Samstaða, samhugur, kærleikur

Samstaða, samhugur, kærleikur

Slíkt ofbeldi kemur fram í kerfum af ýmsu tagi, ekki síst fasískum stjórnmálakerfum bæði á vinstri og hægri væng sem stundum smokra sér inn í trúmálakerfi ýmiskonar. Þau kerfi eru því miður heimslæg, virða engin landamæri, sprengja sér leið inn í hversdag saklausra borgara jafnt í hjarta Evrópu sem annars staðar í veröldinni.

Af því að brauðið er eitt, erum vér hin mörgu einn líkami því að vér eigum öll hlutdeild í hinu eina brauði. 1Kor 10.17

Liðin öld, tuttugasta öldin, hefur verið kölluð ýmsum nöfnum í kirkjulegu og veraldlegu samhengi. Til dæmis „öld konunnar“ þar sem gríðarlegar breytingar til batnaðar urðu á stöðu kvenna, að minnsta kosti á Vesturlöndum. Í guðfræðilegu samhengi hefur öldin liðna verið nefnd „öld kirkjunnar“ og „öld samkirkjumála“ þar sem áhugi margra guðfræðinga og kirkjufólks færðist í ýmsu frá sérefnum og sérhagsmunum hverrar kirkjudeildar til þess sem sameinar Kirkju Krists sem samfélag þeirra sem játa kristna trú og biðja í nafni Jesú Krists.

Þessar áherslur tuttugustu aldarinnar, kirkjan og konan, spruttu þó ekki fram í sögulegu tómarúmi heldur áttu sér aðdraganda á nítjándu öldinni. Til dæmis eru má rekja rætur Alþjóðlegs bænadags kvenna til kristniboðshreyfinga kvenna sem komu fram í Norður Ameríku upp úr 1850. Á svipuðum tíma eru að myndast bandalög kristins fólks, mest úr hópi mótmælendakirkna, dætra siðbótarinnar eins og við gætum kallað þær, til að mynda KFUM (stofnað 1855) og Evangelískt bandalag (stofnað 1846). KFUM og KFUK er í eðli sínu samkirkjuleg hreyfing eins og yfirskrift hennar ber vott um; bæn Jesú fyrir lærisveinum sínum úr Jóhannesarguðspjalli 17.21: „...að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur til þess að heimurinn trúi að þú hafir sent mig.“ Bænavika í byrjun aldar Áhrif hræringanna úti í Evrópu og vestur í Norður Ameríku bárust einnig hingað til lands, Þannig var bænavika Evangelísks bandalags haldin margoft á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar í samvinnu þjóðkirkjufólks, Hjálpræðishers, Aðventista og Vestur-íslensks trúboða sem hér starfaði sem fyrirrennari Hvítasunnuhreyfingarinnar og þýddar bænir birtar í tímaritinu mánaðarritinu Bjarma allt fram yfir 1930. Sögu KFUM og síðar KFUK á Íslandi og frumkvöðlastarf séra Friðriks Friðrikssonar þarf ekki að rekja, svo kunn sem hún er. Eftir því sem heimildir herma var Alþjóðlegur bænadagur kvenna var fyrst haldinn hérlendis þann 8. mars 1935 og þá á vegum KFUK, en frá árinu 1957 hefur bænadagurinn verið árviss viðburður, lengi að frumkvæði Hjálpræðisherskvenna og frá sjöunda áratugnum í grasrótarsamstarfi kvenna úr mörgum kristnum trúfélögum.

Formlegt samstarf kristinna trúfélaga hérlendis hófst árið 1980 en árið áður hafði prestastefna þjóðkirkjunnar lagt til við biskup Íslands að nefnd um slíkt samstarf yrði skipuð. Í nefndinni voru til að byrja með fulltrúar sömu trúfélaga og í grasrótarstarfinu um bænaviku Evangelísks bandalags löngu fyrr, auk Rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Það er dálítið merkilegt að hugsa um óformlega brautryðjendasamstarfið þegar upp úr aldamótunum 1900, ekki svo löngu eftir að trúfrelsi komst á í konungdæminu danska og önnur trúfélög en lútherska þjóðkirkjan tóku að nema land á Íslandi. Það var einstaklingsframtak sem varð til vegna vináttutengsla og svipaðrar áherslu í boðun þeirra sem í hlut áttu.

Alþjóðabænadagurinn var sömuleiðis haldinn hátíðlegur árið 1935 að frumkvæði áhugasamra kvenna, án formlegs valdboðs að ofan. Þannig er það enn, starf unnið í sjálfboðavinnu tuga kvenna um allt land, grasrótarstarf. Og það er merkilegt að kaþólskar konur á Íslandi voru komnar í samstarf við konur úr öðrum kristnum kirkjum um bænadag kvenna áður en Vatikan II þing rómversk-kaþólsku kirkjunnar tók formlega afstöðu til slíks samstarfs. Það var vegna persónulegra tengsla milli kvenna. Við sjáum af þessu hvað einstaklingurinn getur haft mikil áhrif með áhuga og drifkrafti sem smitar út frá sér til annarra sem eru á svipaðri bylgjulengd. Hvert og eitt okkar skiptir máli.

Samstarf og samvinna Formlega samstarfið skyldi þó ekki vanmeta. Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi hefur á undanförnum áratugum vaxið og blómstrað. Fleiri trúfélög úr mótmælandaarmi kirkjunnar hafa bæst í hópinn og einnig Rússneska rétttrúnaðarkirkjan þannig að nú eiga helmingi fleiri trúfélög fulltrúa í nefndinni en í upphafi. Aðalverkefni samstarfsnefndarinnar er að halda utan um alþjóðlega, samkirkjulega bænaviku fyrir einingu kristninnar í janúar en mjög margt annað kemur einnig inn á hennar borð, svo sem umræður og ályktanir um frumvörp sem varða sameiginlega hagsmuni trúfélaganna, stöðu kristindómsfræðslu og leiðir til að styðja við flóttafólk og hælisleitendur. Nýlega sendi nefndin frá sér umsögn vegna frumvarps um smásölu áfengis og lýsti andmælum við frumvarpið með hagsmuni fjölskyldunnar, ekki síst barna og ungmenna í huga.

Það er ánægjuefni að Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga og landsnefnd um Alþjóðlegan bænadag kvenna stilla hér saman strengi sína í dag. Bænadagur kvenna er ávallt haldinn fyrsta föstudag í mars en nú í nokkur ár hefur dagskrá sem tilheyrir deginum verið flutt við samkirkjulega útvarpsguðsþjónustu á skírdag. Fólk úr báðum nefndum ljær dagskránni nú rödd sína. Það er gaman að segja frá því að undanfarin ár hafa bænadagskonur í Vestmannaeyjum boðið bæjarbúum í bænagöngu um bæjarfélagið áður en safnast er saman, oft í Stafkirkjunni en núna í Hvítasunnukirkjunni til að geta búið til kúbverska kaffihúsastemningu. Á Melstað í Miðfirði er líka lögð áhersla á að skapa umgjörð sem minnir á landið sem sendir út efnið það árið og svo eru líka bænastundir til dæmis í Kirkjuselinu í Fellabæ, í Stykkishólmi og á Akureyri, auk höfuðborgarsvæðisins. Hér syðra var samkoman í ár í Fríkirkjunni í Reykjavík og þá nutum við söngs Unglingagospelkórs Bústaðakirkju og lifandi frásagnar Svönu Lísu Davíðsdóttur af dvöl hennar á Kúbu.

Jesús og börnin Kristnu konurnar á Kúbu gefa okkur nokkur ritningarorð á bænadegi kvenna þetta árið. Þær byggja efnið á tveimur frásögum af Jesú og börnunum í Markúsarguðspjalli. Sú fyrri er í níunda kaflanum þar sem segir frá metingi lærisveinanna. Jesús settist þá niður, kallaði á lærisveinana og sagði við þá: „Hver sem vill vera fremstur sé síðastur allar og þjónn allra.“ Og hann tók lítið barn, setti það meðal þeirra, tók það sér í faðm og sagði við þá: „Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér og hver sem tekur við mér tekur ekki aðeins við mér heldur og við þeim er sendi mig“ (Mark 9.33-37). Og svo þekkjum við vel orðin í tíunda kaflanum: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki.“

Í gær heyrði ég rödd barns í beinni útsendingu á Rás 2 fara með bænina sem Jesús kenndi á nánast himneskum endurómi. „Faðir vor, þú sem ert á himnum,“ bað Jón Garðar, tíu ára, því sem næst hikstalaust í spjalli við Andra Frey og Gunnu Dís á Virkum morgnum. Hann fékk páskaegg og lófaklapp að launum. „Veistu hvað er að gera páskana fyrir mér?“ spurði Gunna Dís og svaraði að bragði: „Faðir vorið hérna rétt á undan.“ Bara að öll börn fengju nú að læra bænina bestu. Leyfum börnunum að koma til Jesú. Það gerir páskana fyrir mér.

Ég minnist málþings sem haldið var í Kennaraháskólanum sem þá hét að frumkvæði foreldrafélags leikskóla í Kópavogi og Reykjavíkurprófastsdæmis vestra um kristinfræðslu og samstarf kirkju og skóla fyrir meira en áratug. Þar talaði meðal annars móðir barns á skólaaldri, menntuð í stjórnmálafræði. Hún spurði: „Getur verið að það sé stórhættulegt fyrir börn að syngja „Jesús er besti vinur barnanna“?“ Getur það verið? Hvernig getur það verið skaðlegt að syngja um vináttu sem miðlar öryggi og enginn getur frá manni tekið eða fá fræðslu um trú sem eflir samstöðu og kærleika, fyrirgefningu og gleði? Gegn ofbeldi, fyrir friði Það sem er skaðlegt er ofbeldið sem sprettur fram úr jarðvegi ranglætis, höfnunar og rótlægrar vanlíðunar. Slíkt ofbeldi kemur fram í kerfum af ýmsu tagi, ekki síst fasískum stjórnmálakerfum bæði á vinstri og hægri væng sem stundum smokra sér inn í trúmálakerfi ýmiskonar. Þau kerfi eru því miður heimslæg, virða engin landamæri, sprengja sér leið inn í hversdag saklausra borgara jafnt í hjarta Evrópu sem annars staðar í veröldinni. Við tökum bara meira eftir því þegar ofbeldisverkin eiga sér stað nær okkur en fjær, sem eðlilegt er. En sorgin er hin sama, lamandi, þrúgandi rof á eðlilegu lífi. Og af ofbeldi sprettur meira ofbeldi. Það sýnir sagan svo ekki er um að villast en lengi erum við að læra.

Kirknasamband Evrópu, en aðalskrifstofa sambandsins er rétt hjá Evrópusambandshúsinu, í nágrenni við brautarstöðina þar sem sprengja sprakk þriðjudaginn 22. mars 2016, sendi frá sér fréttatilkynningu samdægurs þar sem hryðjuverkin í Brussel sama morgun eru fordæmd og lýst yfir sorg vegna þeirra sem létust. Hvatt er til friðsamlegra viðbragða á næstu dögum og beðið fyrir þeim sem létu lífið, fjölskyldum þeirra og samfélögum og fyrir þeim sem hætta eigin öryggi í því skyni að hjálpa öðrum. Faðir Heikki Huttunen, framkvæmdastjóri sambandsins, harmar þessi ofbeldisverk í kyrruviku og leggur áherslu á að íbúar Brussel og Evrópu þurfi að finna sér leið til að lækna sárin í sameiningu, sem systur og bræður, eitt mannkyn. „Við verðum öll að leggja okkar af mörkum til að byggja upp samfélög þar sem við getum öll fundið okkur örugg og átt hlut í að efla það sem kemur okkur öllum til góða," segir faðir Heikki. Kirknasambandið biður kirkjur innan þess, en þær eru alls 114, þjóðkirkja Íslands þar með talin, og allt velviljað fólk að hugsa til Brussel, Belgíu og Evrópu og biðja fyrir friði.

Enn þá miklu ágætari leið Við tökum undir þessa áskorun og hljótum að benda á „enn þá miklu ágætari leið“ en nokkuð sem mannleg hugsun getur fundið upp, leið kærleikans (1Kor 13), kærleikans sem er Guð, eins og segir í fyrsta Jóhannesarbréfi: „Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðurug í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum“ (4.16). Litlu síðar segir: „Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn býst við hegningu en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni“ (4.18). Af ótta og hefndarhug sprettur meira ofbeldi. Enda segir Stefán Einarsson, fyrrverandi lögreglustjóri í blaði í gær (23. mars 2016): „Aukin löggæsla er ekki eina svarið við því sem blasir við. Ég held að við þurfum að taka á þessu á fleiri sviðum með fjölbreyttari hætti. Með samstöðu, samhug og kærleik. Við þurfum meira á því að halda en öðru.“

Samstaða, samhugur og kærleikur. Þetta eru allt lykilhugtök kristinnar trúar. Það skal fúslega viðurkennt að þau hafa ekki alltaf skilað sér sem skyldi inn í kerfin sem í tímans rás hafa stofnanagert kristna trú. En þau eru grunnurinn sem við byggjum á og nú þurfum við að vanda okkur svo að þeim dýrmæta arfi verði skilað áfram til komandi kynslóða.

Því framtíðin er björt, svo sem lýst er hjá Jesaja spámanni undir yfirskriftinni Konungur friðarríkisins (Jes 11.1-10): Gróska, speki, réttvísi, réttlæti, trúfesti, börnin örugg að leik með lambahjörð og ljónum, og enginn mun gera illt, enginn mun valda skaða. Tökum hvert við öðru með samstöðu, samhug og kærleika. Þá verður 21. öldin kannski öld barnsins, öld án ofbeldis, öld friðar. Megi svo verða – með Guðs hjálp.

Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og sproti vaxa af rótum hans. Andi Drottins mun hvíla yfir honum: andi speki og skilnings, andi visku og máttar, andi þekkingar og guðsótta. Guðsóttinn verður styrkur hans. Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns, deyða hinn guðlausa með anda vara sinna. Réttlæti verður belti um lendar hans, trúfesti lindinn um mjaðmir hans. Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru, og ljónið mun bíta gras eins og nautið. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holu nöðrunnar og barn, nývanið af brjósti, stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.

Á þeim degi mun rótarkvistur Ísaí standa sem gunnfáni fyrir þjóðirnar og lýðir munu safnast að honum og bústaður Drottins verður dýrlegur.