Eigum við að hafa kveikt eða slökkt? – Hólaskýrslan

Eigum við að hafa kveikt eða slökkt? – Hólaskýrslan

Það var góður andi og mikið sólskin á þessari ráðstefnu. Þarna mættist ólíkt fólk, kristnir menn og guðfræðingar, sálfræðingar, heiðingjar, trúleysingjar og trúarleg viðrini, og talaði saman af einlægni og virðingu. Hvernig metum við hið ómetanlega? Með því meðal annars að meta hvert annað að verðleikum.
Guðmundur Andri Thorsson
10. júlí 2017

Sólin skein skært á Hólum dagana 20. og 21. maí og lýsti upp hvern hól og hvert hugskot. Við vorum öll svolítið forlyft sem þarna vorum samankomin eins og stundum gerist þegar fólk úr ólíkum áttum hittist á sagnríkum og fögrum stað til að skiptast á skoðunum og tengja saman hugmyndir – og tengjast sjálft. Við ætluðum að ræða um það hvernig við metum hið ómetanlega. Við ætluðum að tala um það hvernig við hugsum um lífið, túlkum það, finnum okkur stað; hvernig háttað er samspili samfélags og lífsskoðana; hvernig trú og lífsskoðun hefur áhrif á sjálfsmynd okkar; hvernig innblásturinn virkar á okkur og samfélagið – hvað hann er fyrir nokkuð. Ég átti von á því að umræður yrðu út og suður og færu í austur og vestur, jafnvel norður en vonandi ekki niður – heldur upp upp. Ég átti von á andríkum samræðum ólíkra einstaklinga og sú varð líka raunin.

Kvöldið áður hafði ég rennt í hlað eftir langan akstur frá Reykjavík og komið mér fyrir í herbergi og síðan litið inn á hið landskunna Bjórsetur Íslands, þar sem fólk blandaði geði með blíðu bragði en rektor, Erla Björk Örnólfsdóttir, afgreiddi af alúð alls konar fágætan mjöð.

Þarna var samankomið fólk úr ótal ólíkum áttum: myndlistarfólk, sálfræðingar, fulltrúar lífsskoðunarfélaga á borð við Siðmennt og Ásatrúarfélagið, fulltrúi Hjálpræðishersins, nunnur, prestar, guðfræðingar – og svo ég sem átti að fylgjast með og bregðast við reglulega. Og skrá.

Við vorum komin í Hólakirkju í bítið næsta morgun og eftir að vígslubiskupinn á Hólum, séra Solveig Lára Guðmundsdóttir, hafði boðið gesti velkomna setti dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, ráðstefnuna. Hún ræddi almennt um gildi hluta og verðmæti, mæld og ómæld. Þetta voru prýðilegar hugleiðingar og vel til þess fallnar að setja tóninn en ég fór samt að velta því fyrir mér hvers vegna lífsskoðun – trú – andleg iðja – sé á könnu dómsmálaráðherra. Þó að kirkjan sé vissulega stofnun og boði hugmyndir um rétta breytni og ranga finnst manni eiginlega að málefni kirkju og trúarsamfélaga ættu heldur að heyra undir Mennta- og menningarmálaráðherra … Er það kannski, spurði ég sjálfan mig, hluti af vanda kirkjunnar, sjálfsmyndarvanda hennar og ímyndarvanda, að ekki sé litið á það sem hún hefur fram að færa sem menningarstarf og menningararf heldur regluverk?

Svo héldum við inn í Hólaskóla og hófum að hugsa upphátt um hið ómetanlega.

***

Ráðstefnan skiptist í fjórar aðskildar lotur og var fyrirkomulagið þannig að málshefjendur töluðu í tíu mínútur hver og síðan fylgdu á eftir frjálsar umræður en fólk skiptist á að stýra umræðum. Áhersla var lögð á ólík sjónarhorn, samtal og skoðanaskipti.

Fyrsta lota bar yfirskriftina Lífstúlkun og eins og nafnið gefur til kynna var þar sjónum beint að þörf og viðleitni mannsins til að túlka lífið.

Fyrstur tók til máls Sigurður J. Grétarsson prófessor í sálfræði. Hann talaði sem vísindamaður, var hikandi og varfærinn, viðraði efasemdir, beindi sjónum að veikleikum fræða án þess að upphefja styrkleika trúar. Hann velti fyrir sér sambúð trúar og vísinda og ólík lífstúlkunarkerfi sem af þeim spretta. Hann minnti á þörf mannanna fyrir að gera sér veröldina skiljanlega og lífið þess virði að lifa því; ræddi í því sambandi um tvenns konar ólík lífsviðhorf sem kenna má við nægjusemi og hvunndagshamingju annars vegar og hetjusýn hins vegar með tilheyrandi heiðri og frægð hins vegar. Sigurður lagði áherslu á að um sé að ræða tvenns konar hreyfiöfl í mannlegu sálarlífi og geti blandast með ýmsu móti. Hann ræddi líka sálfræðina nokkuð í samhengi við trúarlega afstöðu og var varfærinn fyrir hönd fræðigreinar sinnar. Hann minnti á að sálfræðin geti boðið upp á tæknilega hjálp á leið fólks að lífshamingju en varaði við allsherjarlausnum á því sviði, í anda sjálfshjálparbóka. Sálfræðin er ung fræðigrein, verður að mestu til á 19. öld, verður til á nýöld eftir að heildræn heimsmynd miðalda tók að gliðna og hlutlæg náttúra tók við sem mælikvarði svo að miðaldagreinar á borð við rökfræði, málfræði, siðfræði, fagurfræði og guðfræði þokuðu í skuggann fyrir fræðum sem nálgast fræði sín út frá mælingum og könnunum frekar en frumspeki. Sigurður ræddi loks um nauðsyn á sameiginlegum skilningsgrunni og siðakerfi en hvatti til að fara fetið í þeim efnum. Góð stefna í frumspeki getur ekki hundsað vísindalegar staðreyndir en vísindin geta heldur ekki fært okkur heillega lífssýn.

Í umræðum á eftir velti fólk fyrir sér hvort trúarbrögð væru andstæður eða hvort réttara væri kannski að hugsa um þetta sem „eitthvað tvennt“. Sjálfur fór ég að hugsa um þá tilhneigingu í netheimum nútímans að hver og einn geti sótt heimsmynd eftir sínum hentugleikum sem ekki er of trufluð af veruleikanum og sótt styrk til fólks sem er á sama róli og maður sjálfur, auk þess sem til eru sérstakir þjónustuaðilar sem sjá fólki fyrir skrökfréttum til staðfestingar alls konar hégiljum og hindurvitnum..

Eirún Sigurðardóttir talaði næst. Hún er listamaður, hluti af Gjörningaklúbbnum sem getið hefur sér gott orð. Hún talaði um list sem trúarbrögð og trúarbrögð sem list. Mér virtist að í hennar huga væri þetta samofið þó ekki sé það endilega eitt og hið sama. Hún hóf mál sitt á því að tala um trúarþörfina og hvernig trúarbrögð hafa verið notuð til að skýra lífið og líka sem haldreipi. Hún tók dæmi af lykt til að skýra hugmyndir sínar um trú: sjálf getur hún ekki fundið sömu lykt og hundurinn – en þar með getur hún ekki staðhæft að lyktin sé ekki til. Að sama skapi telur hún sig ekki umkomna til að setjast í dómarasæti gagnvart manneskju sem skynjar aðra heima, önnur orkusvið en hún sjálf. „Við vitum að við erum,“ sagði Eirún: „en ekki endilega hver við erum.“ Og hélt áfram: „Ég get aldrei búið til líf, ég get viðhaldið lífi með óléttu en ekki búið til líf.“ Þetta fannst mér fallegt. Hún tefldi fram nokkurs konar náttúrutrú, sagði að Jörðin væri ekki háð okkur en við værum aftur á móti háð henni og benti á að manneskjan geti ekki keppt við náttúruna, sem er ómetanleg, móðirin mikla sem gefur og deyðir. Henni varð tíðrætt um takmarkanir mannanna, líkti sjálfseyðingarhvöt tegundarinnar við ungling sem sker sig. „Myndlistin er mín trúarbrögð,“ sagði Eirún; „þegar hún snertir mig er það ólýsanlegt.“ Og rétt eins og fólkið sem upplifir önnur orkusvið en þau sem blasa við flestum í daglegu lífi talaði hún um samband sitt við þá hluti sem hún býr til í sinni listsköpun, hvernig þeir öðlast líf fyrir henni, og í framhaldinu kviknaði hjá henni þanki um að við verðum aldrei alveg dauð heldur séum við öll hluti af einu allsherjar efnahvarfi lífsins. Myndlistin veitir henni sterka upplifun, galdur þegar ný hugsun skapast, nýtt efnahvarf verður. Að lokum minnti Eirún á að myndlistin veiti sjaldan nokkur svör ólíkt trúarbrögðunum; hún huggar ekki heldur ruglar í manni en í óvissunni felst líka ný sýn. Loks lauk hún máli sínu með nokkurs konar bæn: „Takk líf, takk náttúra, takk myndlist.“

Fólk var hugsi. Viðraðar voru efasemdir um að þetta dygði til að hægt væri að kenna myndlist við trúarbrögð; það þyrfti að koma til trú á eitthvert yfirnáttúrlegt afl, eitthvert traust á æðri mátt; að trúa er að treysta, var sagt.

Sjálfur þekkti ég þennan hugsunarhátt, enda alinn upp við það að listin sé helgidómur og að maður komist nær Guði með því að hlusta á Bach en í kirkju. Af einhverjum ástæðum rifjaðist upp fyrir mér nýleg reynsla; óumræðilega sterk kennd sem heltók mig frammi fyrir lítilli mynd af konu að strauja eftir Picasso, á Guggenheim-safninu í New York. Það var tilfinning fyrir því að vera staddur í helgidómi sem snögglega hafi opnast fyrir manni. Og um leið grunur um að maður hafi náð hverfulli tengingu við eitthvert ógurlegt afl, tengingu við sjálfa alheimsvitundina.

Systir Selestína tók það sérstaklega fram að hún talaði sem nunna. Innlegg hennar var í senn vitnisburður og listgjörningur. Hún sagðist vera frá „gervilandinu“ Júgóslavíu, alin upp í Bosníu, er króatísk að uppruna. Hún kemur úr katólsku samfélagi þó að ekki hafi fólkið hennar iðkað þá trú. Fólki var gert að játast undir hina guðlausu efnishyggju sem var opinber hugmyndafræði í kommúnistaríkjum eftirstríðsáranna á síðustu öld, og þó að kirkjan væri ekki beinlínis bönnuð var henni gert erfitt fyrir að starfa og trúað fólk var ofsótt. Systir Selestína talaði um það hvernig hún hefði sjálf verið gagnrýnin á katólsku kirkjuna en á unglingsárunum hafi hún orðið fyrir hugljómun og ákveðið að gerast nunna; stödd á vegamótum sem í huga hennar táknuðu hinn veraldlega veg og hinn yfirnáttúrlega veg. Hún sagði frá efasemdum sínum og deildi með okkur sýn sinni á manneskjuna sem hún sagði bera inni í sér að vera til að eilífu. Svo söng hún. Það gerðist óvænt, án kynningar eða eftirmála, en söngurinn ómaði í manni eftir flutninginn. Önnur nunna sem var með henni í för tók undir úr sæti sínu og saman sungu þær tvo sálma og báru þannig vitni um samfélag sitt við guð í íslenskum orðum.

Jóhann Björnsson heimspekingur vitnaði í Sigurð Nordal um það „dásamlega ævintýri“ þegar „þessi hnefafylli af mold og ösku“ vaknar til lífs og fer að hugsa og finna til. Hann talaði um það hvernig okkur er varpað út úr móðurkviði og vitnaði í Heidegger um að „ég“ sé í þessum heimi eins og vatnið í glasinu eða fatnaður í fataskáp. Jóhann minnti á ýmsar ólíkar skilgreiningar á manninum sem orðið hafa til; samkvæmt Eric Weil má skilgreina manninn út frá framlimum hans eða snertiskyni, eða því að hann kann að hlæja en Albert Camus leit á manninn sem einu skepnu jarðarinnar sem neitar að vera sú sem hún er. Það dugir nefnilega manninum ekki að vera bara; okkur er tamt að segja manninn vera eitthvað; en kannski má lýsa honum í þeim aðstæðum sem hann er hverju sinni, eins og Sartre talaði um: „Maðurinn er það sem hann er ekki, og er ekki það sem hann er“.

Jóhann talaði í anda exístensíalismans þar sem lögð eru áhersla á breytni mannanna og ekki er litið á frjálsan vilja sem gjöf heldur hlutskipti, dóm. Manneskjan er vera sem ekki er í eitt skipti fyrir öll heldur „er eigin verðandi“, eins og Weil orðar það.. Manneskjan er ávallt að skapa sér eigin tilveru, ávallt í samspili við aðstæður sínar. Hún er alltaf sitt eigið sköpunarverk. En allir menn búa við aðstæður sem þeir eru dæmdir til; þeim er varpað inn í þennan heim, þeir eru dæmdir til frelsis. Við komumst ekki undan frelsinu; og við gefum öllu merkingu sem okkur hendir um leið og við lifum og hrærumst í okkar hversdagslega heimi. Segja má að Jóhann hafi boðað ráðstefnugestum fagnaðarerindi hins guðlausa existseníalisma eins og hugsuðir 20. aldar, Sartre, Heidegger, Camus og ótal skáld og listamenn mótuðu hann og hann endaði mál sitt á því að segja: þegar þið vaknið að morgni og áttið ykkur á því að það er enginn guð sem skapaði ykkur eða vakir yfir ykkur heldur berið þið ábyrgð á ykkur sjálfum – þið eruð frjáls – þá munið þið sjá að það er ástæða til að lifa þessu lífi.

Guðleysis- og frelsisboðskapur Jóhanns vakti ekki bein viðbrögð nema í því að enginn brást sérstaklega við lokaorðum hans – sem auðvitað eru viss viðbrögð. Maður skynjaði undiröldu – fann að fólk var að hugsa og melta. Einhver hafði á orði að ef til vill nægði ekki að skynja bara og túlka hvunndaginn og nánasta umhverfi og mátti skilja að tilveran þyrfti að búa yfir mætti leyndardómsins sem vitund um eitthvað æðra og meira gefur. Hinn guðlausi existensíalismi sem þarna var reifaður hefur mér alltaf fundist vera eins og niðurstaða af 20. öldinni með afrekum sínum og fjöldamorðum sem hófust 1914 og sýnir okkur svo vel valkostina sem manneskjurnar standa frammi fyrir. Þó að um sé að ræða „vonarsnauða visku“ á ytra borði er þetta í rauninni boðskapur um að sérhver manneskja beri ábyrgð á verkum sínum – sérhver manneskja sé þau verk sem hún framkvæmir – og þar með er þetta hvatning til að láta gott af sér leiða og axla ábyrgðina af því að vera manneskja. Ég hef hins vegar aldrei fyllilega sannfærst um að þessi frjálsi vilji, þessi ábyrgð, þýði endilega að tilveran sé óskiljanleg og fáránleg eða dragi úr því undri sem gerist, þegar lífið verður til í þessari „hnefafylli af mold og ösku“.

Síðastur í fyrstu lotu var Rúnar Már Þorsteinsson guðfræðingur við Háskóla Íslands og gerði Pál postula að sérstöku umtalsefni, einn helsta hugsuð kristinnar kirkju. En var Páll sjálfur kristinn? spurði Rúnar. Hver var hans lífstúlkun? Hvernig sá hann fyrir sér lífið í Kristi? Páll skipti fólki í tvo hópa: Gyðinga og svo hina. Þegar hann talar til fólks talar hann til „hinna“. Hann var postuli heiðingjanna. Fórnardauði Krists gaf heiðingjunum aðgang sem þeir höfðu ekki haft áður.

Rúnar gerði að umtalsefni kaflann í fyrra bréfi Páls til Kórintumanna um trú, von og kærleika og minnti á að þar er kærleikurinn sagður mestur. Páll vænti endaloka heimsins og taldi að allir myndu rísa upp frá dauðum. Sjálf trúin stendur og fellur með veruleika upprisunnar. Áherslan á kærleikann kemur alls staðar fram hjá Páli, og endurómar áherslu Jesú á kærleikann. Hvernig skilgreinir Páll trúna sem veitir sáluhjálp og lífið í henni? Þar varðar mestu að fylgja ekki háttsemi þessa heims heldur láta umbreytast í anda kærleikans, breyta rétt og siðferðilega, helga sig nýju lífi. Lesendur verði að umbreytast með endurnýjun hugans; endurnýja hugsun sína, þankagang. Hin dyggðuga manneskja er ekki bara sú sem breytir rétt heldur skilur líka muninn á réttu og röngu. Hið vitsmunalega og hið röklega er óaðskiljanlegur hluti af trúnni; gagnrýnin hugsun þáttur í trúnni.

Á eftir ræddu þátttakendur nokkuð gildi gagnrýninnar hugsunar í guðfræði og hvernig hún getur ýtt undir og nært hina æskilegu „umbreytingu hugans“ sem Páli varð svo tíðrætt um. Sjálfur hef ég gjarnan hugsað um Pál sem höfund kirkjunnar sem stofnunar og ekki alveg komið því karlræðis-regluverki með tilheyrandi kvenótta heim og saman við þann undursamlega texta sem er að finna í þrettánda kafla fyrra Kórintubréfsins. Mér fannst Rúnar ná að setja verk og skrif Páls í samhengi fyrir mig.

Eftir lotuna hélt Eirún svolítinn fyrirlestur í Pecha Kucha 20X20 stíl, að japanskri fyrirmynd, en þar eru 20 myndir sýndar og hverri mynd helgaðar 20 sekúndur. Þetta gerðu allir myndlistarmennirnir til að gefa okkur skyndimyndir af listsköpun sinni; skemmtilegt form og snarpt. Ekki síst fannst mér gaman að sjá hvernig þessu íslenska fólki var fyrirmunað að troða sér og sínu inn í formið, inn í japönsku túlkunarþrengslin, íslenska óhlýðnin og rýmisskynjunin sá til þess.

***

Að loknum hádegisverði hófst nú önnur lota undir heitinu Samfélagið. Fyrstur talaði þar Jóhann Björnsson heimspekingur og kennari, sem hefur haft veg og vanda af því að móta fermingarathafnir Siðmenntar. Hann byrjaði á því að spyrja hvort fólk vildi hafa kveikt eða slökkt meðan hann talaði, en sólin skein sem fyrr glatt úti og var ákveðið að notast við náttúrulega birtu hennar. Í erindi sínu sagði Jóhann frá því þegar hann var að byrja að kenna í grunnskóla í Reykjavík og spurði, þegar kom að kirkjuheimsóknum kringum jól: Hvað gera krakkarnir sem ekki fara í kirkju? Fátt varð um svör og var á Jóhanni að skilja að enginn hafi áður haft á þessu orð þó að fólk hafi komið til hans á eftir og þakkað honum fyrir að vekja máls á þessu. Þetta var kringum síðustu aldamót og á þessum árum virtist honum ekki raunhæfur möguleiki á samræðu um þessi efni og fólk upplifði spurninguna sem árás. Samræðumenningin var ekki þroskaðri en svo á þeim tíma í samfélaginu, að mati Jóhanns.

Jóhann sagði frá kynnum sínum af raunverulegri fjölmenningu í Belgíu þar sem hann nam heimspeki á katólskum skóla; lærði þar um Heidegger og Freud og aðra guðleysingja. Það sem honum var minnisstætt var traustið og kærleikurinn milli trúleysingjanna og katólikkanna í skólanum sem sameinuðust í ást sinni á heimspekinni og sameiginlegri þrá eftir að skilja veruleikann; rökræddu fram og aftur en áttu svo góða stund yfir bjórkollu á kvöldin. „Það deyr enginn þó við séum ósammála“, sagði hann.

Jóhann lagði áherslu á rétt fólks til að tjá mismunandi skoðanir – en líka réttinn til að hafa sínar lífsskoðanir út af fyrir sig. Hann sagði frá fermingarathöfnum Siðmenntar og þeirri uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað; talaði um að krökkum fyndist gott að hafa ekki „alvitran leiðbeinanda“ heldur mann sem glímdi með þeim við stórar spurningar sem eru kannski engin einhlít svör við.

Prestum í hópi áheyrenda þótti sem Jóhann væri með orðum sínum um „alvitran leiðbeinanda“ að sveigja að því starfi sem fer fram í fermingarundirbúningi kirkjunnar og spannst af því nokkur umræða. Mér fannst vissulega gæta ákveðinnar ertni hjá Jóhanni í þessu orðalagi, en viðbrögðin sýndu líka viðkvæmni presta og sárindi í garð þeirra sem hafa gagnrýnt starf þeirra með börnum. Það er eðlilegt. Ekki er víst að prestar átti sig á því hvernig alltumlykjandi nærvera kirkju og kristni kringum stórhátíðir hefur verkað á fólk sem hefur mótaðar og sterkar lífsskoðanir sem ekki eru kristnar. Í samræðu vakna margs konar tilfinningar – og betra er að hún fari fram en að gagnkvæm þögn ríki með tilheyrandi hártogunum og misskilningi. Það er betra að hafa kveikt en slökkt.

Næstur talaði Ingvi Kristinn Skjaldarson sem er foringi í Hjálpræðishernum. Hann kvaðst vera uppgjafarsmiður – hafi gjarnan kynnt sig sem „bara smið“ þar til hann mundi eftir því að Kristur var líka smiður. Hann talaði um það sem hann teldi sig hafa fram að færa á þeim vettvangi sem hann hefur kosið að helga krafta sína, sem er Hjálpræðisherinn. Þar einbeitir fólk sér að því að hjálpa þeim sem minna mega sín, þeim sem ekki hafa talsmenn og ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. Hann sagði að þau reyni að einbeita sér að því að gera það sem aðrir gera ekki betur, sagði frá matargjöfum, sem eru verulegar, og öðru hjálparstarfi. Ingvi Kristinn nefndi launin sem hann fær: að sjá manneskju öðlast von, fá líf sitt til baka, stíga upp úr öskustónni – allt gefi þetta starfinu gildi; sé ómetanlegt. Hann fjallaði líka um ímynd Hjálpræðishersins, af sama hispursleysi og lítillæti og einkenndi málflutning hans, hvernig mynd hefur verið dregin upp af starfi hans í bókmenntunum og víðar en í stað þess að áfellast þá sem gera gys að hernum horfði Ingvi fremur á það sem hefur vakið þessi viðbrögð, norskan hreim, búninga og annað – án þess að maður hefði á tilfinningunni að hann væri að biðjast afsökunar á tilveru hersins eða vali sínu. Það rifjaðist upp fyrir mér hvernig Hjálpræðishernum er lýst í Sölku Völku Halldórs Laxness; þar veitir hann eina skjólið sem mæðgurnar fá í bænum meðan presturinn rekur þær af höndum sér. „Af hverju geri ég það sem ég geri?“ spurði Ingvi Kristinn loks, og svaraði einfaldlega: „Það er bara gegnum Jesú.“

Sálfræðingurinn Sólveig Fríða Kærnested flutti næstu kveikju og talaði sérstaklega um skoðanagleði Íslendinga, sem mér finnst reyndar stundum vera hálfgerð skoðana-ógleði. Hún nefndi að hræðsla og reiði séu of útbreiddar tilfinningar þegar fólk lætur í ljós skoðanir sínar, sem verða fyrir vikið ógrundaðri en ella. Hún minnti á að samfélag samanstendur af einstaklingum og lagði áherslu á mikilvægi gagnrýninnar hugsunar og það hlutverk skólakerfisins að efla hana, ekki síst með því að iðka samræður í anda Sókratesar með opnum spurningum þar sem markmiðið er að fá fólk til að koma auga á mótsagnir og efast sífellt um gildi ríkjandi kenninga og hugmynda.

Fjörugar umræður urðu á eftir þessari hugvekju og var fólk almennt sammála því sem Sólveig hafði lagt áherslu á. Sjálfur rifjaði ég upp gamlan frasa: Ég hef ekki skoðanir, skoðanir hafa mig.

Árni Sverrisson Hegranesgoði var næstur á mælendaskrá. Hann var þarna sem fulltrúi „trúar sem hefur vaxið út úr lífi mannsins hér í náttúrunni,“ eins og hann orðaði það. Hann sagði að Ásatrúarfélagið hefði verið stofnað árið 1972 og nefndi þrjú grunngildi heiðingja: Heiðarleika, drengskap og áherslu á að lifa í sátt við náttúruna. Hann nefndi líka að hver heiðinn maður beri ábyrgð á sjálfum sér. Árni rakti ýmis heiðin tákn í íslenskri menningu en lagði, rétt eins og Jóhann, áherslu á að trú eigi að fá að vera einkamál. Ásatrúarmenn boða ekki trú, en svara öllum spurningum sem upp koma.

Erindi Árna minnti á sambúð heiðins siðar og kristni í landinu frá elstu tíð Íslandsbyggðar og þann sáttmála sem heiðnir menn og kristnir gerðu með sér við kristnitöku, og var kannski upphaf fjölmenningar hér á landi. Mér varð hugsað til ýmissa leifa heiðninnar sem lifað hafa í íslenskri sveitakristni þar sem trú á stokka og steina og alls kyns vættir í náttúrunni hefur löngum verið sterk og blandast kristinni trú og draugatrú margvíslega. Slíkt náttúrutrú þarf ekki að vera hluti af því fjölgyðistrúarkerfi sem Snorri Sturluson kynnti fyrir okkur í Eddu sinni og er grundvöllurinn að ásatrú okkar daga sem var haldið lifandi gegnum aldirnar í skáldskaparmáli rímna – kenningum og heitum.

Unndór Egill Jónsson, myndlistarmaður sagði frá verki sem hann gerði fyrir tíu árum síðan og hvernig þetta verk breytti sýn hans. Verkið snerist um manninn í sköpunarverkinu – manninn andspænis náttúruöflunum. Unndór Egill var þá í LHÍ. Þetta var árið 2007 þegar umræðan um náttúruvernd – eða -nýtingu – var mjög hatrömm í kjölfar deilunnar um Kárahnjúkavirkjun. Þar tókust á tveir ósættanlegir pólar: Þeir sem vildu virkja allt og hinir sem vildu vernda allt. Unndór Egill var sammála hvorugum hópnum fyllilega. Listaverkið sem hann gerði fólst í því að hann ákvað að fara inn í þessa náttúru og sjá hvernig honum vegnaði. Hann ók upp á heiði þegar komið var fram í nóvember með vídeótökuvél og tökumann, lagði bílnum, gekk út í auðnina, klæddi sig úr fötunum á leiðinni. Hann dvaldi þarna um hríð og reyndi að tengja sig við staðinn, finna sér eitthvað að borða, ráfa um, uns hann gekk til baka, klæddi sig á leiðinni – og ók aftur heim. Hann sagðist ekki bara hafa fundið fyrir kuldanum – ekki síst á tánum – heldur líka fyrir miklum þunga. Umhverfið og virkni þess lá ofan á honum. Hann fann að bara smá mistök hefðu getað kostað hann lífið. Hann hefði getað orðið úti. Og hann fór að hugsa um samfélag út frá þessu; ekkert hægt að biðja storminn að hægja á sér, en í samfélaginu getum við talað saman og hjálpað hvert öðru; hann fann kjarnann í samfélaginu.

Líflegar umræður urðu eftir þetta erindi – fólk vildi vita hvar hann hefði verið, hvort hann hefði verið í raunverulegri hættu staddur og hvort hann hefði upplifað einhvers konar hugljómun í þessu ferli. Hann kvað svo vera. Fyrir mér rifjuðust upp samræður Umba og Jóns Prímusar í Kristnihaldi undir jökli um snjótittlinginn, hríðarbylinn og almættið. Séra Jón talar um snjótittlinginn í hríðarbyl, hvernig hann stendur kyrr og hreyfist ekki meðan veðrið ólmast, leggur vængina niður með síðum og lætur stélið vísa upp og bifast ekki, eins og staddur í logni og lætur vindinn klofna á sér – oft hafi sér fundist almættið vera eins og þessi snjótittlingur. Umbi spyr af hverju bylurinn sé ekki almættið. Og séra Jón Prímus svarar: „Af því frostbylur er sterkasta afl á Íslandi en snjótitlíngur vesalastur af öllum hugdettum guðs”.

***

Þriðja lota var kennd við Sjálfskoðun og reið á vaðið Eyja Margrét Brynjarsdóttir heimspekingur við Háskóla Íslands, og starfar, eins og hún sagði, við fræðigrein þar sem er hefð fyrir því að pæla í sjálfinu. Það eru margar leiðir til að skoða það, eins og hún reifaði um leið og hún minnti á að við erum alls ekki með það á hreinu hvað þetta sjálf eiginlega er – úr hverju það sé gert og hvað haldi því saman. Í vestrænni heimspeki ríkir hefð Descartes – „ég hugsa, þess vegna er ég til“ – sem er einstaklingsmiðuð sýn, jafnvel einmanaleg. Vissulega getur enginn nema ég sagt nákvæmlega til um það hvernig mér liður en við þurfum samt sem áður meira, sjálfið mótast í samskiptum við annað fólk og umhverfi, við erum sífellt að kanna stöðu okkar í flóknu samfélagi. Þannig verður að taka með í reikninginn félagslega þætti: Eyja varaði við einföldum lausnum sjálfshjálparfræðanna og minnti okkur á að við getur haft skakka mynd af sjálfum okkur; talað er iðulega um óeðlilega lágt eða of hátt sjálfsmat. Við erum nefnilega í senn heimsins mestu sérfræðingar í eigin sjálfi – og glámskyggn á það. Þannig skildi hún okkur eftir í þversögninni miðri, eins og sönnum heimspekingi sæmir.

Umræður urðu skiljanlega fjörugar þar sem fólk reyndi að takast á við þessa einkennilegu þversögn – hvenær eðlileg sjálfstyrking verður að skaðlegri sjálfsblekkingu og eðlilegt raunsæi á sjálfan sig verður að óheilbrigðu niðurbroti; og sjálfur var ég með hugann við það að verkefni okkar væri að sinna sjálfstyrkingu fremur en sjálfskyrkingu …

Presturinn Hildur Eir Bolladóttur talaði um mikilvægi sjálfsþekkingarinnar sem verður bara fengin með heiðarlegri sjálfskoðun og því, eins og hún orðaði það, að hafa „baksýnisspegilinn rétt stilltan“. Þekki maður sjálfan sig og öðlist maður sátt við sjálfan sig er maður líklegri til að verða hamingjusamur, en slíkt næst ekki nema með vinnu. Kristin trú, sagði Hildur Eir, er sjálfskoðunartrú, og hún minnti á að Kristur spurði lærisveinana þráfaldlega: Við hvað eruð þið hræddir? Kvíðinn þarf ekki að vera vondur og mikilvægt er að taka mark á honum og bæla hann ekki niður heldur horfast í augu við það sem veldur honum. Hildur lagði áherslu á heilbrigt og raunsætt sjálfsmat, og minnti á hið skelfilega ofmat á eigin ágæti sem heltók íslenskt samfélag á árunum fyrir 2007. Hún talaði stundum um heilagan anda og verk hans og endaði á því að deila með okkur áhrifamikilli svipmynd af prestverki sem hún innti af hendi þar sem hún taldi sig finna fyrir því afli sem hún kennir við heilagan anda. Það var jarðarför, síðasti spölur ungs manns, og harmsaga sem hún rakti þar – en líka saga um samkennd og þá huggun og gleði sem hún getur veitt.

Sigrún Sveinbjörnsdóttir sálfræðingur talaði á eftir Hildi Eir og kom víða við í innblásnu erindi. „Hver er ég, af hverju er ég ég? Hvaðan kom vitundin um eigið sjálf og eigin tilvist? Er til upphaf? Er til endir? Hvernig haga ég lífi mínu í þessari óvissu?“ Þetta voru meðal umræðuefna sem hún fitjaði upp á en hún talaði líka um örvæntinguna og óttann og ímyndunaraflið sem ekkert er ómögulegt þegar þannig stendur á: og sagði í því sambandi sögu af sjálfri sér kringum fermingu á leið af KFUK-fundi þegar hún var bara 30 kíló – bara barn ennþá – en hafði einhvern veginn tekist að telja sjálfri sér trú um að hún væri ólétt og ætti í vændum meyfæðingu eins og María. Sigrún talaði um líf sitt og margvísleg haldreipi sín í lífinu – manninn sinn sáluga og annað hjartfólgið samferðafólk – og síðast en ekki síst skáldin. Hún lofsöng skáldin og allt það sem þau hafa gefið henni í áranna rás af hugsunum, hugmyndum og fegurð.

Erindi Sigrúnar kveikti líflegar umræður og sjálfur velti ég því fyrir mér hvers vegna lestur á bókmenntum er svona sérstök upplifun: kannski, meðal annars, vegna þess að það er eitt form hugsanaflutninga, þar sem þarf að þýða tákn eftir sameiginlegu kerfi; og einn hugur nær sambandi við annan huga með hætti sem einungis orðin geta miðlað.

Síðust þennan dag talaði Ósk Vilhjálmsdóttir, myndlistarkona, sem er eins og margir Íslendingar með ýmis hliðarsjálf; er bæði myndlistarkona og leiðsögumaður. Hún talaði um sjálfskoðun og sjálfsmynd Íslendinga út frá náttúrunni og á meðan hún flutti mál sitt sýndi hún landslagsmyndir af ýmsu tagi héðan, sýndi meðal annars fram á hvernig Íslendingar eins og Sigfús Eymundsson fóru að taka ljósmyndir í kort handa útlendingum áður en sjálft landslagsmálverkið varð til. Þetta var árið 1890, sem sýnir að ljósmyndin á sér eiginlega lengri sögu hér á landi en málverkið – og hið hefðbundna íslenska sófa-landslagsmálverk á sér rætur í túristamyndum. Til að styðja þetta sýndi hún ljósmynd eftir Sigfús og málverk eftir Þórarin B. Þorláksson sem virtist sýna sama mótíf. Ósk talaði um þátt útlendinga í að móta hugmyndina um hina ósnortnu íslensku náttúru. Hún varpaði líka fram spurningum um það hvort sú sjálfsmynd Íslendinga standist að þeir séu náttúruunnendur og benti á tiltölulega lítið viðnám landsmanna við þeim gjörtæku breytingum á náttúru og vatnafari hálendisins sem Kárahnjúkavirkjun hafði í för með sér.

Ósk sagði frá starfi sínu og Ástu Arnardóttur við leiðsögumennsku á fjöllum og hvernig þær hafa reynt að afbyggja þá karlmannlegu hetjumynd sem dregin er upp af slíkri ferðamennsku; til dæmis með því að fara í kjóla og varalita sig þegar haldið var yfir óbrúaðar ár … Hún talaði loks um túrismann og markaðssetninguna á íslenskri náttúru víða um heim sem skilað hefur ótrúlegum fjölda ferðamanna hingað. Hún var ekki jafn neikvæð í garð þessarar markaðssetningar og ýmis eru en varaði við því að ofgera. Hún líkti þessu við skít á túnum: sé hann hæfilega mikill er hann mikil og góð næring fyrir gróðurinn en sé hann of mikill kæfir hann allt.

Þó langt væri liðið á daginn og fólk hefði setið við lengi voru umræður með fjörugasta móti. Mér þótti það merkilegt að fólk skyldi velta því fyrir sér hvaðan af hálendinu myndir Óskar væru, og reyna að nefna staðina. Það segir nefnilega sína sögu um samband Íslendinga við landið sitt, eins og ég hef einhvern tímann skrifað um: þeir fara um það og þylja nöfn og ná með því móti einhvers konar sambandi við oft fjandsamlega náttúru. Það er líka sterkt í sambandi Íslendinga við náttúruna að upplifa hana ekki endilega sem „góða“ heldur villt afl sem við þurfum að beisla til að geta lifað af.

***

Og þar með var lokið formlegri dagskrá fyrra dags. Margir fóru að skoða hofið sem Árni Hegranesgoði hefur byggt að Efra-Ási og síðan var haldið í móttöku hjá Vígslubiskupshjónunum á Hólum, áður en snæddur var kvöldverður.

***

Fjórða og síðasta lota ráðstefnunnar bar yfirskriftina Innblástur – sem fyrr æði almenn yfirskrift sem fólk gat moðað úr að vild. Eyja Margrét Brynjarsdóttir heimspekingur talaði fyrst og nálgaðist efnið á frumlegan og beinskeyttan hátt. Hún fór þá leið að gúgla orðið „innblástur“ og var nokkuð hissa yfir því sem sú leit hafði í för með sér – orðið virtist farið að merkja eitthvað allt annað en hún hélt. Það er mikið notað kringum hvers kyns lífsstílsumfjöllun og notkun og kaup á alls konar varningi. Tengist mikið tísku, hönnun og húsbúnaði. Með myndum af svörtum og hvítum heimilum – um hár og föt, strigaskó og þar fram eftir götunum – og ævinlega talað um að veita eða fá „innblástur“ í þessu samhengi. Eyju fannst þetta vera gjaldfelling á orðinu og vera til marks um það hvernig fólk tjáir sig gegnum neyslu sína. Orðið er farið að merkja „hugmynd“ fremur en það sem leiðir til hugmyndarinnar; og jafnan tengt lífsstíl og neyslu.

Bent var á í umræðum að hægt sé að fá góða eða slæma hugmynd eftir atvikum – en varla slæman innblástur. Sjálfum fannst mér Eyja sýna fram á að orðið vísi ekki lengur á sköpun heldur öpun.

Pétur Þorsteinsson prestur og orðasmiður braut skemmtilega upp ráðstefnuna með sínu framlagi sem fólst ekki í hefðbundinni hugleiðingu heldur sýndi hann spilagaldra. Það veitti margvíslegan innblástur – vakti bros og undrun yfir margvíslegum leyndardómum tilverunnar og leiddi hugann að sambandi trúar og sjónhverfinga, galdurs, og það hvenær og hvernig sjónhverfingin verður að sjónhvörfum; breytist í eitthvað nýtt …

Tryggvi G. Ingason sálfræðingur glímdi við það hvernig sálfræðin fæst við innblásturinn, hvaða aðferðir hún hefur til þess. Hann fann í fyrstu ekkert sem fræðigreinin hefur fram að færa um þetta óljósa fyrirbæri enda myndu sálfræðingar fremur tala um hvata til að gera hitt og þetta. Innblásturinn er eitthvað nýtt, ný hugsun, ný sköpun. Leit Tryggva leiddi hann loks að rannsóknum sálfræðings sem ég heyrði ekki betur en að kallist Trash, sem bjó til skala til þess að mæla innblástur og talaði um þrjá meginþætti í þeim mælingum, sem virtust þó ekki bæta miklu við skilning okkar á fyrirbærinu þegar upp var staðið. Tryggvi nefndi í þessu sambandi að það skipti máli að vera jákvæður, vera opinn fyrir nýrri upplifun og vera með gott sjálfstraust. Þegar við förum að smætta þetta of mikið missum við af heildarmyndinni. Hann viðraði líka efasemdir um að hreinlega væri hægt að mæla innblástur sem er svo einstaklingsbundinn og persónulegur; um leið við förum að gjaldfella innblásturinn með rannsóknum tökum við hið óljósa, kraftinn og orkuna úr því.

Í umræðum talaði fólk um nauðsyn þess að vekja sköpunarferlið, koma sér að verki, opna og greiða innblæstrinum leið; ein grundvallarmeinsemd í samfélaginu væri skortur á skapandi hugsun.

Sjálfur minnti ég á orðið andagift og líka hitt: að sé hið ómetanlega metið hættir það að vera ómetanlegt. Ég held að innblástur snúist um að koma auga á tengingar, því að allt sem við hugsun hefur áður verið til (við búum ekki til líf, en við viðhöldum því).

Karlotta J. Blöndal myndlistarmaður talaði næst. Hún sagði að sjálft orðið væri áhugavert, stundum sé þetta gola, stundum stormur. Hún benti á að í myndlistarkennslu sé það kennt að treysta ekki á innblásturinn eingöngu. Lengi hafi menn talið innblásturinn gjöf frá Guði, en fyrir sér ætti myndlistin ýmislegt sammerkt með andlegri iðkun, hún þurfi eigið rými, eigin tíma. Margt í þessari iðkun minni á trúariðkun, og myndlistarmenn tali stundum um að „vera í flæðinu“, sem er ástand þar sem hugmyndirnar flæða fram og öllu varðar að kunna að hlusta og grípa nýtilegar hugmyndir. Myndlistarmaðurinn þarf að kunna að lifa og starfa í óvissunni. Loks sagði Karlotta frá vinnu sinni með fundargerðir Tilraunafélagsins kringum Indriða miðil, snemma á síðustu öld, en Indriði var líka nefndur „millibilsmaðurinn“, var eins og millistykki milli tveggja ólíkra orkusviða. Hún sýndi okkur bók sem hún gerði með þessu efni og hét „Raddað myrkur“. Þessir miðilsfundir einkenndust af miklum sviðsetningum, notaðir voru leikmunir og mikið gekk á. Karlotta sýndi mynd frá 1908 úr sal tilraunafélagsins að Bergstaðastræti sem reyndist henni mikill innblástur, svokallaða stereóskópmynd þar sem sést hvernig hænsnanet er notað til að aðskilja tvö rými í salnum en netið er rifið á einum stað. Þetta er eins og rifa milli tveggja heima. Á hinu trúarlega sviði þar að eiga sér stað það sem kallað hefur verið „trúarstökk“ og það þarf líka að gerast hjá listamanninum til að gera listina ómetanlega; listamaðurinn þarf að vera millistykkið, og orkan sem fer um þetta millistykki er innblásturinn.

Á eftir var rætt um spíritismann, þetta merkilega skeið í trúarsögu Íslendinga þegar mættust ofurtrú á pósitívisma og vísindalegum mælingum og tilraunum og svo kukl og sjónhverfingar – og líka sviðsetningin, en meðal þeirra sem hjálpuðu Indriða miðli var Guðmundur Kamban sem seinna varð einn helsti leikhúsmaður þjóðarinnar. Sjálfur rifjaði ég upp hvernig mér hefur stundum, í ritstörfum, fundist ég vera eins og miðill, með hausinn fullan af annarlegu mannlífi og alls konar raddir sem flæða út úr mér á meðan ég skrifa, og stundum í eins konar transi.

Síðust á mælendaskrá var María Ágústsdóttir prestur en hugvekju hennar flutti séra Solveig Lára Guðmundsdóttir. María talaði um sig sem kristna manneskju – og hvernig þetta tvennt verður ekki aðskilið. Hún rakti hvernig rit biblíunnar eru henni innblástur bæði í daglegu lífi og starfi, og talaði um þá trú sína að handan við líf sitt og starf búi veruleiki sem hún byggi þetta allt á, þar sem ekki sé neinn aðskilnaður líkama og sálar.

Eftir þessa trúarjátningu var formlegri dagskrá lokið. Það var góður andi og mikið sólskin á þessari ráðstefnu. Þarna mættist ólíkt fólk, kristnir menn og guðfræðingar, sálfræðingar, heiðingjar, trúleysingjar og trúarleg viðrini, og talaði saman af einlægni og virðingu. Hvernig metum við hið ómetanlega? Með því meðal annars að meta hvert annað að verðleikum.

Sum okkar fóru strax í ýmsar áttir en þau sem vildu sóttu messu í Hóladómkirkju þar sem séra Solveig Lára predikaði. Hvað sem leið trú fólks og trúleysi skynjuðu flest helgi staðarins, fundu þá sérstöku friðsæld sem slíkri helgi fylgir, og hvernig sem háttað er viðleitni fólks við að tengja sig við alheimsvitundina og finna blakta innra með sér ljós heimsins – þá leið fólki vel eftir messuna og samveruna. Eigum við að hafa kveikt eða slökkt?