Barn elur þorp

Barn elur þorp

Jólafrásögnin verður eins og stækkuð mynd af því umhverfi þar sem lítið barn hefur fæðst inn í fjölskyldu.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
12. desember 2013

Því fylgir sérstök kennd að halda á nýfæddu barni. Að fá sitt eigið barn í fangið í fyrsta skiptið er stórkostlegt. Meðan á meðgöngunni stendur líður tíminn í eftirvæntingu já og ótta. Ekkert er eins viðkvæmt og hið unga líf og margt getur hent. Þakklætið er því mikið ef fæðingin blessast og ungviðið hvílir í örmum foreldra sinna.

Þorp elur barn

Sá sem fær annarra manna barn í hendur finnur að sama skapi fyrir því trausti sem því fylgir. Það er ekki síður ástæða til þess að huga að því að uppeldi barns er ekki einkamál foreldranna. Fornt spakmæli segir að heilt þorp þurfi til að ala upp barn. Þar er vísað til þess að til þess að barn geti öðlast alhliða vöxt og þroska þurfa margir að leggjast á eitt. Hver og einn hefur eitthvað fram að færa og getur auðgað líf barnsins, aukið hæfni þess, vit, réttsýni og þroska. Þess vegna er það hluti af skírnarferlinu í kirkjunni að guðforeldrar eru tilnefndir til þess að taka þátt í uppeldi barnsins. Valdir eru einstaklingar sem foreldrar bera mikið traust til og vita að þeir muni reynast barninu vel. Þeir eru í sérstöku hlutverki í því þorpi sem mynda umgjörðina utan um einstakling sem er að hefja sína lífsgöngu.

Já, þorp elur barn og fátt skiptir meira máli en það hvernig við sinnum þeim sem eru nýkomnir í heiminn. Þau eru prófsteinn á siðferði okkar og sýn á lífið. Barnið á allt sitt undir öðrum komið og vanmáttur þess kallar þá um leið fram okkar bestu hliðar. Sem prestur kem ég oft inn á heimili þar sem fjölgað hefur í stórfjölskyldunni það eru ánægjulegar stundir. Ég minnist þess þegar ég sat heima hjá Konráð og Ragnheiði Ástu, á aðventunni 2011 þegar við undirbjuggum skírn þriggja barnabarna þeirra, á annan í jólum. Þessar litlu manneskjur voru komnar mislangt að. Ein héðan úr Njarðvíkunum, ein frá Svíþjóð og ein alla leið frá Ástralíu. Og gesturinn sem sat í þessu umhverfi skynjaði þessa einstöku tilfinningu sem ríkti á heimilinu, eitthvert sambland af friðsemd, þakklæti, stolti og auðvitað þeim ríkulega tilgangi sem allir höfðu. Bjargarlaus börnin skapa þessar sterku tilfinningar.

Sjá má hvernig hver einstaklingur í hópnum lifir sig inn í hlutverk sitt, hvert sem það er. Og það eru ekki aðeins foreldrarnir sem finna til þessarar ábyrgðar og gleði. Þarna eru einstaklingar sem fengið ýmist fengið nýja nafnbót eða áréttingu þeirrar sem þeir höfðu fyrir. Afar, ömmur, systur, bræður, frændur, frænkur að guðforeldrunum ógleymdum.

Hin fyrstu jól

Nú hverfum við í huganum til hinna fyrstu jóla. Söguna þekkjum við svo vel, atburðarrásina og þessar andstæður hins fábrotna og þess stórbrotna sem henni tengist. Frásögnin hefst á nafngreindum landstjóra og sögusviðið er í fyrstu stórt og viðamikið. Smám saman þrengist sjónarhornið og endar loks í fjárhúsinu við sjálfa jötuna. Þar liggur lítið barn í þeim lága stalli sem ætlaður var dýrunum að éta úr. Í fyrstu blasti landakortið við okkur en í lokin þurfum við nánast að beygja okkur niður til þess að skoða hið nýfædda ungviði.

Þetta barn er frelsari mannkyns. Um þennan atburð segir í texta Jóhannesarguðspjalls að Guð hafi elskað heiminn svo mikið, að hann hafi gefið son sinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Barnið er til merkis um það hversu mikið Guð elskar heiminn.

Svo sterk eru þau orð að textinn hefur fengið yfirskriftina: Litla Biblían. Hann þykir lýsa því í hnotskurn hvað það er að vera kristin manneskja. Það er að játa trú á Krist sem færði okkur fagnaðarerindið um fyrirgefningu og eilíft líf hjá Guði.

Þetta litla barn hafði þessi miklu áhrif. Jólafrásögnin verður eins og stækkuð mynd af því umhverfi þar sem lítið barn hefur fæðst inn í fjölskyldu. Við lesum um fjárhirðana sem vitjuðu þess eftir að hafa fengið að hlýða á dýrðarsöng englanna. Vitringar komu úr fjarlægu landi og gáfu því konunglegar gjafir. Málleysingjarnir eiga meira að segja sína fulltrúa í sögunni, inni í fjárhúsinu. Þangað urðu þau að leita því gistihúsin voru uppbókuð. Þar er eins og náttúran sjálf fagni því sem mennirnir höfðu hafnað.  Svona birtist hinn almáttugi okkur á helgum jólum.

Já, það var líka í Betlehem þar sem margir komu til þess að vitja hins nýfædda barns - þorp elur barn.

Barn elur þorp

Ef við hugsum það lengra þá sjáum við að áhrifin ganga á báða bóga. Það er ekki bara þorpið sem elur barnið. Við fáum svo ríkulegt hlutverk þegar hið varnarlausa barn er annars vegar. Svo því er líka öfugt farið: Barnið elur þorpið. Allir vilja að gera sitt besta. Þeir þurfa að gefa án þess að búast við umbun, vilja sýna mildi, kærleika, hlýju og öðru því sem þeir eiga að gefa. Allt breytist þegar barnið fæðist og líf okkar verður enn ríkara að innihaldi og markmiði.

Á helgum jólum fögnum við því þegar barnið fæddist, barnið sem ól þorpið, gaf nýja von í dimmum og köldum heimi. Á hverjum jólum erum við minnt á þetta kraftaverk og við skulum taka við því í hjarta okkar. Kristin manneskja býr að miklum fjársjóði sem trúin er. Með henni fyllist hún von þegar aðrir sjá svartnætti, fyrir kraft trúarinnar fær hún kjark þegar öðrum fallast hendur. Það er trúin sem fyllir manninn þakklæti á stundum velgengni. Síðast en ekki síst þá minnir kristin trú okkur stöðugt á að sinna þeim systkinum okkar sem minnst eru og þurfa á liðsstyrk okkar að halda. Andspænis hinu veikburða birtist jú siðferði okkar og sýn á lífið.