Heyr, Ísland, Guð einn er Guð!

Heyr, Ísland, Guð einn er Guð!

Fólk hefur fæðingarrétt til þess að vera öðruvísi en við og hugsa allt aðrar hugsanir og þær eru frábærar, þótt þær séu aðrar en okkar. Guð elskar þetta fólk og við skulum hundar heita ef við styðjum þjóðskipulag sem bannar fólki að hafa aðrar skoðanir en við.
fullname - andlitsmynd Yrsa Þórðardóttir
03. október 2010
Flokkar

Heyr, Ísrael! Aðeins Guð einn er Guð! Þessi staðhæfing er í minnum höfð á meðal barna Guðs, einn er Guð, aðeins einn og hann megum við elska af öllum mætti og allri vitund og með öllu okkar lífi. Guð mælir öll þessi orð sem rituð eru í Mósebók og við köllum nú boðorðin en ættu kannski að kallast Orðið eða máttarorð. Þar er í upphafi sagt: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig“. Þarna er orsakasamhengi, það er einmitt vegna þess að Guð leiddi okkur út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu, sem við skulum ekkert vera að eltast við aðra guði. Þetta er svona svipað og í lénsskipulaginu, nema með valmöguleika, okkur er frjálst að velja okkur þann sem við treystum best til að sinna okkar málum. Það er fullt lýðræði, og ef okkur lýst ekki á neinn megum við sleppa því að kjósa, eða velja versta kostinn. En þegar um er að ræða allt okkar líf og andlega velferð þeirra sem okkur þykir allra vænst um, hvern veljum við þá? Auðvitað Guð sem leiddi okkur frá myrkri yfir til ljóss, frá fjötrum yfir til frelsis. Aðeins einn er Guð og við vitum vel hver það er, ef við hugsum okkur um, það er sú viska og hjálparhönd sem leiðir okkur allan daginn allt lífið og gerir okkur kleift að elska og virða og fylgja boðorðunum sem við heyrðum áðan lesin úr gamla testamentinu, þessum máttarorðum sem eru ekki sett okkur til falls, heldur til verndar. Þau bjóða okkur að velja lífið, þau eru hugsuð sem sproti hljómsveitarstjóra sem sveiflast og við eigum að syngja eða spila lagið, hvert á sitt hljóðfæri í lífinu: fyrsta versið er ég frelsaði þig, komdu þá í eigin frelsi og ekki eltast við neinn annan en mig. Næsta vers er: vertu ekki að teikna upp mynd af mér eða höggva í stein eða mála með litum sem myndu bara þrengja myndina, mundu að ég er allskonar og ég frelsa. Svona getum við umorðað öll boðorðin, þau eru ekki sett okkur sem reglur eða viðmið, þetta er það eina sem skiptir máli í lífinu, að elska Guð og elska okkur sjálf og elska annað fólk svona eins og Guð elskar það. Gott viðmið er framkoma Jesú við fólk. Þegar hann sá mannfjölda komst hann við, hann kenndi í brjósti um fólk. Við finnum þetta stundum þegar við finnum til samkenndar með fólki af því að það minnir okkur á okkur sjálf eða börnin okkar. Ég hef heyrt að miskunnsami Samverjinn hafi einmitt fundið fyrir þessu, hann sá sjálfan sig í aðstæðunum og datt því í hug að hjálpa, þegar prestarnir sem framhjá fóru sáu trúlega ekki þann sem ráðist hafði verið á því að þeim datt ekki íhug að neinn þyrði að ráðast á þá. Þar sem við erum sem við sjálf, óvarin og ekki blásin upp af hroka, þar erum við fátæk í anda og getum séð Guð hvert í öðru. Þar þorum við að horfast í augu við eigin vankanta, breyskleika, vanmátt og hæfileika og þorum að koma til hjálpar þótt í litlu sé. Við erum ekki fjarri guðsríkinu þegar við sjáum að aðeins einn er Guð, heyrum að Guð okkar er eini Guðinn sem til er, eini Guðinn sem varið er í og að við hljótum að fara loksins að snúa okkur að Guði með því að lesa biblíuna, tala um hana, láta hana okkur varða í daglegu lífi, fara loksins að elska okkur sjálf og elska Guð og elska alla í kringum okkur. Þá förum við að fyrirgefa í stað þess að tala um alla eins og þau séu fæðingarhálfvitar, vitleysingar og í röngum stjórnmálaflokki. Fólk hefur fæðingarrétt til þess að vera öðruvísi en við og hugsa allt aðrar hugsanir og þær eru frábærar, þótt þær séu aðrar en okkar. Guð elskar þetta fólk og við skulum hundar heita ef við styðjum þjóðskipulag sem bannar fólki að hafa aðrar skoðanir en við.

Ég held að sem lýðfrjáls þjóð hljótum við að leyfa fólki að reisa moskur og slátra sauðfé á þann hátt sem leyfir fólki að neyta fæðu sinnar án þess að þeim verði andlega illt af. Að sama skapi munum við ekki taka því hljóðalaust ef fólk talar illa um okkar félagsskap, þessi stóru frjálsu félagasamtök sem við höfum með okkur og við nefnum þjóðkirkju. Við ætlum að fara að lögum og okkar lög eru að elska, að taka saman höndum og finna atvinnu handa öllum, leið út úr skuldafeninu, biðja Guð að leiða okkur eins og Ísraelsmenn forðum út úr þrælavinnunni hjá Faraó. Við ætlum ekki að dansa við heiðin altöru feðraveldisins eða erlendra guða og þjóða. Þess í stað ætlum við að heiðra það að elska hvert annað og girnast ekki eigur hvert annars. Við ætlum að viðhalda lífinu en ekki deyða hvert annað. Við ætlum að virða mun dags og nætur, helgidaga og hversdags, ekki láta eins og allt sé eins og það sama og að engin séu mörk. Þetta kostar okkur þögn og ró því að við þurfum að snúa við á leið okkar og hugsa okkar gang. Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Er það ekki góð heilsa og samskipti við þitt fólk, vini og samferðamenn? Guð einn er Guð og það skiptir okkur máli að vita hvaða áhrif trú okkar hefur í daglegu lífi. Spámenn gamla testamentisins reyndu að ná eyrum samferðafólks síns hvað þetta varðaði, að láta fólk leiðast af eigin trú og lögmálinu og fagnaðarerindinu. Þeir sögðu aftur og aftur þetta sama: enginn er Guð nema Guð og enginn á mátt og visku og kraft nema hann einn, skaparinn og lausnarinn. Þess vegna ræður enginn þínu lífi nema Guð. Við stöndum á bjargi sem bifast ei má, stendur í sálminum sem við ætlum að syngja á eftir prédikun, það er myndin af Guði sem er bjargið sem byggja má á, og orð hans eru bjargföst, ekkert öryggi nema í traustum undirstöðum Guðs. Við vitum það allt of vel að allur okkar auður stóð á brauðfótum, fólk er að missa eigur sínar og lífsafkomu allt í kringum okkur, við erum þunglynd og vondauf vegna þess að ástandið er síður en svo að skána. Hvað ætlum við að gera? Nú getum við hugsað til fjallræðunnar og verið fátæk í anda, við eigum ekkert, erum ekki rík eða voldug, núna er það kannski fyrst sem við getum tekið til okkar skilaboðin um að Guð er akkúrat með okkur, því að við erum hjálparþurfi og þá getum við þegið hjálp. Hjá Jesaja spámanni stendur í 30. kafla: Fyrir afturhvarf og rósemi munuð þér frelsast, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera, en þér vilduð þetta ekki, heldur sögðuð, nei, vér viljum þeysa fram á hestum.” Alveg er þetta merkilegt, þegar okkur finnst við innikróuð og að okkur saumað, viljum við endilega þeysa fram og gera eitthvað, bara hvað sem er, en nú sem fyrr en kominn tími til að staðnæmast og hugsa okkar gang og biðja Guð að berjast fyrir okkur. Eftir bæn og altarisgöngu valdi ég okkur sem lokasálm að syngja Leið mig Guð eftir þinu réttlæti, gjör sléttan veg þinn fyrir mér því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhulta í náðum. Í þessum dimma dal sem við göngum, gengur Guð með okkur og býr okkur borð frammi fyrir fjendum okkar og sleppir aldrei af okkur hendinni. En við njótum ekki öryggis hans ef við finnum ekki fyrir því af því að við stoppum aldrei nógu lengi til að muna að við getum ekki barist ein heldur Guð fyrir okkur. Og hvað á ég við með því að Guð berjist fyrir okkur. Þar verður hvert okkar að finna sína leið til að skiptast á skoðunum við Guð. Við ráðum ekki tákn af flugi fugla eða innyflum fiska, við lesum ekki í stjörnur eða á milli lína heldur talar Guð við okkur beint. Það er ekki allt sem sýnist og það eru ekki herrar þessa heims sem hafa síðasta orðið. Nei, við erum borin frjáls og réttlætt fyrir trú okkar á Guð, við erum sýkn saka, við erum börn Guðs og það skal enginn taka rósemi hugans frá okkur né segja okkur að daglegt líf okkar sé einskis virði eða hugsjónir okkar til einskis. Við skulum reka réttar ekkjunnar, munaðarleysingjans, útlendingsins og við skulum gera allt sem í okkar valdi stendur hvern einasta dag til að fara eftir máttarorðum Guðs. Heyr Ísland, Guð einn er Guð, við skulum ekki hafa aðra guði, ekki setja neinn annan á stall en Guð og við skulum elska Guð, okkur sjálf og alla aðra. Gerum það, og við munum standa á bjargi sem bifast ei má.