Brauðbakstur er stúss

Brauðbakstur er stúss

Brauð er nefnilega heilmikið stúss. Það býr svo margt og merkilegt í brauðinu. Til þess þarf einstaka eiginleika sem eru ekki aðeins hluti af einstaklingsframtaki heldur þarf heilt þorp til að baka brauð.
Flokkar

Flutt 29. mars 2018 í Neskirkju

Þar sem ég stóð í biðröð við nýopnað bakaríið á Hofsvallagötunni varð mér hugsað til þess hvað brauð er merkilegt fyrirbæri. Þetta var allt mjög huggulegt, lyktin í loftinu var seyðandi og bak við afgreiðslufólkið unnu bakarar með deig eftir kúnstarinnar reglum. Svartur tilkomumikill ofn stóð þar í bakgrunninum og á honum stóð gylltum stöfum: Darth Baker, eða Svartbakari ef því er snúið á íslensku.

Brauðbakstur er stúss

Já, í hinu stóra samhengi er ekki lítið mál að kunna til verka í brauðbakstri og þegar þeir opnuðu loksins bakaríið þá stóð ekki á viðtökunum. Brauðið lokkar og laðar og það var það ekki bara bragðið og áferðin sem skipti máli heldur líka allt stússið sem því tengist. Ég heyrði viðskiptavini ræða sín á milli, að þetta væri ekkert útlenskt deig sem þeir létu nægja að afþíða og henda svo í ofninn, hérna gerðu þeir allt frá grunni. Hluti af ánægjunni var vitneskjan um að hér væri nostrað við hvern hleif og hvern snúð.

Brauð er nefnilega heilmikið stúss. Það býr svo margt og merkilegt í brauðinu. Til þess þarf einstaka eiginleika sem eru ekki aðeins hluti af einstaklingsframtaki heldur þarf heilt þorp til að baka brauð. Allt byrjar það á fórninni. Vonin um ábatasama framtíð fær okkur til að leggja það til hliðar sem við gætum notið hér og nú og við geymum það til síðari tíma.

Fræg tilraun var eitt sinn gerð á hópi barna sem fengu sælgætismola í hendurnar og var sagt að ef þau létu það eiga sig að borða hann myndu þau fá tvo mola klukkustundu síðar. Börnin voru svo skilin eftir með sætindin og myndavél tók það upp hvernig átökin innra með hverju barni birtust í svipbrigðum og ládæði. Þetta útheimti þjáningar og sum þeirra stóðust freistinguna, önnur ekki. Þarna átti sér stað togstreita á milli heilastöðvanna. Í djúpi þessa líffæris ólgaði þráin eftir molanum en börkurinn, sem enn var óþroskaður, streittist á móti í von um meiri ávinning nokkru síðar.

Brauðið er afrakstur risastórrar fórnar. Kornum er sáð í jörðu í stað þess að neyta þeirra strax og svo fylgir hvert verkefnið öðru. Allt byggir það á fyrirheitum um framtíðargæði. Eins og í tilrauninni með börnin þá krefst þetta mikils aga.

Lávarðar og hleifætur

Það er líka gaman að hugleiða það hvernig tungumálið spyrðir saman brauð og samfélag. Brauð er jú heilmikið stúss eins og þau ræddu um í bakaríinu hér á dögunum. Ferlið sem gerir brauðið svona létt og mjúkt undir tönn, gerjunin, hefur á erlendum málum sama heiti og orðið sem notað er yfir menningu - cultivatus á latínu sem vísar til vaxtar og grósku. Það er einnig notað yfir gerjun vínsins. Þetta tvennt, brauð og vín er af sama meiði sprottið. Hvort tveggja er það afrakstur menningar, kúltúrs, og í raun táknmynd samfélags í því umhverfi.

Seinni liður enska orðsins companion, er panis og merkir brauð.„Félagar“ eru þess vegna þau sem borða saman brauð. Á íslensku var eitt sinn til orðið„hleifæta“, sem hefur sömu merkingu. Sæmdarheitin„lávarður“ og„lafði“ þýða upprunalega þau sem hafa hleifinn í vörslu sinni - brauðhleifinn, nefnilega. Þau innheimta skatt af uppskerunni sem geymdur er til mögru áranna, þau gæta hans og úthluta svo þegar með þarf. Ríki mynduðust, ritmál, stærðfræði, píramídar og önnur mannvirki urðu til. Hleifvörðurinn skipar sér efst í því mikla skipuriti. Það er eins og Svartbakarinn sem skipar sér í öndvegi í nýja bakaríinu hérna í Vesturbænum vísi til þessara tenginga!

Vald

Lávarðurinn gætir kornsins og brauðsins og hefur umsjón með því hvernig farið er með það og því er útdeilt. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það vald sem fylgir slíkri upphefð. Vald hefur á sér sætbeiskan keim og valdhafinn getur haft líf og limi fólks í höndum sér.

Miklu varðar hvernig hleifvörðurinn fer með þau völd sín og á þessum tímum sem við lifum er ekki laust við að mannkynið hafi áhyggjur af því hvernig fólk hefur valist til forystu. Það er reyndar með hreinum ólíkindum hversu illa virðist hafa tekist til í þeim efnum. Rustamenni fara fyrir heilu þjóðunum og traðka á þeim fræjum bjartsýni sem sáð hafði verið, fyrir ekki svo löngu. Þeir eru tilbúnir að færa stórar fórnir til að viðhalda völdum sínum. En fórnin kemur alltaf af gæðum annarra.

Ef einhverjir urðu fyrir hárbeittri gagnrýni Jesú, þá voru það hinir sterku í samfélaginu. Augu hans beindust einnig að trúarleiðtogunum sem voru í versta falli eins og kalkaðar grafir, skínandi hvítar hið ytra en að innan var allt skemmt. Jesús hélt því fram að markmið leiðtoga væri ekki að hlaða undir sjálfan sig, heldur að vinna raunverulegt gagn, sinna þjónustu við náungann og vera þar með verðugur verkamaður Guðs á akrinum.

Jesús lýsti þessu svona fyrir lærisveinum sínum:

Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.

Hreinar tær

Að lokinni máltíðinni kraup þessi lávarður heims við fætur lærisveina sinna og gekk í hlutverk þjónsins. Hann þvoði fætur þeirra, þeim til undrunar og furðu og sýndi í verki að tilgangur mannsins er ekki sá að ná völdum og olnbogarými í samfélag fólks, heldur að veita þjónustu og leiða hópa áfram til góðra verka.

Og hér sitjum við umkringd brauði og víni við þessa skírdagsmáltíð. Við fylgjum fordæmi frá síðustu kvöldmáltíðinni sem hefur svo margvíslega merkingu. Atburðirnir hafa frá upphafi, verið kristnum mönnum leiðarljós um það hvernig gott samfélag á að vera. Í helgihaldi safnaða frumkirkjunnar fór fram borðhald af þessu tagi. Þátttakendur deildu með sér mat og gáfu einnig bágstöddum.

Máltíðin er ein dýrmætasta tenging okkar hvert við annað. Þar mætum við líkamlegum þörfum okkar og hinum félagslegu. Hún er samfélag þar sem allir eru boðnir velkomnir sem jafningjar að borðinu og deila með sér því sem þar er borið fram. Í þeirri síðustu var svikarinn ekki einu sinni skilinn útundan.

Þegar hinir gömlu gyðingar sáu fyrir sér himnaríki, þegar þeir veltu því fyrir sér hvernig það umhverfi væri sem biði þeirra er gengju inn í konungsríkið, var máltíðin það besta sem kom upp í hugann. Þar eru allir saman. Umhyggja og kærleikur svífa yfir vötnunum og hungrið - sá fylgifiskur mannkyns á öllum tímum, er víðsfjarri. Á þessu kvöldi fyrir bráðum tvöþúsund árum fengum við innsýn í þann heim og allar götur síðan hafa kristnir menn brotið saman brauðið á eilífri vegferð sinni í leit að sannleika og góðu samfélagi.