„Hvað felst í nafni?“
Var það ekki þannig sem Júlía blessunin spurði í leikriti Shakespeares og velti vöngum yfir því hvort rós myndi ekki ilma jafn vel þótt hún héti eitthvað annað? Og hennar heittelskaði Rómeó væri henni jafnkær þótt hann afsalaði sér nafni sínu og ætt og harmur þeirra þá úr sögunni. Spurningin hæfir vel á þessum magnaða degi. Eitt nafn heyrir til fortíð og annað nýtt er orðið að veruleika, já „hvað felst í nafni?“
Nýtt ár, ný markmið
Ekki verður annað sagt en að ártalið sem við eigum eftir að nota svo oft á næstu 12 mánuðum líti vel út á blaði. „2008“ býr yfir snotru samræmi, tölurnar allar jafnar, þversumman er 10 og yfir þessu öllu er einhver friðsemd! Það gildir hið sama og það og önnur ár, að við veltum því fyrir okkur hvað það boðar – eins og hvítvoðungur sem liggur í faðmi okkar. Í honum mætast svo mörg fyrirheit og allt okkar starf er á byrjunarreit. Engin mistök hafa enn verið gerð og því höfum við þá tilfinningu að nú sé tækifæri til þess að gera vel – jafnvel enn betur en fyrri árin.
Þeir eru vafalítið margir sem risu úr rekkju 1. janúar 2008, með þá tilfinningu að um leið og þetta nýja ár hefur inngöngu sína opnist þeim tækifæri til þess að gera betur en fyrri árin. Nýtt ár – ný markmið – nýjar áskoranir. Menn líta kannske í spegilinn, standa á baðvigtinni, horfa yfir verkefnin, sjá aðkallandi framkvæmdir á heimilinu, ókláruð markmið, skrifuð á blaði, ef til vill í dagbókinni frá síðasta ári eða þarsíðasta eða dvelja einhvers staðar í hugskotinu og geta valdið ama og óþægindum þegar minnst varir. Það býr heilmikið í nafninu – getum við sagt í því samhengi! Lífið breytist til hins betra og það er eins og menn séu nýir og lausir við gamla lesti þegar ártalið hefur fengið nýtt nafn.
Í Morgunblaðinu í gær voru meira að segja ráðleggingar til þessara hugumstóru einstaklinga sem strengja áramótaheiti. Karlar eiga að segja sér mælanleg markmið en konur almennari. Í kjölfarið fylgdi lítt uppbyggileg tölfræði um það hversu vel meðaljóninum tekst að standa við stóru orðin. Samkvæmt henni virðist full þörf á því að strengja ný heit að ári liðnu.
Var hann látinn heita Jesús
Guðspjallstexti nýársdags er aðeins eitt vers: „Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi.“
Út af þessu versi er lagt í kirkjum landsins og virðist nú í fljótu bragði ekki vera úr miklu að moða eða hvað? En svo merkilegt sem það nú er þá snýst þessi stutta frásögn um þá sömu hluti og við veltum fyrir okkur á tímamótum sem þessum. Hún fjallar um það merkilega fyrirbæri sem nafnið er og hvað í því felst – rétt eins og spurt var í Verónuborg forðum. Þarna er honum gefið nafn í samræmi við þau fyrirheiti sem Maríu höfðu verið gefin. Þetta er ekki lítið nafn.
Það er þetta nafn sem kristnir menn hafa að leiðarljósi í sínu lífi. Þegar þarna kemur við sögu er hann ekki farinn að mæla hvað þá vinna þau verk sem áttu eftir að breyta heiminum. Nei, þarna mætir guðdómurinn manninum í þeirri mynd sem er hvað viðkvæmust og veikust – en um leið einni þeirri máttugustu og öflugustu sem við þekkjum – allt eftir því hvernig á málið er litið.
„Barn er oss fætt“
Frelsarinn mætir okkur á þeirri stundu í allri þeirri verðandi sem í hvítvoðungnum býr. Þar sem eitt bros getur birtu í dagsljós breytt og kallar fram í okkur allar þær kenndir sem eru hvað göfugastar og dýrmætastar í fari okkar: „Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn, á hans herðum skal höfðingdómurinn hvíla.“ Og hann fær þetta nafn á þeirri stundu. Þetta er textinn sem fjallað er um á nýársdag. Nafn þetta hljómar nú út um gjörvalla heimsbyggðina og hefur haft meiri áhrif en nokkurt annað nafn fyrr og síðar.
Við ávörpum hvítvoðunga við helga skírn hér í kirkjunni og helgum þau um leið nafni hans sem þarna eru um rætt. Við berum spurninguna undir fermingarbörn hvort þau vilji gera hann að leiðtoga lífs síns. Við helgum brúðhjón nafni hans í bæn fyrir framtíð þeirra og farsæld allri. Og loks kveðjum vini og vandamenn hér í kirkjunni hinstu kveðju með söknuði og sorg en um leið þeirri björtu og fallegu von sem orð hans og fyrirheiti veita okkur. „Í Jesú nafni“ – segjum við þegar við ljúkum bænum okkar á ögurstundum og í önnum hversdagsins.
Kristin trú og áramótaheiti
„Og var hann látinn heita Jesús“ Kristin trú er trú á hann. Til þess að útskýra hvað í henni felst er nærtækt að finna samanburð: Hún er um margt frábrugðin þeirri kennd sem grípur okkur þegar við lítum í spegilinn að morgni nýársdags. Sjáum kannske úfið ár, bauga undir augum, erum ekkert alltof sátt við neysluna og óhófið á hátíðinni og dagana þar á undan, bítum á jaxlinn og lofum því að frá og með þessum degi verði líf okkar gjörbreytt! Þetta er ekkert ókristilegt, en er samt í eðli sínu sér frábrugðið því lífi sem kristin trú vill láta af sér leiða.
Því þegar kristin manneskja lítur í spegil sér hún þvert á móti nokkuð sem er dýrmætt og helgað – hvert svosem ástandið er! Hún sér sköpunarverk Guðs og hún veit og trúir því að í hjarta sínu hefur hún dýrmæta köllun, hlutverk sem hún vill leitast við að uppfylla. Hún sér í náunga sínum vettvanginn til þess að uppfylla þá kröfu. Þetta er kafan um kærleika. Krafan um að létta fólki byrðarnar skapa betri heim efla samstöðu og samhygð.
Trú og lögmál
Þannig segir Páll postuli í textanum sem Hjördís las hér áðan: „ Áður en trúin kom, vorum vér í gæslu lögmálsins innilokaðir, þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist. Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú. En nú, eftir að trúin er komin, erum vér ekki lengur undir tyftara.“ Við látum ekki lengur stjórnast af ótta og þörf fyrir umbun fyrir hvert verk. Kristið siðgæði er boðskapurinn um það að viljinn til þess að vinna góð verk komi að innan. Hann sé afleiðing góðra hugsana, góðs vilja, góðra og uppbyggilegra hugmynda um það sem er eftirsóknarvert og göfugt.
Mikil blessun er það að þessi boðskapur skyldi hafa náð að móta einstaklinga og samfélög. Úr hvaða menningarheimi skyldi krafan um frelsi einstaklingsins hafa sprottið? Skyldi ofangreind hugsun hafa haft þar áhrif? Hvað hafði sá hugsuður drukkið í sig sem kallaði það skilyrðislaust skylduboð að breyta einungis eftir þeirri lífsreglu sem við myndum vilja að verði að almennu lögmáli? Skyldi gullna reglan og tvöfalda kærleiksboðorðið hafa legið þar til grundvallar? Hefur þjónusta kirkjunnar við fátæka ekki haft sín áhrif á menningu og siðferði?
Kristið siðgæði
Menntamálaráðuneytið tekur út hugtakið kristið siðgæði úr nýjum grunnskólalögum. Hvað setur það í staðinn? Umburðarlyndi, virðing og tillitssemi. Um leið staðfestir löggjafinn að þarna sé einungis verið að umorða ákveðna þætti því það er einmitt þetta sem kristin trú hefur miðlað kynslóðum saman. Er það ekki sama hugsunin og Júlía bar fram í leikritinu? Að varpa af sér nafninu og geta í kjölfarið lifa í sátt og samlyndi. Ef sú er raunin þá má sjá enn eina staðfestingu þess lífgefandi boðskapar sem kristinni trú fylgir þótt hana megi ekki nefna á nafn. En fjölbreytnin og fjölhyggjan í nútímanum gerir öðru fremur þær kröfur til okkar að við breytum nöfnunum. Innihaldið má vera hið sama.
Nýársheiti alþjóðasamfélagsins
Gleðilegt ár ágætu kirkjugestir. Þetta er árið 2008. Nýtt ár með nýju nafni og við fögnum því með margvíslegum hætti. Sameinuðu þjóðirnar kalla það Alþjóðaár tungumálsins. Tilefnið er ekki gott. Þótt fjölbreytileikinn verði æ meiri á sumum sviðum og tækninni miðar áfram fækkar tungumálunum ört. Fjöldi þeirra hefur horfið í gleymskunnar dá og fjölmörg eru aðeins til á vörum örfárra einstaklinga. Það er einmitt hin hliðin á framþróun og vexti – sem svo oft vill gleymast. Þetta er aldrei svo einsleitt að fórnirnar komi ekki í staðinn. Við verðum ríkari á sumum sviðum en svo miklu fátækari á öðrum. Nei, skyndilega vakna menn upp við vondan draum og átta sig á því að eitthvað dýrmætt hefur farið forgörðum. Tungumálið, skógarnir, vötnin, æskan – þetta eru allt verðmæti sem við vitum að stafar ógn af þeirri markvissu framþróun sem við gjarnan köllum svo.
Gegn þessu vill alþjóðasamfélagið sporna. Það þarf þó ekki mjög gagnrýninn huga til þess að sjá sjá þar sitthvað sameiginlegt með fögrum fyrirheitum okkar að morgni nýársdags! Lykillinn að breyttu og betra lífi byggir jú ekki á því að mæna á veikleika sína og ákveða í einni andrá að breyta þeim. Svarið felst í því að skynja sannleikann í brjósti okkar, velja réttu grunngildin, spyrja okkur að því hvað er eftirsóknarvert og hvað ekki – að velja rétta leiðsögn í lífinu. Sú leiðsögn býr í nafni Jesú Krists. Megi íslensk þjóð fylgja nafni hans nú og um alla framtíð. Í Jesú nafni amen.