Hjónaband og stofustundir

Hjónaband og stofustundir

Það er svo mikilvægt að skapa gæði úr því sem er mögulegt, við getum ekki lifað lífi annars fólks, og ef við streitumst við að gera það, þá er næsta víst að við höndlum aldrei hamingjuna.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
05. mars 2012
Flokkar

Það er mjög merkilegt að hugsa til þess hve mörg ástarsambönd og hjónabönd eiga uppruna sinn í aðstæðum þar sem fólk er undir áhrifum vínanda, það þarf sennilega ekki mjög fræðilega úttekt til að komast að þeirri niðurstöðu að meira en helmingur íslenskra hjónabanda á uppruna sinn á öldurhúsum. Ég ætla ekki að ganga svo langt að biðja safnaðarmeðlimi um að rétta upp hönd ef sambönd þeirra eiga slíkan uppruna en ég get samt hæglega gefið mig fram með látlausri handauppréttingu, þó ber að halda þeirri skemmtilegu staðreynd til haga að þetta kvöld var ég sjálf að vinna á barnum í flöskugrænni skyrtu og buffaloskóm, en hann var hins vegar á barnum að blikka blessaðan þjóninn sem kunni ekki fótum sínum forráð. En hvað sem því líður þá virðast íslensk hjónabönd svo sem ekkert viðkvæmari en önnur, við virðumst vera tiltölulega lánsöm þrátt fyrir allt. Og hvað er það að segja okkur? Jú er það ekki bara það að við erum heilt yfir frekar vel heppnað fólk, ekkert betur heppnuð en aðrar þjóðir en bara frekar fín og megum vel við una, við höldum alltaf að hörmungarnar séu handan við hornið og málum skrattann hvarvetna á vegg, en sjáum ekki að allt í kringum okkur lifa farsælar kjarnafjölskyldur sem eiga á vissan hátt uppruna sinn í Sjallanum nú eða á Glaumbar. Manneskjur hafa tilhneigingu til að laðast að hinu góða, eins og Bartimeus blindi sem við heyrðum af hér í guðspjallinu áðan, hann var nú kannski ekki ölvaður af áfengi en hann var blindur og gat því ekki numið umhverfi sitt að fullu, þó skynjaði hann hið góða og það sem meira er, hann hafði trú á því og þess vegna sá hann líka Jesú þrátt fyrir sjónleysið. Það er mín reynsla að þeir erfiðleikar sem upp koma í hjónaböndum og öðrum ástarsamböndum stafi sjaldnast af því að fólk kunni ekki að velja sér maka, ég held að í mörgum tilfellum stafi erfiðleikarnir af því að við sjáum ekki okkur sjálf, hér á ég að sjálfsögðu ekki við ofbeldissambönd þar sem sjúkleiki ræður ríkjum heldur það sem gengur og gerist meðal venjulegs fólks í eðlilegum aðstæðum. Bartimeus, hann kom auga á Jesú þrátt fyrir blindu sína en hann sá samt ekki hvaða mann hann hafði sjálfur að geyma, ekki fyrr en Jesús benti honum á það með eftirfarandi orðum „„Far þú, trú þín hefur bjargað þér“ þið takið eftir að Jesús beitir engum brögðum öðrum en þeim að efla sjálfsmynd mannsins, hann ýtir honum af stað til að takast á við sjálfan sig og það er auðvitað heilmikið mál og raunar stærsta verkefni kirkjunnar í veröldinni, að efla sjálfsmynd fólks, reisa það við og hvetja áfram. Sjálfsmyndarkreppa er stærsta ógn mannlegra samskipta og þar af leiðandi stærsta ógn hjónabandsins, sjálfsmynd manneskjunnar er nefnilega fjöregg farsældarinnar, farsæll maður hefur undantekningarlaust heilbrigða sjálfsmynd og hann er farsæll vegna þess að hann á gott með að tengjast öðru fólki og mynda djúpstæð tengsl, vináttu og ástar. Það hljómar kannski furðulega en það er samt staðreynd að það besta sem þú gerir maka þínum er að rækta sjálfan þig með það fyrir augum að efla sjálfsmyndina, það þýðir ekki að þú eigir að vera eigingjarn enda verður engin ræktun úr slíkum ranni, það er raunar frekar fólgin ákveðin eigingirni í því að takast ekki á við sjálfan sig. En það að efla sjálfsmyndina krefst þess að maður efli sjálfsþekkingu sína, að maður viti hvaðan maður kemur og hver maður er og hvert maður vill fara. Að maður öðlist færni til að greina líðan sína hverju sinni, af því að það er öruggt að þeir dagar koma í lífi okkar allra að við greinum neikvæðar tilfinningar í sál okkar og sinni, finnum sem dæmi, reiði, öfund,afbrýði, gremju, skömm, sektarkennd og depurð, engin manneskja kemst hjá þessum tilfinningum, ekki frekar en skatti og dauða. Um daginn heyrði ég lífsleiknissnillinginn Margréti Pálu Ólafsdóttur tala um það í útvarpsviðtali að við yrðum að ala börnin okkar upp í því að þau hefðu val, það væri svo nauðsynlegt til þess að þau sem fullveðja einstaklingar finndu og þekktu að þau gæti valið góða leið í öllum aðstæðum. Þess vegna er gott að byrja strax, leyfa þeim fyrst um sinn að velja milli einfaldra hluta eins og t.d hvort þau fari í gula eða bláa sokka á morgnanna eða borði fjórar skeiðar eða fimm af hafragrautnum. Með tímanum venjast börnin sem síðar verða fullorðin því, að við höfum val í öllum aðstæðum, líka vondu aðstæðunum, af því að eins og séra Kaj Munk orðaði það svo fallega þá getur meira að segja Vatnsliljan sjálf í tærleika sínum vaxið upp úr leðjunni, það getur nefnilega ýmislegt gott komið út úr hinu vonda eða erfiða, rétt eins og upprisa Jesú Krists. Það svo mikilvægt að venja sig á að líta á lífsgönguna sem endalaust val allt fram til hinsta dags, allt fram í rauðan dauðann, já og meira að segja þá geturðu valið hvað þú vilt sjá og hverju þú vilt trúa og hvernig þú vilt skilja við, og trúðu mér ég hef séð vatnsliljuna fyrrnefndu blómstra í slíkum aðstæðum, þar sem sérhver snerting og sérhvert orð varð þúsundfalt í inntaki og fegurð. Það er mikilvægt að virkja valvitundina í hjónabandinu, vegna þess að eðli hjónabandsins er að það koma góðir tímar og það koma erfiðir tímar ekki bara í innra lífi heldur umhverfinu, alveg eins og nú þegar kreppir að í fjármálum heimilanna, þegar utanlandsferðir og ýmislegt annað sem áður var talið sjálfsögð upplyfting er ekki í boði, þá er samt val um að gera það besta úr aðstæðum sem raunar teljast hvort eð er lúxúsvandi á alheimskvarða, upplyfting snýst ekki síst um það að eiga tíma fyrir hvort annað og skapa vettvang til að njóta þess sem er í boði miðað við fjárhag og heilsu, við höfum alltaf val um hvernig við viljum haga tíma okkar, ekki reyna að segja mér annað um leið og þú kveikir á Facebook. Svo höfum við líka val um að horfa fram á veginn og hlakka til þess þegar hagur vænkast og draumar rætast. Við höfum val til að fegra daginn með innihaldsríku samtali við maka okkur og þó að við séum kannski ekki í upphafi samstíga á þeirri vegferð, þá höfum við val um að læra og tileinka okkur nýja siði. Ég þekki t.d. konu sem hefur komið upp þeim sið á heimili sínu að eiga alltaf stofustund með eiginmanninum eftir vinnu, þá setjast þau inn í hlýlegu stofuna sína með kaffibolla og fara yfir daginn, þetta eru gæðastundir sem hún kom með inn í sambandið og hann í þroska sínum valdi að meðtaka. Við vorum einmitt stundum að stríða henni á því hvað hefði nú verið tekið fyrir á síðustu stofustund um leið og við dáðumst að framtakinu. Það besta sem ég og maðurinn minn vitum er t.d. að fá að aka tvö saman um langan veg því þá spjöllum við undantekningarlaust um eitthvað djúpstætt, ræðum sambandið og hvað við sjáum fyrir okkur að mætti fara betur, látum okkur svo dreyma um framtíðina og skipuleggjum eitthvað skemmtilegt handa ellinni, þetta eru ferðir sem ég hlakka til og lifi á, svo ekki láta þér detta í hug að biðja um far næst þegar við förum suður. Það er svo mikilvægt að skapa gæði úr því sem er mögulegt, við getum ekki lifað lífi annars fólks, og ef við streitumst við að gera það, þá er næsta víst að við höndlum aldrei hamingjuna. Ég gat þess í upphafi að mörg hjónabönd verði til í nærveru vínandans og var það svo sem ekki til að eigna þeim anda heiðurinn af þvi góða sem gerist manna á milli slíkt væri nú skrýtið af manneskju sem sér afleiðingar ofneyslu allt of oft í starfi sínu, en það er hins vegar annar andi sem ég vil benda á sem gott er að fyllast sérhvern dag, ekki síst í samfylgdinni við makann, og það er heilagur andi, andi Guðs, andi kærleikans, en kærleikurinn er ekkert vínarbrauð eða marsípan heldur hvort tveggja í senn hin dýpsta alvara og mesta gleði lífsins, kærleikurinn er frumkraftur alls sem lífsandann dregur og þess vegna kæru vinir er líka um svo margt gott að velja. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.