Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Amen.
Frelsi og eftirlit Það var fyrir talsvert mörgum árum, að til stóð að stofna dagblað. Var eðlilega að mörgu að hyggja í þeim efnum, meðal annars að verkfærunum sem nota átti. Um þetta leyti var tölvuvæðingin rétt að handan við hornið og þess vegna læddi einhver því út úr sér á einum undirbúningsfundinum hvort ekki væri ráð að kaupa tölvur handa mannskapnum; þær myndu létta blaðamönnum og öðru starfsfólki vinnuna bara töluvert; En hann var snarlega kveðinn í kútinn með það.
Tölvur! Ekki nema það þó, þessar tölvur væru tískubóla sem spryngi fyrr en varði framan í okkur. Rándýr leikföng. Nei, engar tölvur. Kaupum frekar kúluritvélar. Flottustu gerð af kúluritvélum.
Ég er ekki viss um að þetta dagblað hafi orðið langlíft; hafi það þá einhvern tíma verið til; kannski er hér á ferðinni bara ein af þessum nútíma flökkusögum sem hljómar í senn bæði skemmtilega og óþægilega líklega. En ég réð ekkert við það að þessi saga kom upp í hugann nú um daginn þegar ég heyrði af því að rússneska leyniþjónustan væri farin að hamstra ritvélar. Ástæðan er vitaskuld sú að uppljóstranir Snowdens nokkurs, sem nú situr fastur á flugvelli í Rússlandi, hafa leitt í ljós umfangsmiklar njósnir á samkiptum manna gegnum tölvupósta þeirra og önnur samskipti sem eiga sér í gegnum tölvurnar. Rússarnir ætla sem sé að hverfa aftur til fortíðar, að þessu leytinu til; það er víst að sumu leyti snúnara að hakka sig inní pappírsörk sem búið er að renna í gegnum Triumph-kúluritvél heldur en tölvupóstinn.
Tölvurnar hafa sannarlega gjörbreytt lífi okkar og eru vissulega miklu stærra stökk inn framtíðina heldur en gúmmistígvélin voru á sínum tíma fyrir fótraka alþýðu manna eða gervitennurnar eftir tíma hvítasykurs og fyrir almenna tannhirðu – mér liggur við að segja þær vera meiri byltingu heldur en þvottavélina; já tölvurnar hafa sannarlega breytt lífi okkar á algerlega óafturkræfan hátt, en þær, eins og svo margt sem við mennirnir gerum, er hægt að misbrúka; það er eins og einhver skuggahlið sé á öllu því sem við gerum. Segja má að tölvutæknin geri hvort tveggja í senn; að auka frelsi okkar í aðra röndina en um leið að hamla frelsi okkar á öðrum sviðum. En tæknin sjálf er ekki vandamálið heldur hvernig henni er beitt og er það ekki æði oft þannig að ef tæknin býður uppá misbrúkun þá muni hún eiga sér stað? Vegna þess að það eru jú breyskar og syndugar verur sem véla þar um.
En hvað um það, Snowden er enn kyrrsettur á flugvelli í Rússlandi því hann taldi að Stjórnvöldin hefðu misnotað möguleikana sem tæknin bauð uppá, ruðst með ótækum hætti inn í einkalíf fólks.
Það er ekkert nýtt að stjórnvöld vilji fylgjast með þegnunum sínum. Réttlætingin á því er gjarnan sú að ríkisvaldið beri ábyrgð á heill og öryggi þegnanna og því kunni það að vera óhjákvæmilegt á stundum að fara eilítið á bak við þá. Þau tilfelli geti komi upp að nauðsyn ber til að ganga á réttindi borgaranna, einmitt til að verja réttindi þeirra og vernda fyrir utanaðkomandi ógn. Já, bæði vernda þá fyrir sjálfum sér og öðrum.
En hér á bak við ómar samt alltaf spurningin sem Juvenalis setti fram á sínum tíma; Quis custodiet ipsos custodes? Hver á að fylgjast með vörðunum?
Æ oftar komið upp undanfarið að það er litli maðurinn, starfsmaður á plani, sem blæs í flautuna og sviptir hulunni af því sem leynt átti að fara. Enda er það svo að ef tæknin er fyrir hendi þá geti fleiri fært hana sér í nyt en Stjórnvöldin ein. En hér er um vandratað meðalhóf að ræða; hvenær verður eftirlitið – sem getur átt rétt á sér að vissu marki - að hreinum njósnum; hvenær er kominn tími á að blása í flautuna og segja, þetta er nú ekki í lagi?
Ég ætla mér ekki þá dul að halda að ég viti til hlítar hvernig mál Snowdens er vaxið; vafalítið er fjöldamargt í hans máli sem við vitum ekkert um; hann hefur brugðist trúnaði vinnuveitenda sinna; hugsanlega hefur hann stefnt einhverjum í hættu með uppljóstrunum sínum og það er ábyggilegt að eftirlit stjórnvaldanna hefur komið í veg fyrir að hryðju – og glæpaverk yrðu framin. En hins vegar er það nokkuð hlálegt að stjórnvöldin vilja refsa honum fyrir að sýna í verki að hann vilji einmitt verja friðhelgi og einkalíf borgaranna; þá sömu friðhelgi og frelsi einstaklinganna, sem einkenna það þjóðfélag og þjóðskipulag, sem stjórnvöldin telja sig vera að verja með eftirlitinu. En ég reikna með að býsna margir láti sér það í léttu rúmi liggja þótt einhver sé að fletta í gegnum fésbókina þeirra eða jafnvel í gegnum tölvupóstinn; þeir hafi hvort eð er ekkert að fela. Það er nefnilega mikið frelsi í því fólgið að vera með hreinan skjöld, frelsi hins ráðvanda felst nefnilega í því að hafa ekkert að fela – ekkert ósvipað og að ríkidæmi Diogenesar fólst í því að hann hafði engu að tapa. Að því sögðu er rétt að undirtrika að maður má hafa sitt í friði þótt þar séu engin leyndamál. Slíkt hlýtur að teljast til mannréttinda.
En raunar má snúa þessu í hina áttina líka; ef Stjórnvöldin hafa ekkert að fela í þessum efnum, ef eftirlitið var aðeins það sem kalla má eðlilegt eftirlit – þá ættu þau, að geta verið þokkalega róleg; samviska þeirra hlýtur þá að vera eins hrein og hún getur verið við þessar aðstæður. “ef þú gerir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur” segir í helgri bók. En vafalítið hafa menn ekki enn orðið sammála hvað teljist eðlilegt eftirlit.
Afstætt frelsi? En allt þetta vekur óneitanlega upp spurningar um frelsi mannsins. Líklegast hefur valfrelsi mannsins sjaldan verið meira en það er einmitt nú um stundir. Og fyrir tilstilli internetsins hefur heimurinn skroppið saman, upplýsingar ættaðar úr fjarrum álfum eru aðeins í eins gúggls fjarlægð; nemendur sækja um skóla hinum megin á hnettinum, neytendur kaupa kaffibaunir eða bækur eða hvaðeina á netinu og svo mætti lengi telja. Möguleikar í neyslu, menntun og viðskiptum hafa sjaldan verið meiri. Að maður nefni nú ekki afþreyinguna. Og í sjálfu sér er allt það afar gott. Það er gott að eiga val um hvað maður gerir og hvernig maður hagar lífi sínu.
En vafalítið fylgir frelsinu ábyrgð sem stundum er erfitt að rísa undir; þeirri skoðun hefur verið hreyft að allt þetta frelsi sé nútímamanninum ofviða. Valið sem maðurinn hefur verður að kvöð og erfiðri skyldu; hann verður að taka afstöðu til allra handana atriða sem honum finnst kannski ekki skipta svo miklu máli; kvöðin um að græja allt sjálfur, skapa sér framtíð og líf og allt eigi þetta að koma áreynslulaust. Alltaf kúl og kasúal. Frelsið verður að lögmáli, sem breytist að forminu til en ekki innihaldi. Og þegar reynt er að vinda ofan af því með því að segja við hann: “þú mátt” í staðinn fyrir “þú átt.” þá upplifir hann ekki frelsið heldur kvöð og nauðung.
En er þetta valfrelsi neytandans það sem við höfum í huga þegar talað er um frelsi mannsins?
Ég er ekki frá frá því að í deilunni um uppljóstranirnar birtist þráin eftir því frelsi sem felst í því að fá að vera í friði; að geta haldið öllu sínu útaf fyrir sig.
Í Jóhannesarguðspjalli segir Jesús: Sannleikurinn muni gera yður frjálsa. Þar talar hann um sjálfan sig; hann er vegurinn sannleikurinn og lífið, að í honum er frelsi og hið sanna líf. Þegar sá veruleiki lýst upp fyrir manni, er eins og heimssýnin breytist; valfrelsis-vinkillinn víkur fyrir þess konar frelsi sem talar raun miklu dýpra til veru mannsins og tilvistar. Og þær ákvarðanir sem maðurinn tekur byggjast á þessu sambandi manns og Guðs. Maðurinn áttar sig á upphafi sínu og marki og í ljósi þess þorir maðurinn að vera sá sem hann er; þetta snýst um að þú hafir hugrekki til að vera – í samfélaginu við Guð. Ætli það heiti ekki á nútíðarmáli að vera ekki meðvirkur; alla vega á þetta tvennt sér ágætlega stórt sniðmengi. En Snowden situr sem sé fastur í flugstöðinni þarna austur frá og kemst hvorki lönd né strönd; er de facto eins og fangi. En að sínu leyti er hann frjáls. Hann vissi hvað hann stendur fyrir; honum ofbauð það sem hann varð vitni að; við getum haft ólíkar skoðanir á því hvort hann hefði átt að kyngja því sem hann varð áskynja eða klaga það, en hann taldi sig alla vega ekki geta þagað yfir því sem hann varð vitni að. Og að því marki stendur hann með sér. Hann valdi þann sannleika sem hann taldi að myndi gera hann frjálsan, þótt það kostaði hann erfiðleika og hömlur á ferðafrelsi hans.
Kemur þá Tertúllíanus kirkjufaðir upp í hugann en hann sagði í riti sínu Ad Martyres (til píslarvottanna) að hinar ytri aðstæður geti í raun verið miklu stærra og meira fangelsi en það sem píslarvottarnir sátu í. Þar væri andinn í það minnsta frjáls. Og maðurinn sáttari við sig, því hinn endanlegri dómur væri alvarlegri en hinn tímanlegi.
Guðspjallið og fjallræðan “Hver sem heyrir þessi orð og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi.” Guðspjall dagsins er hvorki meira né minna en niðurlag Fjallræðunnar; lokaorðin sem eru hin eiginlega hvatning til áheyrendanna að taka sér að hjarta orðin sem þeir höfðu heyrt og gera þau að lifandi veruleika í lífi sínu.
Eigum við að rifja upp eitthvað af því sem þar kemur fram: Sæluboðin – sælir eru fátækir í anda, sorgbitnir, hógværir, hjartahreinir, miskunnsamir friðflytjendur– þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir.
Þér eruð salt jarðar – ljós heimsins – ljós yðar lýsi meðal mannanna að þeir sjái góðverk yðar.
Verið réttlát – réttlæti yðar á að bera af réttlæti fariseanna, - sem nóta bene, voru sérfræðingar í réttlæti og siðsamlegu líferni á tímum Jesú. Þannig að Jesús var ekki að bera þá saman við neina aukvisa.
Vertu skjótur til sátta – sverjið ekki en já yðar sé já og nei yðar nei. Ef einhver slær þig á hægri kinn þá bjóð honum hina – elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður – verið fullkomin.
Hann kennir Bæn drottins, faðir vor, þá dýrmætu perlu; og hann hvetur áheyrendur til að iðka ekki réttlæti sitt til sýnis fyrir aðra menn heldur í leynum. Verið fús að fyrirgefa. Safnið yður fjársjóðum á himnum. Og athugið að enginn getur þjónað tveimur herrum – vandið valið en hafið ekki áhyggjur af morgundeginum; lítið til fugla himins og gætið að liljum vallarins. Dæmið ekki – gæti ekki verið að þú sért með bjálka í auganu, blindur á eigin galla en alltaf til í að benda á galla annarra. Biðjið og yður mun gefast – Faðir yðar á himnum gefur góðar gjafir þeim er biður hann. Varist falsspámenn, af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.
Ég held að flestir kannist við meirpartinn af öllum þessum stikkorðum úr fjallræðunni, án þess að hafa kannski endilega áttað sig á því að þetta væri allt ein og sama ræðan; og það er enginn smáræðis boðskapur hér á ferðinni, þetta er boðskapurinn sem Jesús Kristur vill að við gerum að klettinum undir líferni okkar og samskipti við aðra menn; Þ.e.a.s: Verið heiðarleg – fyrirgefið – treystið Guði fyrir lífi ykkar. Og að þeir sem Jesús segir sæla eru ekki endilega þeir sem heimurinn telur mesta.
Hver voru svo viðbrögð áheyrenda Jesú? Jú, menn undruðust og áttuðu sig á því að hann kenndi eins og sá sem valdið hefur en ekki bókabéus, ekki eins og sá sem aðeins tínir upp það sem aðrir segja og raðar því saman. Þetta er alveg ný kenning; til dæmis að elska óvini sína. Er það hægt? Getur maður elskað óvini sína? Ómögulegt segja sumir en sjáum samt hvernig það gekk í Suður-Afríku; frú Clinton sagði um Nelson Mandela á afmælisdegi hans nýliðinum að hann hefði sannað að óárennilegustu vandamál mætti leysa; fyrirgefningin getur sigrað óttann.
Nelson Mandela er nú svo sem enginn hversdagsmaður en hann áttaði sig á því að til þess að rjúfa vítahring haturs og hefnda varð að fyrirgefa og hann fann praktíska leið til þess að það virkaði; ég held að enginn sem fylgdist með baráttunni gegn apartheid á sínum tíma hefði reiknað með að þó þessi friður myndi ríkja nú í landinu sem raun ber vitni.
Og sjálfsagt höfum við enn fleiri dæmi úr mannskynssögunni þar sem fólki tekst að lifa þann veruleika sem Jesús bendir á í fjallræðunni. Vissulega fallast manni stundum hendur frammi fyrir verkefnunum en þá er líka svo gott að geta lagt það allt í hendur Guðs. Slakað á og gefið gaum að liljum vallarins og fuglum himins.
Já, gætið að liljum vallarins. Kristur hvetur okkur vissulega til, ja nánast ofurmannlegra ákvarðana í samskiptum okkar við annað fólk, hann hvetur til þess að við elskum óvini okkar, hvetur til óvæginnar sjálfsskoðunar og að við högum lífi okkar þannig að við höfum ekkert að fela. En hann sagði okkur líka að treysta; að fela Guði það sem við ráðum sjálf ekki við. Og við erum frjáls að því. Frelsið sem okkur boðað í fjallræðunni og sem leiðir af lífi, dauða og upprisu Jesú Krists er, að vissulega reynum við okkar ítrasta, við verðum reiðubúin að ganga mílu umfram það sem maður þarf, en að Guð er sá sem réttlætir okkur; ekki við sjálf.
Og vissulega er það blessun að við byggjum líf okkar á þeim boðskap sem Jesús kunngjörir okkur og á traustinu á honum. Já að við byggjum á honum sjálfum sem gekk í dauðann fyrir okkur og endurleysti alla menn. Gaf kjark og líf; nýtt líf.
Og er þá eitthvað að óttast?
Er ekki rétt að treysta Guði og leggja líf sitt í hendur honum, frekar en að taka til við að skrifa tilvist sína á kúluritvélina, í ótta og meðvirkni?
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.