum þekktustu söngvum kirkjunnar og óþrjótandi uppspretta fyrir tónlistarmenn og er til í mörgum útgáfum. Fyrst máttu bara biskupar flytja hann á jólum eða páskum, en frá fjórðu öld máttu einnig prestar gera það.

Víkjum nú aftur að Betlehemsvöllum. Fjárhirðarnir láta sér ekki nægja að hlusta á englasönginn, þeir vilja athuga hvað boðskapur hans felur í sér, sjá barnið og votta því virðingu sína, gleðjast yfir því og miðla öðrum af fagnaðarboðskapinum um nýjan tíma, um frið á himni og jörð. Vísindamenn þess tíma rýndu í stjörnurnar til að reikna út stóratburði og til að túlka þá. Þetta voru ráðgjafar og sérfræðingar sem konungar og aðrir valdamenn treystu á. Stjörnurnar gáfu vísbendingar um stóratburði og tímamót í lífi þjóða og einstaklinga og tengdust konungdóminum. Konungarnir áttu sínar stjörnur og í Egyptalandi var litið svo á að þegar konungurinn dæi þá yrði sál hans að stjörnu. Í Babylon og nálægum menningarsvæðum ríkti sú trú að ný stjarna boðaði að nýr konungur væri fæddur og það sáu vitringarnir sem talað er um í Mattheusarguðspjalli í sambandi við fæðingu Jesú. Þeir þekktu rit spámannanna og báru þau saman við skilaboðin frá stjörnunni og fylgdu leiðsögn hennar til að finna barnið og gefa því gjafir.

En andaverur vonskunnar eru einnig á kreiki þarna í myrkrinu yfir Betlehemsvöllum. Herodes, valdasjúkur konungur, hafði uppi njósnir um uppgötvun vitringanna og kallaði þá á sinn fund og gerði þá út sem erindreka sína til þess að njósna og gera út af við þennan nýja konung sem mundi auðsjáanlega ógna veldi hans. En þeir sáu í gegnum ráðabrugg Herodesar og Jesús komst undan og dvaldi með foreldrum sínum um hríð í Egyptalandi. Þótt vitringarnir þekktu spádómana og gætu túlkað táknin á stjörnuhimninum þá sáu þeir ekki fyrir hvað litla barnið sem þeir fundu í fjárhúsinu í Betlehem ætti eftir að verða. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir því hvernig Guð hafði hugsað sér hlutverk þessa nýja konungs. Þeir vissu bara að hann var konungborinn og það nægði þeim til þess að vilja heiðra hann. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir að þessi konungur var allt öðruvísi en aðrir konungar. Ríki hans var ekki af þessum heimi. Til þess að gera þjóð sinni og lærisveinum það skiljanlegt líkti Jesús sér við tré, við hinn sanna vínvið sem ber ávöxt og það félag sem hann stofnaði, kirkjan er greinarnar á þessu tréi, lífsins tréi. Frelsunarsagan sem tengd var spádómunum nefnir Messías þjáningamann, þann sem ber burt syndir heimsins. Hann sem fullkomnar lögmálið og fagnaðarerindið með því að láta líf sitt á krossi – krossi sem ummyndast frá því að vera hryllilegt pyntingatæki yfir í það að vera tákn upprisu og endurnýjunar, tákn fyrir sigur hins góða yfir hinu illa, tákn um sigur Guðs yfir valdi hins vonda. Vínið úr ávexti þessa trés hreinsar og frelsar – til eru merkilegar sagnir um það að krosstréð sem Jesús var negldur á hafi verið lífsins tré sem talað er um í fyrstu Mósebók. Í sumum elstu myndunum af krossi Krist er hann eins og laufgað tré. Við eigum erfitt með að tengja myndina af Jesúbarninu í fjárhúsinu við það sem gerðist á Golgata. Við getum ekki séð að krossinn er um leið lífsins tré sem opnar leið mannsins að fullkomnun, brýtur hlekki sem halda honum í fanglesi, vanþekkingu og niðurlægingu, endurreisir manninn og staðsetur hann frammi fyrir augliti Guðs skapara og endurlausnara.

Á jólunum sjáum við samt að þetta gengur upp því að við syngjum saman: Hann var í jötu lagður lágt, en ríkir nú á himnum hátt. Litla barnið sem vitringarnir og fjárhirðarnir sáu í jötunni var konungur himnanna, já hann ríkir yfir öllum stjörnunum og himintunglunum, en er sjálf dagstjarnan sem lýsir upp okkar innri mann.