Uppstigningin og kristniboð Páls postula

Uppstigningin og kristniboð Páls postula

Postulasagan hefst á frásögninni af uppstigningu Jesú. Hann hafði í fjörutíu daga eftir dauða sinn birst postulunum sem hann hafði valið og gefið fyrmæli. Í þessa fjörutíu daga talaði hann um Guðs ríki og neytti matar með þeim.
Einar Benediktsson
21. maí 2009
Flokkar

Og hann sagði við þau: „Meðan ég var enn meðal ykkar sagði ég ykkur: Allt sem ritað er um mig í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum á að rætast.“

Síðan lauk hann upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar. Og hann sagði við þau: „Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem. Þið eruð vottar þessa. Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“

Síðan fór hann með þau út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þau. En það varð, meðan hann var að blessa þau, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. En þau féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. Og þau voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð.

Lúk 24.44-53

Postulasagan hefst á frásögninni af uppstigningu Jesú. Hann hafði í fjörutíu daga eftir dauða sinn birst postulunum sem hann hafði valið og gefið fyrmæli. Í þessa fjörutíu daga talaði hann um Guðs ríki og neytti matar með þeim. Hann bauð þeim að fara ekki burt úr Jeúsalem en svaraði spurningum þeirra um endurreisn ríkisins handa Ísrael með þeim orðum að ...” þér munuð öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir yður og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar”. Þegar hann hafði mælt þetta varð hann upp numinn að þeim ásjáandi og ský huldi hann sjónum þeirra. Er þeir störðu til himins á efir honum þegar hann hvarf , þá stóðu hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum og sögðu “ Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesú , sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins. “

Þessi texti tengist stuttri frásögn uppstigningarinnar í lok Lúkasarguðspjalls. Postulasagan er beint framhald þess guðspjalls og segir m.a. frá hinu alveg ótrúlega kristniboð Páls postula um Litlu-Asíu og til Evrópu. Þar með breiddist fagnaðarerindið vissulega út svo sem Jesús mælti fyrir. Það er rétt að átta sig aðeins á tímaramma atburðanna og þessara tveggja frásagna. Jesús lætur lífið rétt um árið 30 og Postulasagan er samin um 64 e. Kr. Lúkas er einn af samferðamönnum Páls postula. Allar heimildir eru traustar og vissulega er Postulasagan ekki véfengd sem örugg söguleg heimild.

Og hvað segir þessi saga? Hún segir frá því að Pétur og Jóhannes, óbrotnir alþýðumenn sem svo er lýst, stofna fyrsta söfnuðinn í Jerúsalem gegn hinni hörðustu andstöðu æðstuprestanna og valdsmanna. Og lærisveinum fjölgar ört en þeirra á meðal er Stefán sem er grýttur í hel. Sál, rómverskur borgari, sem stendur að miklum ofsóknum gegn kristnum lætur sér það vel líka. En það er Sál sem leggur leið sína til Damaskus og blindast á leiðinni af ljósi af himni. Þessi maður er valinn af Drottni til að bera nafn hans fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels. Hann ber síðan nafnið Páll og enginn er honum ötulli í trúboði og stofnun söfnuða. Kristniboðsferðir hans ná fyrst yfir ekki minna landssvæði en það sem nú er Sýrland, Tyrkland og Grikkland og að lokum um Miðjarðarhafseyjar og þaðan til Rómar. Bréf Páls postula til hinna ýmsu safnaða eru drjúgur hluti Nýja Testamentisins. Þau eru forn að formi og boðskapur þeirra á oft við aðstæður liðins tíma. En að kjarna til eiga þau erindi til lesanda allra alda og nægir þar að nefna Kærleiksóðinn í fyrra bréfi Páls til Korintumanna. Fleiri en ég telja þann texta það sem þeim er kærast í Ritningunni. Páll postuli hlýtur að teljast hvað fyrstur guðfræðinga.

Postulasagan segir okkur frá uppstigningu Jesú og því næst frá hvítasunnunni og sendingu heilags anda. Pétur stígur fram og ávarpar Jerúsalembúa og segir þeim að taka sinnaskiptum og láta skírast í nafni Jesú Krists til að öðlast fyrirgefningu syndanna og gjöf heilags anda. Og þúsundir taka stöðugt að bætast í hóp hinna kristnu. Frásögnin af þvi sem tekur að gerast í kjölfar uppstigningarinnar er vitnisburður um þann ótrúlega kraft sem kviknar við útbreiðslu kristninnar. Jesús steig upp til himna en það er kraftur hins heilaga anda sem gerði þessa útbreiðslu að veruleika. Án þess að ég ætli mér útskýringar á því flólkna máli sem er kristnin í heiminum í dag, þá er talið að 1,5 – 2,1 milljarðar manna játi kristna trú í ýmsum trúardeildum og er oft miðað við að kristnir séu um þriðjungur mannkynsins. Ég var erlendis í rúm 40 ár af fullorðinslífinu og átti gott athvarf í mörgum kirkjum öðrum en okkar kæru lúthersku. Kominn heim er ég þakklátur kirkjum og kennimönnum höfuðborgarinnar en þar er minn fasti punktur sóknarkirkjan okkar í Hvassaleiti, Grensásskirkja. Það hefur verið til verulegrar eflingar kirkjuhaldinu okkar að þar hafa starfað sl. tvo vetur messuhópar En ég á ekki síður heima hér í Dómkirkjunni enda skírður hér og fermdur og á til ættar að sækja í gömlu Reykjavík frá því að þetta guðshús var reist.

Í fyrra lá leið mín til fornra rústa borga Rómaveldis við Miðjarðarhafið þar sem áður hét Antíokkía en nú er Anatólía í Tyrklandi. Rómverjar byggðu úr marmara og hrörnun þessara frábæru mannvirkja er ekki slík að enn megi ekki sjá vel fyrir sér styttur hinna fornu goða og mikil súlnagöng; leiðin eftir þeim liggur að stóru, afar vel hönnuðu leikhúsi þar sem fjöldinn skipaði sér til að hlýða á leikrit, ljóðlist eða kappræður. Leiðsögumaður gat staðhæft að einmitt hérna var það sem Páll postuli og fylgdarmaður hans Barnabas fluttu mál sitt og boða nýja trú. Áhrifin voru líka þau að mér fannst ég geta sett mig í þær stellingar að vera sjálfur þarna með og heyra Pál flytja fagnaðarerindið. Víst tók það sinn tíma og miklar fórnir en kristnin átti eftir að sigra og verður trú Rómarveldis. Þessar söguslóðir hljóta að fylla okkur lotningu fyrir Postulasögunni og Páli postula fyrst og fremst. Og í þessu sambandi vil ég minnast á aðra slíka upplifun mína sem var fyrir fáum árum þegar ég heimsótti eyjuna Patmos í gríska eyjahafinu. Í 1. kapitula Opinberunnarbókarinnar er þess getið að Jóhannes hafi ritað það guðspjall í helli á Patmos. Sá staður hefur varðveist til þessa dags og var stundin þar mér merkileg upplifun.Og því ætti það ekki að vera rétt eins og Þingvellir færa okkur hugarfarslega nær upphafi Íslandsbyggðar.Textar Nýja Testamentisins eru vissulega sögulega heimildir og staðir sem tilgreindir eru hafa mjög sterka helgi.

Nú ætla ég ekki að gera mína eigin trúarreynslu að miklu umræðuefni en vil nefna að ég öðlaðist hiklausa og einlæga Guðstrú sem barn. Ég tel mér það til gæfu að hafa átt trúaða foreldra og verið alinn upp við bænir og trúariðkun. Þegar ég var fermdur af sr. Bjarna þann 15. apríl 1945 hafði ég verið í mörg ár í KFUM með dvölum í Vatnaskógi. Ég var í Landakotsskóla fram til fullnaðarprófs og þar var kristnifæðsla í höndum kaþólsku prestanna. Mér er einnig minnisstæður áhrifaríkur sunnudagaskóli í Háskólakapellunni þegar ég var smástrákur. Þessi grunnur frá barnæsku tel ég að hafi leitt til þess að árið 1981 varð ég fyrir trúarlegri reynslu sem öllu breytti í mínu lífi. Það tengist daglegri iðkun svokallaðs 12-spora kerfis AA-samtakanna sem náð hefur svo mikilli útbreiðslu að um það þarf ekki að fjölyrða. Reyndar eru æðruleysisguðþjónustur sem hér hafa verið haldnar til margra ára tengdar AA og bænin sem þessi góða þjónusta er kennd við hljóðar svo.

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt kjark til að breyta því, sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Mín eigin reynsla er að æðruleysið sem beðið er um til Guðs í þessari bæn sé ekki hvað síst um skilning á því sem ég í eigingirni vil halda fast í, mér og öðrum til tjóns og ekki losa mig við.. Það á við um óvild og öfund í annarra garð og þá ekki síður allar þær draumalausnir sem mér finnst ég eiga skilið. Við segjum í Faðirvorinu “ verði þinn vilji” en erum uppfull af hugmyndum að sjálf vitum við allt best, að eigin vilji eigi að ráða.. Þá er það heldur ekki til góðs að líta um öxl yfir farinn veg og segja “ ef nú bara “ þetta eða hitt hefði farið einhvern veginn öðru vísi en varð. Ég verð að lifa með fyrri ákvörðunum en ekki draumórum um eitthvað allt annað. Gærdagurinn er horfinn sem hluti þroskaferilsins. Kjarkurinn til að breyta því sem verður breytt byggir meðfram á þeirri umhyggju að geta hlustað betur á aðra og skilið að sjálfur er maður síður en svo miðpunktur tilverunnar. Það eru ekki bara mínar heldur einnig annara forsendur sem skipta máli. Ég þarf að læra að íhuga margt í kyrrþey en láta ekki dagsins önn ráða. Þetta á svo sannarlega við í seinni tíð þegar þjóðmálin ryðja öðru frá og ég sest í huganum í sæti dómara. Þá er réttur tími að hugsa til æðruleysisbænarinnar og reyna að iðka lítillæti

Mér þykir gott að hafa verið í kyrrðar- eða íhugununarhóp í einni af kirkjum bæjarins þar sem svokölluð Jesúbæn er viðhöfð en hana fáum við frá orþódoxunum í austurkirkjunni. Bænin er afar einfalt ákall til Jesú Guðs sonar um miskunn. Þetta bænarákall leyfi ég mér að skilja sem hinn kristna boðskap í hnotskurn eða niðurstöðu þess sem biblían kennir okkur um soninn Jesú. Nafnið Jesú var gefið syninum sem manni og það kom ekki frá Jósep eða Maríu sjálfum heldur var þeim kunngjört það af engli. Þá er boðað það hlutverk að hann muni frelsa lýð sinn frá syndum þeirra. Jesú bænin hefur mikla þýðingu í trúariðkunum austurkirkjunnar en andi hennar nær vissulega til allra annara á kyrrðarstund. Á eyjunni Patmos er gríðamikið munkaklaustur frá dögum frumkristninnar og hefur mikinn hefðarsess í austurkirkjunni. Helgimyndir, íkonar, gegna miklu hlutverki í trúarlífi heimila og barnauppfræðslu í höndum mæðranna hjá þessum trúbræðrum okkar. Ég held mikið upp á íkon með guðspjallamanninum Jóhannesi sem ég kom með frá klaustrinu í Patmos. Það var vissulega vel til fallið af Guðfræðistofnun Háskóla Íslands að bjóða hingað einum fyrirmanna austurkirkjunnar, Metropolitan Kallistos Ware, sem flutti ágætan fyrirlestur um guðrækni þeirrar kirkju í kapellu Háskólans sl. laugardag. Eins og vænta mátti vék hann að hinu mikla gildi Jesúbænarinnar.

En hverjar svo sem guðfræðilegar eða sagnfræðilegar útleggingar og skýringar eru á Biblíunni og hennar sífrjóu textum, er þó undirstaða okkar sú trú að lúta beri handleiðslu guðs. Sigurbjörn biskup sagði eitt sinn : Trúin er ekki að vita - Trúin er að treysta. Vinfengi við þann mikla kirkjuhöfðingja átti ég frá æskuárum en hann var heimilisvinur foreldra minna. Og enn fáum við kærkomna pistla Sigurbjörns á sunnudögum en þar var nýlega sagt: “ En hvað ertu að gera , þegar þú biður? Svarið við því er einfalt: Þú ert að hugsa til Guðs, þú beinir huga til hans, vilt vera hjá honum í huganum eða með hugann hjá honum. Það er víst , að við erum í huga hans. Annars værum við ekki til. Hann er með huga sinn hjá þér. Þú ert hugsun hans, annars værir þú ekkert.” Í þeim anda lýk ég þessum fátæklegu hugleiðingum mínum og með því sem Hallgrímur Pétursson segir í 44. Passíusálminum:

Láttu guðs hönd þig leiða hér, lífsreglu halt þá beztu, blessuð hans orð, sem boðast þér, í brjósti og hjarta festu.

Vertu, Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni.