Dagbókarbrot í alheiminum

Dagbókarbrot í alheiminum

Mamma hvar er Paradís? Paradís er staður þar sem ... Mamma! Ég veit allt um það, en hvar er þessi staður? Er hann til dæmis í Reykjavík, Akureyri, eða kannski í París; paradís í París?

Sérðu ekki birtuna fylla loftin? Heyrirðu ekki söng farfuglanna og finnurðu ekki anganina úr moldinni? Finnurðu ekki vorið, þrátt fyrir norðanáttina? Vorið endurnýjar, lífgar og græðir.

Enn er heilagur andi að störfum, Kristur er upprisinn og situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs. Enn hækkar bensínið, er það ekki bara gott á okkur koltvísýringsspúandi bílaþjóðina? Gamlir karlar í heita pottinum segjast ekki vilja játa syndir sínar í messunni, þeir koma ekki ótilneyddir þar sem þeir hafa ekkert syndgað. Ekki nýlega í það minnsta. Er það virkilega svo? Og hvorki í hugsunum orðum eða gjörðum?

Drög að nýrri kirkjuordinasíu bíða á borðinu.

Konan sem missti manninn sinn í haust, henni líður alveg skelfilega og veit ekki hvað hún á til bragðs að taka. Meira bullið að tíminn lækni öll sár. Hin konan sem var að greinast með krabbamein segist geta sjálfri sér um kennt að hafa reykt þessi ósköp. Þá vissi ekki nokkur maður að reykingar væru hættulegar.

Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls. Mamma hvar er Paradís? Paradís er staður þar sem ... Mamma! Ég veit allt um það, en hvar er þessi staður? Er hann til dæmis í Reykjavík, Akureyri, eða kannski í París; paradís í París? Þetta er rosalega fyndið ef viðkomandi er fimm ára og systir hans tveggja; allir fara að hlæja og halda svo áfram með grjónagrautinn. Málið látið niður falla. Paradís er þar sem hún er.

Rétt fyrir háttatíma sagði Gunnar Dal í sjónvarpinu: Ekkert er til ósennilegra og lygilegra í okkar heimi en hreinar mælanlegar staðreyndir. Trú sem byggist á kærleika og samúð og væntumþykju leiðir til velfarnaðar og hamingju. Þetta var niðurstaða dagsins, niðurstaða öldungsins sem hefur eytt áratugum í að kryfja lífið og tilveruna. Allir dagar eru dagar aldraðra, kynslóðar sem gengur hokin af reynslu og visku.

Er ekki hægt að virkja reynsluna og nýta mannauðinn betur?

Hvor tveggja kúnst að dvelja í augnablikinu og hlusta á nið aldanna. Að hlusta á vængjatök fuglanna, finna lyktina af blómunum og strjúka vanga barnsins. Allt er þetta óútskýranlegt en samt svo skiljanlegt. Hjálpa mér að skilja hvað þú, heilagi andi, huggari minn vilt við mig tala í þínu orði. Guði sé lof sem gefur okkur sigurinn.