Takmörk tímans

Takmörk tímans

Það sem lýtur takmörkunum verður eftirsóknarverðara og dýrmætara. Það kann að vera þverstæða lífs og dauða en staðreyndin er þó sú að vitundin um takmörk okkar í tíma, ætti að brýna það fyrir okkur sem endurómar í boðskap trúarinnar, að nýta vel þann tíma sem okkur eru úthlutaður.

Við mennirnir leitum að ýmsum fjársjóðum á lífdögum okkar. Þeir eru mismerkilegir þessir sjóðir. Stundum mætti ætla að við sæktumst fyrst og fremst eftir þægindum, nú eða auði og völdum. Sumt í fari okkar bendir vissulega til þess og á það víst einna helst við þegar við sýnum ekki á okkur bestu hliðarnar. En hugsum dýpra og skoðum hug okkar. Leitum við ekki fyrst og fremst tilgangs? Höfum við ekki öðru fremur þörfina til þess að setja lífið í ákveðið samhengi? Viljum við ekki greina merkingu með gjörðum okkar? Sú þrá er víst sameiginleg öllu mannkyni. Við gerum okkur grein fyrir því að við erum takmörkum háð, við erum mold, eins og sálmaskáldið forna orti – en við viljum gera eitthvað sem lifir okkur. Við viljum að arfleifð okkar lifi lengur en við sjálf.

Tilgangsleysi

Um leið verður það okkur þungbært þegar okkur finnst lífið sneytt öllum tilgangi. Sú kennd sækir að, ekki síst þegar sorgin knýr dyra. Sorgin er förunautur okkar flestra á einhverju skeiði í lífinu. Hún er hluti tilverunnar, skuggahlið gleðinnar getum við sagt, kærleikans og þess sem kallar fram bros og hlátur. Já, sorgin á upptök sín í því sem við getum með sanni kallað fjársjóði tilverunnar. Enginn óskar sér þess hlutskiptis að syrgja, með öllum þeim sársauka sem því getur fylgt. Eitt af einkennum sorgarinnar er máttleysið, þegar við missum kraftinn, lyppumst niður undan þunga þess sem á okkur hvílir. Jafnvel er það svo að okkur finnst tilgangurinn að baki lífinu horfinn. Og manneskja sem finnur ekki tilganginn er eins og villtur ferðalangur í ókunnri borg. Áfangastaðurinn er enginn og því eins gott að setjast niður með hendur í skauti og láta tímann líða.

Í hvert sinn sem við hyggjumst rísa á fætur ómar þessi raust sem segir – allt er hégómi, allt er til einskis. Það sem þú byggir upp og eflir getur í einni andrá horfið að nýju og tengslin sem þú leggur þig svo fram um að mynda, sundrast á einu andartaki.

Einsemdin er önnur hlið sorgarinnar og nátengd því máttvana ástandi sem syrgjendur þekkja.

Allar sálir

Núna er sá sunnudagur sem við höfum helgað hinum látnu. Á miðöldum, þegar hver helgur dagur ársins átti sinn dýrling, var þessi dagur ætlaður þeim dýrlingum sem út af féllu, ekki komust að, á öllum hinum dögum ársins. Þegar dýrlingaátrúnaður var litinn hornauga, í kjölfar siðaskiptanna, var dagurinn helgaður hinum látnu. Allra sálna messa, varð hún kölluð en þó á hið gamla heiti svo vel við. Því hvað er að vera heilagur? Orðið merkir að vera Erum við ekki öll heilög í einhverjum skilningi. Heilagur merkir upphaflega, frátekinn og við erum frátekin í svo mörgum skilningi. Hér í kirkjunni tölum við um skírnina í því samhengi, frátekin Guði en við erum að sama skapi frátekin gagnvart því fólki sem við stöndum nærri. Erum hluti af því, höfum hlutverk í lífi þess og þar með frátekin, heilög.

Guðspjall allra heilagra messu eru hin þekktu sæluboð Jesú. Þetta eru ekki boðorð, heldur fremur boðun. Þar eru talin upp þau sem eiga um sárt að binda og fá þá umsögn að vera sæl. Fátækir í anda, sorgbitnir, ofsóttir, þau sem hungrar og þyrstir. Allt þetta sem við tengjum við sorgina og missinn. Kristur talar til þeirra sem fyllast vanmætti í þrautum sínum og erfiðleikum. Hann tekur dæmi af raunum manna og miðlar okkur þeim boðskap að ekki er allt sem sýnist í tilverunni. Handan hins hverfula er veruleiki sem ekki hrörnar og deyr. Þar er hinn alltumlykjandi faðmur Guðs í eilífðinni. Og hann teygir sig inn í líf mannsins á líðandi stundu, réttir manninn upp úr máttleysi sínu og einsemd og fyllir hann nýjum krafti. Sæll ert þú – því þú ert umvafinn kærleika mínum.

Hér er talað röddu hluttekningar. Enginn getur hjálpað nema með því að setja sig í spor þess sem hann hjálpar. Og Kristur er með okkur. Hann leiðir okkur áfram og minnir okkur stöðugt á það að við göngum ekki ein á leið okkar í gegnum sorgina. Í Davíðssálmum stendur:

Þú hefur talið hrakninga mína,  safnað tárum mínum í sjóð þinn,  þau eru rituð í bók þína. (Ps. 56.9)

Tárin sem felld hafa verið hafa ekki fallið til einskis. Algóður Guð heyrir hrópin og bænirnar sem til hans berast.

Dauðinn gefur líka líf

En sorgin og dauðin birtast okkur líka í annarri mynd.

Ég átti nú í vikunni samtal við góðan vin minn. Kollega einn á níræðisaldri sem hefur svo oft hrifið mig með jákvæðri afstöðu til lífsins og kann þá list að láta viðmælandann finna til sín. Hann hefur oft dásamað eftirlaunaárin í mín eyru og segist öfundsverður að því að geta ráðið sínum tíma og teygað í sig ávexti starfsævinnar. Og það gerði hann nú sem endranær með þeim sannfæringarkrafti að ég fór nánast að hlakka til, þegar röðin kæmi að mér.

Það sem er auðvitað erfitt, sagði hann svo í framhaldi og glampinn fölnaði örlítið í augum hans, er að kveðja allt þetta fólk sem hefur verið hluti af lífi mínu. Stundum eru þetta einhverjir nákomnir, en líka einstaklingar sem maður man eftir af einhverju skeiði lífsins en átti svo engin samskipti við, árum saman. Og þegar dánartilkynningin birtist vaknar sú hugsun, af hverju maður ræktaði ekki þessi kynni. Örlítil anguværð færðist yfir andlit hans og hann sagði eitthvað á þessa leið: Í hverjum mánuði hittumst við, bekkjarsystkinin úr menntaskólanum. Þetta höfum við gert allt frá því er við útskrifuðumst fyrir rúmum sex áratugum. En núna, á síðustu árum þegar við komum saman hefur orðið svolítil breyting á því hvernig við heilsum hvert öðru. Nú föllumst við alltaf í faðma.

Í þessari litlu vinjettu af eldri borgurum sem viðhalda vináttu sinni, hafa notið þess í hvert sinn, að verða tvítug í annað sinn í hinum jafna takti hefðarinnar – hefur vitundin um endalokin kallað fram sterkari tengsl. Sorgin, á ýmsar hliðar og í þessu tilviki hefur hinn fundvísi vinur minn skynjað það hvernig dauðinn, ekki rænir lífið gildi sínu, heldur eykur verðmæti þess og innihald.

Það sem lýtur takmörkunum verður eftirsóknarverðara og dýrmætara. Það kann að vera þverstæða lífs og dauða en staðreyndin er þó sú að vitundin um takmörk okkar í tíma, ætti að brýna það fyrir okkur sem endurómar í boðskap trúarinnar, að nýta vel þann tíma sem okkur eru úthlutaður. ,,Kenn oss að telja ævidaga okkar, svo við megum öðlast viturt hjarta” segir í Davíðssálmum.

Tilgangsleysið

Mannshugurinn leitar að tilgangi með því sem hendir – það er eðlilegt og það er sjálfsagt. Barátta þessi hefur ríkulegan tilgang og arfleifð hennar er mikil þótt árin hafi ekki verið mörg. Hún minnir okkur á fánýti margra þeirra vandamála sem að okkur sækja í erli tímans og er spegill á ýmsa þá hegðun sem við sýnum þegar við látum þau stjórna lífi okkar og gjörðum. Slíkt fordæmi eiga kristnir menn auðvelt með að skilja. Þar sem Jesús Kristur birtist okkur á krossinum talar hann inn í hjarta okkar og minnir okkur á það hvernig dauðinn og þjáningin geta snúist upp í sigur lífsins á dauðanum.

Og nú þar sem við komum saman á þeim degi sem við helgum hinum látnu, leiðum við hugann að þeim sem við höfum kvatt. Við hugleiðum gleðina sem þau færðu, máttleysið sem greip okkur í sorginni og söfnum kröftum til að geta haldið lífinu áfram. Við heiðrum minningu þeirra og þökkum allar þær gjafir sem þau færðu okkur. Kveikjum ljós á leiði og hugleiðum þann mikla leyndardóm sem lífið er og dauðinn. Og um leið biðjum við þess að hjörtu okkar fái styrk, fyllist krafti og þeirri sterku kennd sem lífsþorstinn er og lífsgleðin. Að baki henni býr sannfæringin djúpa um sigurinn stóra og þá sannfæringu að kærleikurinn sé ætíð sterkari þeim öflum sem brjóta niður.