Boð(orð) og bönn

Boð(orð) og bönn

Eru boðorðin 10 ef til vill bara leiðinleg og heftandi bönn? Komumst við lengra og eigum skemmtilegra líf ef við sleppum því að fara eftir boðorðunum 10? Erum við sjálf besti mælikvarðinn um rétt og rangt?
fullname - andlitsmynd Guðni Már Harðarson
02. maí 2008

„En kristinn trú er svo leiðinleg hún bannar manni allt. Maður má ekki gera neitt skemmtilegt. Sjáðu bara þessi boðorð, minna á ömurlegt foreldri sem bannar manni allt, það er leiðinlegt að vera trúaður, mega ekki gera neitt. Maður á frekar að gera það sem maður sjálfur vill og finnst sniðugt.“

Þannig talaði fermingarbarn við mig fyrir nokkru síðan. Ég kunni að meta hreinskilni þess. Blaut tuska í andlitið fær mann til að hugsa hlutina uppá nýtt.

Eru boðorðin 10 ef til vill bara leiðinleg og heftandi bönn? Komumst við lengra og eigum skemmtilegra líf ef við sleppum því að fara eftir boðorðunum 10? Erum við sjálf besti mælikvarðinn um rétt og rangt? Ég heyrði einu sinni af strákum á strandbryggju á sólríkum degi, horfa á gamlan mann setja upp skilti með áletruninni: Syndið ekki í sjónum! Annar drengjanna tilkynnti hinum að gamall kall með forljótt skilti gæti nú ekki bannað honum neitt, ef hann langaði til að synda í sjónum, myndi hann gera það. Að svo búnu hljóp hann á enda bryggjunnar og stakk sér til sunds. Gamli maðurinn rauk til, hljóp í átt til drengsins og kallaði: ,,Það er bannað að synda hérna” og henti til hans björgunarhring. ,,Já, mér er alveg sama, ég ræð sjálfur hvað ég geri” ,,Já, en sjáðu til það eru hákarlar hérna allt í kring og þess vegna setti ég þetta skilti upp. Ég vil engum svo illt að hann verði étin af hákarli. Drífðu þig ég skal draga þig að landi.”

Gamli maðurinn setti skiltið ekki upp af mannvonsku heldur kærleika.

Boðorðin byrja flest á því að við eigum ekki að gera eitthvað, ekki að ljúga, ekki að drepa, ekki að stela, ekki að girnast. Guð setti boðorðin ekki fram til að klekkja á okkur, nei Guð setti boðorðin fram vegna þess að honum þykir vænt um okkur og hann vill veita okkur leiðsögn sína, kenna okkur hvernig við lifum árangursríku og góðu lífi.

Ein kjarnasetningin í biblíutexta boðorðanna gleymist gjarnan, það er millisetningin sem kemur á undan fyrsta boðorðinu, ástarjátning Guðs til okkar: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu, að henni lokinni hefst fyrsta boðorðið: þú skalt ekki aðra Guði hafa. Hér er vísað til þess þegar Guð bjargaði þjóð sinni úr þrældómi í Egyptalandi, þetta er ástarjátning: ég elska þig, þess vegna bjargaði ég þér og þess vegna leysti ég þig frá illsku.

Þessi orð Biblíunnar eru í algjöru samhengi við það sem uppeldisfræðingar kenna í dag. Þegar börnum er sagt til, er farsælast að útskýra fyrir þeim af hverju við viljum ekki að þau geri eitthvað, og ástæðan er væntumþykja.

Af því að mér þykir vænt um þig og ég vil alls ekki að þú meiðir þig, vil ég ekki að þú leikir þér með eldhúshnífinn, þú gætir skorið þig illa.

Á sama hátt setur Guð fram leiðbeiningarnar boðorðanna, strax að lokinni ástarjátningu. Guð er því uppeldisfræðilega í mjög góðum málum ;-)

Engan þekki ég sem hefur tapað á því fara eftir boðorðunum, engan sem hefur náð minni árangri af því að hann eða hún, vandi sig af því að ljúga, lagði af öfund og fór að njóta gjafa sinna og samgleðjast með náunganum.

Boðorðin eru sett fram sem leiðbeiningar, Biblían er handbók um lífið, svona nærðu árangri, ég er með þér segir Guð, ég skal leiðbeina þér.

Vandamálið er hversu auðvelt er að loka á sannleikann, við eigum öll auðvelt með að fylgja ekki boðorðum Guðs, gleyma leiðbeiningunum. Að sitja sundruð frá Guði, lifa í synd. En sem betur fer þá þurfum við ekkert nema að opna fyrir Guði og anda hans og þá skiljum við hvað Guð vill með okkur, að lífið hefur yndislegan tilgang, að Guð gaf okkur boðorðin til að leiðbeina okkur, að Jesús fórnaði sér fyrir okkur og að hann vakir yfir okkur, þráir að styrkja og okkur styðja. Hann sameinar okkur Guði.

Guð gefi okkur öllum visku og náð til að heyra Guðs orð og varðveita það.