Upp og niður

Upp og niður

Í manninum mætast því hugtökin tvö – upp og niður. Lýsir það ekki vel hugsunarhætti okkar þar sem við erum stöðugt með vísanir í þessar tvær höfuðáttir.

Og hann sagði við þau: „Meðan ég var enn meðal ykkar sagði ég ykkur: Allt sem ritað er um mig í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum á að rætast.“

Síðan lauk hann upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar. Og hann sagði við þau: „Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem. Þið eruð vottar þessa. Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“

Síðan fór hann með þau út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þau. En það varð, meðan hann var að blessa þau, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. En þau féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. Og þau voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð.

Lúk 24.44-53

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Undanfarið hefur flest legið niður á við ekki satt? Við bíðum enn eftir að það snúist betri vegar. Við bíðum eftir að lífskjörin færist upp á nú þegar þau hafa stefnt í þveröfuga átt allt frá því þegar hrunið varð hér í haust. Óhætt er að segja að maður sé niðurdreginn yfir ástandinu nú þegar uppganginum er lokið.

Upp og niður – þessi hugtök notum við í hversdagslegri umræðu eins og ekkert sé sjálfsagðara. Daglega blasa við okkur línurit í fjölmiðlum og ef þau eiga að sýna eitthvað gagnlegt, eins og kaupmátt og bjartsýni þá viljum við endilega að þau liggi upp á við. Við mennirnir eru þaulvanir því að nota þessi tvö litlu atviksorð til þess að lýsa þróun mála. Ef það eykst þá fer það upp og ef því hrakar þá fer það niður.

Stefnir upp

Maðurinn er vera sem stefnir upp. Svo leist hinum gömlu Grikkjum að minnsta kosti á. Orðið sem þeir notuðu yfir manninn hefur síðan fengið alþjóðlega merkingu – anþrópos. Það orð nota flestar þjóðir enn í dag um þau viðfangsefni sem snúa að manninum – anþrópologý er til dæmis mannfræði svo dæmi sé tekið. Full ástæða er til þess að halda upp á þessa fornu tungu sem Nýja testamentið er m.a. rita á, því dýrmætar rætur menningar okkar má rekja allt aftur til hinna fornu Grikkja sem sífellt brutu heilann um lífið og tilveruna. Og hvað merkir svo orðið?

Það er sett saman úr tveimur orðum, já viti menn, orðið „Anó“ merkir „upp“ og seinni liðurinn „þroskó“ getur merkt að stefna eitthvað, líta eða eiga heima. Anþrópos – maður á grísku – merkir því sá sem horfir upp, sá sem stefnir upp á við. Kemur það ekki vel heim og saman við margt í okkar fari og hugsun?

Við íslendingar eigum ekkert orð sem fangar þessi hughrif. Okkar orð, „maður“ á sér þvert á móti rætur í annarri menningu sem hefur er að sama skapi ein af undirstöðum þeirrar sem við tilheyrum, það er latínu. Rómverjarnir fornu notuðu orðið „homos“ en það er skylt orðinu „humus“ sem merkir mold. Þetta er af sama stofni og hebreska orðið Adam sem merkir líka maður – og vísar til jarðarinnar. Já, það er víst ögn jarðbundnari skýring. „Allt hold er mold“ orti séra Hallgrímur og hefði hann eins getað sagt: maður er mold, því þangað sækja frumtungurnar tvær hugtakið.

Upp og niður

Í manninum mætast því hugtökin tvö – upp og niður. Lýsir það ekki vel hugsunarhætti okkar þar sem við erum stöðugt með vísanir í þessar tvær höfuðáttir. Já, krossinn okkar í kirkjunni er jafnvel eins og minnisvarði um þessar andstæður. Teinréttur bendir hann upp til himins en tryggur hvílir hann á jörðinni. Og bendir svo út til beggja átta eins og til þess að minna okkur á stöðu okkar hér í þessum heimi: Jarðlegt eðli okkar og himneskt sýn er um leið áminning um hlutverk okkar gagnvart þeim sem í kringum okkur standa. Eru lágréttu ásarnir á krossinum ekki til þess að fá okkur til þess að hugleiða valkosti okkar hér í þessu lífi?

Er þetta ekki inntakið í orðum postulans þar sem hann segir:

Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa ykkur anda speki og opinberunar svo að þið fáið þekkt hann. Ég bið hann að upplýsa sjón hjartans svo að þið sjáið hver sú von er sem hann hefur kallað okkur til, hve ríkulega og dýrlega arfleifð hann ætlar okkur meðal hinna heilögu og hve kröftuglega hann verkar í okkur sem trúum.

Þarna talar Páll til þeirra sem eiga sér raunverulega sýn á æðri tilveru og hærra hlutskipti. Hann notar meira að segja hugtakið að „upplýsa“ þegar hann talar um erindi Guðs til okkar.

Uppstigning

Þessar hugleiðingar eiga við nú á þessum degi – uppstigningardegi þar sem við komum saman í helgidómnum og hugleiðum þá atburði sem lýst er í guðspjalli dagsins. Þegar við förum yfir trúarjátninguna með fermingarbörnunum segi ég þeim að telja alla hátíðsdagana sem taldir eru upp í þeim forna texta. Þau finna þá flesta á endanum, jólin, páskana, nefna líka föstudaginn langa, en iðulega fer dagurinn í dag framhjá þeim. Uppstigningardagur er ekki hátt skrifaður þótt hann sé almennur frídagur eins og vel kom fram í orðum barnanna. Á þessum degi minnumst við orðanna sem standa í Lúkasarguðspjalli:

Síðan fór [Jesús] með þau út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þau. En það varð, meðan hann var að blessa þau, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins.

Þarna lýsir guðspjallamaðurinn þessum atburði. Ekki er langur vegur á milli þessarar frásagnar og þess orðalags sem við notum frá degi til dags þegar við nýtum þessi hugtök upp og niður. Kristur steig upp til himna – hann var hafinn upp af þessari jörðu. Mannsonurinn, maðurinn sem er af jörðu er kominn – stefnir að sama skapi upp til himna. Þetta er hin sanna mennska.

Kirkjan

Maðurinn er hluti af jörðunni eins og heitið gefur til kynna. En hann hefur augun upp til fjallanna, hann lítur upp á við og horfir fram til æðri tilgangs og æðri tilvistar.

beygjum höfuð okkar í auðmjúkri bæn og beinum huga okkar upp til himins að æðri veruleika.

Á uppstigningardegi hugleiðum við þann veruleika þegar Kristur hélt á vit á hins æðri veruleika – hélt á fund hins æðsta og mesta sem ætíð hefur verið í huga okkar mannanna táknað sem upp. Og þessi dagur er forsenda þess að kirkjan varð að veruleika. Á dögum þegar leiðinn liggur niður á við beinir hún sjónum okkar upp, upp til hins almáttuga Guðs sem leiðir okkur hinn rétta veg.

Uppstigningardagur er dagurinn sem minnir okkur á það hvert við stefnum og hvar verðmæti okkar liggja. Sá sem á þetta sanna viðmið í sínu lífi veit hvað snýr upp og hvað snýr niður í samfélagi og í lífi einstaklings. Kristur steig upp til himna – hann er hjá Guði sem sendir kærleika sinn inn í líf okkar á hverjum degi. Sá kærleikur vekur í okkur lífsþróttinn, hann kallar okkur til þjónustu fyrir náungann og beinir augum okkar upp. Því við erum jú fólk – anþrópos – sem á sér dýrmæta og ómetanlega sýn um eitthvað sem er æðra og verðmætara en því sem hrörnar og hverfur. Eitthvað sem stendur ofar öllu öðru.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.