Í veislu

Í veislu

Þau, sem fæturnir tilheyra, skilja ekki hvað er um að vera, en þau finna að þau vilja hvergi annars staðar vera en einmitt í návist hans sem elskar þau og þvær þau og hreinsar.
fullname - andlitsmynd Þorgeir Arason
24. mars 2016
Flokkar

Skírdagskvöld. Jóh. 13.1-15.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í kvöld er okkur boðið í veislu.

Veisluföngin eru tilbúin á borðinu og innan skamms mun þjónninn, sem hér stendur, leggja á borð og bera fram veisluföngin, brauðið og vínið, eftir fyrirmælum gestgjafans.

Það er konungur sem býður okkur í veislu, gestgjafinn Jesús Kristur, sem er nálægur okkur hér við borðið sitt, í líkama sínum og blóði. Við fáum að taka þátt í páskaveislunni hans, tilheyra vinahópnum hans.

Hvað gerum við manneskjurnar þegar við höldum veislu eða matarboð og veljum á gestalistann? Hverjum bjóðum við til okkar? Oftast veljum við nú þau sem okkur þykir vænt um eða líkar vel við og finnst skemmtilegur félagsskapur. En auðvitað kemur það fyrir að við bjóðum kannski einhverjum í veisluna okkar af eintómri skyldurækni. Gunna frænka verður að fá að koma úr því að Siggu frænku er boðið, jafnvel þó að við séum ekki í neinu sambandi við Gunnu. Þetta þekkjum við.

Og þegar við bjóðum til okkar gestum, höfum við líka ákveðnar væntingar til þeirra, þó að þær væntingar eða jafnvel kröfur séu ekki færðar í orð. Við mörg tilefni gerum við ráð fyrir að gesturinn komi með gjöf, t.d. til afmælisbarns eða fermingarbarns. Við væntum þess trúlega alltaf að gestirnir okkar reyni að blanda geði og sýna á sér betri hliðarnar í veislunni, eða að lágmarki að þeir kunni ákveðna mannasiði.

En í veislu Jesú gilda ekki mannleg lögmál. Þangað er engum boðið af skyldurækni eða frændrækni, og enginn fær boðskort vegna þess að viðkomandi sé svo skemmtilegur eða kurteis eða gefi svo fínar gjafir. Drottinn Jesús býður okkur í veisluna sína, einfaldlega vegna þess að hann elskar okkur. Við höfum ekkert gert til að vinna okkur inn fyrir þeim kærleika og ekkert slíkt er á okkar valdi.

Valdið er aðeins hans. Við heyrðum það í textanum úr Jóhannesarguðspjalli áðan: „Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs.“ Jóhannes sýnir okkur reyndar ítrekað í guðspjallinu hvernig Jesús er fylling og ásjóna Guðs á jörð. Og þetta skildi Jesús sjálfur, vissi að allt var „lagt í hendur honum“.

En hugsum um það sem hann tekur sér fyrir hendur, einmitt þegar búið er að ítreka í frásögninni að hann veit þetta, veit að hann er herrann, konungurinn, Guð á jörð. Hann gerist þjónninn.

Þvottafatið og handklæðið eru dregin fram. Vatninu er hellt. Gestgjafinn krýpur niður. Grófir og göngulúnir fætur eru þvegnir, einn af öðrum, af natni og umhyggju. Moldin og rykið hverfur af fótunum svo að þeir verða tandurhreinir og eru þá þurrkaðir.

Þau, sem fæturnir tilheyra, skilja ekki hvað er um að vera, en þau finna að þau vilja hvergi annars staðar vera en einmitt í návist hans sem elskar þau og þvær þau og hreinsar.

Við fáum að slást í þennan vinahóp, ekki vegna verðleika okkar heldur vegna kærleika Krists. Hann var þjónninn sem dó á krossi okkar vegna. Hann hefur valdið, en er meðal okkar eins og þjónninn.

Vatnið rennur í skírnarlaugina og við erum borin í faðm Krists, ómálga barn eða fullveðja einstaklingur, hreinsuð í hans nafni. Sú eða sá sem er skírður skilur aldrei til fulls hvað er um að vera. Það skilur ekkert okkar, ekki frekar en lærisveinarnir í fótaþvottinum. En við fáum að þiggja.

Víninu er hellt í bikarinn, brauðið er brotið og við fáum að þiggja veisluna hans, himnesku veisluna sem vísar okkur fram til vonarinnar um það sem engin manneskja á jörð fær séð. Við skiljum ekki til fulls hvað er um að vera. Við vitum aðeins að við megum þiggja vegna þess að Jesús er gestgjafinn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.