Magnað andrúmsloft í Prag

Magnað andrúmsloft í Prag

Á Evrópumóti KFUM í Prag í ágúst 2008 komu saman fjölmargir menningarstraumar, ólíkir hópar úr ýmsum greinum KFUM-fjölskyldunnar og ólíkar leiðir til að lofa og tilbiðja Drottin allra. Hann er sá sem sameinaði okkur.
fullname - andlitsmynd Þorgeir Arason
25. ágúst 2008

Við erum stödd í Prag í fyrstu viku ágústmánaðar 2008. Við Íslendingarnir, sem höfðum búið okkur undir það versta hvað hitann snerti, erum undrandi á hversu loftslagið hér er milt og notalegt að koma til Tékklands. Við erum 120 stykki frá Íslandi, flestöll á aldrinum 16-30 ára, ungmenni og leiðtogar úr æskulýðsstarfi KFUM og KFUK og Þjóðkirkjunnar. Til Prag erum við komin til að taka þátt í öðru stórmóti Evrópusambands KFUM, en hið fyrsta var haldið hér í borg árið 2003. Þátttakendur á mótinu eru hátt í 7000 frá vel flestum þjóðum álfunnar og raunar einnig nokkrum utan hennar, og auðvitað þykir íslenski hópurinn óvenjustór miðað við höfðatölu þjóðar sinnar!

Hvernig á að lýsa andrúmsloftinu á móti sem þessu? Hér koma saman fjölmargir menningarstraumar, ólíkir hópar úr ýmsum greinum KFUM-fjölskyldunnar og ólíkar leiðir til að lofa og tilbiðja Drottin allra. Hann er sá sem sameinar okkur. Hver þjóð hefur sinn kynningarbás í heimsþorpi mótsins, þar sem m.a. er hægt að bragða á úkraínsku góðgæti, kynna sér svissneskt skátastarf og læra að segja „Ég elska þig“ á ýmsum tungumálum álfunnar! Annars staðar á mótinu er hægt að íhuga Guðs orð í einhverjum af sjö andaktsstundum sem haldnar eru í tjaldkirkju staðarins á degi hverjum; fylgjast með hinum fjölmörgu Ten-Sing-fjöllistahópum úr KFUM-starfinu troða upp með tónlist, söng og dansi; fá útrás fyrir sköpunarkraftana í myndlistarsmiðju mótsins; fræðast um forvarnarstarf gegn HIV og alnæmi í Indlandi á vegum alþjóðlegs KFUM-hjálparstarfs; taka þátt í knattspyrnumóti, körfuknattleik eða tennis, dást að heimsmeisturunum í snú-snú frá KFUM í Bandaríkjunum leika listir sínar – nú eða bara taka lífinu með ró og slaka á í hengirúmi!

Hér hefur aðeins fátt eitt verið nefnt.

Heilbrigt, kristið æskulýðsstarf snýst um að rækta manneskjuna alla: líkama, hug og anda. Og dagskrá á móti sem þessu er óhjákvæmilega mjög fjölbreytt. Það er enda ekkert sannarlega mannlegt óviðkomandi sönnum kristindómi, eins og sr. Friðrik Friðriksson, stofnandi KFUM og KFUK á Íslandi, sagði gjarnan! Starf KFUM á alþjóðavísu ber þessa merki, eins margbreytilegt og það er. Íþróttir af öllu tagi, myndlist, dans, tónlist og skátastarf fá þar sinn sess, í mismiklum mæli eftir löndum. Guðs orðið má heldur ekki gleymast, bænin og bræðra- og systrasamfélagið í Kristi. Og svo er það hjálparstarfið, það að koma náunga sínum til hjálpar þar sem þess gerist þörf, þvert á landamerki þjóðernis, trúarbragða eða litarháttar.

Það sem nánast öll félögin, sem starfa undir merkjum Kristilegs félags ungra manna (YMCA), eiga hins vegar sameiginlegt, er að vilja standa undir nafni félags síns – með því að bjóða upp á starf sem er í senn kristilegt, félagsstarf, ætlað ungu fólki og með manngildishugsjón að leiðarljósi.

Oft er rætt um forvarnargildi æskulýðsstarfs. Ljóst er að spennandi og fjölbreytt verkefni í góðum félagsskap, á borð við þau, sem boðið er upp á í æskulýðsstarfi KFUM og KFUK og kirkjunnar, hafa ótvíræð áhrif gegn vímuefnaneyslu unglinga, rétt eins og þau verkefni sem í boði eru hjá t.d. íþróttafélögunum og skátahreyfingunni. En kristilegt æskulýðsstarf hefur þó einnig annað markmið, sem má ætla ekki síður þarft. Það er, að ungu fólki finnist því ætlaður staður og það eiga heima í því eina ríki, sem eilíft er í heiminum: í ríki Jesú Krists; hinni eilífu kirkju tilbiðjenda hans.

(Tengill á myndir af hátíðinni: http://www.ihlcom.com/prague/praguebestfriday2/ )