Alþjóðleg, samkirkjuleg bænavika verður haldin dagana 14. - 21 janúar 2007. Bænavikan er haldin árlega um þetta leyti og er þá beðið fyrir einingu kristinna manna um heim allan. Það er Alkirkjuráðið (World Council of Churches) sem stendur að baki vikunnar um allan heim ásamt kaþólsku kirkjunni og bænarefni vikunnar kemur jafnan frá einhverjum aðildarkirkna.
Efni bænavikunnar kemur að þessu sinni frá Umlazi í Suður Afríku. Þetta er svæði nálægt Durban sem upphaflega var sett upp sem svæði fyrir svarta íbúa á tímum apartheid. Arfur kynþáttahaturs, atvinnuleysis og fátæktar mótar ennþá samfélagið og þar er há tíðni glæpa og misnotkunar. Talið er að um helmingur íbúa Umlazi séu smitaðir af alnæmisveirunni.
Þögnin getur deytt Fólk sem leiðir ýmis kristin samfélög í Umlazi hittist nýlega til að ræða hvernig það gæti unnið saman gegn þessum miklu erfiðleikum. Eitt af því sem gerir aðstæður erfiðari er ótti fólks við stimpil ef það segir frá erfiðleikum sínum, hvort heldur er vegna Alnæmis, misnotkunar eða nauðgana. Menningin leyfir ekki að málefni er snerta kynlíf á einhvern hátt séu rædd. Þess vegna forðast margir að leita þeirrar þjónustu sem þeim stendur til boða meðal annars hjá kristnum samfélögum, svo sem heimahjúkrun, heilsugæslu, sálgæslu.
Samstarf leiðtoganna í Umlazi hefur miðað að því að finna leiðir til að rjúfa þögnina og hvetja ungt fólk til að tala um það sem ekki má nefna og leita hjálpar því að þögnin getur deytt.
„Daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“ Við undirbúning bænavikunnar veltu leiðtogarnir í Umlazi fyrir sér leitinni að sýnilegri einingu milli kristinna kirkna í ljósi reynslunnar frá Kristnum í Umlazi og hvatningarinnar til að rjúfa þögnina sem kúgar og einangrar fólk í neyð sinni. Þau sem unnu efnið völdu textann frá Markúsi 7: 31 – 37 sem aðaltexta vikunnar og þemað „Daufa lætur hann heyra og mállausa mæla“. Þessi texti snýst um að heyra, tala og um þögn. Í þessu sjá þeir leitina að einingu og leitina að kristnu svari við mannlegri neyð. Þess vegna má finna þessar tvær áherslur í öllu efni bænavikunnar 2007. Lestra og hugleiðingar bænavikunnar hafa verið þýddar og er að finna á heimasíðum safnaða sem standa að bænavikunni, þar á meðal á www.kirkjan.is.
Bænavikan hefur verið haldin árlega hér á landi frá árinu 1968. Undirbúningur bænavikunnar hérlendis er í höndum samstarfsnefndar kristinna trúfélaga. Aðild að nefndinni eiga: Aðventistar, Fríkirkjan Vegurinn, Hvítasunnukirkjan, Hjálpræðisherinn, Íslenska Kristkirkjan, Kaþólska kirkjan, Óháði söfnuðurinn og Þjóðkirkjan. Að þessu sinni tekur rússneska rétttrúnaðarkirkjan einnig þátt í bænavikunni.
Bænavikan hefst með útvarpsguðsþjónustu þann 14. janúar 2007. Þá viku verða haldnar bænastundir og samkomur á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, þar sem trúfélög sameinast um helgihald. Verður bæði um að ræða hádegisbænir og kvöldsamkomur. Dagskrá má meðal annars finna á www.kirkjan.is. Allir eru velkomnir á samkomurnar til að taka þátt í að hlúa að einingu kristins fólks, einingu sem birtist í fjölbreytni.