Kossar, bæn og lífsvessar

Kossar, bæn og lífsvessar

Bænalífið er ekki aðeins í kirkju eða fyrirbænum, heldur líka í skóreimum, vindi, eldhúsi og líka í bílaröðum á Miklubrautinni. Þar sem líf, fólk og veröld er, þar er Guð og samband.

Trúarlegt faðmlag? Maður nokkur sagði ábúðarfullur: “Heyrðu prestur minn. Mér finnst nú eiginlega það trúarlegt atferli þegar ég faðma konuna mína og kyssi hana. Hvað finnst þér um svoleiðis guðfræði?” Svo vildi hann ræða þessa kossaguðfræði. Ég hafði gaman af. Auðvitað er það hátrúarlegt atferli að faðma maka sinn. Það er trúarlegt atferli að faðma börnin, já fólk. Það er trúarlegt atferli að efla lífið og líka að kjósa.

Biðjið Jesús minnir okkur á í guðspjalli dagsins að biðja og hann lofar, að okkur muni gefast. Við eigum að leita og við munum finna, segir hann. Við eigum að berja að dyrum og þá mun verða lokið upp fyrir okkur. Svo hnykkir sagnameistarinn á, segir sögu til að ræða hans skiljist betur. Hvaða faðir, já hvaða foreldri, gefur barni sínu eitraðar pöddur, þegar það biður um mat? Við menn reynum að gefa þeim, sem við elskum, gæði til lífs og þeim mun öflugri er Guð, sem gefur okkur gæði þessa heims og himnesk að auki.

Jesús bað Biðjið, segir Jesús Kristur. Af guðspjöllunum er ljóst, að Jesús var bænamaður. Jesús bað oft, hann bað á morgnana, á kvöldin og jafnvel alla nóttina ef því var að skipta. Jesús bað við krossgötur ævinnar. Hann bað, þegar hann hélt til þjónustu við fólk og áður en hann vann stórvirki. Hann bað fyrir sjálfum sér og bað fyrir öðrum. Í guðspjöllunum er í sautján skipti fjallað um bænalíf Jesú og hið nána samband hans við föðurinn á himnum. Líf Jesú var bænmettað líf.

Guðsfundur Margir eru hálffreðnir í bænamálum sínum, finna ekki góðan bænatíma eða eru vandræðalegir þegar svo bænaiðjan er hafin. Til að skilja eðli bænarinnar getum við tekið dæmi af samskiptum fólks. Við megum gjarnan hugsa um bæn eins og samlíf. Við getum notað kossa, faðmlög og sambúð sem hliðstæður.

Þegar við verðum skotin og hittum elskuna okkar í fyrsta sinn verður mörgum þungt um mál og eins og málheltin hellist yfir. Fólk segir oft einhverja vitleysu, blóðroðnar og allt fer í bendu. Þegar svo sambandið verður nánara og dýpkar verða tjáskipti oftast eðlileg. Fólk veit jafnvel hvað makinn eða ástvinurinn hugsar, hverjar þrárnar eru og hvað er í sigti. Þá er hið talaða orð einn af fjölmörgum tjáskiptaháttum í samskiptum.

Þannig er líka með Guðstalið. Sumir eiga engin samskipti við Guð og hegða sér eins og grannar, sem nenna hvorki að sjá eða tala við nábúana. Síðan eru önnur, sem  eiga formleg samskipti við Guð, fara með bænir á ákveðnum tíma, stimpla sig inn með ákveðnu orðalagi líkt og fólk sem býr saman, býður góðan daginn, vill ekki styggja þau, sem það býr með en forðast þó náin samskipti. Svo er mannræktarfólkið sem lánast að tala um flest, sem máli skiptir. Þegar orðræða gengur lukkast flest betur í einkalífi og samskiptum. Þannig er það líka í trúarlífinu.  

Ástin og bænin Þá erum við komin að faðmlögum og kossum. Hvernig er ástalíf? Jú farsælt ástríki er fjölskrúðugt. Góður hjúskapur spannar allt líf fólks, gleði og sorgir, vonir og vonbrigði, heilsu og vanheilsu, einsemd og félagslíf, depurð og fögnuð. Maki eða ástvinur verður fylgdarmaður alls, sem hitt lifir og reynir. Ef við færum yfir á bænalífið þessa samlíkingu ætti ekki að koma okkur á óvart, að Biblían tjáir reynsluvíddir. Í Davíðssálmum, sem er hin stóra bænabók Biblíunnar, er tjáð reiði, ofsagleði, músík, angist, hatur, umhyggja, þolinmæði, náttúrunautn, mannvirðing, tímavit, stríðsótti, líkamsnánd – já, allt það, sem mennsk vera lifir og reynir.

Ekkert utan hrings Af hverju? Eiga sviti, tár, blóð og vessar manna eitthvað erindi inn í trúna. Já, vegna þess að trúin er ekki sparivídd tilverunnar, utan hins hráa veruleika lífsbaráttunnar, heldur inntak lífsins. Faðmlag fólks er hluti af lífi, sem varðar trúna. Reynsla fólks verður hluti af samskiptum fólks, sem elskast. Reynsla í vinnu er dregin heim og rædd þar. Áföll í uppeldi verða mál til úrvinnslu. Stór stund á fjöllum er tjáð og miðlað í ástalífinu. Fullnægja í samskiptum skiptir miklu. En skiptir þetta bænir máli? Já, vegna þess að ekkert getur verið utan tengsla trúmanns og Guðs, ekkert verður utan hringsins, ekkert fellur dautt niður og manneskjan í öllum víddum er viðurkennd.

Í bænalífinu má taka allt upp. Þess vegna biður kristinn maður Guð um lækningu þegar sjúkdómar hrjá ástvini, biður um frið í heimi, biður um hugrekki í skelfilegum aðstæðum og æpir þegar angistin verður alger - gildir einu hvort fólk er um það bil að falla fyrir björg, hefur orði fyrir innrás krabba eða MND sjúkdómurinn hríslast um frænda.

Hið guðlega net Oft er sagt, að bænalíf sé stefnumót með Guði. Að biðja er að tala við Guð. Að trúa er að lifa með Guði, sem ástvini. Samskiptin við börnin eru hluti heimilislífs himinsins. Að kenna börnum bænir er að kenna þeim að tala veraldlega himnesku. Að kjósa verður trúarlegt og bænlægt atferli. Að bera á borð verður trúmanni það að taka þátt í andlegri veislu. Að fara vel með náttúruna verður trúmanninum eðlileg tjáning umhyggju Skaparans. Að ganga erinda hinna kúguðu, t.d. í alþjóðlegri baráttu gegn misnotkun fátækra verkamanna í þriðja heiminum verður eðlileg þátttaka í heimilislífi veraldar. Þau, sem líða, eru frænkur og frænkur, hluti fjölskyldu Guðs, sem við tilheyrum líka. Að vinna vel varðar ekki aðeins eigendur vinnustaðar eða samverkafólk, heldur líka Guð, sem elskar góð verk.

Í ástalífinu elskum við ekki aðeins maka okkar; í uppeldinu tryggjum við ekki aðeins velferð barna; í samskiptum við hin gömlu sinnum við ekki aðeins skyldu, heldur erum við í öllum aðstæðum himinspeglar, farvegir elsku Guðs, sem vill, að allir njóti lífsgæða.

Guð líka í lífsvessum Þegar þú faðmar kemur Guð og tjáir. Þegar þú kyssir smellir himininn elsku sinni yfir hana eða hann sem kysstur er. Bænalífið er því ekki aðeins í kirkju og í kvöldbænum, bílabænum eða fyrirbænum. Bænir eru í strokum, skóreimum, á fjöllum, í vindi, sólargeislum, í eldhúsi, við rúmstokk, á leiðinni í leikskólann, í bílaröðum á Miklubrautinni. Þar sem líf, fólk, veröld er, þar er Guð. Þar sem Guð er fæst samband.

Bænalíf er ekki aðeins að bæra varir, heldur í öllum tengslum Guðs og sköpunar. Þess vegna er bæn þar sem egg og sæði sameinast, þar sem ástin kviknar, þar sem auga sér auga, þar sem litir safnast í listaverk, þar sem gleðin skríkir í samfélagi, þjóð kýs, kirkjukór syngur og þar sem börnin leika.

Við þurfum að læra að innlífast svona bænalífi og sjá í smáum og stóru heilaga návist, að Guð umvefur allt, líka líkamsvessa okkar og leyndustu hugrenningar. Ef við opnum fyrir Guðs umvefjandi nánd verður lífið ríkulegra, bænin skemmtilegri og ástin jafnvel stórkostlegri. Bænamaður í svo elskulegu sambandi getur staðið af sér allan vanda veraldar, lífið er sterkara en dauðinn.   

Amen

Prédikun í Neskirkju 13. maí, 2007. Fimmti sunnudagur eftir páska - rogate - hinn almenni bænadagur.

Lexían; Sl 121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki. Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels. Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar. Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur. Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína. Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

Pistillinn: Rm 8.24-27 Því að í voninni erum vér hólpnir orðnir. Von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér? En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði. Þannig hjálpar og andinn oss í veikleika vorum. Vér vitum ekki, hvers vér eigum að biðja eins og ber, en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið. En hann, sem hjörtun rannsakar, veit hver er hyggja andans, að hann biður fyrir heilögum eftir vilja Guðs.

Guðspjallið: Lk 11.5-13 Og hann sagði við þá: Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann. Mundi hinn þá svara inni: Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.

Og hann sagði við þá: Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann. Mundi hinn þá svara inni: Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, eða sporðdreka, ef hann biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.