Þennan sunnudag ber upp á svonefnda heilsuviku í Reykjanesbæ með viðburðarríkri dagskrá, fyrirlestrum, göngugreiningu, hlaupahópum og ýmsu því sem lýtur að heilsurækt og heilbrigðu lífi. Sem sannir bæjarbúar, tökum við hér í kirkjunni þátt í átakinu. Síðustu daga höfum við boðið upp á gulrætur og vínber á samkomum, heimabakað brauð að ógleymdum heilsudrykkjum með spínati svo eitthvað sé nefnt. Það síðastnefnda er mun bragðbetra en það hljómar! Nú er vikan senn á enda og hér í þessari guðsþjónustu verður einmitt fjallað um líf og heilsu út frá þeim sjónarhóli sem búast má við hér í kirkjunni. Líf og dauði
Slíkt er ekki erfitt. Kristin trú fjallar að sönnu um lífið í allri sinni fullnustu og bæði spyr og svarar þeirri stóru spurningu sem að okkur sækir þegar mikið liggur við: Hver er tilgangur þessa lífs sem við lifum? Biblían er réttnefnd bók lífsins. Hún fjallar um það hvernig lífinu skuli lifað og gerir það með ýmsum hætti. Í guðspjalli dagsins segir Kristur: „Hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja“. Þetta eru stór orð og mikil. Víst hafa margir sett í brýrnar svo ekki sé dýpra í árinni tekið er þau voru sögð enda voru yfirlýsingar Krists í þessa veru til þess að andstæðingar hans söfnuðu liði gegn honum og tóku hann að lokum af lífi á krossi.
Þverstæða kristninnar opnast okkur í þessum orðum. Boðskapurinn um lífið reyndist lífhættulegur, ekki bara þess sem orðinn flutti fyrstur heldur líka lærisveinanna sem héldu síðar af stað út í hinn þekkta heim og fluttu fólkinu fregnina um sigur lífsins á dauðanum. Þeir þurftu að gjalda fyrir sannfærinug sína með lífinu.
Þessar stóru andstæður tilverunnar birtast í svo sterkri mynd í hjálpræðissögu kristninnar. „Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur,“ segir postulinn í pistli dagsins. Já, líf og dauði nefnd í einni andrá enda eru þessar andstæður óhugsandi án hvorrar annarrar. Dauðinn er eitthvað sem bíður alls þess sem lifir og er raunar eitt af því fáa sem við getum verið viss um. Að sama skapi gæti ekkert dáið ef ekkert væri lífið. Hér er talað um stærstu viðfangsefni okkar sem lifum og hugsum og finnum til. Sannarlega gætu allar vikur ársins verið helgaðar lífi og heilsu hér í kirkjunni.
Sögur úr lífinu
En víst er þetta óvenjulegt innlegg í þá heilsuumræðu sem nú hefur gengið hér í bænum síðustu daga. Og er ekki allt sem sýnist í þessum efnum. Biblían segir sögur úr lífinu. Þær bera merki um mannlegar tilfinningar, stundum erfiðar – ótta, sársauka, söknuð og sorg. Þær eru fluttar af fólki sem bjó við sambærilegt hugarþel og fólk á öllum tímum – já rétt eins og við gerum sem hér erum saman komin. Það gerir skáldið sem hrópar úr djúpinu eins og lesið var hér áðan. Sárar eru þær kenndir sem þar er lýst. Angist sækir að og harmur stór. Það er eins og sá sem talar sé staddur langt undir yfirborðinu. Mikið þurfi að batna til þess að hann komist aftur á jafnsléttu, svo djúpt er hann sokkinn. En niðurlagið er fullt vonar og blessunar:
Ó, Ísrael, bíð þú Drottins því að hjá Drottni er miskunn og hjá honum er gnægð lausnar. Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans (sálm. 130)
Aftur sjáum við þessar andstæður. Hér er það ekki líf og dauði heldur ótti og von, harmur og gleði.
Línurit og gröf
Ef grannt er skoðað blasa sömu þættir við þegar líf og heilsufar íbúa í Reykjanesbæ er kannað. Sjálfur hlýddi ég á kynningu sem birti rannsóknir á lífsháttum og líðan skólabarna hér í bæ og víðar á landinu. Þar mættust að sönnu andstæður stórar. Línuritin sýndu með sínum kalda og hlutlausa hætti hlutfall barna hér í bænum sem hafði neytt efna sem brjóta niður líkamann og bæði hamla og ógna líkamlegum og vitsmunalegum þroska þeirra. Merkilegt var að skoða þessi gröf þyngra en tárum taki að við skulum öll vita það og viðurkenna að hópur barna stundi slíkt athæfi. Guði sé lof þá hefur þó tekist að fækka mjög í þessum hópi og er það jákvætt – en góðu fréttirnar eru engu að síður bornar fram í skugga hinna slæmu.
Þarna voru líka aðrar tölur og sorglegar upplýsingar um einangrun og lágt sjálfsmat ákveðins hóps úr þessu úrtaki. Allnokkur börn studdust við mælikvarða sem í fljótu bragði kynnu að eiga einkar vel við á heilsuviku – en birta í raun afbökun á því sem heilbrigt er og gott. Já, kornung lýsa þau áhyggjum af vaxtarlagi og einhverjum aukakílóum. Er það til marks um bætta heilsu?
Hvað er heilsa?
Hvað er heilsa? Hvað er heilbrigt? Víst verður það ekki eingöngu mælt og metið út frá því sem maðurinn setur í sig og hversu fljótur hann er svo að brenna því á brettinu. Nei, heilsa er annað og meira. Íslenskan er hér eins og svo oft okkur dýrmæt hjálparhella við að læra og skynja hvað í hugtakinu felst. Er ekki orðið tengt lýsingarorðinu „heill“? Að vera heil manneskja er ekki það að rækta líkamann einn en vanrækja aðra þætti lífsins.
Að vera heill er að búa við jafnvægi líkama anda og sálar. Heilbrigði í anda Biblíunnar snýst um það að eiga gott samfélag við annað fólk, að hjálpa þeim sem þurfa á því að halda, að styðja þá sem eru máttvana og leggja þeim lið sem eru fátækir, hungraðir og þjáðir. Við þurfum ekki að gera margar tilraunir í þeim efnum til þess að skynja það hvernig líkaminn okkar bregst við þegar við finnum með sönnu að við höfum unnið það sem gott er og veitt blessun í líf þeirra sem í kringum okkur eru. Snarlega skynjum við svörun frá því ótrúlega sköpunarverki sem við erum, einhver innri rödd talar til okkar og segir: „þetta er einmitt málið.“
Biblían boðar aftur og aftur að kærleikurinn til náungans sé einn mikilvægasti tilgangur mannsins. Heilbrigði er líka það að rækta sitt andlega líf, að biðja bæna, að taka þátt í starfsemi í þeim anda sem hér er stunduð, vitandi það að gott tré ber góða ávöxtu. Til þess að geta uppskorið vel þarf að huga að rótum og stofni – einmitt sálarlífinu okkar.
Heilbrigði og friður
Heilbrigði er í raun orðið sem við tölum um sem „frið“ hér í kirkjunni. Friðurinn, eða shalom er einmitt þetta – jafnvægi – sátt. Ekki bara það að gæta að skrokknum, sem getur hæglega gengið út í öfgar eins og við vitum – heldur hitt að passa upp á félagslega líðan okkar, að umgangast annað fólk, að láta gott af sér leiða og loks: að rækta sitt innra líf með íhugun, bæn og kyrrð. Þetta síðasta, sem við getum kallað heilsuvernd sálarinnar, á ekki síst undir högg að sækja þar sem áreitið dynur á úr öllum áttum og sífellt verður erfiðara fyrir fólk, ekki síst börn og ungmenni að einbeita sér að nokkru verki. Ef við gætum að þessu sanna jafnvægi finnum við hinn sanna frið sem ekkert megnar frá okkur að taka. Líf og dauði
Guðspjallið byrjar á þessu angistarfulla ákalli: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn“, hrópar Marta úr djúpi sorgarinnar. En orð Krists hafa síðan verið ótal syrgjendum huggun enda eru þau flutt í lok hverrar útfarar: „Hver sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.“ Andstæðurnar, líf og dauði, birtast að nýju en nú í sömu málsgrein en það er eins og orðin merki eitthvað annað en við eigum að venjast.
Hvernig getur sá lifað sem deyr? Eitthvað annað býr hér að baki. Jú, er það ekki heild alls þess sem skapar sanna manneskju? Líkami, andi og sál mætast í upprisu kristinna manna. „Ég lifi í Jesú nafni, í Jesú nafni ég dey“ yrkir Hallgrímur Pétursson og endar þann mikla bálk með orðunum „Dauði ég óttast eigi, afl þitt né valdið gilt, í Kristí krafti ég segi, kom þú sæll þá þú vilt“ Hér er allt í jafnvægi og ekkert fær friðinn frá okkur að taka.
Þetta er hið sanna líf sem Kristur kallar okkur til. Það felur í sér heilsu sem horfir ekki aðeins til líkamans heldur allra þeirra þátta sem í sameiningu mynda líf okkar. Það felur í sér mælikvarða sem horfir ekki aðeins til þess sem við blasir í speglinum eða í augum annarra – heldur sönn viðmið sem eiga sér djúpar rætur í sálu okkar og boðskap Biblíunnar. Leyndardómurinn um upprisuna verður okkur hvatning til þess að lifa lífinu í allri sinni fullnustu. Heilsufræði sálarinnar er þarna rétt orðuð.
Slm 130, Fil 1.20-26 og Jóh 11.19-27