Íslenskar siðbótarkonur!

Íslenskar siðbótarkonur!

Ég fylltist eldmóði yfir því að við yrðum að finna slíkar konur hér á landi líka og hvatti sagnfræðinga til rannsókna.

Fyrir nokkrum árum var ég stödd á kvennaráðstefnu í Þýskalandi. Þar komst ég að því að þýskir sagnfræðingar voru að dusta rykið af heimildum um konur sem tóku þátt í siðbót Marteins Lúthers fyrir 500 árum. Og leitin bar svo sannarlega árangur. Allir þekktu auðvitað Katarínu frá Bóra, eiginkonu Lúthers, en færri þekktu Argulu frá Grumbach, Birgittu Wallner, Elísabetu von Rochlitz og Elísabetu Cruciger sem var sálmaskáld og átti sálm í fyrstu sálmabók Lúthers.

Ég fylltist eldmóði yfir því að við yrðum að finna slíkar konur hér á landi líka og hvatti sagnfræðinga til rannsókna. En svo fór ég að líta mér nær og sá þá í hendi mér að Halldóra, dóttir Guðbrands Þorlákssonar biskups hér á Hólum væri dæmi um íslenska siðbótarkonu. Hún á sér merkilega sögu sem ekki verður rakin hér.

Tónlistarkonurnar Diljá Sigursveinsdóttir og Guðný Einarsdóttir sáu sér leik á borði og settu saman tón-leikhús þar sem þær kallast á Elísabet Cruciger og Halldóra Guðbrandsdóttir, Elísabet með barokktónum og Halldóra með grallarasöng. Þá komst ég að því að Elísabet átti sálm í fyrstu útgáfu Grallarans, messubók Guðbrands Þorlákssonar.

Tón-leikhúsið verður flutt á Hólahátíð þann 13. ágúst n.k. Það verður mikil upplifun að sjá og heyra Halldóru Guðbrandsdóttur, siðbótarkonuna okkar hefja þar upp raust sína. Það er ReykjavíkBarokk sem flytur verkið, en í hljómsveitinni eru 12 hljóðfæraleikarar.
Einsöngvararnir Hlín Pétursdóttir Behrens, Jóhanna Halldórsdóttir, Bragi Bergþórsson og Benedikt Ingólfsson syngja auk kirkjukóra Hóladómkirkju og Hofsós kirkju. Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur og leikkona les leikhluta verksins.

Á Hólahátíð mun einnig ein stórfenglegasta siðbótarkona samtímans flytja hátíðarræðu, en það er sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir, sem var fyrsta konan sem hlaut prestsvígslu á Íslandi.