Upprisan - hérna megin grafar!

Upprisan - hérna megin grafar!

Íslendingar eru þekktir fyrir að vera fljótir til, skjótráðir og stundum skammsýnir. Íslenskir guðfræðingar og leiðandi menn í menningarlífi þjóðarinnar í byrjun 20. aldar tóku sér fyrir hendur að sanna framhaldslífið. Miklu púðri var eytt í sálarrannsóknir með tilheyrandi miðilsfundum þar sem undarlegir hlutir gerðust og margt var reynt og sumt með blekkingum og brellum.

Fyrri hluti ræðunnar er ekki til á prenti en þú getur hlustað á hana alla á þessari vefslóð.

Prédikun við messu í Neskirkju sunnudaginn 26. September 2009, 16. s. e. trin Lasarus reistur upp frá dauðum

Sagan af læknavaktinni um lækninn sem ekkert leið á og fór í ísbúðina á Hjarðarhaganum fyrir útkall! Jesús frestaði því að mæta til systranna og sinna Lasarusi. Rekja söguna.

En hvað merkir þessi saga í raun? Lasarus fékk að lifa en hann dó síðar eins og allir aðrir. Og hvað merkti þá þessi upprisa, þetta kraftaverk sem Jesús gerði í Betaníu? Kraftaverkið vísar til þess að Jesús var meir en maður, hann var Kristur, Messías, Guð á meðal manna. Upprisa Lasarusar var tákn sem vísar lengra, dýpra og hærra, vísar til eilífðarinnar og segir: Þú munt lifa, lifa af erfiðleika og jafnvel hörmungar ef þær dynja yfir, lifa af dauðann sem mun vitja þín í fyllingu tímans, dauðann sem enginn maður fær flúið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.

Þetta hefur kristin kirkja játað í tvö þúsund ár v.þ.a. hún hefur treyst vitnisburði sjónarvotta, þeirra sem upplifðu undrið í Betaníu, þeirra sem stóðu við krossinn, lögðu lík hins krossfesta í kalda gröf og sáu hana tóma. Og meira en það. Þeir sáu hinn upprisna! Hann var með þeim í dýrðarlíkama sínum, hann sjálfur, „sigrarinn dauðans sanni“.

Páll postuli gerði sér glögg grein fyrir því að upprisa Krists væri forsenda trúarinnar. Hann sagði í því sambandi:

„Ef við nú prédikum að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkur ykkar sagt að dauðir rísi ekki upp? Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn en ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun okkar, ónýt líka trú ykkar.“ (I Kor 15.12-14).

Upprisan skiptir öllu!

Og Páll heldur áfram að tala um upprisuna og segir:

“En nú er Kristur upprisinn frá dauðum, frumgróði þeirra sem sofnuð eru.“ (I Kor 15.20)

Já, segja þá sumir kannski með semingi og bæta við: En geturðu sannað það?

Íslendingar eru þekktir fyrir að vera fljótir til, skjótráðir og stundum skammsýnir. Íslenskir guðfræðingar og leiðandi menn í menningarlífi þjóðarinnar í byrjun 20. aldar tóku sér fyrir hendur að sanna framhaldslífið. Miklu púðri var eytt í sálarrannsóknir með tilheyrandi miðilsfundum þar sem undarlegir hlutir gerðust og margt var reynt og sumt með blekkingum og brellum. Nú átti að sanna upprisuna með vísindalegum aðferðum. Verður það einhvern tímann hægt? Nei, það mun aldrei gerast. Sálarrannsóknir skila engu í þeim efnum og verða aldrei nema leikur og leit að einhverju sem aldrei finnst. Miðilsfundir skila engu, engu, ekki einu einasta korni í mæli sannana.

Guð mun aldrei gefa okkur sannanir, hvað þá brot af sönnunum, til þess að við getum tekið vitræna ákvörðun á eigingjörnum grunni, eins og merkur prédikari orðaðið það, William Sloane Coffin. Já, hann ætti að vita það með eftirnafnið Coffin sem merkir líkkista! Annars er eftirnafnið Coffin komið úr frönsku og vísar til körfugerðarmanna. Forfaðir hans sem fyrstur tók upp nafnið hefur líklega verið körfugerðarmaður.

Upprisan verður aldrei sönnuð. Hún er og verður á sviði trúar. Valið stendur á milli sannana eða frelsis. Að velja Krist er og verður frjálst val en ekki sjálfhverft skref byggt á sönnunum.

Trúin er merkilegt fyrirbrigði. Biblían, þessi mikla trúarbók, geymir aðeins eitt vers þar sem trúin er skilgreind. Í Hebreabréfinu er þetta sagt um trúna:

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)

Trúin er m.ö.o. fullvissa um eitthvað sem ekki verður þreifað á hér og nú, hún er von um að það sem maður treystir á, muni eiga sér stað í fyllingu tímans. Trú og von eru nátengd hugtök og engin manneskja getur lifað án trúar og vonar.

Upprisan verður ekki sönnuð, en það er hægt að sannfærast um hana, reyna hana, og það er hægt að reiða sig á hana. Trúin felur það ekki í sér að trúa án sannana heldur fyrirvaralaust, skilyrðislaust. Upprisutrúin felur í sér vilja til að treysta á grundvelli alls sem við höfum heyrt og séð, sem við höfum hugsað vandlega um og reynt á dýpri hátt en hugurinn ræður við að ímynda sér - trúin felur í sér það að vilja taka þá áhættu að hætta lífi sínu á grundvelli þeirrar sannfæringar að þrátt fyrir að menn myrði elsku Guðs þá geti þeir ekki haldið henni í gröfinni. Jesús Kristur er upprisinn, í dag, á morgun, alla daga.

Upprisan snýst ekki aðeins um að einn maður hafi gengið út úr gröfinni. Hún vísar til vonarinnar, til þeirrar trúar sem veit að kærleikurinn sigrar að lokum. Upprisan er að verki í samfélagi okkar. Við komumst í gegnum skaflana sem hrunið hrannaði upp í krafti upprisu Krists, í von og trú. Og við leysum ekki vanda þessarar þjóðar með hatri og hefndum - heldur með elsku, skilningi á mannlegu eðli og breyskleika, skilningi á eigin eðli og breyskleika - með elsku, fyrirgefingu og miskunn, með líknandi höndum sem lækna þessa þjóð og leiða hana aftur á veg lífsins, veg upprisinnar, veg hans sem sagði:

Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.

Marta hafði sína upprisutrú kemur fram í samtali hennar við Jesú:

„Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn [. . .] 23Jesús segir við hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta segir: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“

Hún er með þetta allt á hreinu. En Jesús vill koma nýrri vídd inn í samtalið, inn í hugarheim manna, okkar hugsun líka, er hann segir:

„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“

Hún segir við hann:

„Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“

Jesús tekur upprisuna á efsta degi og færir hana inn í þessa veröld, inn í veröld Mörtu og vídd, inn í hennar tíma og tíma okkar sem við nú lifum. Upprisan er þá ekki bara atburður í óræðri framtíð heldur veruleiki hér og nú - í Honum sem er upprisan og lífið. Þú ert upprisin/n í Honum. Þú ert þegar upprisinn og dauðinn mun ekki eiga síðast orðið yfir þér því þú ert á bandi hans sem sigrað hefur synd og dauða.

[S]igrarinn dauðans sanni sjálfur á krossi dó og mér svo aumum manni eilíft líf víst til bjó. (Sb 273.10.b)

Enda þótt Jesús hafi látið bíða eftir sér í Betaníu og læknirinn á vaktinni hafi fengið sér ís á Hjarðarhaganum og mistök séu gerð og verði gerð á öllum skurðstofum og sjúkrahúsum heimsins, þá er allt í hendi Guðs, í hendi hans sem sagði:

Ég lifi og þér munuð lifa.