Veffrí

Veffrí

Ég er sítengdur, tölvupósturinn minn kemur samstundis í símann minn ef ég er ekki við tölvu, spjallið á Facebook sömuleiðis. Ef einhver skrifar á vegginn minn á Facebook, sendir mér skilaboð eða bregst við einhverju sem ég hef skrifað pípir síminn í vasanum hjá mér.

Trú.is á iPod Touch

Ég fylgist með og leitast við að vera upplýstur. Á hverjum degi nota ég Google fréttalesarann minn til að skanna tæplega 100 upplýsingaveitur og bloggsvæði. Ég fylgist reglulega með nokkrum tugum tvíta og reyni að fylgjast með hvað er í gangi hjá rétt rúmlega 500 Facebook vinum mínum. Þess utan kíki ég öðru hvoru á blogggáttina og skoða fréttayfirlitin á Eyjunni ef eitthvað skyldi nú hafa farið fram hjá mér.

Þess utan nota ég vefinn til hlusta og kaupa tónlist, horfa á sjónvarpsefni, kaupa bækur, panta pizzur og leita upplýsinga um fræðileg efni sem ég er að rannsaka hverju sinni. Þá nota ég sjálfur nokkrar vefsíður til að koma frá mér upplýsingum um hin ýmislegustu málefni.

Ég er sítengdur, tölvupósturinn minn kemur samstundis í símann minn ef ég er ekki við tölvu, spjallið á Facebook sömuleiðis. Ef einhver skrifar á vegginn minn á Facebook, sendir mér skilaboð eða bregst við einhverju sem ég hef skrifað pípir síminn í vasanum hjá mér. Ég er stöðugt í "know-inu," kyrrð er næstum óhugsandi.

Fyrir nokkrum árum sat ég námskeið þar sem fjallað var um mikilvægi kyrrðarinnar sem leiðar til að endurskoða eða kannski öllu heldur endurstilla lífið. Án kyrrðar var sagt að við gætum vart breytt um stefnu, aðlagað okkur að nýjum aðstæðum. Í stöðugu áreiti gætum við ekki séð fegurðina í því smáa og kyrrláta. Í kjölfarið ákvað ég að skipuleggja með reglubundnum hætti það sem ég hef kosið að kalla "vef-sabbatical" eða veffrí.

Tíma þar sem ég slekk á áreiti vefsins um mánaðarskeið og reyni að njóta þess að vita ekki. Fyrir stórnotanda á upplýsingum krefst slíkt verkefni nokkurs undirbúnings. Þannig breyti ég upphafssíðunni á vefvöfrunum á tölvunni minni, ég endurraða smáforritunum í símanum mínum og fjarlægi þau sem ég hyggst ekki nota, hætti að láta símann sækja tölvupóstinn sjálfvirkt, ég skrifa upp hvað ég verð að gera á netinu og hvað er ekki nauðsynlegt.

Eftir að veffríið hefst, leitast ég við að fylgjast með sjálfum mér. Ég leita leiða til að vera meðvitaður um eigin líðan, eigin væntingar og eigin þarfir. Í stað þess að fylgjast með öðrum og öðru, horfi ég inn á við. Á mig sjálfan, á hugsanir mínar, á samband mitt við þá sem eru mér nánastir, á samband mitt við Guð. Veffríið leiðir ekki endilega til þess að ég hafi meiri tíma til að gera hluti, en ég held það gefi mér betri tíma. Það gerir mér mögulegt að sjá hluti sem ég hefði hugsanlega ekki veitt athygli, í veffríinu get ég áhyggjulaus hlustað á þögnina.

Markmiðið er ekki að neita sér um fíknina í upplýsingar, heldur að leitast við að sjá það sem stendur mér nær. Markmiðið er ekki að taka þátt í eyðimerkurdvöl Jesú og horfast þannig í augu við freistingar. Veffrí er ekki tilraun til sjálfstiftunar, heldur leið til að læra nýja hluti, sjá lífið í nýju ljósi. Sjá lífið allt í kring, án bláa bjarmans frá tölvuskjánum.