Sannleikur og ógæfa

Sannleikur og ógæfa

Sannleikurinn er dýrmætur og hann getur krafist fórna. Fornir hugsuðir hafa hugleitt þessa stöðu og hið íslenska skáld segir þá sögu einnig á sinn hátt. Saga Þórarins Eldjárns hefst á veðurfarslýsingu þar sem hann segir frá því er hann hröklast undan nöprum vindunum inn á krána þar sem hann hittir þessa ólánsömu konu. Kaldhæðnin verður þó enn meiri í lokaorðunum þegar því er lýst hvernig heimurinn átti eftir að leika hana – já sjálft barnið úr ævintýrinu um nýju fötin keisarans.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
15. febrúar 2024

Í einni af Margsögum sínum segir Þórarinn Eldjárn frá því þegar hann, árið 1970, á að hafa gengið inn á þekkta krá í Kaupmannahöfn á flótta undan nöprum vetrarkuldanum.


Hefur átt erfiða ævi


Hann hafði setið þar skamma stund er hann tók eftir konu, ógæfusamri að sjá, sem sat ein úti í horni og talaði sleitulaust við sjálfa sig. Enginn gaf sig að því sem hún hafði að segja og bar ekki á öðru en að fólkið hefði heyrt þessa sögu margsinnis áður. Sjálfum fannst honum endilega eins og hann kannaðist við konu þessa – hann gat bara ekki munað hvar. Hann lagði því við hlustir.

 

Þetta reyndist vera barnið úr sögunni um Nýju fötin keisarans. Það bar ekki á öðru en að það hefði átt erfiða ævi.

 

Ég man ekki hvenær ég las þessa örsögu fyrst en hún hefur oft leitað á mig. Í ævintýri H.C. Andersen er það auðvitað keisarinn sem situr í súpunni, já og allir hans jábræður og jásystur sem hann hafði safnað í kringum sig. Í sögunni afhjúpar sakleysi barnsins falsið og sýndarmennskuna. Það bendir á það sem allir hefðu mátt sjá og vita – keisarinn var ekki í neinum klæðum.

 

Síðan hefur þetta tilsvar óspart verið notað þegar einhver hefur orðað það sem ekki mátti ræða og fjalla um.

 

Sagan hefur yfirskriftina „Ævintýri“, og gefur okkur uppdiktaða innsýn í líf þeirrar manneskju sem sagði það sem þurfti að segja – en þegar á allt er litið, mátti ekki segja. Já, hún hefur átt erfiða ævi!

 

Örlög þess sem segir satt hafa verið mörgum hugleikin. Platon skrifaði rit sitt um réttlætið, Ríkið, út frá lýsingu sinni á hlutskipti tveggja ólíkra manna. Annar þeirra segir alltaf rétt frá. Hinn lýgur í sífellu. Sá heiðarlegi verður fórnarlamb svikahrappa og endar hann allslaus og yfirgefinn í fangelsi. Lygalaupurinn nýtur hann vinsælda og virðingar og tekur að lokum við stjórnartaumum í landinu.


Fórnir sannleikans

 

Ömurlegt hlutskipti barnsins í sögu Andersens í meðförum Eldjárns, var í þessum anda. Og heimspekingurinn var ekki í vafa um að það hefði sannarlega verið þess virði. Platon rökstyður það svo, og raunar helgar hann alla umfjöllun bókarinnar í að ræða, hvernig sá ógæfusami en heiðarlegi, átti þrátt fyrir allt betra líf en hin söguhetjan. Sannleikurinn hafi gildi í sjálfu sér.

 

Sjálf erum við slíkt forréttindafólk að þjóna málstað sem helgaður er sannleikanum og kærleikanum til náungans. Við þekkjum frásagnir af sannleiksvottum sem minna um margt á hlutskipti þessara tveggja.

 

Frelsunarguðfræingar í Suður Ameríku þorðu að gagnrýna einræðið með þeim lygum og óréttlæti sem óx af þeim kvistum.

 

Fyrirmyndina sóttu þeir í Biblíuna. Þar liggur til grundvallar sú afstaða að maðurinn sé skapaður í Guðs mynd – ekki bara konungurinn eins og í öðrum trúarbrögðum á hinum biblíulegu slóðum. Spámenn töluðu fyrir munn Drottins og sögðu yfirstéttum og yfirvöldum til syndanna.

 

Ekkjan og munaðarleysinginn voru samkvæmt þeirri guðfræði ekki síður mótuð í mynd hins almáttuga. Þetta orðar Kristur svo í Mattheusarguðspjalli á þennan hátt, er hann vísar í orð dómarans á hinum efsta degi: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra það hafið þér gert mér.“

 

Guðfræðingar á borð við Gustavo Gutierrez, Leonardo Boff og Helder Camara biskup, létu ekki nægja að leggja fátækum og frumbyggjum lið. Þeir bentu á klæðaleysi herforingja og valdhafa, sem birtist í misskiptingu auðsins í þessari ríku álfu. Sú guðfræði féll ekki í kramið í Vatíkaninu. Þeir voru fyrir vikið stimplaðir sem marxistar. Jóhannes II páfi og Ratzinger kardínáli, síðar Benedikt páfi, beittu sér gegn þeim með þeim afleiðingum að þeir misstu hljómgrunn sinn og trúverðugleika og sættu sjálfir miklum ofsóknum.

 

Upp úr þeim jarðvegi spratt svo önnur hugmyndafræði, einhvers konar velgengnisguðfræði sem gaf rányrkju í garð samfélags og náttúru einhvers konar biblíulegar stoðir. Fulltrúi hennar, Bolsonaro, var til skamms tíma forseti í landinu.


Barnið í guðspjöllunum

 

Sjálfur talaði Kristur um sjálfan sig með margvíslegum hætti. Hann minnti á skyldur okkar í þessu lífi og dró ekkert undan þegar hann útlistaði fyrir hlustendum sínum þá ábyrgð sem því fylgir að vera maður. Þar er ekkert gefið.

 

Það má vel vera að H.C. Andersen sótti í sjóði Biblíunnar þegar hann sagði þessa lífseigu sögu um barnið og keisarann.

 

Þegar lærisveinarnir rifust um það hver þeirra væri æðstur – setti Jesús barn í miðjan hópinn og sagði það fremst allra í ríki Guðs. Og sjálfur sagðist hann vitja okkar í lífi okkar og störfum – já sem eitt af okkar minnstu systkinum.

 

Saga Krists er að sama skapi frásögnin af því hvernig heimurinn getur leikið þá sem ganga hreint fram og segja það sem þarf að segja og vinna sín kærleiksverk án þess að skeyta um úreldar reglur og siði.


Napur boðskapur

 

Sannleikurinn er dýrmætur og hann getur krafist fórna. Fornir hugsuðir hafa hugleitt þessa stöðu og hið íslenska skáld segir þá sögu einnig á sinn hátt. Saga Þórarins Eldjárns hefst á veðurfarslýsingu þar sem hann segir frá því er hann hröklast undan nöprum vindunum inn á krána þar sem hann hittir þessa ólánsömu konu. Kaldhæðnin verður þó enn meiri í lokaorðunum þegar því er lýst hvernig heimurinn átti eftir að leika hana – já sjálft barnið úr ævintýrinu um nýju fötin keisarans.

 

En sá napri tónn beinist þó ekki að barninu heldur því umhverfi sem lék það svo grátt fyrir það eitt að hafa sagt það sem öllum mátti ljóst vera.


Hugleiðing þessi var flutt við helgistund á vegum Reykjavíkurprófatsdæmis vestra, 15. febrúar 2024