Höggormurinn var góði gæinn

Höggormurinn var góði gæinn

Júdasarguðspjall segir ekki söguna af Jesú, starfi hans eða dæmisögum líkt og guðspjöllin fjögur í Nýja testamentinu gera. Heldur er þarna á ferð samtal Jesú og Júdasar rétt fyrir páskahátíðina. Í samtalinu opinberar Jesús Júdasi sannindi, sem enginn annar þekkir. Hér er Júdas ekki sá, sem sveik Jesú og brást honum.
fullname - andlitsmynd Magnús Erlingsson
01. maí 2006

Júdasarguðspjall segir ekki söguna af Jesú, starfi hans eða dæmisögum líkt og guðspjöllin fjögur í Nýja testamentinu gera. Heldur er þarna á ferð samtal Jesú og Júdasar rétt fyrir páskahátíðina. Í samtalinu opinberar Jesús Júdasi sannindi, sem enginn annar þekkir.

Það er ýmislegt í Júdasarguðspjalli, sem kemur lesendum Nýja testamentisins á óvart. Eins og til að mynda í 34. versinu þar sem Jesús hlær að því þegar lærisveinarnir fara með þakkarbæn yfir brauðinu. Á öðrum stað hlær Jesús að tilsvörum Júdasar. Hér birtist mjög svo óvanaleg mynd af frelsaranum, sem brosir eða hlær að takmörkuðum skilningi lærisveina sinna. Sú mynd, sem dregin er upp af Júdasi, er einnig frábrugðin því, sem hin hefðbundnu guðspjöll greina frá. Hér er Júdas ekki sá, sem sveik Jesú og brást honum, heldur er hann sá af lærisveinunum, sem hvað best skilur Jesú og stendur næst honum. Flestir af lesendum Nýja testamentisins myndu segja að hér væri sannleikanum snúið heldur betur á hvolf. Hið sama er að segja um frásögu Júdasarguðspjalls af sköpun heimsins. Heimurinn er ekki skapaður af hinum eilífa og sanna Guði heldur er veröldin gjörð af lægra settum guðdómi. Og þessi veröld, sem við þekkjum, er ill í sjálfu sér.

[poll=3]

Þessi heimssýn Júdasarguðspjalls sýnir okkur að hér er á ferð gnóstískt rit. Á öldunum kringum kristsburð komu fram margvíslegar gnóstískar hugmyndir bæði í hellensískum átrúnaði og menningu en einnig verður þessa vart hjá Gyðingum og kristnum mönnum. Sterk tvíhyggja einkenndi gnóstíkismann þar sem skilið var á milli efnis og anda. Efnið og veröldin voru álitin ill en andinn var tengdur sannleikanum, ljósinu og Guði. Frelsunin var fólgin í því að upplýsa og tendra guðdómsneistann, sem bjó í brjóstum manna. Það gerðist fyrir sérstaka þekkingu, gnosis, sem einungis fáum útvöldum var opinberuð. Þekkingin fólst í því að gera sér grein fyrir að hinn sanni kjarni mannsins væri andi hans og andinn væri í raun ekki þessa heims heldur væru heimkynni hans í ljósheimum langt ofan við þennan viðbjóðslega og ófullkomna heim, sem við lifum og hrærumst í. Líkaminn og veröldin væri ekki annað en vesæl tjaldbúð, sem andinn þyrfti að losna úr. Þess vegna segir Jesús við Júdas: “En þú tekur þeim öllum fram því að þú munt fórnfæra manninum, sem ég er nú klæddur í.”

Sumir gnóstíkerar litu svo á að guð Gamla testamentisins væri engan veginn sá sami Guð og Jesús boðar trú á. Illur guðdómur hefði skapað heiminn og í raun hneppt mannsandann í ánauð. Kirkjufeðurnir álitu þetta vera villutrú og fyrsta grein Postullegu trúarjátningarinnar, “Ég trúi á Guð föður, skapara himins og jarðar”, er í raun sett til höfuðs þessum gnóstísku viðhorfum. Kirkjufeðurnir sögðu að gnóstíkerar sneru einatt sannleikanum á hvolf. Til dæmis litu sumir gnóstíkerar svo á að góði gæjinn í sköpunarsögunni og syndafallinu væri í raun höggormurinn því að hann hefði hjálpað Adam og Evu með því að veita þeim þekkingu, gnosis, en höggormurinn fékk þau Adam og Evu til að borða af skilningstrénu. Í íslensku Biblíunni er talað um skilningstré góðs og ills en hugsanlega mætti líka þýða þetta sem skilningstré alls þess sem er.

Til að ljá boðskap sínum aukið sannleiksgildi þá virðast sumir gnóstískir höfundar hafa eignað rit sín þekktum persónum úr Nýja testamentinu. Svo virðist sem höfundur Júdasarguðspjalls hafi farið þessa leið. Erfitt getur því verið að fullyrða hvort þetta gnóstíska samræðuguðspjall geymi einhver söguleg minni um Jesú og Júdas. Þó mætti hér minna á frásögn Jóhannesarguðspjalls af seinustu máltíðinni í 13. kafla. Þar segir Jesús að einn af lærisveinunum muni svíkja hann og síðan snýr hann sér að Júdasi og segir: “Það sem þú gjörir, það gjör þú skjótt!” Var Jesús þarna að hveta Júdas til að svíkja sig í hendur yfirvaldanna í Jerúsalem? Hugsanlegt er að höfundur Júdasarguðspjalls sé í riti sínu að leggja út af þessum texta í Jóhannesarguðspjalli.