Við komum saman til að fagna upprisu frelsara okkar.

Við komum saman til að fagna upprisu frelsara okkar.

Gleðilega hátíð. Við komum saman hér í Dómkirkjunni í Reykjavík á þessum páskadagsmorgni til að fagna upprisu frelsara okkar. Fagna því að dauðinn dó, en lífið lifir.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
31. mars 2024
Flokkar

Prédikun flutt í Dómkirkjunni og á RÚV á páskadag 31. mars 2024.  2. Mós. 15:2-3, 20-21;  1 Kor. 15:19-28;  Jóh. 20:1-10.

Við skulum biðja:

Biðjum með orðum Bjarna Jónssonar:

Ég þakka, Jesú, þér

að þú hefur gefið mér

þá von sem vetri breytir

í vor er sælu heitir.

Því linnir lof mitt eigi

á lífsins sigurdegi.  Amen.

Stólvers eða Forsetinn

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Gleðilega hátíð.  Við komum saman hér í Dómkirkjunni í Reykjavík á þessum páskadagsmorgni til að fagna upprisu frelsara okkar.  Fagna því að dauðinn dó, en lífið lifir.  Fagna því að þjáning og krossdauði Krists á föstudaginn langa var ekki endalok lífs hans og sögu.  Í dauða sínum barðist Jesús Kristur við eyðingaröfl og óvini mannkyns, dauðann, syndina og hið illa en vann sigur.  Þess vegna syngjum við á páskum Sigurhátíð sæl og blíð, ljómar nú og gleði gefur, Guðs son dauðann sigrað hefur, nú er blessuð náðartíð.   

Á páskadagsmorgni heyrum við frásögu Jóhannesar guðspjallamanns af því þegar María Magdalena kom að tómri gröf Jesú.  Hún kom svo snemma að enn var myrkur segir þar.  Hún fór og sagði frá en konan var ekki trúverðug svo tveir lærisveinanna fóru á vettvang og fullvissuðu sig um að hér væri ekki um falsfrétt að ræða.  Hverjum trúum við?  Hverju trúum við? 

Sennilega hafa fréttir aldrei borist hraðar eða fleiri en nú á tímum.  Ef María Magdalena þyrfti að flytja frétt í dag myndi hún sennilega taka upp símann sinn og hringja í Pétur og Jóhannes og félaga sína lærisveinana alla til að segja þeim fréttirnar eða senda þeim skilaboð eða mynd á Instagram.  Og sennilega yrði hún tekin trúanleg því nú til dags er staða kvenna önnur en þá.  Fréttamenn og fréttakonur eru nú um víða veröld.  En líklegt má telja að ekki hafi verið fluttar fleiri falsfréttir en nú til dags.  Við þurfum að vera á varðbergi með allar fréttir og jafnvel er ekki hægt að treysta virtustu fjölmiðlum nútímans til að flytja sannar og réttar fréttir.  Upprisa Jesú verður að teljast ein af sönnustu fréttum sem flutt er í dag.  Þó hún sé gömul er hún sífellt ný og út um allan heim er fólk sem trúir henni og þeim sem hana flytja.  Upprisufréttir sannast í lífi þess sem meðtekur í trú. 

Elísabet Jökulsdóttir orti ljóð fyrir nokkrum árum sem hún nefnir Páskaljóð. 

Ég var að drepast úr áhyggjum af börnunum út af farsóttinni

þegar ég mundi eftir því að undanfarna páska hafði Jesú vitjað mín

svo nú bauð ég honum inn.

Ég vissi strax að ég þyrfti að bjóða honum blíðlega og sleppa öllum dúfum og niðurdýfingum, sleppa hreinsunareldinum en gefa honum lífið.  Og þá kom Jesú.

Ljóðið er einlægur vitnisburður konu sem setur traust sitt á Jesú og hennar leið til að varpa áhyggjum og kvíða á þann sem allar byrðar ber með okkur.  Ljóðið krefst þess líka að við séum læs á þau trúarlegu orð og tákn sem hún getur um í ljóðinu.  Hvernig getum við skilið samtíð okkar og líf okkar hér á landi ef við þekkjum ekki arfinn sem kynslóðirnar hafa lifað, mótað og flutt áfram?  Það kom berlega í ljós fyrir páskana þegar Berglind Festival fór á stúfana að þekking fólks á trúararfinum var ekki til staðar.  Hvað gerðist á Pálmasunnudag, skírdag, föstudaginn langa, páskadag?  Það var helst að fólk vissi hvað gerðist á föstudaginn langa.  Kannski er það dæmigert því okkur mannfólkinu hættir til að hlusta á það sem miður fer í heimi hér og það sem út af ber. 

En við stöðvumst ekki við atburði föstudagsins langa.  Við sjáum þetta drápstól, krossinn í ljósi upprisunnar, sem sigurtákn en ekki tákn þjáningar og ofbeldis.  Lóðrétta ásinn sem er burðarstoð lárétta ássins. 

En við getum ekki hunsað þjáninguna. Hún er allsstaðar í kringum okkur.  Hungursneyð, stríð, náttúruhamfarir og sjúkdómar hafa alltaf varpað skugga á mannlífið. Grimmd í ýmsum birtingarmyndum sínum er eyðileggjandi og mannskemmandi. Fjárhagserfiðleikar og samskiptavandamál gera daglegt líf mörgum erfitt. Orsakir þjáningar eru mismunandi en viljinn og löngunin til að sigrast á henni eru  sammannleg. 

Þjáningin vekur margar spurningar. Hversu lengi mun hún vara?  Hvar er hjálp að fá?  Af hverju er brugðist of seint við mótlætinu?  Hvar er Guð? Er vonin orðin veik?  Er kvíðinn að ná tökum á okkur? 

Föstutímabilið á undan páskum í kirkjuárinu er liðið þetta árið.  Þó margir textar Biblíunnar um þjáningu og baráttu séu lesnir þá í kirkjum landsins vitum við að sigur blessunarinnar yfir bölinu er í höfn.  Mótdrægnin á ekki síðasta orðið heldur meðbyrinn, lífið og ljósið. Það sem varpar skugga sínum á lífið er ekki umflúið og við komumst ekki hjá því að ræða það. Það eru vandfundin orð til  að útskýra þjáninguna af skynsemi. Við horfum beint í augun á henni en lifum í von.  Vonin lifir alveg þangað til þjáningin er ekki lengur til staðar.

Kyrravika er hápunktur föstunnar. Á ferð Jesú til Golgata koma margar tilfinningar fram.  Gremja, reiði, ótti, örvænting og margar aðrar tilfinningar.   Myrkrið er hvað dýpst á föstudeginum langa þegar Jesús hrópar frá krossinum: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?

Þau sem ganga í gegnum erfiðleika finna þessar tilfinningar.  Þau sem búa við sprengjuregn og vita ekki hvort þau verða lifandi að morgni.  Þau sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín og vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.  Þau sem lifa við ótta og óöryggi. 

Samt er ofbeldisdauði Jesú ekki endir alls. Boðskapur páska er sá að Jesús hafi risið upp frá dauðum og að dauðinn hafi þannig verið sigraður. Svo ef jafnvel dauðinn getur ekki átt síðasta orðið, þá er von fyrir þau sem þjást. Þess vegna heldur kristni heimurinn aftur páskana, hina miklu hátíð lífsins.

Í upprisufrásögn Jóhannesar guðspjallamanns segir frá því að lærisveinninn sem á undan fór inn í tóma gröf Jesú hafi séð línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn sem verið hafði um höfuð hans.  Í Dómkirkjunni í Tórínó á Ítalíu er línblæjan og sveitadúrinn geymd, eða hvað?  Á 25 ára fresti er þau sýnd en myndir af þeim eru alltaf uppi.  Þessi klæði eru sennilega eina mest rannsökuðu línklæði í veröldinni.  Klæðið ber daufa mynd af fram- og bakhlið manns og andlit karlmanns á sveitadúknum.  Menn eru ekki á eitt sáttir um hvort hér sé um að ræða líkklæði Krists.  Fyrir 11 árum var myndum af klæðinu streymt á ýmsar vefsíður og nú getur almenningur skoðað það fram og til baka að eigin vild.  Þegar þessi opinberun klæðisins var gerð gaf Frans páfi út vandlega orðaða yfirlýsingu sem hvatti hina trúuðu til að íhuga líkklæðið með lotningu en eins og flestir forverar hans fullyrti hann ekkert um áreiðanleika þess. 

Kristinn arfur hefur fyrst og fremst borist kynslóða og landa á milli með sögunum í Biblíunni en líka með þeim munum sem kirkjur heimsins geyma.  Eitt af tilsjónarhlutverkum biskups er að gæta að þessum arfi og skrá þá muni sem í kirkjunum eru.  Þannig varðveitist sagan og kirkjan og skólinn verða að bæta sig í að miðla þeim fróðleik sem styrkir sjálfsmynd okkar sem þjóðar svo svarendur Berglinda framtíðarinnar standi ekki á gati eins og um daginn. 

Í hrelldum heimi ofbeldis og örvæntingar er sem engin von sé til friðar og betra og öruggara lífs.  En boðskapur páskanna leyfir okkur að sjá ljós í myrkri hels og harma.  Það er von.  Vonin byggist á því og felst í því að Guð fer á undan í syni sínum Jesú Kristi, sem sagðist vera ljós heimsins, hirðir sauðanna, vegurinn, sannleikurinn og lífið.  Hann sagðist vera þetta allt, hann er þetta allt.  „Undan þeim fer hann, friðarmerkið ber hann, frelsari er hann“ syngjum við við fermingar í kirkjunni okkar. 

Við lifum á tímum hræðilegra átaka og margkonar hættu.  Við setjum von okkar og traust á hinn upprisna Jesú, sem boðar frið og sátt.  Hann sem sigraði dauðann og gefur okkur hlutdeild í upprisu sinni.  Dauðinn sigraði ekki, hafði ekki síðasta orðið.  Lífið sigraði þá og nú.  Því megum við trúa.  Því megum við treysta.  Þess vegna eru páskarnir hátíð sigurs, vonar og gleði. 

María koma til grafarinnar þegar enn var myrkur.  Hún var sorgmædd og full vonbrigða yfir örlögum vinar síns.  Hún yfirgaf gröfina þegar bjart var orðið og hélt út í heiminn til að segja gleðifréttirnar fyrst allra í heimi hér.  Við skulum taka á móti þeim fréttum með gleði og von í fullu trausti þess að við erum ekki ein á ferð á lífsins vegi.  Jesús er farinn úr gröf sinni til að vera með okkur hér og nú og um eilífð alla.

Gleðilega hátíð lífs og vonar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.  Amen.