I.
Tvær hátíðir eru haldnar um þessa helgi frá fornu fari í hinum kristna heimi, önnur á laugardegi og hin í dag, á sunnudegi, á allra sálna messu. Í gær var haldin allra heilagra messa um mestan hinn kristna heim, einnig víða í lútherskum kirkjum. Og í dag er allra sálna messa. Á allra sálna messu minnumst við og biðjum fyrir öllum þeim sem látnir eru. Þessi hátíð hefur þó ekki verið haldin formlega í lúthersku kirkjunni, og er það miður. Þess í stað hefur helgidagur gærdagsins verið fluttur yfir á sunnudaginn.
Allra sálna messa var reyndar fyrst sungin opinberlega árið 998 í Cluny klaustrinu í Frakklandi, en frá Cluny klaustrinu kom eins stærsta siðbótarhreyfing miðaldanna, á þeim tíma þegar mikil spilling hafði ríkt í kaþólsku kirkjunni sem þá var hin eina viðurkennda í Vestur-Evrópu. Víða um lönd kveikja menn á allra sálna messu ljós á leiðum ástvina sinna og halda fyrirbænaguðsþjónustur fyrir þeim sem horfnir eru úr þessum heimi. Sú hefð að halda líkar fyrirbænaguðsþjónustur er nú einnig að ryðja sér til rúms hér á landi. Einn af textum dagsins í dag fjallar einmitt um öll þau sem komin eru úr þrengingunni miklu, frá dauðanum og til eilífa lífsins og hafa hvítþvegið sig í blóði lambsins sem er Jesús kristur. Sá texti er úr Opinberunarbók Jóhannesar og við heyrðum hann lesinn hérna áðan. Í þeim texta fáum við með augum spámannsins Jóhannesar að líta yfir hin huldu landamæri er skilja að þetta líf og hið næsta, yfir til þeirra sem Guð hefur kallað til hinnar eilífu Guðsþjónustu í himnesku musteri sínu. Þetta er reyndar eitt af fáum dæmum um það að Biblían fjalli bint um hvernig sú tilvera er sem bíður okkar eftir dauðann. Oftast gerir Biblían lítið af því að tala um lífið eftir dauðann. Hún fjallar þess meira um lífið hér og nú, það líf sem við lifum með og fyrir Guð og náungann í heiminum. En það er ekki vegna þess að Biblían boði ekki eilíft líf eða tilvist og tilveru einstaklingsins eftir dauðann. Þvert á móti . Það ríkir alger fullvissa um eilífa lífið í Nýja testamentinu, svo mikil fullvissa að það er eins og ekki þurfi að ræða það frekar. Það er eiginlega sjálfgefið. Nýja testamentið talar heldur ekki um lífið hér og nú og lífið eftir dauðan sem eitthvað aðskilið fyrirbrigði. Lífið sem við eigum í heiminum fyrir dauðastundina og lífið sem bíður okkar hjá Guði eftir dauðann er í raun eitt og hið sama segir Biblían. Því það er gefið af Guði, það er líf með Guði. Þess vegan er dauðinn engin endastöð. Hann er heldur ekki nýtt upphaf. Þaðan af síður er hann grafarsvefn í tilvistarleysi. Hann er þvert á móti framhald tilverunnar með Guði en í umbreyttri mynd. Þetta þarfnast reyndar nánari skýringar við. Það má líkja lífi okkar við óslitið ferðalag frá getnaði og fæðingu til dauða og síðan áfram frá dauða til nýrrar fæðingar í því sem við köllum eilífð. Á þeirri göngu gengur Jesús með okkur. Jesús fylgir okkur eftir frá fæðingu í gegnum brimbrot lífsins, í gleði og sorg. Og þegar dauðastundin rennur upp sleppir Jesús ekki af okkur hendinni. Handtak hans er þá hið sama og fyrr. Án þessa handtaks væri leiðin lokuð. En með dauða sínum og upprisu opnaði hann leiðina., Hann leiðir okkur í gegnum umbreytingu dauðans og til tilvistar með Guði. Við þurfum þess vegna ekki að hafa áhyggjur af eilífðinni segir Biblían okkur. Við þurfum ekki að leita sannanna. Því sá Jesús sem er með okkur í lífinu lætur okkur lifa áfram hjá Guði.
En í hverju er umbreyting lífsins fólgin eftir dauðann? Jú það líf sem bíður okkar hjá Guði er án þjáningar, án áhyggju, án ókyrrðar. Páll postuli talar um það í fyrra bréfi sínu til Korintumanna og segir svo :"En nú kynni einhver að segja: Hvernig rísa dauðir upp?" Og Páll svarar spurningunni þannig :"Til eru himneskir og til eru jarðneskir líkamar. En reyndar er vegsemd hinna himnesku eitt og hinna jarðnesku annað. Þetta hið forgengilega á að íklæðast óforgengileikanaum, og þetta hið dauðlega að íklæðast ódauðleikanum." Og svo endar Páll orð sín með þessari lofgjörð :"Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir drottinn vorn Jesú Krist".
Þetta er allt mikill leyndardómur og kannski ekki á mannlegu færi að skilja hann til hlýtar, ekki fyrr en við sjálf verðum kölluð fram fyrir hið himneska hásæti Guðs. Páll reynir að nota líkingar til að hjálpa okkur að skilja. Hið óforgengilega tekur við af forgengileikanum segir hann og viðeigum að íklæðast tilistinni með Guði eins og nýjum fötum. En kjarninn í því sem hann segir er sá að við munum ganga fram í eilífð Guðs, hin sömu og fyrr, þú og ég, en ekki forgengileg og tímanleg eins og núna, ekki háð stund og stað og klukku, heldur íklædd ódauðleikanum . Nánar getum við ekki komist því að skilja þennann leyndardóm. En ég vil ráðleggja hverjum þeim sem virkilega vill kynnast hinni kristnu upprisutrú að taka Nýja testamentið sitt og fletta upp á 15. kaflanum í fyrra korintubréfi og lesa það sem Páll skrifar þar. Ef þú gerir það kæri kirkjugestur muntu sjá að fullvissan um að lífið heldur áfram eftir dauðann er kjarni kristinnar trúar, það sem allt hitt byggir á.
Þess vegna getum við líka á allra sálna messu beðið fyrir öllum sálum, öllum þeim sem nú þegar standa frammi fyrir Guði í eilífð hans. Látnir ástvinir okkar eru þar í öruggri höfn. Þeir eru komnir úr þrengingunni miklu. Það er löngu kominn tími til að íslensk kirkja endurveki allra sálna messu og taki þar með þátt í fyrirbænum allra kristinna manna um alla veröld fyrir hinum látnu.
II.
Allra heilagra messa, sem haldin var í gær í hinum kristna heimi, en í dag hjá okkur, er reyndar nátengd allra sálna messu. Lengi vel bar hana upp á fyrsta nóvember. Á fyrstu og annnarri öld eftir fæðingu Krists hét þessi hátíð Messa allra píslarvotta. Þá minntust menn þeirra sem látið höfðu lífið fyrir trú sína. Síðar varð dagurinn helgaður öllum heilögum. Á allra heilagra messu minnumst við þannig hinna heilögu, þeirra sem með lífi sínu og sjálfsfórn hafa orðið öðrum mönnum leiðarljós og styrkur. Þau eru ljós Jesú í heiminum, oftast án þess að vita af því sjálf. Að vera heilagur merkir að vera helgaður, frátekinn. Öll munum við eftir helgum mönnum og konum, móður, ömmu, afa, föður, systkini, vini, einhverjum sem lifði og dó fyrir aðra, fyrir okkur og eru okkur fyrirmynd. Kirkjan minnist sérstaklega sumra nafngreindra helgra manna og kvenna úr sögu sinni, en þau eru til í ótölulegum fjölda önnur sem hjörtun okkar geyma í helgri minningu. Þau eru öll í hópnum sem Jóhannes greinir frá í Opinberunarbók sinni. Þau biðja fyrir okkur dag og nótt, hugsa til okkar, eru okkur nærri, eins og við biðjum fyrir þeim. Þau eru einnig hjá okkur á þessari stundu, hér og nú, stundu sem er sameiginleg bænastund á himni og á jörðu. Þeirra fremst er María, móðir Jesú. Fyrirbænir hennar og allra hinna sem biðja fyrir okkur á himnum fylgja okkur alla daga. Og á dauðastund okkar, þegar heimarnir tveir renna saman, hinn himneski og jarðneski og verða eitt, þegar við ekki lengur megnum að biðja fyrir okkur sjálfum, þá biðja hinir heilögu fyrir okkur frammi fyrir augliti Guðs.
Siðbreytingarmenn undir forystu Lúthers sameinuðu allra heilagra messu og allra sálna messu í eina hátíð. Það er sú hátíð sem við höldum í dag eins og ég hef áður sagt. Hún sameinar fyrirbænir ástvina okkar á himnum og okkar fyrirbænir. Í dag og alla daga erum við öll eitt í Kristi og lífinu sem hann gefur.
Í einum af þeim textum sem tilheyra þessum degi segir svo um hina kristnu von sem okkur er gefin varðand ilífið eftir dauðann. "Þá (eftir dauðastundina) mun sól þín ekki framar ganga undir, því að Drottinn mun vera þér eilíft ljós". Já , þess ihátíð er hátíð ljóssin, birtunnar sem okkur skín frá Guði í þessum heimi og hinum komandi. Birtan frá skírnarljósinu sem var afhent fyrr í athöfninni minnir á hið sama. Því Jesús er ljós lífsins, í þessum heimi og í hinum næsta. Þeir kirkjugestir sem þess óska, geta nú strax eftir þessa hugleiðingu mína kveikt á bænakertum á bænastjakanum okkar sem við köllum himnastigann. Hann stendur hér við predikunarstólinn. Hvert bænakerti sem við kveikjum í dag er fyrirbæn fyrir látnum ættingjum okkar og vinum sem hafa íklæðst ódauleikanum, afklæðst forgengileikanum og dvelja í nýrri tjaldbúð Guðs. Bænaljósin undirstrika hina kristnu von og trú á lífið eftir dauðann sem okkur er gefið fyrir Jesú Krist. Bænaljósið minnir okkur þannig á hið eilífa ljós Guðs sem logar á himni og jörðu. Í því ljósi lifum við alla daga , ekkert getur slökkt það og enginn mannlegur máttur svipt okkur því. Og í skininu af því ljósi munum við á ný finna ástvini okkar þegar einnig við verðum komin úr þrengingunni miklu og stöndum hvítklædd frammi fyrir hinum hæsta.
AMEN.