Þá er liðið á seinni hluta föstu og brátt nálgast páskar.
Um þessar mundir stendur lestur Passíusálma sem hæst og nær hámarki á föstudaginn langa þegar sálmarnir eru lesnir í heild sinni í kirkjum víða um land.
Það er því ekki úr vegi að skoða nánar æfi og starf höfundar sálmanna, Hallgríms Péturssonar í nokkrum pistlum á komandi vikum fram að páskum.
Um og eftir aldamótin l600 bjó að Gröf á Höfðaströnd Pétur Guðmundsson, frændi Guðbrands biskups Þorlákssonar á Hólum. Kona Péturs var Sólveig Jónsdóttir, og eru hér komnir foreldrar skáldsins Hallgríms Péturssonar. Hallgrímur er talinn fæddur árið l6l4, en hvort það var að Gröf eða á Hólum er ekki vitað með vissu. Guðbrandur biskup kallaði föður hans til Hóla og gerði hann að hringjara og umsjónarmanni með dómkirkjunni um það leyti sem Hallgrímur fæddist eða litlu fyrr.
Þegar þess er gætt hve snemma var farið að rita vel og rækilega um Hallgrím Pétursson getum við undrast, hversu hljótt er um uppvaxtarár hans og nálega ekkert frá þeim sagt nema ýkjukenndar þjóðsögur. Æskuár sín átti Hallgrímur á Hólum, og Páll Vídalín ymprar á því, að hann hafi verið þar í skóla. Magnús Jónsson nefnir Hallgrím "gáfaðan prins af konungsættinni norðlensku", en meðan Guðbrandur biskup lifði, varð engum til hans jafnað, og má nærri geta, að nánustu ættmenn þessa ókrýnda konungs hafa ekki verið litnir sömu augum og sauðsvartur almúginn. Líklegt er því, að pilturinn hafi gengið á Hólaskóla um hríð. Hvað hinu olli að hann ekki gekk þar beina braut til frama, er ekki vitað. Séra Vigfús Jónsson segir, að Hallgrímur hafi komist í "einhverja ólempni fyrir kveðskap eður einhvern ungæðishátt hjá fyrir kvenfólki á stólnum". Telur hann líklegast, að Halldóru Guðbrandsdóttur biskups hafi sinnast við Hallgrím. Má og vera að Arngrímur Jónsson lærði hafi ekki saknað piltsins frá Hólum, en Hallgrímur hafði ort vísu um hinn lærða. Arngrímur fór með biskupsvald á staðnum eftir að Guðbrandur biskup veiktist árið l624. Biskup lést árið l627, og hugsanlegt er, að Hallgrímur hafi farið frá Hólum um það leyti eða litlu síðar.
Engin ástæða er til að ætla þjóðsögur fari með rétt mál er þær gera Hallgrím að umkomulausum einstæðingi í æsku. Hann er miklu fremur óstýrilátt höfðingjabarn. Ekkert þarf að hafa verið athugavert við brottför hans frá Hólum og ferð hans af landi brott. Hallgrímur kann að hafa farið utan með líkum hætti og fjöldi annarra ungra manna hefur farið fyrr og síðar. Í honum er útþrá og órói og hann vill fá að vera sinnar eigin gæfu smiður. Víst er um það, að ungur að árum fer hann til útlanda, er hugsanlega í Glückstadt um tíma, en síðan í Kaupmannahöfn, líklega við járnsmíðanám. Í Kaupmannahöfn hittir hann síðar Brynjólf Sveinsson, er þá var kennari við dómskólann í Hróarskeldu, en varð nafnkenndur Skálholtsbiskup, þegar stundir liðu fram. Brynjólfur hefur um það milligöngu að Hallgrímur kemst í skóla í Kaupmannahöfn, nánar til tekið í latínuskóla höfuðborgarinnar, Vorrar frúar skóla. Er Hallgrímur l7 eða l8 ára gamall þegar þessi saga gerist. Stundar hann nú nám við skólann í ein 4 ár eða til ársins l636. Er Hallgrímur þá kominn í "meistaralektíu", sem svo var nefnd, þ.e.a.s. nærri því að ljúka námi.