Prédikun flutt í Bessastaðakirkju 20. su. e. tr. 21. okt. 2012. Jes. 55:1-5; Ef. 5:15-21; Mt. 22:1-14.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Dagarnir eru misjafnir. Í gær gengum við að kjörborði í okkar lýðræðislandi og í dag liggja úrslitin fyrir. Á nokkrum stöðum fengu menn 2 kjörseðla í hendur, t.d. hér á Álftanesinu og í Garðabæ. Það sýnist sitt hverjum um sameiningar en niðurstaðan liggur fyrir og meirihlutinn ræður.
Það er gott að búa í landi þar sem almenningur getur haft áhrif á það hvert við viljum stefna sem þjóð í framtíðinni. Þegar niðurstaða kosningar liggur fyrir er það stefna meirihluta sem ræður. Þó ekki sé búið að telja öll atkvæði þegar þessi orð eru sett á blað er ljóst að meirihluti vill að Álftanes og Garðabær sameinist og áfram verði ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá. Það bendir til þess að meirihlutinn vilji að áfram verði kristin gildi í heiðri höfð í samfélaginu. Að á þeim grunni verði þjóðfélag okkar byggt. Þegar hús er byggt er mikilvægt að gólfið standi á traustum grunni. Þá eru minni líkur en meiri á því að húsið standi. Þó jörðin hristist og húsið með og hrynji úr hillum eins og fyrir norðan í nótt stendur húsið vegna þess að vandað hefur verið til byggingarinnar.
Kirkjan stendur á traustum grunni þess vegna mun hún ekki hrynja þó skjálftar skeki. Skjálftarnir sem kirkjuna skekja eru ekki vegna misgengi jarðlaga eða annars óróa í jarðskorpunni heldur af mannavöldum. Í sögu kirkjunnar í heiminum hafa skjálftar orðið af og til en alltaf stendur Kirkja heimsins vegna þess að hún er byggð á bjarginu Jesú sem haggast ekki þó í móti blási.
Og nú er ljóst að meirihluti íslensku þjóðarinnar vill að áfram standi þjóðfélagið á þeim trausta grunni er kristin trú er. Það kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni að meirihluti þeirra sem kusu vilja hafa ákvæði um þjóðkirkjuna í nýrri stjórnarskrá lýðveldisins.
En þá gæti einhver spurt, en hver er afstaða þeirra er sátu heima og nýttu ekki kosningarétt sinn? Var það ekki um helmingur þjóðarinnar? Fljótt á litið má ætla að þeim sé sama og treysti Alþingi til að ákveða það. Þegar kosningar eru gefst okkur tækifæri til að hugleiða ýmislegt um afstöðu okkar og þróun þess samfélags sem við búum í. Frelsi og hlutleysi eru hugtök sem bera á góma þegar taka þarf afstöðu. Frelsi frá einhverju og frelsi til einhvers. Frelsinu fylgir ábyrgð. Kristin manneskja lifir í þeirri fullvissu að hún er elskuð af Guði. Í því felst frelsi hennar. Hún treystir því að vera elskuð af Guði jafnvel þó henni verði á. Í því felst náðin. Og því má spyrja hvort kristin manneskja getur verið hlutlaus? Og út frá því hvort samfélag geti verið byggt á hlutleysisstefnu. Þjóðaratkvæðagreiðslan í gær um stjórnarskránna, samfélagssáttmálann gaf okkur tækifæri til að hugleiða á hverju samfélagið skal byggt. Flestum finnst sjálfsagt að eitt tungumál sé opinbert tungumál þjóðar. Það þýðir ekki það að fólk megi ekki tala annað tungumál. Það þýðir það að opinber umræða og stjórnsýsla fer fram á íslensku hér á landi. Í skólunum er töluð íslenska í tímum þó börn sem eiga annað móðurmál megi tala það líka.
Ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskránni þýðir ekki það að fólk megi ekki vera í örðum kirkjudeildum eða hafa aðra trú. Frá árinu 1874 þegar við fengum stjórnarskrá hér á landi hefur verið ákvæði um þjóðkirkjuna í henni. Löngu áður hafði þjóðin orðin kristin og kirkjur verið byggðar. Þegar við komum saman hér í Bessastaðakirkju á kirkjudegi verður mér hugsað til trúararfsins sem ég gekk inn í við skírn mína, því kirkjudagurinn er haldinn til að minnast vígsluafmælis kirkjunnar. Fyrir 16 árum var haldið upp á tvö hundruð ára afmæli kirkjunnar. Bessastaðakirkja er því gamalt hús sem sagt gæti marga söguna ef það gæti talað. En hún er ekki eina kirkjuhúsið sem staðið hefur hér því talið er að kirkja hafi verið á Bessastöðum frá því á 12. öld. Og af því ég er nýflutt frá Bolungarvík verð ég að geta þess að þar er talið að kirkja hafi staðið á Hólnum frá því um 1200. Á hólnum stendur enn kirkjuhús þeirra Bolvíkinga, Hólskirkja sem er 104 ára gömul.
Það hefur tíðkast að fermingarbörn komi saman á fermingarafmæli. Það er fróðlegt að fylgjast með því hvað hóparnir taka sér fyrir hendur. Eftir því sem fólk verður eldra er sem það geri sér betur grein fyrir samhengi lífsins og samveran mótast af því. Fyrir nokkrum árum voru margir fermingarárgangar í Bolungarvík sömu helgina. Enginn þeirra taldi sig eiga erindi í Hólskirkju nema sá elsti. 50 ára fermingarbörn sátu á fremsta bekk í sjómannadagsmessunni. Því vakti það athygli mína þegar ég fékk tölvupóst frá prestinum, sr. Hans Guðbergi sem var reyndar í starfsþjálfun í Bolungarvík fyrir rúmum áratug, að 50 ára fermingarbörn eru sérstaklega boðin velkomin í messuna á kirkjudeginum.
Guðspjallið í dag er dæmisaga og segir frá boði. Það fjallar um afstöðu og vilja til að þiggja boð. Jesús segir sögu af konunglegri brúðkaupsveislu. Hún hefst með orðunum líkt er um himnaríki og konung einn. Konungurinn sendi þjóna sína til að bjóða fólki í veisluna en fólkið vildi ekki þiggja boðið. Konungurinn valdamikli gafst ekki upp og sendi þjóna sína aftur út. Þá komu boðsgestirnir með afsökun. Þeir þurftu að sinna sínum daglegu störfum. Höfðu ekki tíma til að skemmta sér. En þar sem allt var til reiðu fyrir veisluna sendi konungurinn þjónana aftur út til að finna fólk í veisluna og þeir fundu bæði góða og vonda eins og segir í textanum og salurinn fylltist.
Dæmisöguna um konunginn og brúðkaupsveisluna sagði Jesús eftir að fræðimenn og Farisear höfðu hlustað á hann og spurt hvaðan honum kæmi vald til að tala og framkvæma. Hann segir þessa dæmisögu því hann vill skýra út fyrir þeim hvað himnaríki er.
Matteus guðspjallamaður sem skráir þessa sögu talar um himnaríki, þegar aðrir guðspjallamenn tala um guðsríkið. Himnaríki er því guðsríkið. Hvar er þetta ríki? Ríki þetta er ekki staður sem hægt er að benda á á landakorti. Ríkið er ástand. Það ræðst af afstöðu einstaklinga. Í þessu ríki er konungurinn Kristur og þegnarnir þau sem trúa á hann. Ríkisborgararétturinn felst í því að hafa trú, trú á hinn upprisna Jesú. Í söng einum segir: Himnanna ríki er hjá oss, himnanna ríki oss gefst í trú himnanna ríki er hjá oss nú, Kristur kemur brátt.
Himnanna ríki oss gefst í trú. Trúin er það bjarg er við stöndum á í stormviðrum lífsins. Það er talað um að trúin sé einkamál. En kristin trú er líka samfélagstrú. Þess vegna hafa kristnir einstaklingar stofnað með sér félög og byggt kirkjur til að koma saman í. Félagið er kirkjan og hún hefur margar deildir út um allan heim. Söfnuðurinn hér á Álftanesi kemur saman til lofgjörðar og bæna hér í Bessastaðakirkju og á sér því marga systursöfnuði út um allan heim.
Það er oft talað um að það sér erfitt að halda úti félagastarfsemi og stundum talað um að fáir mæti til kirkju. Kirkjan er almannahreyfing og á hverjum helgum degi kemur fólk saman í kirkjum víða um land. Þau skipta þúsundum sem sækja kirkju í dag hér á landi. Í miðri viku er líka boðið upp á öflugt og fjölbreytt safnaðarstarf.
Það er stundum talað um að erfitt sé að fá fólk í stjórn félags eða vera formaður félags. Í okkar félagi, kirkjunni er aldrei skipt um formann. Formaðurinn er sjálfkjörinn, sjálfur höfundur lífsins, sem birtist okkur í Jesú Kristi. Hann sem kallar okkur til samfélags og þjónustu í kirkju sinni og heiminum einnig. Við megum ekki gleyma að þakka lífið og alls þess sem við njótum. Okkur hættir til að taka lífið sem sjálfgefnu. Þiggjum jafnvel ekki boðið frekar en boðsgestirnir í brúðkaupsveisluna. Þurfum öðru að sinna.
Það er gott að horfa á krossinn. Hver er burðarás hans? Stendur hann ef annan ásinn vantar? Lóðrétti ásinn er burðarás þess lárétta. Og við getum séð að lóðrétti ásinn bendir upp en lárétti ásinn út til hliðanna. Ef við gleymum Guði er hætt við að kærleikurinn til náungans berist ekki.
Kirkjan tryggir engum öryggi en hún stuðlar að öryggi vegna þess að kirkjan er fólkið, sem trúir á Guðssoninn. Kirkjan, sem samfélag trúaðra, er ekki af þessum heimi, en hún er í þessum heimi. Hún á að vera salt og ljós í heiminum eins og við öll er tilheyrum henni. Að fara til kirkju ætti því að vera eins og að fara með bílinn á bensínstöð. Bíllinn þarfnast eldsneytis til að ganga og stjórnanda til að aka réttan veg og réttum megin á veginum.
Allir þarnast andlegrar næringar ekkert síður en líkamlegrar. Þarfnast stuðnings, stjórnanda, sem beinir réttan veg og heldur á þeim vegi. Afstaða skiptir máli. Það þarf að hafa jákvæða afstöðu til kirkjunnar til að sækja hana. Það þarf trú eða vilja til að trúa. Að því leyti er trúin einkamál hvers og eins.
Kirkjulegt starf hvílir ekki á hendi eins manns. Það hvílir á hendi margra. Hér í þessari sókn er sóknarnefnd og starfsfólk og sjálfboðaliðar sem hafa það sameiginlega verkefni að sjá til þess að starfið blómstri. Allt frá því að tryggja aðstöðu til þess að svo megi verða til þess að tryggja fagleg vinnubrögð þar sem fólk finnur öryggi, stuðning og lífsfyllingu. Ég þakka fyrir boðið hingað í dag og þakka öllum þeim er hér leggja sitt af mörkum til eflingar Guðs kristni. Til hamingju með kirkjuna ykkar og safnaðarstarfið allt. Guð blessi ykkur og starfið allt, í Jesú nafni.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.