... engin lán í myntkörfu

... engin lán í myntkörfu

Aðventan og jólin eru merkilegur tími. Stundum er þetta tími gleði og birtu í sálinni, en, ef eitthvað er úr lagi gengið getur þetta verið erfiður tími. Aðventa og jól í skugga áfalla og missis eru dimmur tími. Hvernig förum við þá að? Hvað hjálpar? Er einhverja von?
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
01. desember 2008

Það er býsna dimmt og kalt þegar maður fer út þessa dagana. Veturinn er kominn og skammdegið sest að.

Og það er ekki laust við að það sé skammdegi í sálinni á okkur Íslendingum þessar vikurnar. Þjóðin hefur orðið fyrir áfalli. Og útlitið ekki bjart,- ekki í bráð.

Það er þungt yfir fólki, reiði, öryggisleysi, jafnvel sektarkennd hjá sumum, meðan aðrir reyna að réttlæta gerðir sínar fyrir sjálfum sér eða öðrum. Hvernig gátum við komið okkur í þetta klúður? Hverjum er þetta að kenna? Hvernig komust við út úr þessu? Svona er spurt – og margt hugsað.

Og nú er komin aðventa, aðdragandi jólanna. Höldum við gleðileg Jól?

Aðventan og jólin eru merkilegur tími. Stundum er þetta tími gleði og birtu í sálinni, en, ef eitthvað er úr lagi gengið getur þetta verið erfiður tími. Aðventa og jól í skugga áfalla og missis eru dimmur tími. Hvernig förum við þá að? Hvað hjálpar? Er einhverja von? Hvað með kristnina, hvað með Krist – á hann ekki að bjarga öllu? Er það ekki það sem þið segið alltaf prestar – sérstaklega á þessum árstíma? Bjargi hann nú bankakreppunni!

Kristin trú er engin ódýr lausn á erfiðum vanda. Kristur afnam ekki starfsemi víxlaranna þótt hann velti við borðum þeirra. En hann gaf okkur von. Leiðarljós til að fara eftir. Og hann lofaði að ganga með okkur þegar leiðin væri löng og ströng.

Jesús gekk inn í þorp þar sem voru hvorki bankar né verðbréf, kannski örfáir skildingar en margt af fátæku fólki, eflaust örtröð á markaðstorginu þar sem einn og einn hænsfugl var seldur, efnisbútur eða perlufesti, gömul leirkrukka, einhverjir höndluðu með fé á fæti. Eflaust gekk hann í gegnum mannþröngina, hlustaði á ys og þys, heyrði menn prútta um verð, heilsaði upp á ölmusufólkið sem sat í rykinu og betlaði. Og hann gekk á hvíldardegi inn í lágreista byggingu við markaðstorgið, opnar máða bókrollu og las:

Andi Drottins er yfir mér, því hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap. Boða bandingjum lausn...

Varla var hann að lofa láni? Ekki var hann að mæla með evru? Og þó voru áheyrendur hans undir ennþá þyngri hæl en Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, undir hæl erlendus herveldis með innlenda aurapúka sem leppa - valdamenn sem víluðu ekki fyrir sér að staursetja fólk ef það svo mikið sem æmti eða skræmti. Það er samt von – sagði Kristur. Lífið er samt þess virði að lifa því. Það eru til önnur verðmæti en mölur og ryð granda. Það að lifa, vera manneskja, - reyna að elska. Þora að vona, leitast við að treysta á þann Guð sem er nálægur, „í dagsins iðu, götunnar glaumi.“

Já, Þetta var tilboð Krists, - og þetta er enn sá gjaldmiðill sem hann býður:

Við hlið þér gengur sá sem er upphaf og endir alls, sá sem er höfundur tilverunnar, hin leyndardómsfulla nálgæð – Hann er þér nær einmitt þegar þú ert dýpst í lægðinni, þegar myrkrið í kringum þig verður nótt. Það kann að vera að bankarnir taki ekki svona verðmæti upp í pant. Nærveru, von, trú, kærleik. En hvað með það - mölur og ryð eru hvort eð er búin að éta upp alla peningana þeirra.

Það eru nefnilega til önnur verðmæti. Um það snúast aðventan og jólin. Það eru verðmætin sem Kristur boðar, Guð er þér nær. Guð með oss. Engin lán í myntkörfu, heldur gefið gratís; trú, von og kærleikur. Já, trú, von og kærleikur. Það eru þau ljós sem að engin fjármálamyrkur fá slökkt, þær krónur sem aldrei þarf að fleyta, þau hlutabréf sem aldrei verða verðlaus.

Náum okkur í þennan gjaldmiðil, gefum hann síðan hvert öðru á hátíð ljósanna. Í Jesú nafni. Amen.