Aðventukvöld í Langholtskirkju

Aðventukvöld í Langholtskirkju

Það er búið að kveikja á fyrsta aðventukertinu og biðin er hafin. Við erum að bíða eftir hátíð ljóssins, eftir fæðingu frelsarans, bíða eftir réttlætinu sem hann boðar. Við þorum varla að hugsa svo hátt, en við megum biðja og við bíðum eftir því, eftir réttlætinu sem færir börnum jarðarinnar frið.
Sveinn Rúnar Hauksson
29. nóvember 2009
Flokkar

Kæru systur og bræður. Til hamingju með messuafmælið og afmælin öll.

Það er búið að kveikja á fyrsta aðventukertinu og biðin er hafin. Við erum að bíða eftir hátíð ljóssins, eftir fæðingu frelsarans, bíða eftir réttlætinu sem hann boðar. Við þorum varla að hugsa svo hátt, en við megum biðja og við bíðum eftir því, eftir réttlætinu sem færir börnum jarðarinnar frið. Hvað gerum við á meðan? Biðin er oft erfið, ekki bara hjá börnunum, heldur líka hjá öllum þeim sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti. En hvernig bíðum við eftir komu frelsarans og réttlætisins? Hvað gerum við? Sitjum við með hendur í skauti. Eða leggjum við braut og ryðjum grjótinu burt, eins og Jesaja spámaður boðaði? Reisum við merki fyrir þjóðirnar? Eins og segir í texta dagsins. Hjálparstarf kirkjunnar hefur reist merki fyrir okkur og ýmsir aðrir eru að ryðja grjóti burt og leggja braut. Hér innanlands hefur sjaldan verið meiri þörf fyrir náungakærleika í verki en nú, alla vega ekki á síðari tímum. Utanlands kallar þörfin á okkur úr öllum áttum, þörfin fyrir mannúð og samstöðu með fólki sem býr við örgustu fátækt, kúgun, ofsóknir og mannréttindabrot. Það er vel til fundið verkefnið sem Hjálparstarfið vinnur að í Afríku og við getum stutt, en með 2500 kr framlagi er hægt að gefa sjö manns hlutdeild í brunni, tæru og fersku vatni til frambúðar. Gefðu vatn og von segir Karl biskup í ávarpi sínu í dag og þar er svo sannarlega málið að þessi lífsgæfi, hreint vatn sem okkur finnst sjálfsagt að renni ótakmarkað úr krönum, færir þeim sem ekki hafa haft aðgang að slíku, nýtt líf og nýja von. Félagið Ísland-Palestína hefur í mörg ár safnað fé til hjálparstarfs í hertekinni Palestínu. Það var einkar ánægjulegt í sumar að vera með í síðasta verkefni okkar sem var í samstarfi við Össur Kristinsson stoðtækjasmið og uppfinningamann, er við fórum til Gaza og smíðaðir voru gervifætur á 24 manns, karla og konur á öllum aldri. Þar fengum við svo sannarlega að upplifa að fólk öðlaðist nýtt líf og nýja von. Aðventan er til þess fallin að styrkja vonir okkar um nýtt líf. Aðventan boðar fæðingu frelsarans sem er vonin holdi klædd og henni fylgir óendanlegur kærleikur. Þetta er eins og útrétt hönd sem okkur býðst að taka í. Handtakið fær síðan margfalt gildi þegar við framlengjum það með því að rétta út okkar hönd til annarra sem á henni þurfa að halda. Fyrir meira en 40 árum tókum við okkur saman nokkur ungmenni, tæplega tvítug að aldri, um sjálfboðastarf í þeim tilgangi að rjúfa múra félagslegrar einangrunar geðsjúkra sem þá voru á Kleppspítalanum og víðar. Við kölluðum okkur TENGLA og mörg okkar höfðu verið skiptinemar á vegum kirkjunnar (ICYE). Starfið fékk jákvæðar undirtektir, ekki síst hjá sr. Árelíusi sem í útvarpsmessu vildi sleppa T-inu og kalla okkur tENGLA. Við fórum hjá okkur en starfið hélt áfram í nokkur ár og breiddist út. Við vorum viss um að það hefði áhrif á framkomu við geðsjúklinga þannig að þeir nytu einsog aðrir sjálfsagðrar virðingar og mannréttinda. Fleiri menntuðu sig en áður á sviði geðheilbrigðisþjónustu og það dró úr fordómum. Það gerðist svo í síðustu viku að nokkrir gamlir TENGLAR voru kallaðir á fund hjá Geðhjálp og beðnir um að segja okkar sögu og okkur var jafnframt kynnt staða mála í dag, þar sem margir geðsjúkir búa enn við skelfilega einangrun heima fyrir og á stofnunum. Þetta á við miklu fleiri en geðsjúka, nefna má aldraða. Hér er þörf fyrir útréttar hendur. Og í tímariti Öryrkjabandagsins sem borið var í hús um helgina kemur fram að næsta ár er Evrópuár helgað baráttu gegn fátækt og félagslegri einangrun. Það er verk að vinna sem kallar á mig og kallar á þig. Aðventan á erindi við okkur í dag sem endranær, hennar boðskapur um trú, von og kærleika. Er það ekki annars erindi frelsarans við okkur? Og minnst á frelsarann, fæðingu hans og föðurland. Ég hef þurft að taka mig á, á seinni árum, í hvert sinn sem ég syng Bjart er yfir Betlehem, þennan yndislega sálm sr. Ingólfs Jónssonar á Prestbakka, sem ég held svo mikið upp á síðan ég lærði hann í Laugarnesskólanum. Ég var nýlega í Betlehem á jólanótt með Kristínu dóttur minni sem mörg ykkar þekkja. Hún er búin að syngja hér síðan hún var fimm ára gömul, fyrst í Krúttakórnum og er nú í Graduale Nobili og í Kór Langholtskirkju . Við komumst í gegnum hliðið á aðskilnaðarmúrnum sem nú umlykur fæðingarborg frelsarans og framhjá hermönnunum sem skammta íbúum og gestum ferðafrelsið. En það skyggði á gleðina að þúsundir kristinna Palestínumanna fengu ekki að fara til Betlehem um jólin. Og borgin er í ljótu ástandi á svo margan hátt, kirkjurnar jafnvel sundurskotnar. En verst er ófrelsið og niðurlægingin, fátæktin og einangrunin sem íbúarnir búa við undir hernámi Ísraelsmanna. Það er líka farið að stinga mig þegar ég heyri Ísrael nefnt í texta biblíunnar og hinn guðs útvalda lýð. Skyldu kirkjugestir spyrja sig einsog ég geri, hvaða samband er á milli Ísraels Biblíunnar og ríkissins sem stofnað var 1948 af innflytjendum af ólíku þjóðerni. Ríkinu var gefið nafnið Gyðingaríkið Ísrael og hefur síðan þróast í nýlendusinnað apartheid-ríki, ríki aðskilnaðarstefnu, sem beitir nágranna sína og bræður miskunnarlausum yfirgangi án þess að örli á friðarvilja. Það er einsog þjóðir heims, ekki síst þær sem kalla sig kristnar, nái einhvern veginn að loka augunum, loka huga sínum og hjarta fyrir meðbræðrum í Landinu helga. Alþjóðasamfélagið lætur þetta ástand viðgangast ár eftir ár, áratug eftir áratug. Nú eru meira en 60 ár síðan mesta flóttamannavandamál og lengsta hernám samtímasögunnar varð til. Það eru raunar 62 ár í dag, 29. nóvember, síðan Sameinuðu þjóðirnar árið 1947 samþykktu tillögu um skiptingu Palestínu sem varð upphaf ógæfunnar, þótt það hafi kannski ekki verið meiningin. Það er vegna ábyrgðar á ástandi mála að Sameinuðu þjóðirnar gerðu 29. nóvember að alþjóðlegum samstöðudegi með palestínsku þjóðinni. En mikið óskaplega gengur það hægt fyrir þá þjóð að öðlast sinn rétt til sjálfstæðis og mannréttinda, og engin landsýn enn. En samt vil ég syngja Bjart er yfir Betlehem, blikar jólastjarna, stjarnan mín og stjarnan þín, stjarnan allra barna. Því að ég er að syngja um vonina og syngja í mig vonina. Og það er svo magnað, að vonin lifir hjá fólkinu hvort sem er í Betlehem eða á Gaza, í Nablus eða í Austur-Jerúsalem. Alltaf mætir manni sama hlýjan og gestrisnin ómæld, mennskan er varðveitt. Ég veit að þið hafið gaman af að heyra af viðmótinu sem mætti mér í október í fyrra. Þetta er ekkert einsdæmi, sömu sögu hafa aðrir sagt mér sem verið hafa á svæðum neyðar og hörmunga eftir að hrunið varð hér. Það var horft á mig með þvílíkum hluttekningarsvip. Ljóst var að allir erfiðleikar á staðnum voru gleymdir. “Sveinn minn, er þetta ekki óskaplega erfitt á Íslandi? Er eitthvað sem við getum gert til að hjálpa?” Ég fór hjá mér. Það er í mörg horn að líta, innanlands og utan, og kirkjan ætlar sér ekki að bíða með hendur í skauti. Hún ætlar að sinna kalli spámannsins: Gangið út, já gangið út um hliðin, greiðið götu þjóðarinnar. Leggið, leggið braut, ryðjið grjótinu burt, reisið merki fyrir þjóðirnar.

Ég þakka séra Jóni Helga fyrir að biðja mig um að segja hér nokkur orð. Ég vil um leið þakka hjartanlega það starf sem hér er unnið og fá að nefna líka Jón G. Stefánsson, Jónsa okkar, Ólöfu Kolbrúnu og Hörpu systur hennar og fleiri fyrir það sem þau hafa gert fyrir okkur Björk og börnin okkar. Ég óska okkur öllum til hamingju með afmæli starfsins í Langholtskirkju. Hér hefur margt merkið verið reist og með Guðs blessun verður svo áfram.