Verndum bernskuna – og ræktum foreldrið

Verndum bernskuna – og ræktum foreldrið

Munum að rækta okkur sjálf er heilræðið sem minnt er á nú í janúar. Að þessu sinni er sjónum beint að okkur sjálfum, foreldrum og uppalendum. Og eflaust ástæða til eftir hátíðarnar þegar margir stökkva af stað í líkamsrækt af því að þeir passa ekki lengur í fötin sín.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
23. janúar 2006

Nú í vetur hefur staðið átak undir yfirskriftinni Verndum bernskuna. Eru það tíu heilræði fyrir foreldra til að takast á við uppeldishlutverkið. Heilræðin voru send inn á hvert heimili í landinu en að auki er athygli vakin á einu heilræði í hverjum mánuði.

Munum að rækta okkur sjálf er heilræðið sem minnt er á nú í janúar. Að þessu sinni er sjónum beint að okkur sjálfum, foreldrum og uppalendum. Og eflaust ástæða til eftir hátíðarnar þegar margir stökkva af stað í líkamsrækt af því að þeir passa ekki lengur í fötin sín.

Sú ræktun sem hér um ræðir á þó ekki einungis við um líkamann, heldur kannski frekar við manneskjuna í okkur. Mannrækt heitir þetta og hefur verið iðkað um árþúsundir. Að efla skapgerð sína, iðka dygðir, ná tökum á löstunum. Ná tökum á sjálfum sér. Sá sem ekki nær tökum á sjálfum sér, ræður við fátt annað í lífinu.

En hvers vegna mannrækt með foreldrum? Erum við ekki að tala um uppeldi barna hér? Víst er það, en foreldri sem ekki hefur stjórn á sjálfu sér veldur illa uppeldi barna sinna. Svo einfalt er það.

Þeir sem koma að fjölskyldumálum vita einnig að oft gleyma foreldrar að rækta eigið líf saman og í sitt hvoru lagi, sökum annríkis við uppeldi, heimilishald eða vinnu. Hér gildir að nokkru sem flugfarþegum er ráðlagt í upphafi flugferðar. Verði súrefnisfall í farþegaklefanum setja þeir fullorðnu fyrst súrefnisgrímurnar á sig, til þess að geta síðan aðstoðað börn sín í kjölfarið. Foreldri í yfirliði sinnir nefnilega engum foreldraskyldum. Fullorðin manneskja sem forsómar að rækta sjálfa sig, þiggja eitthvað nýtt og þroskandi, hefur einungis fátækt að gefa börnum sínum.

Þess vegna viljum við sem stöndum að átakinu Verndum bernskuna hvetja uppalendur til að huga einnig að sjálfum sér, rækta líkama, sál og anda. Þiggja til þess að geta gefið aftur af sér til barna sinna.