Kom þú drottinn Kristur

Kom þú drottinn Kristur

Í predikuninni Við dyrnar spyr Haraldur: "Vilt þú undirbúa slíka tilkomu Krists?" Og hann bætir við og segir: "Hann er jafnvel fúsastur að koma til þess, sem finnur sárast til sektar sinnar og vanmáttar."
fullname - andlitsmynd Pétur Pétursson
30. nóvember 2008
Flokkar

Biðjum með orðum Haralds Níelssonar: Eilífi Guð! Þú sendir okkur jafnt sumar sem vetur, blíðu vorsins sem næðinga haustsins. Á tímum breytinga og byltinga þráum við ríkast að finna til verndar þinnar og blessunar, sem vakir sífeldlega yfir okkur, þótt við gerum okkur það sjaldnar ljóst en skyldi. Í dag viljum við nálgast þig í tilbeiðslu; við tignum mátt þinn og vísdóm og lútum í lotningu réttlæti þínu og heilagleika, og dáum elsku þína. Við vitum, að þú þarft enga fórn úr hendi okkar né neina þakkargerð frá okkur, en við lifum af nægtum þínum og andi þinn heldur okkur við; réttlæti þitt leiðir okkur, gæska þín varðveitir okkur og elska þín sér fyrir þörfum okkar. Þess vegna berum við fram lofgjörð og þakklæti, þótt við getum ekki þakkað þér svo sem hjarta okkar þráir. Hjálpa þú okkur til að standast á reynslustundunum; vertu okkur styrkur okkar í mótlætinu og þegar kross þjáninga eða sorgar leggst á okkur, en leið okkur einnig þegar lífið færir gleði og unað. Blessa sérhvern okkar svo við tökum framförum í því að vígja þér sérhvern dag. Bænheyr okkur í Jesú nafni. Amen.

Náð sé með okkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Á fyrsta sunnudegi í aðventu undirbýr kirkjan sig undir komu jólanna, komu Jesú Krists, hins upprisna drottins og frelsara inn í skammdegið og það er víst að við hér í þessari kirkju og í þessu landi höfum einmitt nú fulla þörf fyrir ljósið og fagnaðarerindið. Pistillinn sem kirkjan setur okkur fyrir að íhuga á þessum fyrsta degi kirkjuársins er sóttur í síðustu bók Biblíunnar og að sumu leyti þá einkennilegustu, það er Opinberunarbók Jóhannesar, hans sem sá inn í heim himnanna, sá hinn upprisna frelsara vitja safnaðar síns og segja: "Sjá ég stend við dyrnar og kný á." Við erum hér til að hlusta á þessa rödd og taka á móti því sem hann vill við okkur segja.

Við minnumst einnig í dag trúarleiðtoga sem Guð gaf þessari þjóð, leiðtoga sem þegar á unga aldri var frá tekinn í þjónustunni í helgidóminum. Við minnumst þess að 140 ár eru liðin frá fæðingu hans og öld frá útkomu þýðingar hans á Gamla testamentinu - og reyndar er enn önnur ástæða til að minnast hans því í ár eru 80 ár frá því að hann lést sviplega, aðeins 59 ára að aldri. Hann og stóð hér í þessum predikunarstóli og flutti boðskap þessa dags af meiri sannfæringarkrafti og þekkingu en aðrir prestar og fólk kom og hlustaði og færri komust inn í kirkjuna en vildu. Hann lagði út af þessum sama texta Opinberunarbókarinnar í predikun sem hann flutti árið 1919 og sótti líkingamál sitt eins og honum var svo tamt til náttúrunnar.

Hann líkti frelsaranum við réttlætissólina og sagði: "Öll munum við vel, hvernig hækkandi sumarsólin hellir geislum sínum niður yfir jörðina og geislarnir verða því magnmeiri, því hærra sem sólin kemst; og geislarnir eru vissulega líf af hennar sjálfrar lífi, og því lífgefandi, hvar sem þeir komast að og ná að ylja. Gleymið því eigi, að allt líkamlegt líf hlýtur næringu sína frá þeirri einu sól. Gefið því gætur , að engin jurt eða hið minsta gras fær tekið á sig græna litinn, ef geislarnir, sem starfar niður frá sólinni , fá eigi snert þau... Allt er opið fyrir honum nema þegar mannshjartað lokar sig fyrir honum. Aldrei bregst hann neinum og náð hans yfirgefur okkur ekki. En hann neyðir engan. Hann hrindir engum dyrum upp með valdi; dyrnar verða að ljúka upp innan frá."

Haraldur hafnar náðarútvalningunni, að Guð útvelji suma, til þess að verða aðnjótandi eilífrar líknar. Það er hræðilegur misskilningur og ímyndanir að Guð fari í manngreinarálit.

Köllunin til þess að miðla þessum boðskap til samferðamanna sinna gengur eins og rauður þráður gegnum líf Haralds allt frá því að hann var unglingur hér við Lærða skólann í Reykjavík. Móðir hans Sigríður, bóndakona uppi á Mýrum, lagði mikla alúð við trúarlegt uppeldi barna sinna, og hún sá snemma að þessi yngsti sonur hennar hafði góðar námsgáfur og vildi koma honum til mennta.

En hún hafði áhyggjur af drykkjuskap, lausung og vantrúaröldunni frá Kaupmannahöfn sem farið var að gæta í Lærða skólanum því þá voru áhrifin frá danska bókmenntafræðingnum Georgi Brandes farin að gera vart við sig meðal skólapilta, eldri félagar sendu þeim rit hans og kynntu sjónarmið hans í bréfum, ritgerðum. Í bréfi til bróður síns Jóns Aðalsteins málfræðings og hafnarstúdents skrifar hún: "Vildi eg óska að Drottni þóknaðist að senda þangað góða menn sem lagfærðu hann skólann. Þó svo stæði á fyrir mér að ég gæti komið drengjunum mínum í skóla hræðist ég að hugsa til að láta þá þangað, en það kemur nú líklega aldrei til þess. Við höfum ekki efni á því og svo veit eg ekki heldur hvort þeir hafa gáfur til þess. Það er helst sá yngsti. Hann heitir Haraldur." Hún sendi Harald þó til Reykjavíkur og treysti bróður sínum Hallgrími dómkirkjupresti fyrir honum og hann brást ekki trausti hennar, tók hann að sér sem sinn eigin son inn á heimili sitt og styrkti hann til náms í guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Brandes heillaði stúdentana en því fylgdi guðleysi og andúð á kirkjunni, og það sem verst var að mati Haralds, lítilsvirðing í garð Jesú Krists sem hins upprisna frelsara og boðbera kærleikans.

Eins og Hanna móðir Samúels, dómara og andlegs leiðtoga Ísraels, bað hún sífellt fyrir syni sínum og bar umhyggju fyrir honum þótt hún yrði að sjá af honum. Bænir móður Haralds rættust eins og bænir Hönnu, hann gaf sig allan í þjónustuna í helgidóminum var alla tíð bindindismaður og fyrirmynd annarra um samviskusemi og grandvart líferni. Eins og Hanna sendi Samúel nýjan möttul á hverju ári sendi Sigríður á Grímstöðum Haraldi vaðmál í föt, kæfu, kjöt og smjör og hélt því áfram eftir að hann var farinn til háskólanáms í Kaupmannahöf. Haraldur brást aldrei trausti móður sinnar og fóstra síns og þegar hann kom heim frá námi fól Hallgrímur biskup honum það vandaverk að þýða Gamlatestamentið úr frummálinu hebresku.

Haraldur hafði þegið næma máltilfinningu í vöggugjöf og vandað málfar var sjálfsögð dyggð á heimili hans enda forfeðurnir hans þekktir kennimenn og langafi hans séra Jón á Grenjaðarstöðum hafði verið kennari prestsefna bæði í Hólaskóla í Hjaltadal og Hólavallaskóla í Reykjavík. Þessir hæfileikar nýttust til fullnustu við biblíuþýðingarstarfið og það ber að nefna einnig að Haraldur lagði sitt að mörkum við endurskoðun texta Nýja testamentisins.

Gildi þess að eiga aðgang að góðum og vönduðum textum fyrir boðun trúarinnar verður aldrei nógsamlega metið. Innblásnar ritningar og sálmar glæða trúna og varðveita hana og slíkan texta hafði íslenska kirkjan eignast með sálmabókinni frá 1886 þar sem skáldin Matthías Jochumsson og Valdimar Briem lögðu hönd á plóginn ásamt öðrum innblásnum andans mönnum. Með þýðingu Haralds eignaðist þjóðin aðra gersemi, lifandi brunn til ausa úr handa nýjum kynslóðum.

Haraldur sótti framhaldsnám við bestu guðfræðideildir í Þýskalandi og Englandi og varð meðal fremstu fræðimanna, þýðenda og ritskýrenda síns tíma.

Fegurð málsins, myndauðgi og trúarsannfæringin skilaði sér áfram í kennslu hans við guðfræðideild Háskólans og í predikun hans hér í Fríkirkjunni og víðar og sumar birtust í bókunum Árin og eilífiðin. Stíll hans var mótaður af meitlaðir og magnaðri framsetningu speki- og spámannarita Gamlatestamenntisins og snildinni í dæmisögum Jesú. Vandvirknin hvatti aðra til dáða og óbilandi trú á Jesú Krist lífgaði trú annarra og áhrifin frá honum efldu kirkjuna og styrktu stoðir kristinnar menningar í þjóðlífinu.

Fyrir þetta allt þakkar Háskóli Íslands í dag og íslenska kirkjan - kristnir söfnuðir í landinu sem byggja boðun sína og þjónustu á Biblíunni - og kenna sig við Jesú frá Nasaret, hinn upprisna meistara -

Messías sem vitjar þjóðar sinnar.

Í predikuninni Við dyrnar spyr Haraldur: "Vilt þú undirbúa slíka tilkomu Krists?" Og hann bætir við og segir: "Hann er jafnvel fúsastur að koma til þess, sem finnur sárast til sektar sinnar og vanmáttar."

"Mun nokkur ósýnilegur sendiboði hans fara fagnandi frá þessari guðsþjónustu - yfir því - að einhver hafi nú fengist til að treysta honum og betra líferni sitt? Fer nokkurn tíma gleðibros um heilaga ásjónu hans út af því, sem gerist í okkar hópi? Hugsið um það, vinir mínir! Og biðjum hann öll að láta geisla náðar sinnar falla yfir okkur í allri fátækt okkar. Hvar sem heilög návist hans merkist, kemur friður í hjartað og það rætist úr mestu erfiðleikunum. Fyrir því skulum við láta þetta vera aðventu-bæn okkar: Kom þú, drottinn Kristur!"

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen