Framrás guðsríkisins

Framrás guðsríkisins

Við erum nú gengin á vit verkefna hins nýja árs og höfum sum nýtt í huga og jafnvel þegar farið að djarfa fyrir því. Eins er með Jesú í guðspjallinu. Hann hefur rétt lokið við að flytja stefnuræðu ríkis síns, Fjallræðuna, sem hefst á Sæluboðunum.

Nú gekk Jesús niður af fjallinu, og fylgdi honum mikill mannfjöldi. Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.

Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: Ég vil, verð þú hreinn! Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. Jesús sagði við hann: Gæt þess að segja þetta engum, en far þú, sýn þig prestinum, og færðu þá fórn, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.

Þegar hann kom til Kapernaum, gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: Herra, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn. Jesús sagði: Ég kem og lækna hann.

Þá sagði hundraðshöfðinginn: Herra, ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Gjör þetta, og hann gjörir það.

Þegar Jesús heyrði þetta, undraðist hann og mælti við þá, sem fylgdu honum: Sannlega segi ég yður, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. En ég segi yður: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki, en synir ríkisins munu út reknir í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: Far þú, verði þér sem þú trúir.

Og sveinninn varð heill á þeirri stundu. Matt. 8. 1-13

Við erum nú gengin á vit verkefna hins nýja árs og höfum sum nýtt í huga og jafnvel þegar farið að djarfa fyrir því.[2] Eins er með Jesú í guðspjallinu. Hann hefur rétt lokið við að flytja stefnuræðu ríkis síns, Fjallræðuna, sem hefst á Sæluboðunum. Þar segir ma: Sælir eru sorgmæddir því þeir munu huggaðir verða.[3] Nú mætir hann líkþráum manni sem etv hefur heyrt þessi orð álengdar og vill láta á það reyna hvort hann mundi hljóta huggun og hjálp, læknast og fá að snúa til síns heima á ný. Annars héldi hann áfram að hrópa svo sem hann var skyldugur til: ‘Varúð, hér er óhreinn maður!‘ svo menn gætu forðast hann þar sem hann færi með betlistaf sinn, skríða síðan í holu sína er náttaði fjarri þeim sem hann ann. Jesús miskunnar sig yfir þennan mann og gerir hann hreinan af líkþránni. Hann mætir þar á eftir útlendingi og óvini[4] sem biður hann að miskunna sveini sínum og er svo viss um mátt hans til þess að hann kveður Jesú ekki þurfa að ómaka sig heim til þeirra, orð hans eitt nægi. Jesús undrast trú hundraðshöfðingjann og vegsamar hana umfram trú þeirra sem hann var fyrst og fremst sendur til að frelsa. Hundraðshöfðingjanum verður að trú sinni og sveinninn verður hreinn. Kraftar Guðríkisins eru þegar farnir að verka. Fyrst kraftaverkið í Kana og svo þessi tvö. Eitthvað nýtt var farið að hljóma og kraftur Guðs fylgdi þessum manni eins og þar færi Guðs sjálfur. * * *

Áhersla þessara sunnudaga sem fylgja þrettándanum, epífaníunni, guðdómsbirtingunni er á kraftaverkum sem birta dýrð Guðs í Kristi og verkum hans. Sá sem kom í mynd lítils barns var Guð á meðal okkar. Í honum bjó fylling guðsdómsins sem sannaði sig endanlega í upprisu hans. Í dag er því hins vegar borið sérstakt vitni að náð Guðs er ekki aðeins ætluð Gyðingum, heldur einnig útlendingum og útskúfuðum mönnum. Á þetta er minnst bæði í pistlinum og lexíunni og einnig í fjölda texta. Ég minni á samræður Jesú við kanversku konuna sem vildi þiggja molana af borði Gyðinganna, allt starf Páls postula og á honn bóginn hórseku konuna, Sakkeus og dæmisöguna um hinn tollheimtumanninn. Jú, Jesús fékk ámæli fyrir samneyti sitt við utangarðsfólk[5] og svaraði því til að hann væri sendur til að leita hins týnda og frelsa það. Hann kenndi okkur meir að segja að biðja fyrir óvinum okkar.[6] * * *

‘Þetta fólk’ segjum við stundum og drögum ákveðin hóp manna í dilk með því. Það eru stundum geðsjúkar manneskjur, drykkjufólk og útlendingar, hommar og lesbíur, já, eyðnisjúklingar sem sum okkar vildu halda fram að bæru sérstaklega refsingu Guðs fyrir ólifnað sinn, rétt eins og hin líkþráu á dögum Jesú. Við eignum ‘þessu fólki’ jafnan minni mennsku, stærri synd, framandleik, vera utan færis handar miskunnar Guðs. Prestastefna Íslands í Borgarnesi 1985 var vitur þegar hún vísaði í umræðu um samkynhneigð og eyðni því til landsmanna að úthýsa engum bræðra okkar né systra og ekkert okkar hefði efni á að taka sér stöðu faríseans og þykjast heilög fyrir það að við hefðum ekki syndgað að tilteknu leyti. Sérhver gái að sjálfum sér var ráð hennar, og það vegna þess að við prestar, “hinir helgu menn,” vitum það manna best af eigin lífsátökum og starfi að enginn hörgull er á syndum hjá okkur fremur en meðal manna yfirleitt, hvar sem borið er niður. Berið sama hug til allra, hreykið yður ekki, en haldið yður að hinum lítilmótlegu, segir í pistlinum. Ekkert okkar er of gott til þess að umgangast, bjóða til borðs og hýsa nokkura manneskju sem eftir því leitar í vandræðum sínum. Það er svo annað mál hvað það dugar hverju og einu þeirra sem í dag eru á verðgangi í samfélagi okkar. En fyrir gestrisni sína hafa ýmsir hýst engla og hlotið laun af því og aðrir úthýst sjálfu Jesúbarninu og misst af eilífum gæðum. * * *

Ég er að lesa Vetrarborgina eftir Arnald Indriðason. Þar segir frá morði pilts af erlendu bergi og í því sambandi fjallað á nærfærinn hátt um afstöðuna til þeirra, einkum úr fjarlægum heimshlutum, sem setjast hér að. Það er á það að minna í því sambandi að varla kemur nokkurt þeirra óboðið. Það kemur hingað sem makar, fjölskylda eða vinnukraftur Íslendinga sem sækja um innflutningsleyfi fyrir það. Það kemur sem sagt af því að einhver okkar hafa ríka þörf fyrir að þau komi og séu hjá okkur. Flest þeirra kæra sig ekki um að vera hér til frambúðar. Fer heim til sín ef hlutverki þess líkur. Þó er það ekki velkomið af öllum og svo er hatast við veru þess hér að þeim sem standa í málsvari við það er hótað lífláti fyrir vikið. Þannig er með sr. Toshiki Toma, föður eins af fermingarbörnunum í þessari kirkju í fyrra. Honum var hótað í bréfi að dagar hans yrðu styttir ef hann helst hypjaði sig ekki, færi burtu frá yndislegu börnunum sínum tveim út í hafsauga. Þessir textar, kirkjan í heild, og nú í þessari höfuðkirkju þjóðarinnar er þessu eindregið mótmælt og þess beðið að sá armur sem vill reiða til höggs í því skyni að meiða gesti okkar megi visna og aldrei framar megna illt að gera. Megi sama gilda um sérhvern þann munn sem vill meiða þau sem sett eru útfyrir á einhvern hátt fyrir það eitt að teljast tilheyra einhverjum hópi sem öðrum er óþokki að. Gefi Guð okkur öllu fremur lærisveinatungu og hönd hins miskunnsama Samverja, það hjarta sem elskar og hugarfar er fyrirgefur. Þannig munu kraftar guðríkisins áfram fá beitt sér gegn hinu illa og óheilbriðgði hverskonar.

[1] Lexía: 5M 10.17-21a Því að Drottinn Guð yðar, hann er Guð guðanna og Drottinn drottnanna, hinn mikli, voldugi og óttalegi Guð, sem eigi gjörir sér mannamun og þiggur eigi mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði.

Elskið því útlendinginn, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi.

Drottin Guð þinn skalt þú óttast, hann skalt þú dýrka, við hann skalt þú halda þér fast og við nafn hans skalt þú sverja. Hann er þinn lofstír og hann er þinn Guð, sá er gjört hefir fyrir þig þessa miklu og óttalegu hluti, sem augu þín hafa séð. Pistill: Rm. 12. 16-21 Berið sama hug til allra, hreykið yður ekki, en haldið yður að hinum lítilmótlegu. Ætlið yður ekki hyggna með sjálfum yður. Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn. En ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum. Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu. Guðspjall: Matt. 8. 1-13 Nú gekk Jesús niður af fjallinu, og fylgdi honum mikill mannfjöldi. Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.

Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: Ég vil, verð þú hreinn! Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. Jesús sagði við hann: Gæt þess að segja þetta engum, en far þú, sýn þig prestinum, og færðu þá fórn, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar. Þegar hann kom til Kapernaum, gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: Herra, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn. Jesús sagði: Ég kem og lækna hann.

Þá sagði hundraðshöfðinginn: Herra, ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Gjör þetta, og hann gjörir það.

Þegar Jesús heyrði þetta, undraðist hann og mælti við þá, sem fylgdu honum: Sannlega segi ég yður, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. En ég segi yður: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki, en synir ríkisins munu út reknir í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: Far þú, verði þér sem þú trúir.

[2] Jes 4:-19- Sjá, nú hefi ég nýtt fyrir stafni, það tekur þegar að votta fyrir því. Sjáið þér það ekki? [3] Matt 5: -4- Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða. -5- Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. -6- Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða. [4] Hundraðshöfðinginn var liðsforingi í hersveitum rómverska keisarans sem hafði hernumið landið. [5] Matt 11:19 Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum. [6] Matt 5:44 En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður,