Undir áföllum

Undir áföllum

Það er mikill hraði í kring um Jesú um þessar mundir. Dagar dæmisagnanna liðnir í bili; hvert hraðaupphlaupið rekur annað. Fyrst hafði hann farið til Nasaret, þar sem fólk hneykslaðist á honum – hvað vildi hann upp á dekk, sonur hennar Maríu og bróðir réttra og sléttra íbúa þorpsins? Jesús fór þaðan með orðunum: “Hvergi er spámaður minna meðtinn en í landi sínu og með heimamönnum”, greinilega þungt um hjartað.

Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um, meðan hann sendi fólkið brott. Og er hann hafði látið fólkið fara, gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið, var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum, því að vindur var á móti.

En er langt var liðið nætur kom hann til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu, varð þeim bilt við. Þeir sögðu: Þetta er vofa, og æptu af hræðslu.

En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.

Pétur svaraði honum: Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.

Jesús svaraði: Kom þú! Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: Herra, bjarga þú mér!

Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: Þú trúlitli, hví efaðist þú?

Þeir stigu í bátinn, og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru, tilbáðu hann og sögðu: Sannarlega ert þú sonur Guðs. Matt. 14. 22-33

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það er mikill hraði í kring um Jesú um þessar mundir. Dagar dæmisagnanna liðnir í bili; hvert hraðaupphlaupið rekur annað. Fyrst hafði hann farið til Nasaret, þar sem fólk hneykslaðist á honum – hvað vildi hann upp á dekk, sonur hennar Maríu og bróðir réttra og sléttra íbúa þorpsins? Jesús fór þaðan með orðunum: “Hvergi er spámaður minna meðtinn en í landi sínu og með heimamönnum”, greinilega þungt um hjartað. Það að næsta sem gerðist var að frændi hans og forgöngumaður var tekinn af lífi á grimmilegan hátt, í nokkurs konar samkvæmisleik hjá Heródesi og kvinnum hans. Þessar fréttir auka enn á sársaukann í brjósti Jesú. Grimmd mannanna er mikil.

Þegar að kreppir þurfum við á því að halda að vera í næði, safna kröftum og ná áttum að nýju. Þetta gerir Jesús einnig. Hann fer í báti á óbyggðan stað og vill vera einn. En fólkið, sem hefur séð máttarverkin hans og þráir lækningu og lausn inn í líf sitt, kemst að því hvar hann er og kemur streymandi til hans. Og Jesús víkur eigin kvöl til hliðar því hann kennir í brjósti um mannfólkið, læknar hin sjúku og gefur þeim að borða, annast um þarfir þeirra á líkama og sál.

En svo er líka kominn tími til að hann hugi að eigin hvíld og uppbyggingu. Jesús knýr lærisveinana til að fara tafarlaust burt á bátnum – orðalagið bendir til þess að þeir hafi verið óviljugir að fara frá honum - sendir svo fólkið brott og gengur til fjalls til að biðjast fyrir í einrúmi. Hraðinn er búinn að vera mikill, en nú er kominn tími til að hann nái sér í samtalinu við föður sinn á himnum.

Þetta hugtak – að ná sér – er athyglisvert. Við erum svo oft á þönum, svo önnum kafin við eitt og annað mikilvægt, að við gefum okkur ekki tíma til að huga að eigin sálarástandi, verðum í burtu frá okkur sjálfum. Þá þurfum við að fylgja fordæmi meistara okkar og gefa okkur sjálfum þessa gjöf, tíma til að vera ein með Guði. Þar, í samtalinu við félaga okkar og föður, getum við horfst í augu við sársaukann vegna erfiðleika lífsins, náð takti við sjálf okkur á ný og fengið kraft til að halda áfram. Þetta gerir Jesús, aftur og aftur, eins og guðspjöllin greina.

Strákarnir hans í bátnum – og stelpurnar ef þær voru með – er hins vegar komin í vanda. Þau eru fyrirliðalaus í bátnum og vita ekki hvað þau eiga að gera þegar hann tekur að blása duglega á móti. Það er engin tilviljum að við lesum þessa frásögn í dag, bænadag að vetri, við upphaf vetrarvertíðar samkvæmt gamalli hefð. Við Íslendingar vitum sem er að við eigum við ofurefli að stríða þar sem náttúruöflin eru; hún Rán hefur rænt okkur mörgum vöskum dreng. Sjóferðabænin við upphaf róðrar var og er viðurkenning á vanmætti mannanna í aðstæðum lífsins, traustsyfirlýsing til hans sem máttinn hefur og beiðni um að handleiðsla Guðs megi ráða í lífi og dauða.

Þarna eru þau þá, innsti hópur vina Jesú, alein í bátnum, og lífsháskinn er áþreifanlegur. Það er komið fram undir morgun, og enn er Jesús hvergi sýnilegur. Þá gerist hið ótrúlega, Jesús kemur gangandi á vatninu. Við getum spurt okkur að sannleiksgildi þessarar frásagnar. Við sjáum að lærisveinarnir sjálfir trúðu þessu ekki einu sinni. Þeir verða frá sér af hræðslu og Pétur sér ástæðu til að sannprófa það sem hann sér með eigin augum: “Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu”.

Ég er sjálf ekki í vafa um að þetta hafi raunverulega gerst. Hvers vegna ætti annars að vera sagt frá því og þessu sérkennilega atviki með Pétur á röltinu, sem á eftir kemur? Lærisveinarnir eru reyndar einir til frásagnar, en það að þeir þora síðar að segja frá eigin hræðslu við þennan atburð – nokkuð sem við hefðum flest skammast okkar fyrir að segja frá – sýnir hve mikil áhrif ganga Jesú á vatninu hefur haft á þá. Raunvísindalega get ég ekki útskýrt þetta, en sé það í beinu samhengi við einveru Jesú á fjallinu, í löngu samtali hans við föðurinn, þar sem hann fékk innri styrk og náði að jafna sig. Þegar sambandið við Guð er í jafnvægi, bænalínan ótrufluð er allt hægt. Við höfum séð það á síðustu handboltadögum hvað einbeitingin skiptir gríðarlega miklu máli. Tapist hún er leikurinn tapaður (Guð veri með strákunum okkar í dag).

Nú, en áfram göngum við með þeim félögum á vatninu. Pétur fær yfir sig eitt ofmetnaðarkastið og verður að fá sannanir eins og lærisveinar allra tíma. Hann stígur því út á öldurnar til Jesú og gengur bara vel, þangað til hræðslan nær tökum á honum. Við hendum gaman að þessu: “Ég trúi, ég trúi”, segir gamansagan að Pétur muldri fyrir munni sér, þar til hann lítur niður og verður að orði: “Þessu hefði ég bara aldrei trúað”. Með það sekkur hann auðvitað. Þarna áttar hann sig á hættunni sem hann er í og hættir að treysta Jesú. Þetta er spurning um traust; ekki að við eigum að leggja í slíkar gönguferðir, heldur að við þorum að taka þá áhættu sem stundum er nauðsynleg í trausti til Guðs – og glötum ekki traustinu á miðri leið.

Neyðarkallið, sem brýst fram úr munni Péturs eins og ósjálfrátt, kemur honum á rétta kjöl: “Herra, bjarga þú mér!”, segir hann þegar hann er að sökkva. Könnumst við við þetta? Allt virðist tapað, engin leið út, en hróp hjartans í einlægni nær að setja okkur í rétt samhengi á ný. Bænin þarf ekki að vera flókin eða fínt orðuð, bara nafnið Jesús nægir. Og Jesús réttir út höndina í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, og hjálpar okkur upp í bátinn, kemur lífi okkar í farveg að nýju. Báturinn getur táknað ýmislegt, líf okkar, kirkjuna, söfnuðinn, samheldnina, liðsheildina, sem við gerum okkur ekki án. Ekkert okkar spilar lífsleikinn eitt. Við þurfum á samhenginu að halda, öðru fólki – og Guði. “Með Jesú í bátnum get ég brosað í stormi”, syngja börnin – og svo verður meira að segja vindurinn að láta í minni pokann fyrir honum. E.t.v. heldur stormurinn áfram í hinu ytra, en hann nær ekki að koma róti á okkar innra þegar Jesús er með.

Og nú hægir á hraða frásagnarinnar. Ekkert liggur á. Leikurinn er unninn. Við finnum hvíldina færast yfir eftir öll lætin, bæði hjá Jesú og lærisveinunum. Hann hafði fengið að reyna höfnun og sorg, gefið sig allan í umhyggju við fólkið, en sótt sér nýjan styrk í samtalinu við föðurinn. Lærisveinarnir höfðu haft áhyggjur af honum í öllu þessu, fylgt honum eftir þar til hann vildi vera einn og svo lent í lífshættu á vatninu, orðið ofsahræddir. Mikið hefur gengið á og mikill er léttirinn þegar allt er af staðið – í bili. Þá lægði vindinn. Þessum áþreifanlegu umskiptum, sem verða með komu Jesú inn í aðstæðurnar svarar fólki í bátnum með tjáningu trúarinnar: Sannarlega ert þú sonur Guðs.

Við lifum á stormasömum tímum. Mikið gengur á í umheiminum og umhverfi okkar; stríðsógn yfirvofandi, hálendið í hættu. Og hvert og eitt okkar á sína kreppu, sinn sársauka, sinn storm, sem ógnar jafnvægi lífsins og veldur kvíða. Leitum lognsins hið innra með því að fylgja dæmi Jesú, gefa okkur sjálfum næðisstund að gjöf, fara afsíðis – eins og við gerum hér í kirkjuskipinu í Laugarnesinu í dag – til að ná okkur, jafna okkur, safna kröftum í samtalinu við himneskan föður. Þá fáum við líka að reyna hitt, sem hluti lærisveinahóps Jesú, að hann kemur til móts við okkur, heyrir kall okkar og lægir vindinn. Megi svar okkar verða – sem þeirra – lofgjörð og játning trúar: Sannarlega ert þú sonur Guðs.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

María Ágústsdóttir er héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Þessi prédikun var flutt í útvarpsmessu í Laugarneskirkju 2. febrúar 2003.