„Vertu nú hér minn kæri“ kvað skáldið úr Heydölum. Þetta er bæn, yfirlýsing um að Jesús verði ekki aðeins förunautur okkar í lífinu heldur eigi sinn stað í sjálfu hjartanu. Já, svo kært er það okkur þetta líffæri að þegar við viljum draga fram kjarna einhvers, miðju þess og öxul þá tölum við um hjarta.
Hjartatal
„Þetta er hjartað í húsinu“ getum við sagt og bendum á þann stað þar sem heimilisfólkinu líður best. „Þessi persóna er hjartað í sögunni“ og þá vitum við að frásögnin stendur og fellur með þeirri söguhetju. Aðrar mættu mögulega missa sín.
En hvernig líður okkur í hjartanu? Ég leyfi mér að spyrja slíkra kjarnaspurninga nú á jólanóttunni þegar kyrrð er komin yfir og við höfum hvert og eitt leitast við að skapa þá umgjörð um líf okkar og tilveru sem við getum best unnið og mótað. Þannig höfum við í það minnsta flest leitast við að undirbúa hátíðina.
Jólaguðspjallið getum við skoðað í því samhengi. Það fjallar um samfélagið sem er hverri manneskju nauðsynlegt. Það snertir á kjarnanum. Miðja þessa texta og þyngdarásinn er sjálf jatan þar sem barnið hvílir. Og það er einmitt þessi jata sem skáldið úr Heydölum yrkir svo fallega um þegar hann flytur sína bæn: „Vil ég mitt hjarta vaggan sé, vertu nú hér minn kæri.“
Hjartasár
Einu sinni heyrði ég af konu nokkurri sem hafði mátt þola mikil áföll í lífinu. Sárar minningar sóttu á hana, brostinn trúnaður og brotið traust settu mark sitt á líðan hennar og samskipti við aðra. Þá hugleiddi hún þessa frásögn – jólaguðspjall Lúkasar. Hún velti fyrir sér þeim knappa texta sem dregur fram hið jaðarsetta fólk.
Þar er talað um hirða sem dvöldu þarna í nóttinni innan um ósýnlegan háska og hættur. Hún hugleiddi setninguna: „Því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsinu“ og þá var eins og hún skynjaði sömu tilfinningu og hafði svo oft sótt á hana sjálfa. Já, hvar átti hún stað í tilveru sinni? hvert var hennar heimili þegar fokið virtist vera í hvert skjól.
Og hugur hennar beindist að hvítvoðungnum, sem hlýtur að vera sú lífvera á plánetunni sem á sér minnsta vörn í hörðum heimi. Ungviði skyldra tegunda brölta á fætur skömmu eftir komuna í heiminn, fljúga jafnvel nokkurra mánaða gömul yfir hálfan hnöttinn. En þarna í þessum óskaplega veikleika er sá sem, „best hefur andarsárin grætt.“
Hvað er það við ungabarnið sem getur með einhverju móti réttlætt það að hinn almáttugi mæti mannkyni í slíkri mynd. Við þekkjum goðsagnir af máttugum fulltrúum annarra heima sem vitja jarðarinnar og koma þá gjarnan með þrumugný og miklum mætti. Þar fer ekki á milli mála hver hefur töglin og haldirnar á þeim mótum og nærstaddir fyllast ótta.
Hugsuðir hafa margir hverjir talið sig hafa fundið höggstað á kristinni trú að hún upphefji hið veika og smáa. Þannig er mælikvarðinn á gott líf ólíkur því sem mörgum kann að þykja vera hið náttúrulega ástand – nefnilega að lífverur keppa hver við aðra upp á líf og dauða um lífsviðurværi sitt. Hið nýfædda barn stendur illa að vígi í slíkum hildarleik. Strangt til tekið þá býr það að engri reynslu, hefur nánast enga stjórn á líkama sínum, kann ekki neitt, getur nánast ekki neitt.
Hver eru skilaboðin til okkar þegar við hlýðum á slíka frásögn? Og til viðbótar bjargarleysinu þá er það lagt ,,í lágan stall“ sem er auðvitað fóðurstallur fyrir húsdýrin. Já, úfinn og óhreinn, hlýtur hann að hafa verið.
Já, kornabarnið, tákn jólanna, er svo háð umhverfi sínu að sú staðreynd hlýtur að hafa mótað hugmyndir okkar og samskipti. Og þar kemur jú að því eina sem það kann – sem er að vekja ást og umhyggju hjá þeim sem næst því standa. Þar eru ósýnleg tengsl sem draga fram það besta í hverri manneskju, hvort heldur það eru foreldrar eða gestkomandi. Því til áréttingar þá syngur englaherinn um frið á jörðu og velþóknun Guðs með mönnunum.
Skilaboðin sem jólin miðla til okkar eru sennilega þau að í veikleika okkar leynist sá styrkur sem fær okkur til að yfirstíga mótlæti þessa heims eða annars. Til þess að geta alið önn fyrir hinu varnarlausa lífi þarf heilt samfélag. Hér ber hver og einn sína ábyrgð og þjónustan veitir meiri og betri lífsbjörg en samkeppnin. Þannig hafa þessar aðstæður mótað okkur, líkama okkar sem er í samhengi annarra dýra, svo lítils megnugur að standa í ströngum átökum en er býr að umhyggju og hluttekningu. Því, án þeirra þátta ætti barnið sér enga lífsvon.
„Vertu nú hér minn kæri“ kvað skáldið. Ég nefndi þessa konu hér í upphafi, henni fannst fokið í flest skjól í lífi sínu og hjartað hennar, þessi kjarni sálarinnar, svo tætt og kámugt. Hún hugleiddi þessa frásögn og hugur hennar nam staðar við stallinn lága, jötuna. Já, þarna lá Jesúbarnið og kallaði á hlýju okkar og umhyggju. Henni varð ljóst að jatan var í eins og hjartað, úfið og óhreint, en þar hafði frelsarinn tekið sér bólfestu. Hann gerði ekki kröfur um fullkomnun. Nei, hann tók sér stöðu með þeim sjálf höfðu verið utangarðs og útilokuð.
Og þannig getur hann mætt hverju okkar á helgum jólum.
Guð blessi okkur og gefi okkur sannan jólafrið.